Færsluflokkur: Dægurmál

Reiðhjólabændur

10-15 012

Erum húsbændur á okkar heimili og ráðum sjálfir hvenær við hjólum!!! Svo hljóða einkennisorð reiðhjólabænda.

Reiðhjólabændur er hópur hjólafólks á Fésbókinni.  Fyrst var þetta nokkurs konar einkaklúbbur, nokkrir strákar,  Valdi og vinir hans sem fóru út að hjóla saman.  Svo hefur félagsskapurinn vaxið og dafnað og telur nú 883 manns.  Ég fann þennan hóp fyrir tveimur árum, hafði pínu áhyggjur af því að strákarnir myndu stinga mig af, en eftir að ég sá að kvenfólk væri að slæðast með á köflum, þá ákvað ég að prófa.  Jú, það þarf að taka á og ég er oftast með blóðbragð í munni eftir túrinn, en það er geysigaman að þeysast áfram á racer og nýta skjólið af stæðilegum, vel mössuðum karlmönnum til að komast hraðar yfir og fá smá útrás fyrir hraðafíkillinn.  Ég hef lítið getað hjólað í sumar, er með slitgigt, tognaði á hné og ef ég slasast, þá tekur það mig langan tíma að jafna mig, þannig að ég verði jafngóð, eða réttara sagt, jafnslæm og ég er dags daglega.  Það hefur hvarflað að mér að ég þurfi að draga úr hjólreiðunum og snúa mér meira að sundi og öðrum áhugamálum, en í dag fann ég að ég var loksins búin að jafna mig á tognuninni fyrir þremur mánuðum, ákvað að prófa að hjóla með, ég gæti þá alltaf snúið við í Grafarvoginum ef úthaldið væri slæmt.  En ég náði að hanga í miðjum hópnum, klára dæmið, hjóla upp að Gljúfrasteini og aftur niður að Sprengisandi.  Fór og verðlaunaði mig með pizzu og bjór, ógisslega ánægð með dagsformið.

10-15 001

Þegar gigtin var að byrja hjá mér árið 1991, þá missti ég algjörlega hreyfigetuna og endaði rúmliggjandi vikum saman inni á sjúkrahúsi.  Eftir sterameðferð hjarnaði ég við, starfsfólkið hvatti mig til að fara út og fá mér ferskt loft, það verð daglegt þrekvirki að rölta út á grasflöt, setjast á bekk til að hvíla mig og komast svo aftur inn í rúm fyrir eigin rammleik.  Eitt síðdegið var veður afar gott, ég sat á bekknum og gleymdi mér um stund.  Eða þar til maginn minnti á sig, sterar valda ofboðslegri svengd, ég leit á klukkuna og sá að ég væri í þann veginn að missa af kvöldmat.  Stökk á fætur og hljóp inn.  Nema, ég gat ekkert stokkið á fætur eða hlaupið, hugurinn fór af stað á undan mér og svo sat skrokkurinn aflvana eftir á bekknum.  Ég missti af kvöldmatnum.

Kannski gerðist það sama í kvöld?  Kannski er hugurinn kominn vestur í bæ og ég búin að sporðrenna heilli pizzu, en skrokkurinn ennþá uppi í Mosfellsbæ og það eina sem ég fæ að bíta í kvöld er gras...  Nah, i made it!

10-15 019b 

Ef þig langar að prófa að hjóla með Reiðhjólabændum, þá er um að gera að fylgjast með á Fésbókinni, stundum mætir einn, stundum þrjátíu eins og í kvöld, sem er afar gott miðað við að það er 15 október.  En áður en þú mætir, þá þarftu að kynna þér reglurnar.

http://www.velominati.com/the-rules 

Það gengur nefnilega ekki hvað sem er, ónei.  Það er svo sem ekki nauðsynlegt að læra þetta allt utan að, regla #5 á t.d. við nánast hvað sem er.  Þreyttur?  Harden the fuck up!  Hnakkurinn að drepa þig?  Harden the fuck up!  Leiðinlegt veður?  Harden the fuck up!  o.s.frv...

Æ, ég er nú bara miðaldra gigtveik kelling.  Harden the fuck up!  Ég gerði það, kom, sá, hjólaði og sigraði sjálfa mig.


Landmannalaugar - taka þrjú

 08-24 020

Eða dularfulla kæliboxmálið.  Átti svolítið erfitt með að velja titil á þessa færslu þar eð hugur minn var meirihluta ferðarinnar bundinn við kæliboxið sem skilaði sér ekki upp í Landmannalaugar.  Það innihélt mjólkina út á hafragrautinn, fetaost út í salatið, skyrtertu sem átti að vera í eftirrétt, smjör í bökunarkartöflurnar, kaldar sósur með ketinu, en sem betur fer þá var allt annað með í för, ég hefði sko skellt sjálfri mér á grillið ef ég hefði gleymt öllum matnum fyrir 18 manna svangan úlfahóp, sem kom slefandi og urrandi í hús eftir 6 tíma krefjandi hjólaferð.

IMG_5436

Ég veit að ég bragðast vel, ég þarf nefnilega reglulega í blettatínslu sem fer þannig fram að húðsjúkdómalæknir sker af mér nokkrar vörtur, sendir þær í ræktun til að athuga hvort þar sé ekki sárasaklaus ofvöxtur á ferð og svo notar hann laser brennara til að loka sárinu, svo það komi sem penust ör.  Það er búið að fjarlægja eina 9 bletti úr fésinu á mér og ef það væri allt rimpað saman með sláturkeppsnál, þá væri frúin æði ófrýnileg útlits.  Ilmurinn þegar brennslan fer fram minnir á beikon og ég fæ alltaf vatn í munninn þegar ég ligg þarna eins og ja, hver annar kjötskrokkur á færibandi læknisins.  Já, en snúum okkur aftur að hjólaferðinni, eða réttara sagt kæliboxinu.

Ég man ekki betur en ég hafi rogast með það niður af 4ðu hæð í vesturbænum.  Komið fyrir í bílnum mínum og keyrt með það austur á Hellu.  Þar tókum við rútu upp í Landmannalaugar og ég man mjög greinilega eftir að hafa tekið kæliboxið í aðra höndina og lagt frá mér á meðan ég greiddi fargjald rútunnar fyrir mig og ferðafélagana.  Man greinilega eftir hljóðinu þegar handfangið rann niður í falsið, mundi meira að segja nákvæmlega hvað það var þungt, þar eð það innihélt ekki bara hluta af sameiginlegum kvöldmat, heldur líka bróðurpartinn af nestinu mínu.

Mig grunaði að sjálfsögðu hvern á fætur öðrum, Pétur, Pál, Maríu og Jósef.  Hver sem er hefur getað kippt kæliboxinu með sér sem átti leið hjá.  Sem betur fer er Hálendissjoppa í Landmannalaugum og þar náðum við að versla mjólk, annars hefði hafragrauturinn verið dulítið ólystugur með vatni einu saman út á.

08-24 031

En svekkelsið gleymdist öðru hvoru við að virða fyrir sér fegurðina sem er að finna á þessari leið.  Þetta er í þriðja sinn sem ég hjóla frá Landmannalaugum niður á Hellu með viðkomu í Dalakofanum.  En aðeins einu sinni hef ég náð að hjóla alla leið.  Í fyrsta sinn var svo svakalegur meðvindur að ég geystist fram af hjólinu og lá ósjálfbjarga úti í móa í smá stund og fékk svo far niður á Hellu með Björgvini sem var að jeppast á sömu slóðum.  Í fyrra gat ég hjólað alla leið, en í ár var ég það slæm af gigt og þeim meiðslum sem ég hlaut í Kerlingardalsánni (sjá síðustu bloggfærslu) að ég varð að lúta í lægra haldi og chilla aftur hluta af leiðinni inni í bíl hjá Bjögga.  Hér eftir geng ég undir nafninu Jeep-Drön.  Nei, nei, bara svona til að viðhalda nördaskapnum.

Það þýðir ekkert að væla þótt maður geti ekki gert allt sem mann langar til, ég fékk þó að komast á fjöll, ferðast með fullt af skemmtilegu fólki, næra mallakútinn sem og andann, horfa á fallega náttúru, hnusa af haustvindinum, sofa eins og berserkur og halda vöku fyrir öllum öðrum með hrotum...  Já, þetta er sívinsælt rannsóknaefni í svona ferðum, við getum bara farið að taka að okkur greiningar á svefnvandamálum fólks, við getum sagt þér hvort þú hrjótir, glímir við kæfisvefn, sofir í óeðlilegum svefnstellingum, hljóðritað hvað þú segir upp úr svefni...  Alltaf gaman í hálendisferð með Fjallahjólaklúbbnum.

Einar skálavörður töfraði fram olíu í salatið og soyasósu til bragðbætingar.  Örlygur var með heilt smjörstykki með sér sem var brytjað ofan í bökunarkartöflurnar.  Aðrir buðu fram súkkulaði, kex og eitthvað bragðgott til að maula með kaffinu í stað skyrtertunnar sem ég sá í anda vera étna af einhverju illa innrætnu dusilmenninu sem hefði rænt kæliboxinu frá mér.

Við fengum allar útgáfur af veðri eins og gengur og gerist síðsumars á Íslandi.  Á tímabili fannst mér rigningin breytast í slyddu, en svo kom sólin og þá þurfti að stoppa og fækka fötum.  Það var rok, með eða á móti, aðallega á móti.  Þá er gott að hjóla í hóp og nýta skjólið af hvert öðru.

08-24 027 

Á Hellu var farið í sund, snæddur sunnudagsís og svo ekið í bæinn.  Hvað haldiði að hafi tekið á móti mér í forstofunni heima hjá mér?  %#%&$ kæliboxið.  Stóra kæliboxmálið upplýstist að lokum.  En nú þarf ég að leggjast í naflaskoðun, hvers vegna ég man svona vel eftir því að hafa tekið það með mér niður af fjórðu hæð, út í bíl og lagt frá mér á bílastæðið á Hellu...  Það er ennþá óleyst ráðgáta.  Nema náttúrulega lífið sé ein alls herjar blekking og draumur út í gegn.

Nú, ef ekki, þá ætlar Fjallahjólaklúbburinn að hjóla frá Seljalandsfossi út í Þórsmörk 21 september.  Þá gefst tækifæri til að hjóla með skemmtilegu fólki, fá svefnvandamálagreiningu og virða fyrir sér gróðurinn sem mun skarta sínum fegurstu haustlitum.  Fylgstu með okkur á www.fjallahjolaklubburinn.is, ferðin verður auglýst þegar nær dregur.  Svo erum við með síðu á fésbókinni sem má sýna velþóknun (læka) til að fá okkur beint í æð á fréttaveitunni.  

https://www.facebook.com/fjallahjolaklubburinn

 


Taka tvö...

07-27 084 

Fyrir ári síðan reyndi ég að hjóla hringinn í kring um Vík í Mýrdal.  Það tókst ekki.  Ég villtist.  Ég reyndi aftur núna ári síðar og það gekk satt að segja ekki mikið betur en síðast.  Ég villtist þó ekki, en það voru nokkrir þættir sem ollu því að ég ákvað að snúa við.

07-27 093 

Í fyrra komst ég heila 12 km niður eftir ánni, en núna bara 2-3.  Það var bara langtum meira vatn í ánni, nú svo er ég ári eldri og hnén á mér meira en ári aumari.  Það er talað um gráa fiðringinn.  Ætli þetta sé ekki minn, síðsumarið í óbyggðahjólreiðum er hafið.  Ég mun hjóla á meðan ég get og heilsan leyfir.  Svo finn ég mér eitthvað annað áhugamál sem ég get sinnt.  Krosssaumur fer kannski að henta mér betur hvað úr hverju.  Ég sé mig í anda sitja í sófa, heklaðar dúllur og útsaumaðir púðar.  Ég pen og stillt með sérrístaup... Nah, ég held ekki.

07-27 109 

Ég fékk mér nýja myndvél í fyrra.  Var þá búin að fá lánaða myndavél hjá vini mínum til að prófa, vatns og högghelda, en fannst virknin í vélinni leiðinleg, aldrei þolað örlitla stýripinna sem hafa sjálfstæðan vilja og breyta stillingum vélarinnar á meðan haldið er á henni.  Svo ég ákvað að kaupa alveg eins vél og ég átti, ágætis vél en búin að detta nokkuð oft og þoldi illa að hrynja niður hálft Helgafellið.  Ég gat líka nýtt rafhlöðuna úr gömlu vélinni, og gat farið í helgarferð með gott minniskort og tekið endalaust upp myndbönd og tekið myndir að vild.  En ég get verið dulítil brussa á köflum og myndavélin entist bara árið, hætt að fókusa, ætli tvær stórar dældir rétt hjá linsunni hafi ekki átt sinn þátt í því.  Svo ég fékk mér högg og vatnsvarða vél í þetta sinn.  Sem betur fer.

07-27 091 

Í fyrra fannst mér erfiðleikastigið vera af því ég villtist og var óratíma í árfarveginum.  Ég hafði mestar áhyggjur af því að ef mér myndi skrika fótur í ánni, þá myndi ég fara á bólakaf og blotna.  Ég gleymdi því hvað getur gerst ef maður missir fótanna í straumharðri grýttri á.  Sumir lifa það einfaldlega ekki af.  Mér skrikaði fótur og tók smá sundsprett í Kerlingadalsánni.  Hélt þá á Ortlieb töskunum og barðist við að halda höfðinu upp úr ánni og missa ekki töskurnar frá mér.  Rakst í stein og taskan festist og ég hékk í henni þar til ég náði að fóta mig og komast upp úr kvíslinni.  Þessar töskur eru afskaplega fínar hjólatöskur, vatnsheldar og níðsterkar, önnur var nánast þurr að innan, en hin fékk rifu eftir átökin við vatnsguðinn Enki, og í henni voru aukafötin, myndavélarnar og síminn.  Svo ég var rennandi blaut og nánast allt mitt hafurtask, síminn ónýtur, gamla myndavélin ónýt, en nýja myndavélin þoldi volkið.  Annars ætti ég engar myndir úr þessari ferð.  Svo ég ætla að vara við ánni í þetta sinn.  Hún er hættuleg og ekki fyrir hvern sem er að vaða.  Sérstaklega þar sem gilið þrengist og áin nær alveg á milli og brattir klettar sitt hvoru megin.  Sumir geta krækt upp fyrir, en ég burðast ekki með hjól og töskur upp snarbrattar, grösugar, sleipar hlíðar.  Svo ég sneri við.  Stundum verður að láta skynsemina sitja fyrir ævintýraþránni.

07-27 113 

Næst, já, andvarp, ég veit, það mætti ætla að ég ætti kærasta á Vík... þá mun ég nálgast hringinn vestan vegin, hjóla inn að ánni og ef hún er vígaleg, snúa strax við, helst að miða við að hún nái ekki mikið upp fyrir hné.  Þegar ég fer að miða við að ár nái mér ekki upp fyrir ökkla, er kominn tími á krosssauminn.  En mikið svakalega er fallegt þarna, ekki satt?


Eurovision - Nesjavellir

05-18 002 

Allir elska að hata Eurovision.  Ég horfi stundum á fótbolta.  Ekki af því mér sé ekki nákvæmlega sama hvaða leið blessuð leðurtuðran fer, en það er alltaf gaman að horfa á andstutta sveitta karlmenn hlaupa og hnykla lærisvöðva og svo má skipta liði og fara í keppni, hver sér fyrst öll númerin á bakinu á sínu liði.  Sama gildir um Eurovision.  

05-18 048 

Lögin eru misleiðinleg, en það má skemmta sér yfir öðru vísi hlutum.  Ég fór í ferð með Fjallahjólaklúbbnum Eurovisionhelgina, hjóluð var svokölluð Nesjavallaleið, frá Reykjavík, yfir Hengilinn, niður að Þingvallavatni, áfram niður að Úlfljótsvatni að sumarbústað, þar sem þreytan leið úr þreyttum kroppum í heita pottinum, braglaukarnir voru kitlaðir með grillmat og augu og eyru nærð í góðum félagsskap yfir sjónvarpinu.  Tónlistin var svona lala.  Mér þótti vanta rokkið.  Aðrir voru alsælir með ballöðurnar, allir felldu tár þegar Eyþór birtist á skjánum.  Stutt pils glöddu karlpeninginn á meðan líflegir dansarar glöddu okkur stelpurnar.  Sitt sýndist hverjum og fórum við í Eurovision leik, þar sem fólk gaf stig frá 1 upp í 10.  Neikvæðnin tók nú stundum völdin og ófá núllin hrönnuðust upp í bókhaldinu sem ég sá um.

05-18 002b

Fleiri hlutir fönguðu athygli okkar en berir leggir, huggulegir karlmenn og flottir kjólar.  Óvenju margir karlmenn skörtuðu gerðalegum augabrúm.  Þetta var óneitanlega farið að hafa áhrif á stigagjöfina, "já, ætli ég gauki ekki aukastigi að Adsérbædjan fyrir glæsilega augabrún..."  En hópurinn giskaði rétt, Danmörk fékk flest stig hjá okkur, sem og öðrum Íslendingum og Evrópu allri.

Ekki eru allir í ofurformi i þessum ferðum.  Ég var fararstjóri í þessari ferð, en ætli það megi ekki kalla mig farar-reka eftir þessa helgi, þar eð ég er miðaldra, gigtveik húsmóðir sem fer nú ekki hratt yfir.  Einhver verður að vera síðastur og ég var í því hlutverki seinni daginn.

05-18 033 

Veður var fremur blautt, kalt og hvasst.  Svo það var ekki mikið um selskapspásur seinni daginn, það var bara hjólað og petalarnir stignir í þögn til að komast sem fyrst í bæinn og í skjól fyrir blautum Kára sem vildi leika við okkur og minna á að náttúra og veðurfar á Íslandi er með ýmsu móti.

Stundum getur maður valið ferðadaginn, þá velur maður hægviðri, meðvind, jafnvel sól og hæfilegan hita.  En þegar búið er að ákveða daginn með margra mánaða fyrirvara, bóka bústað og lokka ferðafélaga með sér, þá fer maður sama hvernig veðrið er.  Við urðum jafnvel spennt þegar við heyrðum að það gætu orðið 30 metrar á sekúndu seinni daginn, sérstaklega af því vindurinn átti að vera í bakið.  Ja, það var nú ekki alveg svo hvasst og ekki var hann alltaf með okkur, en við fórum á mettíma frá Úlfljótsvatni, þegar ég leit á klukkuna á bensínstöðinni við Norðlingaholt, þá vorum við búin að vera 2 og hálfan tíma á leiðinni.  Með tveimur stuttum nestispásum.

05-18 080 

Við tökum líka upp á ýmsu skemmtilegu í ferðunum, í fyrra var þemað "troða sem flestum inn í lítil rými..." og þar má nefna símaklefa á Þingvöllum, sófa í Grafarholti og eins manns tjald í Landmannalaugum.  Nú er aldrei að vita nema þema fyrir sumarið sé fundið, endurgerð gamalla listaverka.  Jón Örn byrjaði í Landmannalaugum í fyrra, Björgvin og Sólver endurtóku svo óviljandi leikinn við Úlfljótsvatn... Eða var það viljandi...?

08-25 144D 

Sama hvernig veðrið er, þá er alltaf gaman í ferðum með Fjallahjólaklúbbnum.  Dagskráin hjá okkur i sumar er fjölbreytt og þar má finna ferðir við allra hæfi, hvort sem fólk er vant ferðalögum á reiðhjólum eða að stíga sín fyrstu spor í ferðamennsku af þessu tagi.  Kíktu á okkur hér og athugaðu hvort þig langi ekki til að slást í hópinn einhverja helgina í sumar.

http://fjallahjolaklubburinn.is/index.php/pistlar-og-greinar/frettir/925-feralg-fjallahjlaklbbsins-2013 

Fleiri myndir úr ferðinni má svo sjá hér í myndaalbúmi Fjallahjólaklúbbsins:

https://photos.app.goo.gl/zE2dZtbhcaD5zxgZ7

 


Aprílgabb

Bessastadir 

Ég hefði náttúrulega átt að skrifa færslu 1 apríl og tilkynna hátíðlega að ég væri hætt að blogga.  En hei, ég hef eiginlega ekkert bloggað síðan í ja, úff, seint á síðasta ári, svo það væri allt of satt, eiginlega, ekki satt?  Ég hef áður skrifað 1 apríl færslu.  Sagðist vera hætt að hjóla sökum heilsubrests (enda er ég miðaldra, gigtveik kona) og auglýsti reiðhjól og hjólaföt til sölu.  Færslan fékk þó nokkur viðbrögð, bæði samúðar og batakveðjur og nokkrir forvitnuðust um reiðhjólin.  Meira að segja fékk ég póst frá einum sem spurði hvort ég ætti ekki einhverjar myndir af mér í téðum spandexfatnaði...  Þó að þar hafi hugsanlega verið um aprílgabb á móti að ræða, þá kitlaði það óneitanlega kvendýrið í mér...warrr

Þetta var fyrir 2-3 árum, og fram eftir öllu sumri fékk ég endalausa pósta hvort hjólin væru enn til sölu, má ég koma að skoða o.s.frv...  Þó að ég hafi uppfært færsluna með klausu um að færslan væri 1 apríl gabb og ég væri enn að hjóla og ekkert til sölu, þá las fólk bara fyrirsögnina "Hjól til sölu á 5000 kall" og sendi póst hið snarasta til að missa ekki af þessu kostaboði.  Svo grínið snerist í höndunum á mér, ómældur tími fór í að svara fólki öðru hvoru allt sumarið og langt fram á haust.  Að lokum varð ég að fjarlægja færsluna, sá fram á að fólk myndi senda mér póst fram í rauðan dauðann.  Enda hjólin mín eigulegir gripir sem sérhver maður(kona) vill eignast...

Þetta árið lofaði ég á Fésbókinni að hjóla nakin niður Laugarveginn ef stöðufærslan fengi 10 "like" og bjóst við að ekki nokkur sála myndi líka við svoleiðis vitleysugang á gabbdaginn sjálfan, en ríflega 30 manns vildu gjarnan sjá mig hossast berrassaða með keppi og krumpur niður Laugarveginn.  Einhverjir ýjuðu að því í kommentum að ég væri að gabba, svo ég ákvað að snúa vörn í sókn og standa undir viðurnefninu Dóna-Hrönn.  Eða var það Hjóla-Hrönn...  Kannski bara bæði...  Nema ég get verið agalega villugjörn, fann ekki Hlemm og vona að enginn hafi kvefast við að bíða eftir mér þar, en íbúum Norðlingaholts var skemmt í staðinn.

04-01 007 

Ég er að bera út póst til félagsmanna Fjallahjólaklúbbsins þessa dagana.  Á reiðhjóli.  Ég er iðulega vopnuð myndavél, oft með teppi með mér og nesti.  Ég stoppa nú stutt við fábýlishús, en hef stundum nýtt skjól og sólríkar tröppur fjölbýlishúsa til að fá mér að borða eða hvíla mig eða skoða kort og ákveða hvert næst skuli hjóla.  Stunum horfir fólk einkennilega á mig.  Sérstaklega ef ég er að fíflast með myndavélina.  Eftir að hafa tekið myndina þar sem ég er að ná hrollinum úr skrokknum eftir nektar-reiðina, tók ég eftir fólki í kyrrstæðum bíl á næsta plani sem störðu á mig.  Þau voru væntanlega að íhuga hvort þau ættu að hringja og athuga hvort einhver hafi sloppið út af kleppi...

Hvað er þetta, er maður orðinn eitthvað klikkaður ef maður stoppar í vegarkantinum og fær sér kakósopa?

04-01 014 


Landmannalaugar

jonorn6

Tilraun tvö til að hjóla um þetta ægifagra landssvæði heppnaðist svona líka ljómandi vel. Í fyrra var svo brjálaður meðvindur að mér gekk illa að hemja fararskjótann sem endaði á að henda mér af baki og inn í bíl til Bjögga.  Náði ekki að klára ferðina þá á sómasamlegan hátt.  Núna var hybridinn minn bilaður, svo þetta var tæklað á fjallahjólinu, viðbrigðin fyrir mig er eins og að skipta frá sportbíl yfir í skriðdreka.  En bæði er gaman, bara öðru vísi hjólastíll.  Enda var ég ákveðin í fyrirfram að gefa mér tíma til að taka myndir og njóta landslagsins.  Þetta er stundum spurningin um að vera örlítið lengur úti í móa að hnusa af náttúrunni, eða eyða meiri tíma með svitablautum sokkum ferðafélaganna inni í skála.  Ég ætlaði líka að sleppa því að galgopast í ánum svo ég myndi ekki blotna í fæturna, en það er bara svo gaman að hjóla yfir, það standast fáir þá freistingu.

matti2

Brekkur eru sér kapituli út af fyrir sig.  Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg eftir öllum þessum brekkum í fyrra, en þær hljóta þó að hafa verið þarna líka þá, eða þá að vegurinn hafi á einkennilegan hátt færst til.  Alltaf hélt ég að nú værum við að fara síðustu brekkuna, en svo 5 mínútum síðar komum við að enn einni helmingi brattari.  N.b. þær voru oftar í hina áttina, þ.e. upp á við.  Alla vega fyrri daginn.

matti3

En þegar maður kemst loks í skálann, þá gleymast allar brekkurnar, fyrst helltum við upp á kaffi og fengum okkur kökurnar sem áttu að vera í eftirrétt.  Guðbjörg átti afmæli, það er varla hægt að halda upp á daginn á skemmtilegri hátt en á fjöllum í góðum félagsskap.

08-25 127

Við skiptum okkur upp í nokkrar deildir, það var kannski ríflega skipað í sumar, hvað eru t.d. þrír karlmenn lengi að pakka inn 18 kartöflum? "Hva, er ekkert meira að gera", vinnusemin alveg að fara með menn.  Og mikið svakalega bragðast íslenska lambaketið vel á fjöllum, rétt eins og maður hafi sjálfur farið út og skotið sér á grillið.

jonorn3

Eftir mat voru sagðar sögur, farið í partýleiki, það verða engar myndir birtar opinberlega sem voru teknar eftir kl 22 án leyfis, en ef einhver vill vita hversu mörgu hjólafólki var hægt að troða inn í eitt eins manns tjald, þá er svarið 9 og fleiri hefðu komist, ef ég hefði ekki bilast úr innilokunarkennd og þurft að ryðja mér leið út úr tjaldinu.  Eftir það þorði enginn annar inn í tjaldið, ég í ham er ekkert lamb að leika við, en hinir 8 dvöldu óvenjulegi þar inni, við hvaða iðju veit ég ekki.

Það voru hvorki rauðkál né baunir með kjötinu fyrr um kvöldið, svo ekki er alveg vitað hvað olli þessu ástandihjá strákunum um háttatímann, en þeir voru annað hvort að gera nýstárlegar tilraunir til að fjölga mannkyninu, eða þeir hafa fundið lausn við hinu sívinsæla vandamáli, hvernig losnar maður við 15 kg á 30 sekúndum.

bumbustrakar

Annað vandamál sem fólk glímdi við.  Þegar við komum að skálanum var öllum kalt og það var kynnt upp í gashituru og vatn soðið í stórum pottu og fljótlega varð sumum allt of heitt.  Ja, ég hef afsökun fyrir því að striplast hálfnakin í fjallaskálum, ég er miðaldra kona á breytingaskeiði.  Ég veit ekki hvaða afsökun Jón hafði. 

midaldra

Þegar svona stór hópur ferðast saman á reiðhjólum, þá dregur óneitanlega fljótt í sundur. Fólk hjólar mishratt, sumir vilja stoppa oft og taka fullt af myndum.  Einhverjir eru villugjarnir og hefðu álpast ranga leið.

jonorn5

Aðrir vilja taka vel á því og njóta náttúrunnar á annan hátt. Svo getur sprungið hjá fólki, og það táknar lágmark korters töf. Við leystum þetta með tveimur hjólandi fararstjórum, annar sá um að fylgja forystusauðunum, hinn að smala eftirlegukindunum og gæta þess að enginn myndi gleyma sér og sofna úti í móa.

matti5

Því miður varð eitt óhapp í ferðinni, einn hjólari lenti í lausamöl og kastaðist fram af hjólinu sínu.  Það var ekkert símasamband á staðnum, en í för var varðstjóri hjá Neyðarlínunni sem var með tetra síma, hann komst í samband fljótlega og gat kallað til sjúkrabíl. Maður spyr sig, er hættulegt að hjóla úti í náttúrunni. Almennt er lítið um slys hjá hjólafólki, miðað við að flestir sem voru í þessari ferð hjóla mörg þúsund kílómetra á ári. Síðustu tvö slys sem lögðu mig í rúmið voru ekki hjólatengd.  Annað gerðist þegar ég datt niður tröppur við Landspítalann og sneri á mér ökklann. Hitt var þegar ég steig á leikfangabíl sonar míns og braut í mér ristarbein.   Hætturnar leynast alls staðar.  Jónas grær vonandi fljótt og vel af meiðslum sínum og kemst sem fyrst aftur út að hjóla. Heilsufarslegur ávinningur af því að stunda hjólreiðar vegur alltaf þyngra en einstaka slys.

jonorn4 

Venulega eru myndir sem eru í þessu bloggi teknar á mína vél, oftast af mér, stundum af öðrum.  Eða fengnar að "láni" frá netinu, þá myndir sem flækjast þar um án höfundaréttar.  Í þessari færslu eru líka myndir frá tveimur ferðafélögum, Marteini og Jóni Erni.


Vestfirðir

08-01 084

Ég fór í mitt fyrsta hjólaferðalag um Vesturland fyrir þremur árum. Þá valdi ég að hjóla tiltölulega fáfarna malarvegi og það kom mér á óvart hversu vel allir ökumenn viku, hvort sem þeir mættu mér eða voru að taka framúr. Sumir jafnvel svo kurteisir að þeir stöðvuðu ökutækin rétt á meðan þeir mættu mér. Þessi ferð var ákaflega vel heppnuð og lagði grunninn að áframhaldandi ferðalögum. Næsta ár voru nokkrar dagleiðir á Norðurlandi, í fyrra Austurland og núna ákvað ég að heiðra Vestfirði með nærveru minni. Svona af því ég er nú einu sinni að vestan og hef hjólað og gengið skammarlega lítið um það svæði.

08-01 045 

Jú, jú, vissulega mætti maður mörgum kurteisum bílstjórum, en því miður mætti ég óvenju mörgum bílstjórum sem virtust vera einir í heiminum. Það er bara þannig að þegar þú keyrir á malarvegi og mætir einhverjum, alveg sama hvort það er annað vélknúið ökutæki, hjólandi maður eða rolluskjáta í vegkantinum, þá hægir þú ferðina. Þá er minna ryk, og minna steinkast. Þetta heitir tillitssemi. Versta steinkastið upplifði ég sem betur fer inni í bílnum mínum, það kom flutningabíll á móti mér, gæti trúað að hann væri að flytja mjólk, útlitið var þannig.  Ekki var slegið neitt af, hann kom æðandi á móti mér á 90 km hraða, grjótkastið buldi á bílnum og ég var gjörsamlega blind í nokkrar sekúndur á eftir. Eins gott að ég sjálf var þá búin að stöðva minn bíl, þegar ég áttaði mig á hvers konar slúbbert ég var að mæta.  Og eins gott að ég var á 14 ára gömlum snjáðum bíl en ekki splunkunýjum Lexus.  Fattaði eftir á að ég var með myndavélina uppi við í framstætinu og hefði átt að filma helvítið og gera hegðun hans opinbera.  Þó að ég sé nú frekar fylgjandi því að fólk fái að hafa sitt einkalíf í friði og geti látið eins og asnar á köflum án þess að það endi á youtube, þá er akstur á vegum ekki einkamál eins né neins, það skiptir okkur öll máli.

08-01 074 

Ég gerði líka kannski smá mistök, það var fimmtudagurinn fyrir verslunarmannahelgi og þess vegna kannski óvenju mikil umferð og margir óreyndir ökuþórar á ferð.  Ég gafst að lokum upp, skreið upp í hlíð, lagðist þar fyrir í kvöldsólinni og tók smá siesta þar til klukkan var orðin níu um kvöld og umferðin að minnka.

08-01 024

Eða kannski voru þetta viðbrigðin, ég var nefnilega alein í heiminum á Þingmannaheiðinni fyrr um daginn, sem ég hjólaði og dólaði í bongóblíðu. Ég er svolítið hugsi af hverju umferð um hana er bönnuð, það hefði ekki truflað mig neitt, þó ég hefði mætt 2-3 jeppum á leiðinni og þeir þá þjappað veginn fyrir mig í staðinn.  Hún er jafnvel fær fólksbílum, lögsóknir samt vinsamlega afþakkaðar ef einhver álpast inn á lokaðan veg á lítilli tík og festir sig.  En ég gat hjólað mun meira en ég átti von fyrirfram og leiðin er skemmtileg og vörðurnar setja svip sinn á hana. Mér hefði ekki dottið í hug að hjóla þessa leið ef ekki væri fyrir Hjólabókina sem Ómar Smári gaf út fyrir síðustu jól. Þingmannaheiðin er ekki merkt inn á kortin hjá ja.is sem hefur verið minn helsti vettvangur fyrir skipulag hjólaferða hingað til.

08-01 010 

Þegar ég var að dusta rykið af hjólinu eftir daginn, þá sá ég lausan tein og við nánari skoðun voru 3 lausir teinar í afturgjörðinni.  Þegar ég byrjaði í Fjallahjólaklúbbnum fyrir þremur árum og sá auglýst þar viðgerðanámskeið, þá lærði ég að stilla bremsur og gíra.  Þriðji hlutinn var um teiningu gjarða og þá þótti mér nú sérviskan vera farin að keyra um koll, hver stendur í slíku.  Ja, ætli ég verði ekki að rétta sjálf upp hönd.  Ég er ekki flink í viðgerðum, yrði það kannski ef áhuginn væri meiri og ég nennti að hanga lon og don yfir sundurrifnum reiðhjólum og fikta fram og til baka.  En eftir að hafa horft á myndband á youtube um teiningu til að rifja upp fræðin (ég hef teinað upp heila gjörð undir leiðsögn Björgvins í Fjallahjólaklúbbnum), þá náði ég að festa teinana og fínstilla svo gjörðin rækist ekki utan í bremsupúðana.  Ófært að láta svona smámuni eyðileggja fyrir sér ferðalagið.  Neyðin kennir naktri konu að spinna klæði og klæddri að teina gjarðir.

08-01 004 

Á ferðum mínum um Ísland í gegn um árin kemur fyrir að maður rekist á kviknakið eða misbert fólk.  Fólk í sólbaði, fólk að kasta af sér vatni, fólk að baða sig í ám.  Allt eru þetta ósköp eðlileg atvik og hef ég ekki kippt mér neitt upp við það.  Nema daginn sem ég labbaði fram á berrassaðan útlendan karlmann sem baðaði sig með óheyrilegri sápu í lækjarsprænu, það þótti mér full mikil og óþarfa mengun.  Þegar löðrið nær eins langt og augað eygir niður eftir allri ánni, þá er of mikið af sápu.  Nú og svo sá maður varla í manninn sjálfan fyrir sápulöðri *hneyksl*

Ég sjálf var nöppuð vil alla þessa iðju á nýafstöðnu ferðalagi, ég get ekki beygt mig í hnjánum, svo ég þarf að gera þarfir mínar standandi ef ég hef ekki postulín til að sitja á.  Fólki þykir alveg svakalega skrýtið að sjá konu pissa standandi.  En við getum það alveg.  Og svo er kjarrið svo lágvaxið fyrir vestan að ég gat hvergi skýlt mér.  Þá taldi ég að ég væri nógu afskekkt til að striplast í Kvígindisfirði, en nei, það þurfti einhver að keyra framhjá þar sem ég lá alsber og sólaði mig.  Og daginn sem ég kom inn í Vatnsfjörðinn eftir Þingmannaheiðina að sækja bílinn seint um kvöld, reif mig úr leppunum og skolaði mig hér og þar með restinni af drykkjarvatninu, svo ég gæti stungið mér inn í sjoppuna á Flókalundi án þess að drepa fólk úr fýlu, þá þurfti einhver að keyra inn í kjarrið.  Seint um kvöld, hver er á ferð þá?  Ég bara spyr?  uuuu, fyrir utan mig sjálfa.  En mikið svakalega er gott að fá smá útrás fyrir strípihneigðina, þúst, ég held að ég haldi því bara áfram...

08-01 055 

Já, ok, ok, ég er kannski ívið meiri tepra en menn halda!

08-01 111 

Og þó...  Ég var mikið að spá í að gista í þessu eyðibýli, mér fannst bara krúttlegt að koma að því rétt um miðnætti, mistík og dulúð, en eftir að ég sá að loft höfðu fallið niður í öðrum herbergum, rollur skitið út um allt, moldargólf og drulla og full mikil fjósalykt, þá hvarf örlítið óbyggða-eyðibýla-drauga-lets-partý-fílingurinn sem ég ætlaði að dvelja við þetta kvöld og ég tók hefðbundið tjaldvæða-ónæði-eftir-miðnætti dæmi á herlegheitin.  Af hverju finna menn ekki upp hljóðlátari loftpumpur?  Ég er nefnilega svolítil blúnda, sef bara á uppblásnum dýnum og hávaðinn sem fylgir af því að pumpa upp dæmigerða rúmfatalagers-dýnu  er óheyrilegur og ekki mönnum bjóðandi eftir miðnætti.  Kannski bara hjá þeim sem er að pumpa, ég sjálf sef eins og engill á tjaldsvæðum, óháð því hvað annað fólk er að brambolta.

08-01 120

Hér má svo sjá fleiri myndir úr ferðalaginu.  En nei, ekkert fleiri nektarmyndir, það eru takmörk hvað maður leggur á fólk!

https://photos.app.goo.gl/ay8RZYojbi25BD2L9

 


Með dýpstu lægðum í júlí

07-22 183 

Ég sem fararstjóri í hjólaferð til Vestfjarða taldi rétt að láta fólk vita að það gæti orðið arfavitlaust veður um helgina. Bjóst ég við að fólk myndi nú frekar velja að kúra uppi í sófa heima hjá sér en æða út að hjóla þegar búið er að spá þessu veðri:

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/07/18/med_dypstu_laegdum_i_juli/

Að vísu verð ég að viðurkenna að klausan um vindstyrkinn fór fram hjá mér, ég hafði meiri áhyggjur af rigningunni, að allt hafurtaskið yrði blautt, fólki kalt og það kvefast í kjölfarið. En það eru engar blúndur í Fjallahjólaklúbbnum, ég var bara skömmuð fyrir að vera að draga úr fólki, auðvitað förum við út að hjóla, þótt 'ann rigni soldið!

07-22 069 

Leiðirnar voru valdar upp úr Hjólabókinni sem Ómar Smári gaf út fyrir síðustu jól, Reykjanes fyrri daginn og Gilsfjörður þann seinni.  Við lögðum af stað með fínan vind í bakið, á sléttu malbiki.  Já, það er ekki alltaf upp brekkur og á móti vindi á Íslandi.

Ég hef hjólað þessa leið áður, þá valdi ég að keyra upp á Eyrarfjall, hjóla niður í Mjóafjörð, áfram hringinn, en skilja svo hjólið eftir niðri við sjó, labba upp á fjall og sækja bílinn.  Þetta gerði ég svo ég þyrfti ekki að teyma hjólið, en ég var þá nokkuð slæm af brjósklosi í baki og taugaverkjum í handlegg.  Ég sé núna að það voru mistök.  Það voru nokkur í hópnum sem hjóluðu upp allar brekkurnar, allir hjóluðu eitthvað, og ég gat hjólað meirihlutann líka.  Fyrirfram bjóst ég við að fólk myndi þurfa að teyma 4-5 km og ég yrði í því að peppa upp örmagna fólk sem vildi helst snúa við í miðri brekku.  

Öðru nær.  Erum við komin upp?  Var þetta brekkan?  Eru ekki fleiri brekkur?  Harðjöxlin í hópnum urðu kannski pínu skúffuð að þetta væri ekki erfiðara, þar eð ég var búin að lýsa þessu sem hvílíkum manndrápsbrekkum.  En hinir voru voða glaðir að geta hjólað meirihlutann og vera komin upp á fjall löngu á undan áætlun.  Við fundum okkur skjólgóða laut, þar var spjallað, etið, drukkið og sumir fengu sér siestu, það var hrotið í sterio á köflum.  Hvar er óveðrið spurðum við í sífellu og skellihlógum.  Algjör bongóblíða hjá okkur uppi á fjalli.

07-22 103 

Jú, óveðrið var víst í Reykjanesi að tæta niður tjöldin okkar.  Meira um það síðar, fyrst er að dásama þessa fallegu hjólaleið.  Það þarf að labba öðru hvoru fram á gilbakkann til að skoða fegurðina.  Morten tók þetta heilræði mitt full langt, og þegar hann ætlaði að fara að taka jógastöðu, standandi á haus á þessari mjóu klettasyllu var hann snarlega stoppaður af.  Nóg svimaði mann þegar hann tók þessa jafnvægisæfingu.

07-22 096 

Þegar ég fór þessa leið fyrir tveimur árum, þá fannst mér eins og einhver kallaði á mig, og ég gekk fram á gilbakkann til að athuga hvort einhver væri þar í vandræðum og þarfnaðist aðstoðar.  Þá opnaðist þessi líka fallega sýn og ég áði þarna í dágóðan tíma.  Núna var það Morten sem fann hana "Var það hér?"  Sumir blettir á Íslandi hafa seiðandi og dáleiðandi áhrif.

Annar staður er sérlega áhugaverður, nokkurs konar klettadæld sem er mjög falleg og skjólgóð.  Eða  leikvöllur fyrir fullorðna, eins og Ulla sagði, og svo var kletturinn tæklaður og klifinn.  Þarna var talsverður strekkingur inn fjörðinn, en í dældinni var algjört logn.

07-22 154 

Það er lítil heit sundlaug í Mjóafirði, ég missti af henni þegar ég hjólaði þetta í fyrsta sinn, en Morten og Ulla tóku eftir henni, og hver stenst mátið að fá sér notalegt fótabað þegar það er í boði.

Þarna gerði ég smá mistök, hefði átt að hringja í ferðafélagana sem voru á undan og láta þá koma aftur og taka smá sundlaugarteiti.  Það er alveg himneskt að lauga, þó ekki sé nema tærnar, þegar maður er á ferðalagi.  Hvort sem maður er hjólandi, gangandi eða bensínfótarlúinn.

07-22 166 

Þegar fólk ferðast saman á reiðhjóli, þá dregur fljótt í sundur ef einhver stoppar smá stund.  Mér fannst við bara stoppa í 5 mínútur, en suma sáum við ekki aftur fyrr en í Reykjanesinu.  Mótvindinn herti stöðugt og þegar við komum í Vatnsfjarðarnes, þá var baráttan við veðurguðinn Kára orðin nokkuð tvísýn, erfitt að hafa hemil á fararskjótunum sem Kári vildi blása út í móa, en við höfðum samt betur.  Hann fór þá í fýlu og ákvað að herja á tjöldin okkar í staðinn.  Gamla góða Vangó tjaldið mitt, sem er búið að fylgja mér víða undanfarin 25 ár endaði sína daga þetta eftirsíðdegi.  En ekkert endist að eilífu, og nú hef ég afsökun fyrir því að fá mér minna og léttara göngutjald, sem ég get tekið með á hjólinu, hitt var of fyrirferðamikið til að það væri hægt.

Það var ekki bara mitt tjald sem endaði rifið og brotið á Reykjanesi, tvö önnur tjöld lágu í valnum eftir veðurofsann.  Það rigndi þó ekki, það er ekki alltaf rok og rigning á Íslandi, stundum bara rok.  Stundum bara rigning.

07-22 054 

Við höfðum ekkert val, við fluttum okkur öll inn á hótel í lungamjúk rúm, og fórum svo í veitingasalinn og gæddum okkur þar á purusteik, lambasteik og alls konar góðgæti.

07-22 218b 

Ég hef oft ekið fram hjá Gilsfirði og ekki virkar hann merkilegur eða spennandi séður frá mynninu.  En hann er ákaflega fallegur þegar maður hjólar hann.  

07-22 252 

Fáfarinn malarvegur, hæfilega stuttur hringur, 30 km sem við hjóluðum á ca 3 tímum með góðu nestisstoppi.

07-22 259b 

Sérlega góð helgi að baki í félagsskap skemmtilegs fólks.  Fleiri myndir er að finna hér á Picasa, þar á meðal frá fyrsta degi, en þá hjóluðum við Sif og Marteinn frá Svignaskarði inn að Langavatni á leiðinni vestur.

https://photos.app.goo.gl/m1omSFLQ2DpqSYQWA

 


Ber ég beinin hér?

Eða "Helgi hinna blautu sokka..."  Gat ekki alveg ákveðið titilinn á þessa færslu.  Ég veit að ég get verið full dramatísk á köflum.  En í hjólaferð helgarinnar átti ég fastlega von á að það yrðu ræstar út björgunarsveitir. Til hjálpar mér. Spurningin var bara hvort ég myndi gera það sjálf, þegar og ef ég kæmist í símasamband, eða hvort fólk færi að lengja eftir mér og hæfi leit.  Hversu marga daga það myndi taka, hvort nestið mitt myndi duga og myndi fólk leita á réttu landsvæði, því, ehemm, ég gleymdi að láta einhvern vita hvert ég væri að fara.  Enda áttu þetta að vera léttar dagsferðir, teppi og kósíheit úti í móa.  Ég er búin að vera svolítið slæm af gigtinni undanfarið, ætlaði að taka því mjög rólega þessa helgi, ekkert að dansa eða misbjóða hnjánum á mér að öðru leiti.

7 tímum síðar, rétt fyrir miðnætti, ennþá stödd í óbyggðum, rammvillt, rökræðandi við þessa hauskúpu, eða réttara sagt, anda dýrsins sem umlukti hana einu sinni....  "Að vera eða ekki vera, og hvert í andskotanum á að fara", það er spurningin.  Þá var ég orðin svolítið smeyk um hvernig þessari ferð myndi ljúka.  Hver hefur ekki séð bíómynd, þar sem aðalhetjan ríður í óbyggðum fram hjá beinagrind af torkennilegu dýri sem af öllum líkum dó úr hungri og vosbúð og undir dynur tónlist af miklum þunga.

Þetta er fyrsta hauskúpan sem ég ramba fram á, en í staðinn fyrir að taka "ég-mun-deyja-hér-ein-og-yfirgefin" kast, þá bauð ég henni far á bögglaberanum og pláss í stofuskápnum, og hafði af henni þó nokkurn félagsskap við að skeggræða næstu skref.  Maður virkar nefnilega eitthvað svo skrítinn og einkennilegur ef maður er einn að röfla við sjálfan sig.

06-30 001

Þetta er gallinn við að skipuleggja ferðalög á korti, maður sér ekki hvað er á bak við sakleysislegan slóða á ja.is.  Þetta er leiðin sem ég valdi mér, 40 km hringur í kring um Vík í Mýrdal.  Þar eð slóðinn er merktur með órofinni línu átti ég aldrei von á öðru en þetta lægi nokkuð ljóst fyrir, ég skoðaði hæðarlínurnar til að ferðin yrði ekki of erfið, og þetta átti að taka 4-5 tíma með hóflegum sólbaðspásum.  Ég hjólaði fyrst malarveg, upp með Kerlingardalsánni, inn að tjaldstæðinu við Þakgil, Brúna línan sýnir svo það sem ég hjólaði, eða réttara sagt, óð og bar hjólið ca 30-40 sinnum yfir Kerlingardalsána og dröslaði því yfir eitt fjall eða svo...

leidin

Og eftir því sem klukkutímarnir liðu og ég hlægjandi eins og asni úti í kolmórauðri jökulsánni, með 20 kg hjól og farangur í fanginu að reyna að halda jafnvægi á sleipum, stórgrýttum botninum, á meðan straumhart vatnið náði mér upp í ... svuntu!  það var eins gott að ég skyldi vera á rólegheita síðdegishjólatúr úti í náttúrunni, en ekki stödd sótölvuð á einhverri knæpunni í höfuðborginni, dansandi frá mér allt vit, og handónýt í hnánum næsta dag.  Mýkt og blíða, það er stundum það sem maður þarfnast.  En ekki alltaf það sem maður fær.

Ég fór úr skóm og sokkum þegar ég kom að fyrstu sprænunni.  Enda náði hún mér upp á miðja kálfa.  Næsta var breiðari en grynnri svo ég ákvað að hjóla yfir.  Og missti jafnvægið og tyllti einum fæti niður.  Þar eð ég var orðin blaut í annan fótinn sá ég engan tilgang í því að fara úr skónum við þá þriðju.  Óð yfir og sópaði upp möl og steinum ofan í skóna.  Blaut í báða fætur.  Allt í lagi, ca 15 km eftir, þar af 10 á malbiki og svo bara kvöldsólin, ullarsokkar og bjór á tjaldstæðinu í Vík.

Mig grunaði aldrei að ég væri ekki á réttri leið, ég fann alltaf slóða öðru hvoru, þar sem ég gat jafnvel hjólað smá spotta.  En leiðin var skiljanlega langtum erfiðari en ég átti von á í upphafi.  Ég veit að það eru nokkrir manískir hjólakappar á Íslandi sem hafa lagt metnað sinn í að hjóla hvern einasta slóða á Íslandi.  Nú get ég glatt þá.  Það er einn sem liggur niður eftir endilangri Kerlingardalsá, ef fólk skyldi nú sitja og tosa í skeggið og vera í stökustu vandræðum með hvað það gæti nú hjólað, verandi búið með allt Ísland.  Hún er ekki merkt inn á kort, en það er greinilegur jeppatroðningur eftir henni, svo já, þetta er slóði og vel hjólanlegur á góðu hjóli.  En "nokkrar" ár að vaða yfir, svo vaðskór eru góð hugmynd.  Og blautbúningur hugsanlega réttu hjólafötin.

Ég get því miður ekki frætt um ástandið eftir því sem nær dregur sjó, en þetta ættu fílhraustir karlmenn að komast, úr því ég komst meirihlutann nokkurn veginn stórslysalaust.  Enda var ég ákveðin í að snúa við ef ég teldi einhverja hættu vera á ferð.  Fyrst setti ég tímamörk fyrir að snúa við kl 21:00.  Framlengdi þau til 22:00 eftir því sem Vá faktorinn jókst.  Var ég búin að minnast á veðrið?  Því miður var myndavél ekki með í för, ég hafði hugsað með mér, ef þetta er fallegt, þá kem ég bara aftur síðar og tek myndir.  Já, þetta var fallegt.  Þetta var raunar mjög fallegt.  Þetta var stórbrotið, þetta var... orð fá því ekki lýst.  kvöldsólin ljáði ægifögru umhverfinu aukið vægi, fallegar skýjamyndanir, bæði á himni og leikandi ský við fjallstoppa og algjört logn gerðu þessa kvöldstund að einni eftirminnilegustu og fallegustu útivistarferð sem ég hef nokkurn tíma farið í.

Fyrsta náttúruupplifunin mín var í Þórsmörk.  Rétt rúmlega tvítug.  Ég man ekki hvað ég hugsaði oft "Vááá", þegar ég kom þangað fyrst.  Vá faktorinn var reistur endalaust í þessari ferð.  Vildi að ég gæti sýnt ykkur eitthvað af þessari dásemd.  Tek bara myndir næst.  En nei, ég mun ekki hjóla eða ganga þetta aftur, þetta var allt of erfitt fyrir mig.  Og þó, kannski...  Verður maður ekki að klára dæmið?

Þegar hver endalaus salurinn með melum og árhvíslum opnaðist á fætur öðrum og þreytan og jafnvægisleysið óx, þá vissi ég að ég væri komin í ákveðin vandamál.  Ég gæti ekki lengur snúið við, til þess voru árnar of erfiðar, sem ég náði þó að vaða fyrr um kvöldið, núna var ég orðin of þreytt til að geta staðið á móti straumnum.  Svo það var tvennt í stöðunni, að leggjast fyrir, sofa í 3-4 tíma og halda áfram sömu leið, snúa við, eða taka stefnuna upp í fjöllin og reyna að átta sig á staðarháttum og komast þannig til byggða.  Ég sá mastur í fjarska uppi á fjalli og hugsaði með mér að þar hlyti að liggja vegur.  Bara drösla hjólinu upp þessa hæð, þá er stutt í mannabyggðir.  Og þegar ég komst upp á hæðina, þá opnaðist þessi líka fallegi og grösugi dalur eins langt og augað eygði, tún, og beljur og rollur og unaðslegheit... en engir akvegir.  Ekki alveg það sem mig langaði að sjá, þó þessi huggulega sveitasýn hefði ábyggilega gert mig agndofa af aðdáun fyrr um kvöldið.  Ef einhver heyrði "nei, Nei, NEIIII,  NEIIIIIIIIII" angistaróp bergmála niður í Vík þetta kvöld, þá var það ég.  Svo það var lítið annað að gera en paufast áfram yfir mosa, mela og móa, líta kýrnar og hugsanlega árásargjarna nautgripi með hornauga og gargandi fugla allt í kring.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig.

Stundum þegar ég hjóla eftir fáförnum sveitavegum, þá myndast flokkur af fuglum fyrir framan mig, þeir sveifla sér, dilla sér, blaka vængjunum, sveigja í fagurlegri fylkingu út af veginum upp í nálæga kletta, en þegar ég fylgi þeim ekki, fer allt í upplausn, þeir fylkja sér aftur  og reyna að fá mig með í gleðskapinn.  Ég kalla stundum þessa tegund af fuglum partý-gauka, þeir sjá þarna einmana kvennsu á ferð og vilja ólmir bjóða henni í teiti.  Núna upplifði ég aftur eitthvað svona, nema þeir voru afskaplega æstir eitthvað, og ég var farin að rýna vel niður fyrir mig, hvort ég væri nokkuð að stefna á hreiður.  Nei, ég óð beint út í mýri og sökk upp fyrir mið læri, eins gott að ég var með hjólið með mér, það gat ég notað sem krekju, til að styðja mig við, á meðan ég kraflaði mig upp úr leiðjunni.  Á meðan hringsóluðu fuglarnir yfir mér og ég gat ekki betur heyrt en þeir sögðu "Stupid woman, told you so..." svo sneru þeir við og flugu til baka.  Voru þeir að vara mig við?  Ég held það.  Eða var það kannski bara þreytan...  Eða óbyggðageðveikin...

Maður hefur séð fólk kyssa jörðina eftir að hafa lent í flugvélum sem voru í háska.  Ég skal viðurkenna að ef hnén hefðu leyft, þá hefði ég lagst niður og kysst malarveginn sem ég rambaði loks inn á.  Og eftir að hafa valið átt af handahófi (já, hóst, ég veit, garmin er kominn á óskalistann) þá rúllaði ég í átt til sjávar og meeeen, hvað myglaði, eldgamli opelinn minn var sjóðheitur og fagur í miðnætursólinni....  Dagur var að kveldi komin og ég raskaði ró tjaldstæðisgesta löngu eftir miðnætti, en glöð í hjarta yfir að vera komin heilu og höldnu til byggða.

Daginn eftir voru fæturnir á mér í ótrúlega góðu ástandi, þar hefur spa-meðferðin haft sitt að segja, þessi hjólaferð hefur verið á við heimsókn í dýrustu og flottustu baðstaði heims.  Að skiptast á að lauga fæturna í ískaldri, steinríkri jökulánni, hita þá í brennandi sólinni, nudda iljarnar með sandinum af botni árinnar og viðra þá í heilnæmu lofti heiðanna... fólk borgar morðfé fyrir svona lagað á tilbúnum stöðum, þegar allt og sumt sem þarf eru óbyggðir Íslands.  Og hæfileg bilun býst ég við...

Eftir að hafa skoðað loftmyndina betur á ja.is sé ég hvar ég villtist.  Gula línan sýnir leiðina sem ég fór.  Efri örin bendir á hvar vegurinn byrjar aftur.  Ég sá meira að segja hjólförin við neðri örina, en var svo áttavillt að ég taldi þau liggja inn í land.  Hélt að ég væri að fara í vesturátt, þegar ég stefndi raunar í hásuður.

gatnamot 


Hvalfjörður

05-31 006

Með tilkomu Hvalfjarðaganganna hefur Hvalfjörðurinn sjálfur breyst í paradís útivistarunnandans.

05-31 005

Vissulega á fólk leið þarna um á vélknúnum ökutækjum, þarna er að rísa blómleg sumarbústaðabyggð, og einhverjir sveitabæir eru í firðinum.  En það er ekki hægt að tala um umferðarþunga, bíll og bíll á stangli og allir víkja vel.  Ég styðst við bæði vedur.is og yr.no til að velja mér hjóladaga. Og svo sannarlega var þessi dagur vel valinn.

05-31 011

Áði í fallegri laut, sólaði mig, hlustaði á fuglasöng og árniðinn.

05-31 031

Hreyfði ekki hár á höfði sem er óvananlegt í Hvalfirðinum.  

05-31 024 

Var nú ábyggilega búin að segja þá sögu áður, en hún hlýtur að vera mörgum mánuðum eða árum aftar.  Ætlaði að labba frá botni Hvalfjarðar yfir til Þingvalla og tjalda á leiðinni. Rokið var slíkt að það var ekki stætt úti, þó hafði verið ágætis veður í Reykjavík.  Svo ég svona keyri áfram á meðan ég var að hugsa hvað ég ætti að gera, hvort ég ætti að prófa Borgarfjörð eða aðeins norðar. Líka leiðindaveður í Borgarfirði og tjaldstæðið ekki til að hrópa húrra fyrir svo ég ók áfram. Stoppaði í Hreðavatnsskála og fékk mér hamborgara (ég veit, ég veit, áður en ég var búin að hreyfa nokkuð annað en bensínlöppina). Ég rek augun í auglýsingu uppi á vegg. Hljómsveitin Bogomil Font leikur fyrir dansi. Met det samme var útivistinni slaufað fyrir djamm. Ekki í fyrsta sinn og ábyggilega ekki heldur í síðasta sinn.

Kvöldið var svo hið skemmtilegasta, ég dansaði hálfa nóttina við fótbrotinn rútubílstjóra sem var, þrátt fyrir gifs og hækjur merkilega fimur á dansgólfinu.

En víkjum aftur að Hvalfirði... Ég hjólaði frá botni Hvalfjarðar, fram hjá Meðalfellsvatni og Kjósarskarðsveg niður að Þingvallavegi. Þar fékk ég blússandi meðvind að Gljúfrasteini, en þar snerist vindurinn snögglega, svo ég fékk að puða pínulítið, eykur endorfinið svo maður dettur alsæll niður í lok ánægjulegs hjóladags. Og nei, þið fáið ekki mynd af hjólinu í þetta sinn!

05-31 041 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband