Reiðhjólabændur

10-15 012

Erum húsbændur á okkar heimili og ráðum sjálfir hvenær við hjólum!!! Svo hljóða einkennisorð reiðhjólabænda.

Reiðhjólabændur er hópur hjólafólks á Fésbókinni.  Fyrst var þetta nokkurs konar einkaklúbbur, nokkrir strákar,  Valdi og vinir hans sem fóru út að hjóla saman.  Svo hefur félagsskapurinn vaxið og dafnað og telur nú 883 manns.  Ég fann þennan hóp fyrir tveimur árum, hafði pínu áhyggjur af því að strákarnir myndu stinga mig af, en eftir að ég sá að kvenfólk væri að slæðast með á köflum, þá ákvað ég að prófa.  Jú, það þarf að taka á og ég er oftast með blóðbragð í munni eftir túrinn, en það er geysigaman að þeysast áfram á racer og nýta skjólið af stæðilegum, vel mössuðum karlmönnum til að komast hraðar yfir og fá smá útrás fyrir hraðafíkillinn.  Ég hef lítið getað hjólað í sumar, er með slitgigt, tognaði á hné og ef ég slasast, þá tekur það mig langan tíma að jafna mig, þannig að ég verði jafngóð, eða réttara sagt, jafnslæm og ég er dags daglega.  Það hefur hvarflað að mér að ég þurfi að draga úr hjólreiðunum og snúa mér meira að sundi og öðrum áhugamálum, en í dag fann ég að ég var loksins búin að jafna mig á tognuninni fyrir þremur mánuðum, ákvað að prófa að hjóla með, ég gæti þá alltaf snúið við í Grafarvoginum ef úthaldið væri slæmt.  En ég náði að hanga í miðjum hópnum, klára dæmið, hjóla upp að Gljúfrasteini og aftur niður að Sprengisandi.  Fór og verðlaunaði mig með pizzu og bjór, ógisslega ánægð með dagsformið.

10-15 001

Þegar gigtin var að byrja hjá mér árið 1991, þá missti ég algjörlega hreyfigetuna og endaði rúmliggjandi vikum saman inni á sjúkrahúsi.  Eftir sterameðferð hjarnaði ég við, starfsfólkið hvatti mig til að fara út og fá mér ferskt loft, það verð daglegt þrekvirki að rölta út á grasflöt, setjast á bekk til að hvíla mig og komast svo aftur inn í rúm fyrir eigin rammleik.  Eitt síðdegið var veður afar gott, ég sat á bekknum og gleymdi mér um stund.  Eða þar til maginn minnti á sig, sterar valda ofboðslegri svengd, ég leit á klukkuna og sá að ég væri í þann veginn að missa af kvöldmat.  Stökk á fætur og hljóp inn.  Nema, ég gat ekkert stokkið á fætur eða hlaupið, hugurinn fór af stað á undan mér og svo sat skrokkurinn aflvana eftir á bekknum.  Ég missti af kvöldmatnum.

Kannski gerðist það sama í kvöld?  Kannski er hugurinn kominn vestur í bæ og ég búin að sporðrenna heilli pizzu, en skrokkurinn ennþá uppi í Mosfellsbæ og það eina sem ég fæ að bíta í kvöld er gras...  Nah, i made it!

10-15 019b 

Ef þig langar að prófa að hjóla með Reiðhjólabændum, þá er um að gera að fylgjast með á Fésbókinni, stundum mætir einn, stundum þrjátíu eins og í kvöld, sem er afar gott miðað við að það er 15 október.  En áður en þú mætir, þá þarftu að kynna þér reglurnar.

http://www.velominati.com/the-rules 

Það gengur nefnilega ekki hvað sem er, ónei.  Það er svo sem ekki nauðsynlegt að læra þetta allt utan að, regla #5 á t.d. við nánast hvað sem er.  Þreyttur?  Harden the fuck up!  Hnakkurinn að drepa þig?  Harden the fuck up!  Leiðinlegt veður?  Harden the fuck up!  o.s.frv...

Æ, ég er nú bara miðaldra gigtveik kelling.  Harden the fuck up!  Ég gerði það, kom, sá, hjólaði og sigraði sjálfa mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ert dásamlegt eintak, takk fyrir rùntinn mín kæra.

Margrét Th. (IP-tala skráð) 16.10.2013 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband