Hættuleg vika framundan

Í síðustu tvö skipti sem kallinn hefur brugðið sér út fyrir landsteinana hef ég endað á sjúkrahúsi.  Síðast fékk ég influensu, og fór á Tamiflu á fimmtudegi, svo ég yrði nú orðin hress um helgina, verandi ein heima með tvo krefjandi gorma.  Á sunnudag var ég búin að kasta stöðugt upp (fattaði ekki að það var aukaverkun af Tamiflu) pjakkarnir búnir að lifa á vatni og frosnum pylsubrauðum í tvo daga og það leið yfir mig ef ég reyndi að komast fram úr rúminu til að sinna þeim.  Svo ég endaði inni á sjúkrahúsi í tvo daga með næringu í æð.

Þar áður þegar kallinn fór erlendis sprakk botnlanginn í frúnni.  Ég inn á spítala í bráðaaðgerð.  Bóndinn hefur ekki hætt sér í útrás í meira en ár, en nú er hann floginn.  Og við bæði ábyggilega með smá kvíðahnút, hvað skyldi nú koma fyrir kellinguna á meðan hann er úti.

Það datt bíll ofan á mig í dag.  Þetta var ekki leikfangabíll, heldur alvöru 1.4 tonna bíll.  Það sprakk hjá mér og ég þurfti að skipta um dekk.  Það gekk brösuglega að tjakka bílinn upp, ég var búin að gera 2 tilraunir, en alltaf rann bíllinn aftur á bak og hlunkaðist niður af tjakknum.  Strákarnir voru með mér í bílnum og ég lét þann eldri sitja í bílstjórasætinu og stíga á fótbremsuna, bölvandi asnanum sem gaf bílnum skoðun fyrir mánuði síðan, því handbremsan hlýtur að vera léleg, hún ein og sér á að halda bílnum kyrrum.  Nema þetta gerðist aftur þegar ég var búin að koma nýja dekkinu á en ekki búin að setja boltana í, þá byrjar tjakkurinn að skrika til (strákurinn ekki enst á bremsunni, undir stöðugu áreiti frá litla bróður í aftursætinu), hendin á mér var þá á milli dekks og bíls og auðvitað klemmdist ég, bíllinn fór að renna aftur á bak, dekkið skekktist og hendin klemmdist meir og meir og ég dróst niður.  Einkennilegt hvað flýgur í gegn um hugann við svona aðstæður.  Tíminn stoppar og allt fer í hægagang.  "Kallinn verður brjálaður!" var mín fyrsta hugsun, "Hvernig skipti ég um gír á hjólinu ef ég missi hendina" var svo næsta hugsun.  En svo hrökk dekkið af, ég losnaði og slapp með marið, blátt og bólgið handarbak.

Ætli ég reyni ekki að halda mig bara á hjólinu þessa viku, bílar eru stórhættulegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: steinimagg

Það er nú voða gott að setja stein eða eitthvað við þekkin ef bíllinn er í rekku eða snúa honum aðeins td að kanti eða einhverju :-)

steinimagg, 4.10.2009 kl. 10:50

2 Smámynd: Snjalli Geir

Svo má reyna að hringja í vin....eða fjölskyldumeðlim sem er hjálpfús.....???????  Maður á líka að láta bílinn renna í hlutlausum þar til hann stoppar alveg.  Svo að setja steina eða eitthvað annað fyrir dekkinn og byrja svo á að losa um rærnar, tjakka, skipta um, setja boltana fasta en ekki herða strax og slaka niður og herða svo allt í botn. 

Við kallinn skiptum um 2 dekk á jeppanum í gær og það var ekki vandamál enda vanir menn á ferð.  Vorum að setja nagla dekkin undir fyrir ferðina vestur.  Það er komin hálka á heiðarnar fyrir vestan.

Snjalli Geir, 26.10.2009 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband