Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Ráð fyrir garðeigendur

mama_gardening 

Þegar við fluttum inn í núverandi húsnæði og vorum búin að raka saman laufinu fyrsta vorið, þá fyllti það 12 svarta ruslapoka.  Annað eins féll til eftir garðslátt og runnaklippingar sumarsins. Einn veturinn felldum við aspirnar, enda var hálf kjánalegt að sjá 40 aspir teygja sig nokkra tugi metra yfir lítið hús í litlum garði.  Einhver eigandinn hefur keypt þetta í misgripum fyrir Víði eða aðra limgerðisplöngur, trúi ekki að nokkur heilvita maður sem veit hvers konar ferlíki aspir eru fullvaxnar, planti 40 stykkjum í bakgarðinn hjá sér vís vitandi. 

Þessar aspir fluttum við til Sorpu, þar sem þær hafa væntanlega verið kurlaðar niður í stígagerð.  Eins gott að við vorum búin að þessu, annars myndi það kosta okkur töluverðan pening að losa okkur við laufið eða trén sjálf í dag.  Gjaldskráin hljóðaði upp á rúmar 3000 krónur fyrir rúmmetrann.  Hvað rúmast mikið í einum svörtum ruslapoka, nær það einum rúmmetra?

Þannig að við gætum þurft að punga út 70 þúsundum á ári til að losna við laufið.  Eða bara gerast "white trash" og láta það liggja og sleppa slættinum og arfahreinsun, nágrönnunum til mikillar gleði...

En sem betur fer er Sorpa búin að afturkalla gjaldtökuna.  Eða fresta henni óákveðið.

Sumir nenna ekki að koma sér upp safnhaugum vegna þess að þeim fylgir umstang, fýla og flugur.  Þ.e. ef þeim er ekki sinnt eins og á að gera.  Það er mun auðveldara að grafa holur í garðinn og setja garðaúrganginn þar ofan í.  Eftir gröftinn þarf ekki að sinna haugnum sérstaklega, bara leggja nokkrar mjóar greinar í botninn, henda garðaúrgangi sem og öðrum úrgangi sem má fara í safnhauga ofan í og skella smá mold yfir öðru hvoru ef það fer að bera á flugum.  Þegar holan er næstum full má setja smá lag af mold og sumarblóm þar ofan á eða skreyta með steinum.  Ormarnir sjá um nauðsynlega loftun, svo það þarf ekki að róta neitt í haugnum.  Eftir 3 ár hefur úrgangurinn breytt sér í næringarríka moltu, þá er auðvelt að grafa hana upp og dreifa yfir blómabeðin.  Nota svo holuna aftur fyrir úrgang sumarsins.  Núorðið nægir að grafa eina holu að vori fyrir allan úrgang sumarsins, ég varð að vísu að grafa aðra í fyrra eftir að villikisa flutti inn í safnhauginn, hvílíkt notalegt að hvíla þar í sólinni og nýslegnu grasinu.  Gaman þegar fjölskyldan stækkar svona fyrirvaralaust, og ekki spillir að við þurftum ekki að sinna kisu neitt, hún sá um sig sjálf og vildi ekki láta stússast neitt í kring um sig.

Bara svona ef nágrannarnir skyldu halda að við værum einhverjir mafíósar, endalaust að grafa lík í bakgarðinum...


mbl.is Sorpa frestar gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég játa, eina ferðina enn

Oh, hvað það er hressandi fyrir sálina að játa allar sínar syndir.  Ég hef horft á nektardans.  Eins gott að lögin séu ekki afturvirk, þetta var 1990 og eitthvað.  Kvennakvöld á Broadway, þar mætti föngulegur karlmaður og fækkaði fötum jafnt og þétt.  Hann hélt að vísu eftir smá pungbindi, svo þannig lagað var þetta ekkert öðruvísi en fara í sund og glápa þar á flotta karlmannskroppa.

Ég var afar blönk á þessu tímabili, að reyna að standa á eigin fótum, nýbúin að kaupa mína fyrstu íbúð.  Visa kortið var fullnýtt, svo og heimildin, hvorki seðill né klink í veskinu.  Og nokkrar vinkonur að fara á þetta kvennakvöld og ég vildi ekki hringja Vestur í mömmu og pabba að betla pening.  Þá datt mér í hug að blikka stelpurnar í mötuneytinu að endurkaupa matarmiðana mína, svo ég kæmist á djammið.  Ég er samt ekki eins mikil djammgella og fólk gæti ætlað af skrifum mínum hér, þetta er alla vega í fyrsta og eina skiptið þar sem ég hef selt matinn af disknum mínum til að geta keypt mér gott í glas á barnum.

Það birtist meira að segja mynd af mér við þetta tækifæri í einhverju afþreyingartímaritinu, sönnunargagn #1.  Ég ætla rétt að vona að ég verði ekki boðuð í yfirheyrslu á lögreglustöðinni, en þá mun ég að sjálfsögðu axla mína ábyrgð og taka út viðeigandi refsingu.

kvennakvöld


mbl.is Alþingi bannar nektardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðmörk

Stundum er gott að hjóla með öðrum, manni hættir til að koma sér í þægilegan gír og dóla sér á milli staða áreynslulaust þegar maður er einn á ferð, stundum næ ég ekki einu sinni að svitna.  Ég var líka forvitin að sjá hvort ég hefði eitthvað í Carbon Kings, en ferðin var auglýst í slagtogi við þá.  Þeir sem þekkja ekki Carbon Kings, skal upplýst að þar er um að ræða þrjá vaska hjólakappa sem hjóla 50-70 kílómetra á degi hverjum.

03-20 014

Að vísu var einhver misskilningur um tímasetningu, CK reyndust vera komnir upp að Úlfarsfelli um það leiti sem við vorum að leggja af stað úr Árbænum.  Og við Steini sem komum með banana til að passa nú inn í hópinn!

03-20 019

Við hjóluðum sem leið lá í gegn um Heiðmörkina í bongóblíðu, þræddum kræklótta stíga, upp og niður brekkur.  Meðfram Elliðavatni og svo brenndi ég vestur í bæ á kóræfingu.

03-20 020

Myndavélin var með í för, og ég skaut smá video.  Sjá hér fyrir neðan.  Það voru þó tvö sérlega skemmtileg atvik sem náðust ekki á filmu, annars vegar þegar Steini flækti löppinni í smellupetalanum og steig undarlegan ballett til að losna úr honum og hitt var þegar ég ætlaði að fara aðeins á undan hópnum til að filma föngulegu fylkinguna, þá bremsaði ég og hjólið snarstoppaði.  Ég hélt hins vegar áfram á fullri ferð og tók nettan kollhnís fram af hjólinu, bara svona til að prófa splunkunýja hjálminn minn!  Það komu ekki nema 4 marblettir, sem verða nú að teljast lítið þegar ég og mínar byltur eru annars vegar...


Hnakkur á veginum

Ég týndi lásnum mínum og hjólaði sömu leið til baka næsta dag til að athuga hvort ég fyndi ekki lásinn.  Sá svarta þúst á veginum framundan og taldi lásinn minn liggja þar.  En það reyndist vera hnakkur sem lá á stígnum.  Rifjaðist þá upp fyrir mér gamli brandarinn um nunnuna sem missti hnakkinn af hjólinu á leið sinni frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.  Eftir það var svo gaman að hjóla að hún gat ekki stoppað fyrr en í Keflavík.
 
nun-on-bike
 
Raunveruleikinn er hins vegar sá að ef maður fær 30 cm málmstöng með hvössum brúnum inn í sig, þá verða meiriháttar skemmdir á innri líffærum.  Allar líkur á að manni blæði út og endi lífið sárþjáður í Kópavogi.  Og hver vill deyja í Kópavogi?!?

En ef einhver alsæll hjólarinn skyldi nú vera kominn til Keflavíkur eða lengra og saknar hnakksins síns, þá getur hann haft samband við mig Kissing

mbl.is Vegir eru víða auðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geitungur var það heillin

Var að hjóla á Skúlagötunni þegar ég lenti í árekstri við eitthvað afar óþægilegt.  Hélt fyrst að einhver bílstjórinn væri ósáttur við veru mína á götunni og spænt yfir mig möl, en þegar ég kom heim sá ég 3 stórar upphleyptar bólur á gagnauganu og þótti líklegt að ég hefði verið stungin.  Fannst samt skrítið að geitungarnir væru komnir á stjá í mars.  En samkvæmt þessari frétt eru þessi vinalegu dúllur komnar á kreik. 

Ef ykkur finnst geitungar líta illúðlega út, þá getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig við mannfólks-hlussurnar lítum út í þeirra augum.  Það hefur ábyggilega verið óþægilegt fyrir flugu-greyið að fá mig upp að sér á ofsahraða.  Svona að hennar mati.

En fyrr má nú vera fýlan að stinga mig þrisvar sinnum, ég hjólaði bara einu sinni á hana.

geitungur


mbl.is Geitungar í atkvæðagreiðslu um Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flautað á mig

Ekki af því ég sé orðin svona afspyrnu glæsileg að menn missi sig á flautuna af aðdáun, heldur var bílstjórinn að benda mér á að ég væri að fara yfir á rauðu ljósi.  Ég játa, ég fór yfir á rauðu ljósi.  En því miður er lítið annað að gera, stundum kemst ég ekki öðru vísi yfir gatnamót.  Þó ég sé öll af vilja gerð og reyni að fara eftir umferðarlögunum í hvívetna.

03-09 001

Ég þurfti að fara yfir þessi gatnamót við Borgartún.  Það var töluverð umferð og ég beið róleg á rauðu ljósi.  Og beið.  Og beið.  Og beið.  Tók eftir því að bílar voru í annað sinn að leggja af stað í vinstri beygju án þess að ég fengi nokkurn tíma grænt ljós.  Þá fattaði ég að nýlega endurgerð ljósin voru umferðarstýrð og reiðhjólið mitt kveikir ekki nemann.  Það var enginn bíll að fara í sömu átt og ég.  Svo ég gat ekki farið öðru vísi yfir gatnamótin en á rauðu.  Ég hefði raunar getað stigið af baki og farið og kveikt rofann fyrir gönguljósið, en ég er ekkert viss um að ég hefði komist nema út á miðja götu, þá þarf ég að fara aftur af baki, skilja reiðhjólið eftir úti á miðjum gatnamótum, labba að rofanum og kveikja síðara gönguljósið.

03-09 004

Eru þetta betri gatnamót eftir breytingar?  Er þetta gert fyrir öryggi vegfarenda?  Menn hafa þá nákvæmlega engan skilning á hvernig mannskepnan virkar.  Fólk labbar yfir á rauðu ljósi.  Hér er lágvaxið fólk og börn illa sýnilegt innan um grindverkið og það munu verða slys þegar fólk sér að bílar eru stopp þversum og ætla að hlaupa yfir áður en það skiptir yfir í grænt.  En þá er grænt hjá bílum sem ætla að taka vinstri beygju og ökumenn sjá ekki þá sem eru að fara yfir seinni hlutann af akreinunum.  Fólk er í hvarfi við bíla sem bíða og grindverkið.

Hér er mynd af gatnamótunum fyrir breytingu:

02 012

Og hvað í ósköpunum var að þessum gatnamótum sem réttlætti þessar breytingar með tilheyrandi kostnaði sem er svo aftur velt út í bensínverð og skattahækkanir?  Ekki nokkur skapaður hlutur.  Þetta voru ein af fáum gatnamótum í Reykjavík sem var hægt að moka og fólk var mun sýnilegra á leið sinni yfir götuna fyrir breytingu.  Takið eftir á fyrstu myndinni að bæði gönguljósin eru sýnileg í einu og fólk getur ruglast á ljósunum og labbað yfir á rauðu.  Ég hjóla ekki í gegn um svona slysagildrur, beygjurnar eru of skarpar og hættan á að ég missi stjórn á hjólinu og flæki mig í grindverkinu er of mikil.  Ef ég fer af baki og leiði hjólið, þá get ég ekki mætt neinum, þrengslin eru of mikil.  Þ.e. ef ég ætla að nýta mér gangstéttirnar til að hjóla á eins og mér er heimilt, ef það veldur ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum.  Fólk almennt er ekki meðvitað um að reiðhjólafólk á lögum samkvæmt að vera á götunum og flokkast sem ökutæki. 

Getur einhver bent mér á einhverja kosti við þessar breytingar?  Einhver?


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætlaði upp á Gleðihjalla...

... stystu leið.  Og lenti í sjálfheldu eins og þessi góðglaði ferðalangur í Ástralíu.

Klettabeltið fyrir ofan Ísafjörð virkar ekkert rosalegt séð úr bænum, fyrir ofan það er smá flatur hjallur sem kallast Gleðihjalli.

gledihjalli

Ég náði aldrei að komast upp á Gleðihjallann þegar ég var krakki, við reyndum þetta nokkrum sinnum vinkonurnar og vorum einu sinni langt komnar, fórum þá skriðuna fyrir ofan Urðarveg, en þegar Ella fékk grjóthrun yfir sig hættum við við steinsnar frá toppnum.

Ég fékk fjallabakteríuna rétt fyrir þrítugt, og þar eð ég var búin að klífa Snæfellsjökul og Hvannadalshnjúk, þá var nú ekki hægt að skilja Gleðihjallann útundan.  Ég er nú einu sinni frá Ísafirði.  Svo ég brá undir mig gönguskónum og fór í fjallgöngu.  Kom að klettunum og þóttu þeir nú nokkuð mikilfenglegri í návígi en ákvað engu að síður að fara upp á milli þeirra.  Ég hef sennilega verið komin ca 20-30 metra upp þegar ég áttaði mig á að þetta væri ekki góð hugmynd.  Ætlaði að snúa við og fara sömu leið til baka en það var hægara sagt en gert.

Ég er ekki lofthrædd að eðlisfari, get verið í hvaða hæð sem er og horft niður.  En þegar maður er alveg strand, hangandi á fingrum og tám utan í klettavegg í 30 metra fallhæð og kemst hvorki fram né aftur, þá getur maður gjörsamlega tapað sér.  Mig sundlaði, svimaði, sortnaði fyrir augum, kitlaði í magann, fékk titring í hnén.  Ég var við það að missa mig inn í algjört panik-kast, þegar ég náði að loka augunum og nýta mér Yoga, sem ég var búin að stunda í nokkur ár.  Það tók mig nokkrar mínútur að yfirvinna lofthræðsluna, eftir það náði ég að einbeita mér og komast niður úr klettunum.  Ég var ca 10 mínútur að koma mér í vandræðin, en tæpa 2 tíma að koma mér úr þeim.  Þurfti oft að finna syllu til að tylla mér á og taka yoga slökun til að fyrirbyggja að kvíðinn næði yfirhöndinni.

Fyrir þá sem ætla upp á Gleðihjallann, þá er best að fara annað hvort skriðuna fyrir ofan Urðarveg, eða fara aðeins lengra út á Hnífsdalsveginn, krækja út fyrir klettabeltið.  Ég komst loks upp á #%$#& Gleðihjallann þá leiðina.

 


mbl.is Ætlaði að njóta sólarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband