Bláa Lóns

Í fyrra var ég næstum hætt við þátttöku vegna slæms ástands í hnjánum.  Var nýkomin úr viku gönguferð og flugi og mikið vatn í hnjánum og annað læstist reglulega með miklum sársauka.  Fór þetta samt á hörkunni og varð í 10 sæti af 48 konum sem hófu keppni í 60km flokki.  Varð 3ja í mínum aldursflokki.

Fyrir tveimur vikum fór ég í ferð með Fjallahjólaklúbbnum þar sem þurfti að labba og teyma (réttara sagt draga og toga) hjólið upp um 500 metra.  Og drösla því svo niður álíka langt, of bratt til að hjóla niður.  Svona fjallgöngur leggja mig venjulega í rúmið eða á hækjur í einhverja daga, ég var orðin hölt þegar við komum upp á fjall og venjulega verð ég ennþá verri næsta dag, en þar eð við hjóluðum ca 30 km eftir puðið og ég skellti mér beint í sund, þá varð ég ekki eins slæm og ég átti von á.  Hreyfingin hjálpar til við að fjarlægja vökva úr hnjánum.  Svo ég hélt áfram að æfa upp þrek fyrir Bláa lónið.

Þar til ég vaknaði upp fyrir viku síðan með slæman verk í öðrum upphandleggnum og gat ekkert hreyft hann.  Ég hef áður brotið bein og þessi verkur var álíka vondur.  En það er nú hæpið að maður handleggsbrotni við að snúa sér í rúminu, svo ég fór fram úr og gúgglaði "verkur í upphandlegg".  Hjartaáfall!  Nei, enginn verkur í brjóstinu.  Næsta grein fjallaði um blóðtappa og einkennin pössuðu við það svo ég dreif mig upp á bráðamóttöku.  Ég reyndist vera með bráða staðbundna taugabólgu sem olli kraftleysi og lömun í handleggnum.  Send heim með verkjatöflur og fyrirmæli að koma aftur næsta dag ef máttleysið væri ekki farið að dvína.

Svo ég fór heim pínu niðurbrotin, lá fyrir, slafraði í mig uppáskrifuðu læknadópi og ákvað að afskrifa Bláa Lóns keppnina að þessu sinni.  Til að taka þátt í svona keppni, þá þarf maður að vera hraustur og hafa góða stjórn á reiðhjólinu.  Til að leggja hvorki sjálfan sig né aðra í hættu.  Þetta var á laugardegi, viku fyrir keppni.  Á þriðjudag var lömunin gengin nægilega langt til baka til að ég gæti farið út að hjóla.  Stuttan hring á hægri ferð.  En eftir það gekk batinn mun hraðar og á föstudag gat ég hjólað á fullri ferð í hálftíma og handleggurinn orðinn jafn góður og áður.  Bláa Lóns aftur á dagskrá.

Það þarf líka að byggja sig upp andlega fyrir svona keppni.  Ég þríf venjulega á laugardögum og þar eð ég lamaðist eftir 7 daga uppsöfnun á ryki og drasli, þá þurfti ég að hemja húsmóðurgenið og leyfa draslinu að halda áfram að hlaðast upp.  Anda inn, anda út.  Yoga og andleg íhugun.  Stóísk ró.  Meira að segja strákarnir mínir, 8 og 12 ára voru farnir að hafa á orði að það væri orðið ansi mikil kexmylsna á gólfinu.  Ég lét það sem vind um eyru þjóta, úr því þeim datt ekki sjálfum í hug að prófa sópinn eða ryksuguna, þá gátu þeir bara vaðið skítinn áfram.  Bláa Lóns hafði forgang og öll mín orka fór í æfingar og hvíld fyrir hné og handlegg.

Kvöldið fyrir keppni ætlaði ég að fara lauslega yfir hjólið, kíkja eftir glerbrotum og athuga hvort hjólin væru ekki örugglega föst, bremsur í lagi og keðjan smurð.  Það fór náttúrulega svo að ég var langt fram yfir miðnætti að skipta um dekk og athuga slöngur (fann glerbrot og langa rifu á dekkinu)  Svo ég setti grófara dekk undir að aftan, vissi að ég myndi þá ekki renna eins vel á malbikinu, en ætti að vera ögn skárri á malarköflunum.

Eftir svona keppni þar sem maður úthellir svita, tárum og sumir blóði, þá verður maður ánægður að ná að klára án áfalla.  Enn ánægðari ef maður bætir tímann frá því í fyrra.  Enn ánægðari ef maður lendir á verðlaunapalli.  Takk Corinna fyrir að bjóða mér í lið og koma mér á verðlaunapall.  Takk Fjölnir fyrir að festa pumpuna fyrir mig.  Og takk gaur í gulum jakka fyrir að hægja á og leyfa mér að drafta hjá þér í rokinu við Grindavík.  Já, ég skal bjóða þér upp á bjór einhvern tímann ;)  Það munar töluverðu að geta hjólað í skjóli af einhverjum þegar á móti blæs.  Og takk HFR fyrir frábæra keppni, skipulag og framkvæmd til fyrirmyndar, við sjáumst aftur að ári.  Og að sjálfsögðu fær Bláa Lónið líka þakkir fyrir sinn stuðning.  Nánari umfjöllun og myndir er að finna á vef HFR.is, hér getur að líta Femme Fatale, kvennaliðið sem lenti í öðru sæti.

06-12 007

Ég varð 7unda af ca 50 konum og bætti tímann frá því í fyrra um 11 mínútur.  Mjög sátt með það.  Raunar færð og veður með besta móti, en ég fann vel að ég var í góðu formi.  Var ekkert eftir mig og ekki einu sinni harðsperrur daginn eftir.

Við eigum geysi öflugt hjólafólk, Hafsteinn Ægir sigraði karlaflokkinn, 7 árið í röð og María Ögn sigraði kvennaflokkinn.  En það eru fleiri sigurvegarar þó að þeir komist ekki á verðlaunapall.

Kolbrún tók þátt í fyrsta sinn, hjólið bilaði á miðri leið, hún skrúfaði sundur tannhjólin til að losa keðjuna, ekki kann hún neitt að gera við reiðhjól, skrúfurnar duttu út um allt, og eitthvað lítur hjólið einkennilega út, tannhjólin að aftan ekki á réttum stað.  En henni tókst að gera það hjólafært, halda áfram og ljúka keppni.  Einurð og eljusemi skapar sigurvegara.  Til hamingju Kolla með fyrstu Bláa Lóns!

Hvað ætla ég að gera öðru vísi að ári?  Muna eftir $#%&% sólarvörninni!

06-01 008web

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er maðurinn í gula jakkanum. Bíð spenntur eftir bjórnum enda stutt í næstu blálóns!! :)

Sturla Egilsson (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 22:36

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

hahaha, pikkaðu bara í mig ofan í Lóninu, þá skal ég bjóða þér upp á bjór :)

Hjóla-Hrönn, 23.5.2012 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband