Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Eltihrellir? Hver? Ég?

Ég fór út að hjóla í dag.  Það er svo sem ekki í frásögur færandi, suma daga gerist ekki neitt, svo næsta dag er eins og maður sé staddur í stuttmynd eftir Fellini.  Ég stormaði inn í bakgarð.  Þar gekk ég fram á þjóðþekkta konu við iðju sem ég myndi aldrei láta nappa mig í.  Hún sat í kjallaratröppum og var að reykja.  Ég reykti þó í ein 10 ár, til 26 ára aldurs.  Þá hafði ég ekki heilsu til að reykja lengur.

Þegar ég er að sniglast í kring um hús fólks er ég iðulega með Fréttabréf Fjallahjólaklúbbsins í hendinni ásamt skírteinum sem ég er að bera út.  Sem betur fer var ég með skírteini fyrir aðila sem bjó þar líka, auðvitað get ég haldið á einhverju og þóst vera að leita að einhverjum.  Ég fór að öðru húsi hálftíma síðar og veit að í götunni býr annar þjóðþekktur einstaklingur.  Eg hef krassað heilu grillveislurnar, barnaafmæli, labbað inn í garð í flasið á hálfnöktu og alsnöktu fólki.  Þetta er ekki leiðinlegt.  Ég fær hreyfingu, ferskt loft, fæ smá mannlíf í æð, bros frá fólki.  Sérstaklega ef ég er með hundinn minn með mér.

Það búa ábyggilega einhverjir þekktir einstaklingar á Hverfisgötu.  Á hjólabrautinni fyrir framan mig var rauðum bíl lagt þversum á hjólabrautina.  Það er svo sem ekki i frásögur færandi, daglegt brauð skilst mér.  Nema ég í kvikyndisskap mínum vitandi að ég væri með góðar bremsur hjólaði á fullri ferð í áttina að bílnum og þóttist ekki ætla að stoppa.  Snarhemlaði svo og sveigði út á götu.  Stoppaði og beygði mig niður og rýndi inn í bílinn inn um opna rúðu, grafalvarleg á svip.  Það kona í farþegasætinu og karlmaður undir stýri.  Hann leit á mig grafalvarlegur á móti.  "Þetta er lögreglan".  Ég hef húmor og gat ekki annað en flissað.  "Já, er það?"  En auðvitað gæti þetta hafa verið lögreglan, under cover, man ekki íslenska orðið í augnablikinu.

Ég hjólaði áfram sem leið lá í Vesturbæinn að hrella mann og annan.  Og tókst það svo sannarlega.  Við Geirsgötu tróð ég mér meðfram bílaröðinni, upp á gangstétt og um leið og græna ljósið kom tók ég af stað beint áfram, en sendibíllinn sem var fremstur ætaði að beygja til hægri.  Munaði bara örfáum millimetrum að ég klessti nýja fína hjólið mitt.  Nei, þið fáið ekki mynd, ég er enn að bródera skósíða blúndunáttkjólinn minn.  Öðru vísi verð ég ekki mynduð í návist reiðhjóla hér eftir.

Það má þakka snörum viðbrögðum bílstjórans að ég sit hér heil á húfi og pikkka þessar línur.  Ég setti aðra hönd á hjarta og laut höfði, það er mitt tákn til bílstjóra ef ég geri einhver heimskupör.  Hann hefur ábyggilega þusað um helvítis hjólakellingar sem troða sér alls staðar og þykjast mega vera hvar sem er.  Ég var(er) jú með brjóst og var í hlébarðamynstruðu pilsi.  Svo menn ættu að sjá að þar fer kona.  Okkur ber að sjálfsögðu að fara eftir umferðarlögum, eins og öllum öðrum.

Áfram lá mín leið vestur í bæ, og þar framdi ég morð.  Á saklausri hunangsflugu.  Ég hjólaði á hana og það heyrðist klask þegar hún krassaði á handleggnum á mér.  Mér þykir þetta ákaflega leiðinlegt en svona er þetta, maður brýtur stundum óvart á saklausum.

Það gerðist nú ekkert fleira markvert, ég hjólaði eins og druslan dreif (ég, hjólið kemst mikið hraðar) og rúllaði inn í bakgarðinn heima, sem oh, þarf að slá, ég hef bara engan tíma í það, maður þarf jú að hanga á netinu og svona.  Hekluskottið stóð í sólstofunni og horfði ásakandi á mig.  "Fórstu út að hjóla?  Án mín?  Erum við ekki vinkonur?"

Það verður nú að njóta bliðviðris líka, stunum þarf að gera hlé á því sem maður er að fást við, setjast út með svaladrykk og hugsa málið.  Öll kurl koma til grafar að lokum.


Hvað ef...

Við sumar aðstæður get ég fyllst áköfum kvíða.  Sérstaklega ef ég fer í ferðalag.  Hvað ef ég gleymi kaffikönnunni á?  Núna gat ég hringt heim og hundurinn... nei, sonurinn svaraði.  Já, það er kveikt á kaffivélinni.  Á ég að slökkva?  Já, takk, þar með var það vandamál afgreitt og ég gat lagt áhyggjulaus í hjólaferð með félögum mínum úr Fjallahjólaklúbbnum.  Hvað ef strákurinn slær upp partý...  Nah, hún Hekla geltir nefnilega á alla sem banka upp á.  Og hún er það dimmrödduð og ógnandi að fólk hættir sér ekkert inn til okkar ef ég er ekki heima til að hafa hemil á skvísunni.

1

Snæfellsnes, sól og blíða.  Ægifagurt útsýni.  Jökullinn í öllu sínu veldi og snævi þaktir tindar.  Berserkjagata.  Við höfum aldrei stigið af hjólunum og gengið þennan þrönga stíg út í hraunið.  Skildum hjólin eftir fyrir utan veg.  Gengum svo í nokkrar mínútur.  Þá læddist kvíðinn að.  Veskið mitt, með síma og bíllyklum var í hjólatöskunni.  Hvað ef...  En ég gleymdi mér yfir sögunni af Berserkjabræðrunum sem Örlygur fararstjóri sagði af stakri snilld.  Bræðrunum Halla og Leikni var lofað kvonfangi ef þeir lögðu götu í gegn um Berserkjahraun, en voru svo narraðir ofan í heitan pott og drepnir þar.  Sonum þeirra var svo gefið lítið grátt lamb fyrir föðurmissinn.  Mörgum árum síðar sat ómennið að sumbli þegar synirnir gengu að honum með exi og klufu hann í herðar niður.  Launuðu þeir þar með lambið gráa sem þeim var gefið.  Sagan gæti hafa skolast aðeins til, eins og sögum hættir til.  Þegar við komum aftur að hjólunum voru töskurnar á sínum stað og ég gat andað léttar og notið þess að hjóla um þetta ægi fagra landsvæði.

Eða þar til heimsókninni við hákarlasafnið Bjarnarhöfn var lokið og ég brá mér á salernið fyrir brottför.  Þegar ég kom út, þá sá ég félaga mína á ferð úti við sjóndeildarhring en hjólið mitt horfið.  Ég varð svo sem ekkert stressuð, þó að einhver bóndasonurinn hafi fallið kylliflatur fyrir hjólinu mínu og langað að fá sér smá snúning á hlaðinu.  Í góðu lagi.  En ég sá engan, leit sunnan við hús.  Enginn.  Austan við hús.  Þar voru þá 3 hjólafélagar í felum og flisskasti með hjólið mitt.

Við tók meðvindur og meiri náttúrufegurð.  Hjóluðum yfir í Berserkjahraun og þræddum þar ágætan ökuslóða sem hlykkjaðist í gegn um fallegar hraunmyndir, lækir niðuðu og fuglar sungu.  Nær kemst maður varla sjöunda himni.

06-15 086

Eða þar til við komum að bílunum sem var lagt aðeins utan við Stykkishólm.  Ég hafði skrúfað niður rúðuna bílstjóramegin alveg niður í veðurblíðunni og gleymt að skrúfa hana aftur upp.  Taskan mín horfin úr aftursætinu og kæliboxið með nestinu mínu og þykka svampdýnan.  Í töskunni var sængin mín, koddi og tveir sértálgaðir svampkoddar, en ég slæ allar prinsessur út þegar kemur að beðmálum. Ég ligg ekkert á kaldri jörðu ofan í þröngum svefnpoka.  Ónei.  Það dugir ekkert minna en 3 koddar og rósótt sængurver utanyfir dúnsæng til að ég nái að svífa inn í draumalandið.

Skrítið, þegar hlutir sem maður hefur oft kviðið fyrir loksins gerast, þá bara var ég alveg salíróleg.  Ok, ég verð þá bara að kaupa gistingu á hóteli og fara út að borða í hjólagallanum.  Þjófurinn skildi þó háhæluðu skóna (já, ég fer ekkert í útilegu án þess að taka með háhælaða skó, maður veit aldrei hvenær útivistarferð breytist í djamm í nálægu sveitarfélagi) og hó, bjórkippan mín enn í skottinu.  Ja, það voru nú skrítnir þjófar sem stálu koddunum mínum en skildu eftir bjórinn.  Þar með lentu mínir eigin ferðafélagar undir grun, en þau með hvílík pókerfés þóttust koma af fjöllum, þegar þau voru raunar að koma úr hrauni.  Enda var mitt hafurtask á bak við bílinn þeirra.  Ja, stundum er betra að þegja um fóbíur sínar.  Enda voru hlutir að hverfa og birtast aftur alla helgina.  Mér sýnist þema ferðalaga sumarsins vera komið.  Láta fólk takast á við fóbíur sínar.  En ég lofa að stinga ekki könguló inn á nokkurn mann.  Saklausir hrekkir eru hins vegar alltaf skemmtilegir og lífga upp á tilveruna.

Við fórum út að borða um kvöldið á Plássinu, ágætis matur, en hamborgarar á matseðlinum voru ekki fáanlegir þetta kvöld.  Fyrst hélt ég að hjólafélagar mínir hefðu fengið þjóna staðarins í lið með sér, en nei, það var ekkert nautakjöt til í landinu vegna verkfalls dýralækna.

Næsta morgun lögðum við af stað á bílunum og ókum yfir Vatnaleiðina.  "Gleymdum" að sjálfsögðu tjaldinu hans Alla en hann fór snemma morguns að heimsækja frænku sína.  Tók ekki einhver tjaldið mitt?  Nei, ekki ég.  Kannski Þórður?  Hvert af öðru neituðum við að hafa hirt pjönkur hans og þrátt fyrir allt skrens gærdagsins var okkur trúað í nokkrar mínútur og Alli farinn að plana björgunarleiðangur eftir tjaldinu sínu.  En auðvitað gengur maður frá og skilur náttstaðinn eftir eins hreinan og jafnvel hreinni en maður kom að honum.

4

Kerlingaskarðið baðað í sólskini.  Fátt sem toppar þá sjón að hjóla fram á brún og fá himnasalinn heiðan á móti sér.  Nema náttúrulega þar sé að finna föngulegan hóp hjólakvenna.  Borgnesingar deyja ekki ráðalausir þó það vanti nautaketið.  Við fengum hamborgara með lambakjöti.  Bara ljómandi fínn, en það er orðin svolítil hefð hjá okkur að enda helgarferðirnar á hamborgaraáti.  Góð helgi að baki í frábærum félagsskap.

06-15 105

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband