Hjólað um sveitir Íslands

07 10 006
Bílstjórar fá hrós frá mér fyrir alveg einstaka tillitssemi.  Allir sem einn viku yfir á hina akreinina, allir hægðu ferðina sem mættu mér á malarvegum og einstaka stoppaði meira að segja til að ég fengi ekki rykmökkinn yfir mig eða steinakast.  Ég er búin að hjóla tæplega 400 kílómetra á síðustu 6 dögum og bara aldrei þessu vant hef ekki yfir neinu að kvarta.  Bara alveg í skýjunum með vel heppnaða hjólaferð.
.
07 10 018 
Það var hjólað á malbiki og malarvegum um sveitir Vesturlands og Reykjaness, alein í heiminum á köflum, stundum töluverð umferð og einu sinni neyddist ég til að stytta túr og hjóla á Reykjanesbrautinni.  En ætlunin var að halda mig fjarri Þjóðvegi 1 og öðrum álíka umferðargötum.
.
07 10 013 
 . 
Ég varð að skipuleggja ferðina þannig að ég keyrði á upphafspunkt, svo var hjólað í 20-60 kílómetra hring, aftur að bílnum.  Svo var keyrt á næsta stað og hjólað meira eða inn á tjaldstæði þegar leið að miðnætti.  Það er mjög þægilegt að hjóla á kvöldin á Íslandi, næg birta, það lygnir oft á kvöldin og það eru færri bílar á ferli.
.
07 11 012
.
07 10 010 
.
07 10 011 
Suma 20 km hringina var ég 4-6 tíma, bara við að skoða krúttleg sveitabýli eða taka smá kríu, vaknaði einu sinni sólbrunnin á bakinu eftir 2ja tíma dúr, en með skemmtilegt mynstur á lærunum eftir grasið.
.
07 11 009  
.
07 10 015 
 . 
Ég býst við að þurfa að hætta að mála mig hér á blogginu sem hálfgerðan aumingja, ég verð samt að viðurkenna að ég sakna svolítið hetju-stílsins sem ég gat gortað af síðasta vetur.  Fertug kelling með fjörtíu aukakíló að böðlast áfram í brjáluðum blindbyl um hávetur.  Það er svolítið töff á prenti.  Núna eru aukakílóin bara 15 og ekkert þrekvirki að hjóla um með svoleiðis lítilræði.  Annar hver kjaftur á Íslandi í sama ásigkomulagi.
.
07 11 006
Ég er fremur lystarlítil þegar ég hjóla.  Þegar ég fór á Nesjavelli var ég með nokkur kíló af nesti, pasta-salat, flatbrauð, samlokur, ávexti.  Ég kom aftur heim með 90% af nestinu.  Þegar ég kem á áfangastað er ég svo ekki í neinu stuði til að fara að brasa með prímus eða grilldót.  Svo ég ákvað að prófa að taka með mjög minimalískt nesti og sjá hvernig það kæmi út upp á svengd og orku.  Nestið yfir daginn var 5 bréf af Núpó næringardrykk og svo skammtaði ég mér 3-5 kex í hvert mál.  Þetta tekur lítið pláss í farangri og dugði fínt þó að vissulega hafi kosturinn verið pínu tilbreytingarlítill þegar leið á ferðina.  En ég veit alla vega núna að þetta nesti dugar ef ég fer í lengri samfellda hjólaferð, það er aldrei að vita nema ég geymi bílinn heima næst.
07 11 003
Og þá er bara spurningin, voru þetta ísbirnir sem ég sá á rölti hinu megin við Hvítá?
.
07 11 010

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Snilldarframtak!!! Þetta ætla ég að gera næsta sumar

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 14.7.2009 kl. 13:33

2 identicon

Flottar myndir hjá þér Hrönn. Gaman að finna svona hjólasjúka kjellíngu. En ég er slík. 52 ára í október og hjóla ca. 200 km á viku. Stundum meira. Hjólaði einmitt á Nesja velli (fram og tilbaka) um helgina síðustu og Þingvelli þarsíðustu. Annars er ég meststígunum hér á höfðuborgarsvæðinu. Það jafnast fátt á við að hjóla.

Margret Agustsdottir (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 14:15

3 Smámynd: steinimagg

Ég segi nú bara til hamingju með þetta, frábært.

steinimagg, 15.7.2009 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband