Reykjanesmótið

Stundum er tilveran róleg og tíðindalítil.  Vikum saman.  Svo hrúgast skrilljón viðburðir á eina helgi, og maður veit ekkert í hvorn fótinn maður á að stíga.  Ég tók þátt í Reykjanesmótinu í hjólreiðum í fyrra.  Aðallega af forvitni, að sjá hvernig svona hjólakeppnir færu fram og hvers konar fólk tæki þátt.  Meirihlutinn var skiljanlega spandexklæddir karlmenn, ekkert nema vöðvar, fitt og flottir.  Ég sjálf reyndist vera í ívið betra formi en ég átti von á, lenti í 3ja sæti í kvennaflokkinum.  Fór heim með verðlaunapening og góðar minningar.

Ég ákvað að ég skyldi taka þátt að ári, ekki til að troða mér aftur á verðlaunapall, heldur til að taka þátt í skemmtilegri keppni, enda Suðurnesjamenn höfðingar heim að sækja.  Ég var líka forvitin að sjá hvort ég myndi bæta tímann eitthvað, en eftirá var loftþrýstingurinn mældur hjá mér og reyndist hann vera u.þ.b. 30, enda geng ég undir ýmsum viðurnefnum, ýmist Hjóla-Hrönn eða Hrönn-á-felgunni.  Ég er engin græjukelling þegar kemur að dóti eins og hjólum, bílum og kaffivélum.  Ef það virkar og gerir það sem ég ætlast til, þá er ég ánægð.  Maður kemst samt ekki hjá því að læra eitt og annað af fólki sem maður hjólar með.  Ég er búin að skipta út petölunum og fá mér hjólaskó sem festast á petalana, svokallað klítasystem.  Ég er farin að pumpa í dekkin og smyrja keðjuna.  Þríf meira að segja hjólið stöku sinnum, en það var eitthvað sem var ekki gert hér áður fyrr.  Ég taldi að ég ætti að geta bætt tímann hjá mér umtalsvert í góðum hjólaskóm og með 60-80 punda þrýsting í dekkjunum.

Tveimur vikum fyrir keppni veiktist ég hægt og rólega og endaði á að liggja nokkra daga í rúminu.  Gat ekkert hjólað eða synt í tvær vikur.  Og svo voru tónleikar daginn fyrir keppnina sem ég var löngu búin að ákveða að fara á.  Tvær af helstu þungarokkhljómsveitum landsins, Skálmöld og Sólstafir voru að spila á sömu tónleikunum.  Hófst nú mikill valkvíði, hvort ég ætti að velja djammið eða hjólakeppnina.  Ég vissi vel fyrirfram að ég yrði slæm í hnjánum eftir tónleikana, ég er með slitgigt.  Það er verst fyrir mig að standa upprétt, en ef ég myndi dansa nógu andskoti mikið, þá væri möguleiki á að ég yrði hjólafær næsta dag.  Svo planið var að drekka hóflega, dansa hraustlega og fara strax heim að sofa eftir tónleikana og rífa sig upp næsta morgun og taka þátt í hjólakeppni.

Næsta dag vaknaði ég kl 8, kýrskír í kollinum, ákvað að taka þátt og velti mér framúr.  Og komst að því að ég var draghölt eftir djammið.  Hófst nú aftur valkvíði, hjóla eða skríða aftur upp í.  Það tók mig hálftíma, sturtu og tvo kaffibolla að ákveða að ég skyldi alla vega mæta og hjóla af stað, engin skömm að því að hætta við ef heilsan hamlar eða búnaður bilar.

Það voru 39 sem tóku þátt í fyrra, þar af 7 konur.  Nú voru þátttakendur 54, þar af 10 konur, 4 fóru lengri vegalengdina,  6 fóru 30 km, þar á meðal ég.  Þegar keppnin var hálfnuð var ég í 1sta sæti af konunum í mínum riðli.  Ógeðslega ánægð með mig, eða þar til Þurí seig fram úr mér í einu brekkunni sem er á svæðinu.  Brekkur er eitthvað sem ég á ennþá erfitt með, og það fór svo að ég náði henni ekki aftur og lenti í öðru sæti.  Grjótfúlt, en samt bara nokkuð gott, miðað við að mæta hálftimbraður og draghaltur eftir að hafa legið í rúminu í tvær vikur.  Sýnir bara að það að vera í góðu formi dags daglega gerir manni kleift að takast auðveldar á við óvænt áföll.

webMedals
 

Svo nú á ég 3 verðlaunapeninga eftir 3 hjólakeppnir.  Ég hélt að ég hefði bætt tímann um 9 mínútur, en það var bara misminni, ég var mínútu lengur í ár en í fyrra.  Það verður að skrifast á Bakkus, Skálmöld og Sólstafi.  Nú hef ég eitthvað að stefna að á næsta ári, bæta tímaskömmina.  Það hlýtur að hafast ef maður sleppir alla vega djamminu kvöldið áður.  Ég filmaði ekki neitt þetta árið, gleymdi myndavélinni heima.  Svo ég set bara myndbönd af uppáhaldslögunum með Skálmöld og Sólstöfum í staðinn...  Ef grannt er skoðað má sjá mig í áhorfendaskaranum.

Og hér með Sólstöfum:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Alltaf er gaman að lesa reynslusögurnar þínar. Flott hjá þér að þú gafst skítt í allt og náði 2. sæti.

Úrsúla Jünemann, 15.5.2011 kl. 16:27

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

ansk kraftur í þér - sem áður skemmtileg lesning

Jón Snæbjörnsson, 24.5.2011 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband