Vetrarhjólreiðar

01-12 170

Í dag var 12 stiga frost.  Er hægt að hjóla við þær aðstæður?  Já, já, það er vel hægt.  Ég man raunar ekki hvað er mesta frost sem ég hef hjólað í, en vindstyrkur skiptir líka máli, það getur verið mun kaldara í hlýrra veðri ef vindur er meiri.

01-12 139 

Flestir gera þau mistök að klæða sig of mikið.  Þá svitna menn og kólna fljótt þegar stöðva þarf á ljósum eða við aðrar aðstæður.  Á veturna er ekki endilega verið að hjóla mikið sér til skemmtunar, maður lætur nægja að hjóla til og frá vinnu og svo skottúra sem taka ekki meira en 20-30 mínútur.  Það er í lagi að vera kalt þegar lagt er af stað, manni hlýnar fljótt.  Hér var ég á ferðalagi í janúar síðastliðnum og tók mynd af fötunum sem ég ætlaði að vera í.  Auk þeirra flíka sem eru á myndinni bætti ég við legghlífum, þar eð snjódýpt var það mikil að snjórinn hefði getað skóflast ofan í skóna.  Svo er ég í rúmum vinnuskóm, það skiptir miklu máli að skór og fatnaður hindri ekki blóðflæði.  

Í dag var ég í svipuðuðum fatnaði.  Rúmum ullarsokkum (ekki bómullarsokkar undir), síðu föðurlandi, ullarbol sem náði upp í háls, flíspeysu utanyfir, hjólabuxum, buff og hanskar.  Gult endurskinsvesti.  12 km hjólatúr og mér varð ekki kalt.  Það beit jú aðeins í kinnarnar og eftir hálftíma hjólatúr fann ég fyrir köldum tám, en þá fór ég bara af baki og gekk í 2-3 mínútur eða þar til mér varð aftur heitt á tánum.  Nærföt þurfa að vera úr ull, silki eða gerviefni sem þornar fljótt.

01-12 157 

Ég er kannski ekki alveg jafn mikið að ota mínum tota í fjölmiðlum og fólk heldur, það eru blaðamennirnir sem hafa samband við mig eftir ábendingu frá einhverjum, ég held alltaf að það sé verið að fjalla um eitthvað efni og ég muni sjást í mýflugumynd, en enda alltaf sem aðalatriðið.  Hér er viðtal sem birtist í mbl.is sjónvarp um vetrarhjólreiðar.  Í lokin spurði myndatökumaðurinn "Hvað hjólar þú eiginlega mikið yfir árið?" Og eftir að hafa svarað því virka ég náttúrulega sem svaðalegur harðjaxl, en ekki ofurvenjulega húsmóðirin i Austurbænum, sem ég náttúrulega er fyrst og fremst. 

http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/65718/

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband