45 ára í dag

Hálf níræður er svo sem ekkert merkilegt afmæli.  En er það samt í mínu tilfelli.  Ég ákvað nefnilega fyrir 2-3 árum síðan að fara í magaminkun (gastric bypass) þegar ég yrði 45 ára ef mér tækist ekki að snúa blaðinu við og taka upp heilbrigðari líferni.  Ég komst ekki lengur niður í þvottahús, þurfti að biðja kallinn um að taka þvottakörfuna með sér niður og skila henni upp eftir þvott.  Til að komast stigann heima hjá mér þurfti ég liggur við að ræsa út hjálparsveit.  Ég hef verið mikil útivistarmanneskja í gegn um tíðina og er í gönguklúbb með hressum kellum á sextugsaldri.  Ég, verandi unglingurinn í hópnum, 43 ára, treysti mér einfaldlega ekki í fjallgöngu í þáverandi ástandi.  Til að komast í fjallgöngu með gönguklúbbnum, yrði ég að léttast og auka þolið.

Á hverjum sunnudegi varði ég dágóðum tíma í að tína allra handa lyf ofan í lyjabox.  Lyf til að bæla verki, til til að bæla óeðliega taugaverki, lyf til að lækka kólesterol, lyf til að lækka gallsýrur, lyf til að lækka blóðsykur, lyf til að bæta sykurstjórnun og það stefndi í þunglyndislyf til að hífa geðið upp, en skiljanlega var maður orðin pínu niðurdreginn verandi offitusjúklingur með stóru O-i.

Ég skal alveg viðurkenna að í fyrra þegar ég tók þessa ákvörðun átti ég frekar von á að ég sæti við símann að panta tíma hjá skurðlækni, en sitja og panta hjólaföt á netinu.  Í fyrra var ég í stærð 56, í dag er ég í stærð 46 og get verslað föt í "venjulegum" búðum.  Ég er búin að leggja öllum lyfjum, nema sykursýkislyfjunum, ég er búin að minnka skammtinn á þeim og vonandi ekki langt í að ég geti lagt þeim alfarið.  Þá verð ég "lyfjalaus" í fyrsta skipti í ein 10 ár.

Ég er svo sem ekkert sérlega hrifin af því að birta mynd af mér eins og ég leit út þá, en ef þetta gæti orðið einhverjum hvatning til að breyta um lífsstíl og breyta lífi sínu til hins betra og bæta líðanina u.þ.b. þúsundfalt á aðeins einu ári, þá ætla ég að birta verstu mynd af mér allra tíma.  Og með fylgir mynd eins og ég lít út í dag.  Eina sem ég gerði var að breyta lífsstílnum, hreyfa mig meira (hjólreiðar) og borða aðeins minna.  27 kíló farin af 40 óþarfa aukakilóum sem ég sankaði að mér á 10 ára tímabili.

2007-2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Innilega til hamingju með sjálfa þig. Glæsilegur árangur

Heiða B. Heiðars, 13.8.2009 kl. 21:21

2 Smámynd: Anna

Til hamingju með árangurinn.  Aðdáunarvert hjá þér.

Anna, 13.8.2009 kl. 21:36

3 identicon

Innilega til hamingju með afmælið og þennan frábæra árangur, þú ert glæsileg.

Sigríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 22:10

4 Smámynd: Morten Lange

Flottur árangur hjá þér Hrönn, og flott hjá þér að segja frá þessu !

En mig langar að viat meira ef það er í lagi :-)  

Hversu mikið minni hefur þú borðað og hversu mikið hjólað ? 

Hefur þú hjólað eitthvað meira en í og úr vinnu, nema núna í sumar ? 

Hvernig hefur tíminn sem það tekur að hjóla í og úr vinnu þróast ?

Morten Lange, 14.8.2009 kl. 11:35

5 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Ég hjóla eiginlega allt sem ég þarf að fara í dag.  Til að byrja með hjólaði ég bara til vinnu, svo bættist allt skrepp við (búðarferðir, kóræfingar, heimsóknir, sund) og nú er svo komið að ég verð eiginlega að skreppa út í hjólatúr á kvöldin, þó að ég sé búin að hjóla 20 km eða meira yfir daginn.  Hjólreiðarnar eru orðnar nokkurs konar fíkn hjá mér.  Sem er bara hið besta mál.

Varðandi mataræðið, þá munar mestu um sælgætið.  Ég skar það alveg niður um 90%.  Ég keypti mér t.d. oft majones samloku í kaffinu, með gosi og nokkrum súkkulaðistykkjum.  Búin að skipta þessu út fyrir ávexti og jógúrt.  Borða minna af brauði en ég gerði, og svo fæ ég mér ekki aftur á diskinn.  Ég leyfi mér samt alveg að fá mér kökur og súkkulaði öðru hvoru.  En núna hefur löngunin í sætindi minnkað mikið, þetta hefur orðið auðveldara með tímanum.

Ég var ca hálftíma að fara í vinnuna síðasta sumar.  Ég er ennþá hálftíma hvora leið, en það er bara af því ég hjóla iðulega lengri leið í dag.  Fer Sæbrautina í staðinn fyrir Miklubraut eða í gegn um Fossvoginn.  Tek jafnvel túr út á Seltjarnanes ef veður er gott og ég ekki tímabundin.  Leita uppi brekkur sem ég forðaðist áður.  Í fyrra þegar ég byrjaði að hjóla aftur eftir nokkurt hlé, þá gat ég ekki hjólað upp brekkuna á Miklubraut (við Kringluna), þurfti að leiða hjólið.  Í dag fer ég þetta auðveldlega, jafnvel í 3ja gír.  Get hjólað standandi sem ég gat alls ekki í fyrra.

Hjóla-Hrönn, 14.8.2009 kl. 14:04

6 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir svörin, Hrönn :-) 

Hef samt smá áhyggjur : Þurfa menn í svipuðum sporum og þú  að skipta  út "sukkulaðifíkn"  með  "hjólafíkn" ?    

Eða kom árangurinn áður en þó fórst að hjóla allar þínir ferðir og lengja ferðirnar ? 

Morten Lange, 14.8.2009 kl. 14:20

7 Smámynd: Morten Lange

Heh, tek það reyndar fram að orðið "fíkn" sé kannski notað pínu óvarlega hér , og þá hjá okkur báðum.  

Svo eru ymsar afleiðingar hjólreiða líka svo jákvæðar.  Fyrir heilsu, umhverfi/mengun, borgarbrag,  fjárhag, sjálfvirðing, margvislegan sparnað samfélagsins osvfrv. 

Morten Lange, 14.8.2009 kl. 14:23

8 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Já, fíkn er þannig lagað neikvætt orð, en ef ég kemst ekki á hjólið einhvern daginn er ég ferlega eirðarlaus og finnst eitthvað vanta.  Árangurinn kom smám saman um leið og ég fór að hjóla í vinnuna í apríl á síðasta ári, en hefur samt verið mestur í sumar eftir að ég fór að hjóla ca 60-80 km á dag.  Hefði ábyggilega gengið hraðar ef ég hefði tekið mataræðið fastari tökum í upphafi.  Jebb, engin spurning, það er allt jákvætt við hjólreiðar, bæði fyrir þann sem hjólar og samfélagið í heild. 

Hjóla-Hrönn, 14.8.2009 kl. 19:24

9 identicon

Já Hrönn mér finnst þú líta vel og til hamingju með áranginn. Ég man að ég sá þig fyrir nokkrum árum í Víkingsheimilinu - strákurinn þinn var í karate - ég var ekki viss um að þetta væri þú.

Þú mátt alveg vera ánægður með lífið og tilveruna! Hver veit nema að ég taki þig til fyrirmyndar - hef bætt ótæpilegu á mig síðustu árin -

kveðja Magga Friðþjófsd - gömul skólasystir

Margrét V Friðþjófsdóttir (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 19:45

10 Smámynd: steinimagg

Þetta er bara glæsilegt hjá þér og til hamingju með daginn um daginn :-)

steinimagg, 23.8.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband