Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Ef það er eitthvað nýtilegt í mér, þá má hirða það

Finnst rauninni skrítið að það sé ekki búið að setja nein lög hérlendis um þessi mál.  Ég er með svona lítið blátt kort í veskinu, þar sem kemur fram að það megi nota líffærin úr mér eftir andlát.  En það hefur ekkert lagalegt gildi, ættingjar mínir ráða eftir sem áður hvort líffærin verða nýtt eða hvort þau verða grafin með mér eða brennd.

Og hvernig á framkvæmdin að vera?  Skrá þetta í ökuskírteinið?  Hérlendis gilda ökuskírteini til 70 ára aldurs.  Sumir eru ekki með ökuskírteini.  Á þá að gefa út ný skírteini á alla núlifandi Íslendinga, 17 ára og eldri hvort sem þeir eru með ökuréttindi eður ei?  Þá réttindalaus ökuskírteini á suma eins kjánalega og það nú hljómar.  Eigum við að skrá þetta á skattaskýrsluna, og svo geta valdir aðilar innan heilbrigðisgeirans flett upp kennitölunni í gagnagrunni og séð óskir hins látna?

Mér lýst alla vega vel á finnsku leiðina, að sjálfkrafa séu allir lögráða líffæragjafar, en fólk hafi þó möguleikann á að hafna því að gerast líffæragjafi.


mbl.is Líffæragjöf verður sjálfkrafa í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakaffi á Mosfellsheiðinni

12-26 030

Jólakaffið var fremur óhefðbundið þetta árið, ég ákvað að klára þennan hring í Mosfellsdalnum sem ég byrjaði á fyrir tveimur vikum.  Það var 3 stiga frost og nokkuð stífur vindur.  Ég fann skjólgóða laut á heiðinni, fékk mér möndlukökur og kaffisopa.

12-26 024

Þetta var fremur grófur línuvegur, sæmilegur framan af, en breyttist svo í grófan slóða.  Sennilega fremur illfær ef jarðvegur er blautur, en nú var hann vel frosinn og ég gat auðveldlega hjólað þetta.  Rámaði í að ferðafélagar mínir Bryndís og Garðar hafi hjólað þennan línuveg fyrir nokkrum árum, þá á leiðinni til baka frá Þingvöllum.  Bryndísi þótti vegurinn afar slæmur og hún talaði um að þau hafi þurft að teyma hjólin í langan tíma.  Ég var að hugsa að þetta væri nú ekki svo slæmt, þegar einhverjum álfinum hefur þótt ráðlegt að lækka í mér rostann, það var eins og einhver hefði sparkað mér snögglega á hliðina, skarta núna 7 marblettum frá ökkla upp á upphandlegg.  Hér datt ég, þessir steinar voru ekki beint þægilegir að lenda á, en þá er gott að vera svolítið bólstraður, ég er farin að hafa smá áhyggjur af því að ég fari verr út úr byltunum þegar (ekkert "ef" lengur) ég kemst niður í kjörþyngd.  Var að skoða kortið og staðurinn heitir Illaklif, mjög viðeigandi örnefni:

12-26 035 

12-26 013

En allt slíkt gleymist við fallegt útsýni, ferskt heiðaloftið og kyrrðina..., eh, nei, ekki er hægt að tala um kyrrð, vindurinn söng og kvein í rafmagnsmöstrunum.

12-26 003

Ég var svolítið dúðuð á minn mælikvarða, í ullarbol innst, svo þunn æfingatreyja þar utanyfir og svo önnur æfingatreyja yst fata.  Ég gleymdi vestinu og hjálminum heima.  Ætlaði að vera í gula endurskinsvestinu og hefði þá sleppt annarri treyjunni.  Ég kippti henni með svo ég gæti farið í þurra treyju ef ég skyldi blotna á leiðinni.  Betra að vera með aðeins of mikið af fötum með sér en aðeins of lítið.  Svo var ég í þunnum ullarbuxum og venjulegum hjólabuxum utanyfir.  Í þunnum ullarsokkum og vinnuskóm kallsins, þ.e. ég rændi þeim af honum fyrir ári síðan.  Fer ekki að finna fyrir kulda í þeim fyrr en í -10 stiga frosti, ef það er sterkur vindur.  Flíshúfa, legghlífar og skíðahanskar.

12-26 018

Hvað er þetta með mig og Mosfellsdalinn?  Gemsinn minn verður alltaf rafmangslaus og ég næ ekki niður á veg fyrir myrkur.  En ég náði sólarlaginu þrisvar sinnum, af því ég var á leiðinni upp á heiðina þegar sólin settist.

12-26 043

Ég var eiginlega heppin að það skyldi vera frost, því það þarf að fara yfir ána Bugðu, og mér sýndist hún vera töluvert vatnsmeiri en Leirvogsáin sem rennur hinu megin í dalnum.  En áin var alveg frosin og ísinn virtist vera 20+ cm á þykkt, annars hefði ég kannski neyðst til að fara aftur til baka, og það hefði ég gert frekar en fara mér að voða.  Nei, þetta er ekki Bugða, maður hoppar bara yfir svona sprænur.  Svolítið varasamt að fara yfir brúna, hún lítur ágætlega út þegar maður kemur að henni...

12-26 039

En svo var ástandið svona þegar betur var að gáð:

12-26 040

12-26 028

12-26 010


Fyrir þá sem misstu af Coca Cola lestinni

Þá ætla ég að dressa mig upp í jólasveinabúning og hjóla með jólakortin til vina og ættingja á höfuðborgarsvæðinu.  Með blikkandi ljós að sjálfsögðu.  Til að hjólalestin verði tilkomumikil verð ég með nokkra flotta meðreiðarsveina....

hjolasveinar


Tröllafoss - Mosfellsdalur

12-06 005 

Ætlaði að taka léttan hring i Mosfellsdalnum í dag.  Hafði fyrr í haust lesið um Tröllafoss en greinilega búin að gleyma öllu sem ég las.  Þessi hringur er tæpir 20 km og ég bjóst við að vera hámark 2 tíma í ferðinni.  Með áningu við Tröllafossinn sjálfan.  Well, hlutirnir vilja oft fara aðeins öðru vísi en maður ætlar.  Ég ætlaði að hjóla fjólubláu og rauðu leiðina, en varð að stytta túrinn.

Tröllafoss

Vegurinn var þokkalegur malarvegur framan af, ég jafnvel hugsaði með mér að þetta væri auðveldara en að hjóla á milli Garðs og Sandgerðis á jafnsléttu.  En leiðin breyttist fljótlega, ég var ýmist á fínasta skautasvelli, snjóskafli, moldarsvaði eða ofan í djúpum pollum.  Þetta varð því að gönguferð með hjólið, frekar en hjólaferð.

12-06 012

Ég gekk öðru hvoru fram á brúnina til að finna fossinn, en tókst með minni vanalegu heppni að missa af honum.  Ekki það að útsýnið hafi ekki verið magnað og náttúran falleg, en ég ætlaði nú einu sinni að berja þennan foss augum.

  12-06 010

En ég vissi að náttmyrkrið myndi skella á upp úr kl 16, og þar sem slóðinn hvarf öðru hvoru var ég ekki viss um að rata aftur til byggða eftir myrkur.  Gemsinn minn var líka orðinn rafmagnslaus svo ég ákvað að drífa mig út á malbik frekar en fara til baka og leita að fossinum.  Það má alltaf fara seinna við betri aðstæður.  Þetta hefði sennilega verið lítið mál um síðustu helgi, þá var frost en ekki búið að snjóa eins mikið, þá hefði færðin verið betri. 

12-06 016

Sko, maður er aldrei ánægður.  Í dag var logn, 4 stiga hiti og sól.  Þá kvartar maður yfir því að það hafi ekki verið nógu kalt.  Meira að segja hægt að ganga léttklæddur í "vetrarhitanum"

12-06 014

Þegar ég las um Tröllafossinn fyrr í haust ákvað ég að taka með vaðskó, því það þarf að vaða Leirvogsána.  Auðvitað mundi ég ekkert eftir því þegar ég var að pakka niður fyrir ferðina.  Ég tók ekki einu sinni með nesti, þetta átti að vera svo létt og auðvelt.  Ég hætti fyrst við að fara yfir ána, var ekki með handklæði og var ekki alveg til í að vaða hana berfætt á þessum árstíma.  Teymdi hjólið meðfram árbakkanum nokkurn spöl í leit að betra vaði.  Ákvað svo að steðja beint yfir melana og teyma hjólið yfir að Þingvallavegi, en þar eð jarðvegurinn var ansi þúfóttur og grasið hátt, þá gafst ég fljótlega upp á þeim barningi.  Ég náði líka að hlunkast ofan í smápoll á leiðinni, svellið gaf sig og ég fór ofan í upp fyrir ökla.  Svo ég gat allt eins vaðið ána, úr því ég var orðin blaut í lappirnar.  Fann stíginn fljótlega og var komin niður á Þingvallaveg eftir nokkrar mínútur.  En þá var ferðin búin að taka rúma 2 tíma og ég ekki hálfnuð með leiðina.  Farið að dimma og mér orðið kalt.  Ákvað að stytta túrinn og geyma hinn helminginn til betri tíma.  Ótrúlegt að lenda í óbyggðahremmingum fokking hálftíma frá Reykjavík

12-06 001

12-06 006

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband