Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Hjólaði þvert yfir Ísland

07 26 011
Þegar menn segjast hafa farið hringinn í kring um Ísland, eru Vestfirðirnir iðulega skildir útundan.  Teljast ekki með.  Kannski skiljanlegt í gamla daga þegar vegir á kjálkanum voru verulega vondir og eiginlega bara færir traktorum.  Svo ég ákvað að heiðra Vestfirðina sérstaklega og hjóla þvert yfir Ísland, Steinadalsheiðina.  Frá Kollafirði við Húnaflóa að Gilsfirði við Breiðafjörð.  Það þarf ekkert alltaf að fara lengstu leiðina við að þvera Ísland, er það nokkuð?
.
07 24 001
Steinadalsheiði er 17 kílómetrar, ég bjóst við að verða 3 tíma að hjóla fram og til baka, en gleymdi að taka hækkunina með í reikninginn.  200 metrar virkar eitthvað svo lítið þegar maður hugsar þversum.  En þegar maður þarf að hjóla upp í 200 metra hæð, þá er það smá puð.  Ég kom keyrandi að Kollafirðinum, lagði bílnum þar og hjólaði svo á fínum malarvegi framan af, svo á aðeins grófari vegarslóða, þurfti að fara yfir nokkur vöð og svo þurfti ég að teyma hjólið upp bröttustu brekkurnar.
.
07 23 011C
Pabba leist nú ekki alveg á að ég ætlaði að hjóla þetta, "þetta er eiginlega jeppatroðningur" sagði hann.  Ja, ég verð nú að segja að það hafi verið þægilegra að hjóla Steinadalsheiðina en sumar göturnar á Ísafirði, ég get svo svarið það, ég fann nýrun og eggjastokkana skipta um staðsetningu þegar ég hjólaði Hlíðarveginn, sem á þó að heita malbikaður.  Gaman samt að sjá hvað það er mikil hjólamenning á Ísafirði.
.
07 25 019
Letin bankaði upp á Gilsfjarðarmegin, ég ákvað að húkka mér far til baka yfir heiðina, leist ekkert á að teyma hjólið upp allar brekkurnar sem ég var nýbúin að húrra niður og þægilegi meðvindurinn sem ég hafði haft í vesturátt hafði breytt sér í þokkalegan storm og það var byrjað að rigna.  Hóst, og svo átti þetta eiginlega að vera auðveldur sunnudagshjólatúr til að hrista úr sér timburmennina.  Hefði þá bara keyrt heiðina til baka og sótt hjólið, ég treysti mér alveg til að keyra hana á smábílnum sem ég var á, þó að heiðin sé rækilega merkt 4x4 Torleiði, vegurinn var alveg ágætur. 
.
07 26 009
Það var of kalt til að bíða hreyfingarlaus eftir fari, svo ég ákvað að rölta rólega af stað með hjólið upp á heiði.  Ég mætti bara einum bíl þá tvo tíma sem ég var að fara hana í vesturátt, svo ég var ekkert viss um að neinn myndi fara hana í austurátt, ég var ekki viss um að ég gæti teymt hjólið upp alla leið vegna þess að ég var ekki orðin góð í bakinu, plan B var að leggja frá sér hjólið og labba alla leið yfir að bílnum.  Það myndi taka mig 3-4 klukkutíma sem hefði svo sem verið allt í lagi, á meðan það er ennþá bjart á kvöldin.
.
07 26 005
Þegar ég var búin að labba og teyma hjólið í rúman klukkutíma kom fyrsti bíllinn.  Á móti mér.  Fólkið stoppaði og hrósaði mér í hástert fyrir dugnaðinn, ég var meira að segja mynduð í bak og fyrir.  Ég fylltist krafti við þetta og eftir þó nokkuð margar mínútur í viðbót af þrammi upp á við var ég komin upp á háheiðina og eftir það lá leiðin aftur niður á við.  Reiknaði með 3-4 tímum í austurátt vegna mótvinds, en var bara 2 og hálfan.
.
Á meðan ég húrraði niður brekkurnar austan megin var ég alveg steinhissa, mundi ekki eftir að hafa labbað svo lengi upp í móti, maður gleymir sér einhvern veginn á einkennilegan hátt einn í náttúrunni, tíminn verður afstæður og hættir að skipta máli.
.
07 26 012

Sumarfrí - afslöppun

Ég fékk leigðan sumarbústað á Ísafirði og keyrði vestur með strákana mína, pakkfullan bíl af farangri og hjólin okkar aftan á.  Planið var að herða drengina aðeins upp í fríinu, hjóla, synda og spæna upp og niður Tungudalinn og svo líka slappa hæfilega mikið af enda veðurspáin dásamleg.

07 25 003

Fyrsta daginn datt yngri strákurinn af hjólinu og skrapaði skinnið af enninu, olnboganum og maganum.  Næsta dag var eldri pjakkurinn næstum því búinn að reka sig í hvassan greinastúf í brekkunni fyrir ofan Tungudal, og á meðan ég las yfir honum að gæta að hvar hann stigi niður í skóglendi, hrasaði ég á #$%#%$ trjástubbinn og fékk stóran skurð á lærið.  Þriðja daginn byrjaði ég svo á túr.  Men, þetta er búin að vera ansi blóðug sumarbústaðaferð!

07 25 013

Þar með duttu bæði sund og hjólaferðir út af dagskránni, slasaði pjakkurinn harðneitaði að hjóla meira á þessum vonlausu vestfirsku vegum.  Svo þeir eru búnir að liggja inni í sófa við videogláp og ég úti á palli í sólbaði.  Ég er ekki hönnuð fyrir svona hreyfingarleysi og endaði með bévítans tak í mjóbakinu, get varla snúið mér í rúminu né gert nokkurn skapaðan hlut.  Svo ég sá ekkert annað í stöðunni en senda drengina suður með flugi til pabba síns, næstu tvo daga verð ég á kojufyllerí í sumarbústaðnum í von um að bakverkirnir lagist, en svo ætla ég að hjóla bara og aðeins þvert yfir Ísland!

07 25 004


Reykjanes

Þó að ferðalagið hafi gengið glimrandi vel, verður þó ein hrakfallasaga að fylgja með.  Sunnudaginn síðasta var steikjandi sól og hitinn um 22 gráður.  Planið þann daginn var að hjóla frá Keflavík og þræða nokkur sjávarþorp á Reykjanesinu.  Koma við í Höfnum, en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma komið þangað.  Hjóla niður að Reykjanesvita og fara í sund í Grindavík áður en hjólað yrði aftur til Keflavíkur.  Ég vildi ekki hjóla á Reykjanesbrautinni, svo ég valdi að taka malarstíg sem lá frá Grindavíkurvegi að afleggjaranum til Hafna.  Samtals yrðu þetta um 70 km með Reykjanesvitanum, en ég hafði allt kvöldið og þess vegna alla nóttina til að komast hringinn.  Þar eð hitinn var svona mikill var ég bara klædd í stuttbuxur og brjóstahöld.  Varð þó að vera með gula vestið þar eð ég var á malbikuðum akvegum og gæti allt eins búist við að ökumenn væru á mikilli ferð og því gott að þeir sæju mig í tíma.

07 12 010 

Ferðin gekk glimrandi vel framan af, en þegar ég var hálfnuð að Reykjanesvita var farið að blása svolítið hraustlega á móti og mér orðið kalt.  Ákvað að fara í langermabol á meðan vindurinn var á móti, vissi að frá Grindavík fengi ég meðvind.  Stoppa og gref ofan í bakpoka.  Úps, aukafötin urðu eftir í bílnum Frown  Ég vó og mat aðstæður, ef ég héldi áfram að fara hringinn, þá fengi ég hliðarvind frá Reykjanesvita að Grindavík.  Svo yrði meðvindur frá Grindavík að Keflavík.  Gæti stoppað í Grindavík og fengið mér að borða eða farið í sund eins og upphaflega planið var.  En svo fattaði ég að ég gæti nú hvergi farið inn á matsölustað á brjóstahaldaranum einum fata.  Eða lítandi út eins og hálfviti í gula endurskinsvestinu, sem er opið á hliðunum.  Og ekki víst að það væri opið frameftir á sunnudegi í sundinu.  Eða ég gæti snúið við strax og hjólað aftur sömu leið til baka, en þá fengi ég ská-mótvind frá Höfnum að Keflavík.  Svo ég ákvað að halda áfram, tók handklæðið úr sundpokanum og strengdi yfir axlirnar innan undir vestinu.  Var með buffið og notaði það til að halda hita á hálsinum og eyrunum.  Á leiðinni til Grindavíkur varð sífellt kaldara og smám saman dró fyrir sólu, uns það var orðið alskýjað og ég komin með tannaglamur af kulda.

Þá spáði ég virkilega í því að skilja hjólið eftir og húkka mér far að mínum bíl.  Koma svo á bílnum og sækja hjólið.  En var nú ekki alveg á því að fólk myndi stoppa til að gefa mér far, lítandi svona út, þetta ljósbláa er handklæðið.

07 12 001

Og ábyggilega því síður ef ég hefði farið úr vestinu og staðið þarna á brjóstahaldaranum við að húkka far.  Hmmm, eða kannski menn stoppað og haldið að ég væri að bjóða eitthvað í skiptum fyrir farið....

Svo það fór svo að ég ákvað að hjóla áfram eins og fjandinn væri á hælum mér, sleppa malarstígnum og taka Reykjanesbrautina í staðinn.  Þó að það sé þægilegt að hafa smá vegaröxl til að hjóla á, þá víkja ökumenn ekki við þær aðstæður.  Ekki einu sinni þó að það séu tvær akreinar og lítil umferð.  Og hávaðinn frá dekkjunum er einhvern veginn mun meiri og óþægilegri þegar menn fara fram úr á 110 km hraða en þegar hraðinn er 60-70.

Eftir á reiknast mér til að ég hafi hjólað um 65 km.  Á 3 og hálfum tíma.  Með hæfilegu drolli framan af á meðan veður var gott.  Ætli það sé þá ekki bara Bláa-lóns keppnin á næsta ári?

Bíllinn minn getur ekki talist sá glæsilegasti heimi, 11 ára gamall Opel Vectra.  En mér fannst þetta sko flottasti bíll sem ég hef nokkurn tíma sest uppí þegar hann tók á móti mér sjóðandi heitur eftir að hafa beðið eftir mér í sólinni í Keflavík.


Hjólað um sveitir Íslands

07 10 006
Bílstjórar fá hrós frá mér fyrir alveg einstaka tillitssemi.  Allir sem einn viku yfir á hina akreinina, allir hægðu ferðina sem mættu mér á malarvegum og einstaka stoppaði meira að segja til að ég fengi ekki rykmökkinn yfir mig eða steinakast.  Ég er búin að hjóla tæplega 400 kílómetra á síðustu 6 dögum og bara aldrei þessu vant hef ekki yfir neinu að kvarta.  Bara alveg í skýjunum með vel heppnaða hjólaferð.
.
07 10 018 
Það var hjólað á malbiki og malarvegum um sveitir Vesturlands og Reykjaness, alein í heiminum á köflum, stundum töluverð umferð og einu sinni neyddist ég til að stytta túr og hjóla á Reykjanesbrautinni.  En ætlunin var að halda mig fjarri Þjóðvegi 1 og öðrum álíka umferðargötum.
.
07 10 013 
 . 
Ég varð að skipuleggja ferðina þannig að ég keyrði á upphafspunkt, svo var hjólað í 20-60 kílómetra hring, aftur að bílnum.  Svo var keyrt á næsta stað og hjólað meira eða inn á tjaldstæði þegar leið að miðnætti.  Það er mjög þægilegt að hjóla á kvöldin á Íslandi, næg birta, það lygnir oft á kvöldin og það eru færri bílar á ferli.
.
07 11 012
.
07 10 010 
.
07 10 011 
Suma 20 km hringina var ég 4-6 tíma, bara við að skoða krúttleg sveitabýli eða taka smá kríu, vaknaði einu sinni sólbrunnin á bakinu eftir 2ja tíma dúr, en með skemmtilegt mynstur á lærunum eftir grasið.
.
07 11 009  
.
07 10 015 
 . 
Ég býst við að þurfa að hætta að mála mig hér á blogginu sem hálfgerðan aumingja, ég verð samt að viðurkenna að ég sakna svolítið hetju-stílsins sem ég gat gortað af síðasta vetur.  Fertug kelling með fjörtíu aukakíló að böðlast áfram í brjáluðum blindbyl um hávetur.  Það er svolítið töff á prenti.  Núna eru aukakílóin bara 15 og ekkert þrekvirki að hjóla um með svoleiðis lítilræði.  Annar hver kjaftur á Íslandi í sama ásigkomulagi.
.
07 11 006
Ég er fremur lystarlítil þegar ég hjóla.  Þegar ég fór á Nesjavelli var ég með nokkur kíló af nesti, pasta-salat, flatbrauð, samlokur, ávexti.  Ég kom aftur heim með 90% af nestinu.  Þegar ég kem á áfangastað er ég svo ekki í neinu stuði til að fara að brasa með prímus eða grilldót.  Svo ég ákvað að prófa að taka með mjög minimalískt nesti og sjá hvernig það kæmi út upp á svengd og orku.  Nestið yfir daginn var 5 bréf af Núpó næringardrykk og svo skammtaði ég mér 3-5 kex í hvert mál.  Þetta tekur lítið pláss í farangri og dugði fínt þó að vissulega hafi kosturinn verið pínu tilbreytingarlítill þegar leið á ferðina.  En ég veit alla vega núna að þetta nesti dugar ef ég fer í lengri samfellda hjólaferð, það er aldrei að vita nema ég geymi bílinn heima næst.
07 11 003
Og þá er bara spurningin, voru þetta ísbirnir sem ég sá á rölti hinu megin við Hvítá?
.
07 11 010

Hjóla-Hrönn vs Ísbjörn

Hver skyldi vinna þá viðureign?

Á árum áður var ég mikið ein á flækingi upp um fjöll og firnindi, og var svo sem ekki með áhyggjur af einu né neinu, enda einhleyp og barnlaus.  Núna get ég ekki alveg leyft mér að gassast áfram eins og ég sé ein í heiminum eigandi tvö börn á grunnskólaaldri.  Hér áður fyrr breyttust ferðaplönin oft með engum fyrirvara, t.d. ætlaði ég einu sinni að ganga frá Hvalfirði yfir að Þingvöllum, tjalda þar og labba til baka næsta dag.  En þegar ég kom í Hvalfjörð var þar hífandi rok og ekki stætt úti.  Svo ég ákvað að keyra aðeins áfram og sjá til hvort veðrið skánaði, það er merkilega oft brjálað veður bara í Hvalfirði, en rjómablíða nokkrum kílómetrum sunnar eða norðar.  Ég stoppaði í Hreðavatnsskála til að fá mér hamborgara og rak augun í auglýsingu um dansleik, Bogomil Font og Milljarðamæringarnir áttu að spila.  Þá voru þeir ekki orðnir frægir, en ég ákvað að slaufa gönguferðinni fyrir fyllerí, keypti mér svefnpokapláss í Bifröst og fór svo á djammið.  Þetta varð ekkert smá skemmtilegt kvöld þar sem ég dansaði alla nóttina við fótbrotinn trukkabílstjóra, sem var merkilega fimur á dansgólfinu þrátt fyrir hækju og gifs.

Nú er ég að fara ein út úr bænum í fyrsta sinn í ja, 11 ár.  Þar eð ég er hrakfallabálkur hinn mesti ákvað ég að prenta út leiðarlýsinguna fyrir bóndann, svo hann vissi hvert hann ætti að senda hjálparsveitirnar ef ég myndi ekki skila mér aftur úr útilegunni.  Ég var nú búin að segja honum að ég ætlaði í hjólatúr þegar krakkarnir færu í sumarbúðir, en hann hefur greinilega haldið að ég ætlaði að hjóla um Reykjavík og nágrenni.  "Ertu ekkert hrædd við að rekast á ísbjörn?" spurði hann í fúlustu alvöru.

Ja, tæknilega er það svo sem alltaf möguleiki, það gengu jú tveir til þrír á land í fyrra.  Eitt er að rekast á úlfa á fjöllum, maður býður þeim bara inn í tjald, en ísbirnir, hmmm.  Ætli sú viðureign endi ekki bara á einn veg.  Einhvers staðar las ég að ef skógarbjörn stefnir á þig, þá áttu að gera þig eins stóran og þú getur, veifa höndunum fyrir ofan höfuð, öskra og berja á potta og pönnur.  Það sama hlýtur að gilda fyrir ísbirni.  Þó að ég sé almennt blíð og góð, þá get ég breyst í ægilega skessu á köflum.  Ég tek þá út alla uppsafnaða gremju yfir bankahruninu, icesave, kúlulánunum og ástandinu almennt út á aumingja Bjössa.  Alla vega rétt áður en ég enda ævina sem steikin hans.

Æi, nú fær mamma aftur kvíðakast.  "Litla stelpan hennar" ein að hjóla einhvers staðar út í móa með ísbirni á hælunum.


Nýtt leikfang

Það er ekki langt síðan ja.is tók breytingum, og mjög svo í jákvæða átt.  Það eru komin þessi líka fínu kort á vefinn, af öllu Íslandi, hægt að þysja niður á götuheiti og sjá næsta nágrenni.  Líka hægt að sjá óbyggðir, bara finna símanúmer t.d. í Keflavík, þá er hægt að þysja út á Reykjanesið.  Kemur sér vel þegar ég er að skipuleggja hvert skuli hjóla í sumarfríinu.

Ég hjólaði í vinnuna eins og venjulega, búin að sjá að ég hjóla 8 km að vinnu, 6 km heim.  Nema í dag hjólaði ég 42 km.  Veðrið var bara of gott til að fara stystu leið fram og til baka.  Núna sit ég við tölvuna rauðglóandi eins og eldhnöttur, auðvitað hefði ég þurft sólarvörn eða sleppa því að vera með berar axlir.  Note to self, sumarið er komið, svei mér þá.

Það er mælistika á kortinu, hægt að fikra sig áfram með línu og sjá hvað maður er búinn að hjóla.  Þetta er dagurinn í dag, hjólaði sumar leiðir tvisvar sinnum, af því ég þurfti að fara aftur niður í miðbæ eftir að hafa hjólað í kring um Seltjarnarnes og Öskjuhlíð.  Svo var of stutt að taka Miklubrautina heim, ákvað að taka smá krók út í Kópavog.  Kom við í ríkinu í Breiðholti og verðlaunaði mig með tveimur bjórum Kissing  Yndislegt að sitja úti í garði í góðu veðri og sötra bjór eftir ánægjulegan hjóladag.

07-03 001


Viðey

Í fyrra varð að aflýsa Viðeyjarferð Fjallahjólaklúbbsins vegna veðurofsa.  Máttarvöldin ákváðu að vera góð við okkur í ár, það var alveg logn og 15 stiga hiti.  Eins gott, því það var vel mætt, tuttuguogeinn hjólagarpur.

Þeir sem nenna ekki að lesa lengra geta brugðið sér á tengla-barinn hér til vinstri og kíkt á myndband úr ferðinni, merkt Viðey, fyrri og seinni hluti.

Það voru ekki samantekin ráð hjá okkur Eddu að klæða okkur alveg eins, þetta er algjör tilviljun, eins og svo margt annað í veröldinni.

06-30 002

Leiðsögumaðurinn okkar heitir Viðar, sérlega hentugt og viðeigandi nafn þetta kvöld.

 06-30 001

Við hjóluðum um eyjuna þvera og endilanga í tvo og hálfan tíma.  Skoðuðum og heyrðum sögu eyjarinnar utandyra sem innan og kíktum á friðarsúlu Yoko Ono.

06-30 004

Hjólin fóru með í ferjuna, og ég er orðin alveg ákveðin í að fjárfesta í léttu og góðu hjóli eftir að hafa fengið staðfest að ég var með þyngsta hjólið um borð:

06-30 003

Einstaklega góð, skemmtileg og fræðandi ferð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband