Flautað á mig

Ekki af því ég sé orðin svona afspyrnu glæsileg að menn missi sig á flautuna af aðdáun, heldur var bílstjórinn að benda mér á að ég væri að fara yfir á rauðu ljósi.  Ég játa, ég fór yfir á rauðu ljósi.  En því miður er lítið annað að gera, stundum kemst ég ekki öðru vísi yfir gatnamót.  Þó ég sé öll af vilja gerð og reyni að fara eftir umferðarlögunum í hvívetna.

03-09 001

Ég þurfti að fara yfir þessi gatnamót við Borgartún.  Það var töluverð umferð og ég beið róleg á rauðu ljósi.  Og beið.  Og beið.  Og beið.  Tók eftir því að bílar voru í annað sinn að leggja af stað í vinstri beygju án þess að ég fengi nokkurn tíma grænt ljós.  Þá fattaði ég að nýlega endurgerð ljósin voru umferðarstýrð og reiðhjólið mitt kveikir ekki nemann.  Það var enginn bíll að fara í sömu átt og ég.  Svo ég gat ekki farið öðru vísi yfir gatnamótin en á rauðu.  Ég hefði raunar getað stigið af baki og farið og kveikt rofann fyrir gönguljósið, en ég er ekkert viss um að ég hefði komist nema út á miðja götu, þá þarf ég að fara aftur af baki, skilja reiðhjólið eftir úti á miðjum gatnamótum, labba að rofanum og kveikja síðara gönguljósið.

03-09 004

Eru þetta betri gatnamót eftir breytingar?  Er þetta gert fyrir öryggi vegfarenda?  Menn hafa þá nákvæmlega engan skilning á hvernig mannskepnan virkar.  Fólk labbar yfir á rauðu ljósi.  Hér er lágvaxið fólk og börn illa sýnilegt innan um grindverkið og það munu verða slys þegar fólk sér að bílar eru stopp þversum og ætla að hlaupa yfir áður en það skiptir yfir í grænt.  En þá er grænt hjá bílum sem ætla að taka vinstri beygju og ökumenn sjá ekki þá sem eru að fara yfir seinni hlutann af akreinunum.  Fólk er í hvarfi við bíla sem bíða og grindverkið.

Hér er mynd af gatnamótunum fyrir breytingu:

02 012

Og hvað í ósköpunum var að þessum gatnamótum sem réttlætti þessar breytingar með tilheyrandi kostnaði sem er svo aftur velt út í bensínverð og skattahækkanir?  Ekki nokkur skapaður hlutur.  Þetta voru ein af fáum gatnamótum í Reykjavík sem var hægt að moka og fólk var mun sýnilegra á leið sinni yfir götuna fyrir breytingu.  Takið eftir á fyrstu myndinni að bæði gönguljósin eru sýnileg í einu og fólk getur ruglast á ljósunum og labbað yfir á rauðu.  Ég hjóla ekki í gegn um svona slysagildrur, beygjurnar eru of skarpar og hættan á að ég missi stjórn á hjólinu og flæki mig í grindverkinu er of mikil.  Ef ég fer af baki og leiði hjólið, þá get ég ekki mætt neinum, þrengslin eru of mikil.  Þ.e. ef ég ætla að nýta mér gangstéttirnar til að hjóla á eins og mér er heimilt, ef það veldur ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum.  Fólk almennt er ekki meðvitað um að reiðhjólafólk á lögum samkvæmt að vera á götunum og flokkast sem ökutæki. 

Getur einhver bent mér á einhverja kosti við þessar breytingar?  Einhver?


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bar enn eitt dæmið um það að bíllinn er alltaf látinn ganga fyrir.

Svo þykist Reykjavíkurborg vilja fá fólk til að ganga og/eða hjóla á meðan ljósum er breytt í þá átt að torvelda þeim að komast leiðar sinnar.  Búið er t.d. að breyta gönguljósunum yfir Langholtsveg þar sem hann mætir Álfheimunum þannig að grænikallinn kemur ekki nema ýtt sé á hnappinn.  Mér finnst þetta vera til háborinnar skammar, þetta á að vera akkúrat öfugt.  Gangandi eiga að vera í forgang, svo hjólandi (línuskautandi ofl.) og bíllinn síðastur. 

Bjarney (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 08:39

2 Smámynd: Árni Davíðsson

Klukkan hvað varstu á ferð þarna Hrönn? Ég hef verið á ferðinni þarna á kvöldin og hef tekið eftir því að nemarnir nema ekki hjól, en er það þannig yfir allan daginn?

Því miður er þetta allt satt og rétt sem þú bendir á. Þessi hönnun á að vera til að tryggja öryggi en það er á kostnað fótgangandi og hjólandi. Hjólandi og gangandi vilja komast yfir götuna í einni lotu en vera ekki strand á milli akreina. Þetta fyrirkomulag gengur þvert gegn stefnu Reykjavíkurborgar um að auka hlutdeild gangandi og hjólandi í ferðum innan borgarinnar.

Ég verð að viðurkenna að ef maður er að hjóla á kvöldin verður maður reglulega að brjóta umferðalög og fara yfir á rauðu því það kveiknar ekki grænt ljós fyrir hjólreiðamenn á flestum umferðarstýrðum ljósum með nema í götu. Þessi ljós eru heldur ekki merkt þannig að maður viti hvaða ljós þetta eru.

Það er krafa Landssamtaka hjólreiðamanna að þessu fyrirkomulagi verði breytt og að reiðhjólamönnum verði gert kleift að fylgja umferðarlögum. Umferðarstýrð ljós þurfa að nema hjólreiðamenn eins og bíla eða það verður að finna aðrar jafngildar lausnir.

Fyrirspurn var á sínum tíma beint til lögreglustjóra um hvað ætti að gera þegar svona væri. Hann vildi ekki að það væri hjólað yfir á rauðu. Hann benti mönnum á að ýta á takkan á gönguljósinu. Það er greinilegt að hann er ekki hjólreiðamaður því sumstaðar er ekkert gönguljós og engin takki til að ýta á. Einnig getur þetta verið beygjuakrein og þar mætti skilja það svo að hjólreiðamaðurinn ætti að labba yfir á rauðu, sem er líka lögbrot.

Árni Davíðsson, 11.3.2010 kl. 10:40

3 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Þetta var rétt eftir kvöldmat, ég lendi ekki í þessu á dagtíma, sennilega af því þá er meiri umferð um Sundlaugarveginn.  það þýðir einmitt lítið fyrir hjólreiðamann að ýta á hnapp fyrir gönguljós þegar ljósin eru tvískipt, maður fær bara grænt hálfa leið.  Ég hélt að það væri hætt að setja þessi grindverk upp, sérstaklega þegar það er lítið pláss á miðeyjunni.  Við búum á Íslandi, það snjóar, það þarf að ryðja gönguleiðir.  það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að byrja að fjarlægja grindverkin.  Hlýtur að vera hægt að gera eitthvað annað við lagerinn ef menn keyptu heilu staflana af þessu leiðinda röra-rusli.

Hjóla-Hrönn, 11.3.2010 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband