Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Þriðjudagsferðir - lokahóf

IMG_0326 

Uppskeruhátið þriðjudagsferða Fjallahjólaklúbbsins var haldin 6 september í boði hjólaverslunarinnar GÁP.  Ferðirnar hafa verið vel sóttar í sumar.  Alls sóttu þær 56 hjólarar á aldrinum 5 ára til 69 ára.  Fjölmennust var Viðeyjaferðin, 28 og aldrei mættu færri en 5.  Við breyttum skipulaginu aðeins, ákváðum að negla ekki niður dagskrána fyrir fram, heldur láta veður, vinda og óskir þátttakenda ráða hvert yrði hjólað.  Þetta kom ágætlega út, sérstaklega fyrir þá sem uppgötvuðu ekki þennan frábæra félagsskap fyrr en á miðju sumri.  Úrsúlu langaði t.d. að hjóla í gegn um Kópavogsdalinn, hafði séð myndir þaðan, en aldrei fundið dalinn.

06-21 006

Ég hugsa að Kópavogsdalurinn sé einn af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins sem ótrúlega margir hafa aldrei komið í.  Ég sjálf er búin að búa fyrir sunnan í 25 ár og aldrei farið í gegn um dalinn, hef meira að segja átt óþægilega stund þar einu sinni, þar sem ég var farþegi í bíl sem valt út úr beygjunni Kópavogsmegin og ég kastaðist út úr bílnum beint í grýttan faðm móður náttúru, braut bein, marðist og skarst.  Upplifun mín af dalnum hefur verið ívið ánægjulegri síðustu 2 ár eftir að ég rambaði óvart á hann þegar forvitni mín „hvert leiðir þessi stígur“ rak mig áfram í kvöldsólinni.  Það var margt brallað á þriðjudögum.  Farið til Hafnarfjarðar í Hellisgerði.

08-06 016

Þaðan á kaffihús...

08-06 024

Upp í Heiðmörk...

08-09 006

Þetta breytta plan kom sér ágætlega þegar Kári blés hraustlega einn þriðjudaginn, þá héldum við okkur í Borginni, þræddum þröngar götur og reyndum að finna skjól af trjám og húsum.  Enduðum svo á að stytta túrinn og stungum okkur inn í Ísbúðina Laugalæk.

08-06 012

Keppnin var hnífjöfn að þessu sinni, ég mætti 12 sinnum, Árni 13 sinnum, en þar eð við unnum mætingabikarinn síðustu tvö ár og vorum nokkurs konar fararstjórar í ár, þá komum við ekki til greina sem vinningshafar.  Kristjana og Jóhannes mættu 13 sinnum og við vorum að íhuga að láta lokakvöldið skera úr um hvort þeirra færi heim með bikarinn.  Kristjana sem varð fyrir því  óhappi að handleggsbrotna í hjólaferð um miðjan ágúst, mætti gangandi.  Og þegar við vorum í þann mund að leggja af stað kom Jóhannes líka gangandi, en hjólið hans bilaði kvöldið áður.  Svo það var áfram jafntefli.

07-12 039

Við urðum að kasta upp pening til að skera úr um málið, og það var Kristjana sem varð hlutskarpari og fékk að launum mætingabikarinn, sem Hákon J. Hákonarson gaf Fjallahjólaklúbbnum.

IMG_0351

Ég hef mundað myndavélina öðru hvoru í ferðunum, afraksturinn má sjá hér (sumar hafa ekki birst áður):

https://goo.gl/photos/F1UnCGrqFpuDSbJ38

Og svo myndaði Magnús Bergsson lokahófið, myndir hans er að finna á myndavef Fjallahjólaklúbbsins:

https://photos.app.goo.gl/PkUQrp4Z34d8xY4N8

Takk öll sem mættuð í þriðjudagsferðirnar, við sjáumst hress í maí á næsta ári.

06-28 027


Ólögleg í hjólakeppni?

web2007 

Síðustu 3 ár hef ég verið að endurheimta heilsuna hægt og rólega og hef náð að trappa mig niður af nánast öllum lyfjum.  Sunnudagskvöldin fóru í það að skipuleggja lyfjaneyslu fyrir vikuna, opna pakkningar, flokka töflur eftir tíma dags, rauð á morgnana, blá á kvöldin, gula um miðjan dag.  O.s.frv.  Ótrúlega erfitt að ná sumum töflum úr pakkningunum, gigtarlyfin einna erfiðust, eins kaldhæðnislega og það hljómar.  Sum lyf orsaka aukaverkanir, og þá þarf maður jafnvel lyf til að slá á aukaverkanirnar, og svo enn önnur lyf til að takast á við þau lyf.  Þannig getur maður lent í vítahring og veit ekkert hvað veldur þessum einkennum og hvað hinum.  Hvað eru raunverulegir kvillar og hvað aukaverkanir.

Þá var ég líka að léttast nokkuð hratt og lét fjarlægja hormónalykkjuna, enda komin úr barneign og ég ekki hrifin af því að vera með óþarfa aðskotahluti í líkamanum.  Ég fylltist smám saman alveg gífurlegri orku, og vissi satt að segja ekki hvaðan á mig stóð veðrið, taldi jafnvel að þetta væri undanfari breytingaskeiðs, nokkurs konar grár fiðringur.  Fékk aðallega útrás í gegn um hjólreiðarnar, en ég fór líka að sækja skemmtistaði og hafa gaman af því að dansa fram á rauða nótt.  Eitthvað sem ég hef ekki gert í mörg herrans ár.

web2011

Ég stefndi að því að hætta á öllum lyfjum og halda upp á það með því að storma inn í Blóðbankann og gefa einhverjum dropa af mínu eðalblóði.  Vissi þó að ég yrði að vera áfram á einu lyfi, Questran (blóðfitulyf), en aukaverkun af því lyfi gagnast fólki sem hefur misst gallblöðruna.  Þá streymir gallið óhindrað út í meltingarveginn og sumir höndla það illa, fá magabólgur, verki og niðurgang.  Ég hélt að það lyf hefði einungis staðbundna verkun í meltingarvegi (sogaði upp gallið og skilaði sér alfarið út úr líkamanum) og hélt jafnvel að mér væri óhætt að gefa blóð þó að ég væri að taka inn þetta lyf.  Las fylgiseðilinn vel og vandlega til að tékka á þessu, sérstaklega aukaverkununum.

Og komst að því að aukaverkunarlistinn er bæði langur og ljótur.  Svo ég get ekki enn gefið blóð.  Þegar ég byrjaði á þessu lyfi var það ekki á almennum markaði og ekki allar aukaverkanir komnar fram.  Það var brýnt fyrir mér að hlusta vel á líkamann og tilkynna lækni eða lyfjafræðingi um allt óvenjulegt.  Hef ekki þurft að gera slíkt, þetta lyf hefur bara gert mér gott, en sé þann aðila í anda sem tilkynni aukaverkunina "aukin kynhvöt".  Kannski var viðkomandi bara hrifin/n af lyfjafræðingnum og ástleitni og mökunartilburðir misskildir sem aukaverkun af lyfinu.

Og þó... Ég skal viðurkenna að líðan mín undanfarin tvö ár hefur minnt ískyggilega á unglingsárin.  Meira að segja svo sterkt í upphafi að erfiðleikar bólugrafinnar unglings-Hrannar eru í endurminningunni eins og rólegheita skógarganga. 

webHronn

Sem betur fer hafa aukaverkanirnar dalað jafnt og þétt, aldrei að vita nema ég fari að haga mér, hugsa og akta eins og virðulega, miðaldra frúin sem ég ábyggilega er.  Einhvers staðar djúpt inni í mér.

Ég ætla bara að vona að ég þurfi ekki að fara á stera neitt á næstunni, það yrði alveg svakaleg og eldfim blanda.  Ég er ekki viss um að ég muni þola við í eigin návist þá, hvað þá aðrir.  Mig hefur alltaf langað að prófa að vera vitavörður einhvers staðar lengst úti í rassgati.  Veit svo sem ekki hvort ég myndi höndla mikið meira en eina viku í einsemd, en það er nokkuð ljóst að ef ég fæ eitthvað slæmt lungnakvef sem astmapúst dugar ekki á, þá læt ég vitavarðardrauminn rætast áður en ég tek inn fyrstu steratöfluna.

En þetta vekur vissulega upp þá spurningu hvort ég sé á ólöglegum lyfjum þegar ég tek þátt í hjólakeppni?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband