Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Reykjavík - Álftavatn

11-27 057

Það var fámennt en góðmennt í aðventuferð Fjallahjólaklúbbsins til Álftavatns.  Veðurspáin var svolítið á reiki, allt frá þýðu upp í 17 stiga frost, snjókomu og skafrennings.  Við ákváðum samt að fara enda vopnuð Björgvin á fjallajeppa sem gæti hirt upp hrakta og þjáða hjólara ef á þyrfti að halda.

11-27 015

Á þessum árstíma má alltaf búast við kvefpestum, þrír hjólarar afboðuðu á síðustu stundu vegna veikinda.  Við vorum því bara fjögur sem hjóluðum til Álftavatns, Bjarni sem hélt upp á 65 ára afmælið sitt, Sóla sem var í sinni fyrstu langferð á hjóli (ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur) og Unnur hjólanagli en við hjóluðum hálfan Kjöl saman fyrir nokkrum vikum.

11-27 004

Við lögðum af stað úr Reykjavík snemma morguns.  Komum við í sundlauginni í Mosfellsbæ, ekki til að fara í sund, heldur til að þýða á okkur tærnar, en þetta er helsta vandamál hjólafólks á langferðum að vetrarlagi, að ná að halda hita á tánum.  Þegar við lögðum á Mosfellsheiði bættist nýtt vandamál við, það hreyfði aðeins vind, og þar eð frostið var 8 gráður, þá var þetta eins og fá ísnálar framan í sig.  Þá dró ég buffið upp fyrir vit, svo maður myndi nú ekki skilja nefið eftir á heiðinni.  Las í blöðunum grein um búrkur, hvort það ætti að banna þær á Íslandi, það er nú þegar bannað með lögum að vera með hulin vit á almannafæri.  Lögbrjótar á Mosfellsheiðinni.

10-27 100

Ferðin yfir heiðina gekk það vel að við ákváðum að fara lengri leiðina niður að Álftavatni.  Hjóla niður Almannagjá og fara austan megin við vötnin þrjú.  Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Álftavatn.

11-27 022

Eftir að hafa þrætt í gegn um Peningagjá og ferðamannahópa héldum við áleiðis niður eftir í blankalogni en góðum frosthörkum.  Sóttist ferðin vel og þegar dimma tók voru ljósin kveikt og endurskinið frá vestunum ljómaði í takt við Norðurljósin sem bylgjuðust um himininn.  Við komum að bústaðnum kl 17:45 eftir tæplega 8 tíma ferðalag.  Það var grillað, spilað á gítar, dólað í heita pottinum, etið, Sóla bauð upp á köku, kveikt á kertum, kósí og huggulegheit.  Og nokkrir bjórar hurfu eins og dögg fyrir sólu.

11-27 038

Sunnudagurinn fór rólega af stað, eftir að hafa nært sig var lagt í hann kl 11:30.  Hjóluð Grafningsleið til að sleppa við mestu bílaumferðina. 

 11-27 048

Aftur var logn, sól en frostið heldur meira en á laugardeginum.  Ég var alla vega komin í þrenna ullarsokka en samt svolítið kalt á tánum.  Það var nauðsynlegt fyrir okkur að labba og teyma hjólin í nokkrar mínútur á hverjum klukkutíma til að halda lífi í tásunum.  Hótel Hengill reyndist vera opinn, þangað stungum við okkur inn í ríflega klukkutíma, gæddum okkur á hamborgurum, silung og heitu kakói.

10-27 101

Hengillinn var ægifagur í ljósaskiptunum.  Ég gat ekki hjólað hann allan í þetta sinn, enda hálka og við á nagladekkjum.  En þetta skotgekk, við vorum bara 2 tíma og korter frá Nesjavöllum inn í Reykjavík.  Skrítin tilviljun en þegar ég leit á klukkuna í Reykjavík var hún 17:45.  Nákvæmlega sami tími og þegar við komum í bústaðinn daginn áður.

11-27 061 

Og svona í lokin afþví ég er svo mikil húsmóðir.  Það eru til margar gerðir af rónasteikum.  Uppistaðan er ein franskbrauðssneið.  Ofan á hana fer ýmist steikt egg, hakk eða kjötfars.  Allt eftir því hversu grand menn vilja vera á því.  Og ef maður bætir við salatblaði, þá er maður kominn með Rónasteik de luxe.

10-27 102

Myndir úr ferðalaginu er að finna hér http://picasaweb.google.com/hjolahronn/ReykjavikAlftavatn#

og svo var aðeins verið að videóast...

Fyrri daginn voru hjólaðir 87 km, þ.e. frá klúbbhúsi að Álftavatni.  Og seinni daginn 65 km.  Og nú er maður með rjóðar eplakinnar, það gerist ekki jólalegra...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband