Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hjólað á Kanarí

Búið að vera eitthvað svo kalt og drungalegt undanfarið, svo ég ákvað að hlýja ykkur með smá ferðasögu frá suðrænum slóðum. 

Árið 95 fór ég til Kanarí með foreldrum mínum.  Eftir tvær vikur vorum við búin að fara í hverja einustu skoðunarferð og ég orðin hundleið á ströndinni og þessum tveimur, þremur verslunarkjörnum sem var hægt að fara í.  Þá rakst ég á hjólaleigu og ferðin breyttist í skemmtilega hjólaferð.  Fyrsta daginn hjólaði ég til Mogán, vinalegs sjávarþorps á austurströndinni. 

Untitled Scanned 01

Ég hjólaði þar á hraðbraut með 120 km hámarkshraða.  Umferð var töluverð en ég hafði ágætis pláss til að hjóla.  Það var bara á einum stað sem mér leið illa, en það var þegar ég fór í gegn um niðadimm göng í gegn um klett, þá vissi ég vel að ég var ekki sýnileg, og ökumenn voru ekkert allir að kveikja ljósin, en göngin voru bara nokkur hundruð metra löng.  Einn keyrði fram hjá mér ljóslaus í göngunum á ofsahraða og ég var næstum búin að missa stjórn á hjólinu þegar ég lenti í vindhviðunni sem fylgdi bílnum.  Þegar ég fór til baka beið ég uns langt var í næsta bíl og hjólaði svo eins hratt og ég gat í gegn.  En Mogán beið eftir mér, fallegur og friðsæll.

 Untitled Scanned 01c

Ég eyddi deginum í að hjóla um nágrennið, klifra upp brattar tröppur, fá mér bjór og annan og snæða á litlum vinalegum veitingastöðum.  Og svo synda í svölum sjónum áður en ég fór aftur heim rétt fyrir myrkur. 

Untitled Scanned 02 

Hér hefur Ísland eitt framyfir, og það er birtan, hægt að hjóla allan sólarhringinn og maður er ekki bundinn af myrkrinu að koma sér á áfangastað.Svona liðu næstu dagar, ég fór að heiman eftir morgunmat, skildi gömlu hjónin eftir skjálfandi á beinunum, fór ýmist meðfram ströndinni á hraðbrautinni eða fór upp í fjöllin. 

Untitled Scanned 03b

Þetta hefur greinilega verið á litríka tímabilinu, og þessi fatnaður er úr flís.  Fór líka svona klædd *hjálpi mér* í brakandi sól upp á Hvannadalshnjúk þar sem ég komst að því að tannholdið og slímhúðin í nösunum getur líka sólbrunnið við endurkastið frá snjónum.

Untitled Scanned 03c 

Ég trúi á fyrri líf og framhaldslíf.  Það er ekki einleikið hvað ég verð einkennileg ef ég sé þröngar götur, tröppur, steinhleðslur og afskekkt býli.  Ég hef einhvern tíma í fyrra lífi búið á Ítalíu eða Spáni í einhverju heillandi fjallaþorpi. 

Untitled Scanned 04

Þegar ég hjólaði fram hjá þessu afskekkta ávaxtabýli, varð ég alveg veik.  Þorði samt ekki að fara upp að húsinu til a athuga hvort það væri í eyði.  En næst þegar ég fer til Kanarí á ég pottþétt eftir að hjóla alla fjallaslóðana í leit að býlinu, banka upp á og athuga hvort það sé til sölu.  Eitthvað verður maður jú að gera í ellinni, og ég sé mig alveg í anda eyða hluta af vetrinum í að hjóla um Kanarí...

Untitled Scanned 04b 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband