Einar Bárðarson

Nei, andskotinn hafi það, Einar Bárðarson mætti í hjólakeppni en ekki ég!

Ég er búin að vita af Heiðmerkuráskoruninni í ein 2-3 ár, en hef miklað þetta eitthvað fyrir mér.  Laus möl, bratt upp, bratt niður, þröngir stígar, sá mig í anda með mína lélegu rýmisvitund og skerta jafnvægi klessa á tré, nú eða á einhvern keppanda og smyrja honum yfir stíginn.  Ég er engin afburða hjólakona, en hef komið þó nokkuð mörgum á óvart, mér sjálfri einna mest, með að taka þátt í keppnum og komast á stundum á verðlaunapall.

Svo var ég að fletta myndunum frá Heiðmerkuráskoruninni og sá að þetta voru ekki allt brynvarðir Downhill gæjar, bara allra handa fólk.  Þar á meðal Einar Bárðarson, nýbyrjaðan að hjóla eftir langt sófalegutímabil.  Hjólakonan í mér tók smá dýfu og fékk smá áfall.  Ég hefði nú betur hissað upp um mig hjólabrækurnar og mætt í keppni!  Þó að ég væri hálfhrædd við þetta og ætti ekki almennilegar græjur í brautina.

Sko, ég er kvenkyns.  Við hugsum öðru vísi.  Fjallahjólið var keypt af því það var rautt, hvítt og svart og tónar alveg gasalega vel við djammdressið.  Það er bara 21 gíra og ég kemst ekki mikið hraðar en 20km á klukkustund.  Plús að það er í hálfgerðu lamasessi eftir veturinn, bremsurnar búnar og annar gírinn pikkfastur, gat valið um 2 tannhjól á hinum gírnum.  Svo ég ákvað að sleppa Heiðmerkuráskoruninni og skipuleggja næsta keppnissumar þegar ég á betri græjur.

Á meðan ég var að þvælast um HFR vefinn sá ég auglýst Akrafjallsmót í Hjólreiðum á Írskum dögum Akraness.  33 km hringur í kring um Akrafjallið.  Ég ákvað að nú yrði djammað minna, hjólað meira og mætt í keppni upp á Akranes.  Eins gott, Einar Bárðarson mætti aftur!  Ég verð ekki tekin tvisvar í röð í bólinu þegar ég hefði getað verið úti að keppa.  Ó, nei, mín mætti, hjólaði og sigraði!  Búin að endurheimta viðurnefnið Hjóla-Hrönn. 

Jebb, varð í fyrsta sæti í kvennaflokki, þessi líka fíni bikar sem ég hlakka þvílíkt til að sýna strákunum mínum, þeir verða óendanlega stoltir af mömmu gömlu. 

07-02 009web 


Menn ættu ekki að vanmeta Einar Bárðarson.  Hann gæti hæglega orðið einn af fremstu hjólreiðaköppum í sínum aldursflokki eftir 1-2 ár.  Ef hann heldur svona áfram.  Ja, ekki hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að vinna gull í hjólreiðakeppni fyrir 3ur árum, þá 30 kílóum þyngri en ég er í dag:

2008-2011

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel gert, Hjóla Hrönn.

Til hamingju með sigurinn.

Hagnaðurinn (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 21:10

2 identicon

Glæsilegt hjá þér ... bæði síðustu 3 ár og þessi líka flotti bikar! Til hamingju, Hrönn mín, með frábæran árangur. Kær kveðja, Steinunn

Steinunn Mar (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband