Fyrir nákvæmlega ári síðan...

... skrifaði ég bloggfærslu þar sem ég sagðist vera hætt að hjóla vegna heilsubrests.  Auglýsti hjólin mín og hjólafatnað til sölu.  Þetta var að sjálfsögðu aprílgabb og nokkrir hlupu fyrsta apríl og sendu inn fyrirspurnir um hjólin.  Tveir tóku sérstaklega fram að þeir vissu vel að það væri 1 apríl, en vildu samt gera tilboð ef ég hefði ekki fattað sjálf að það væri 1 apríl og væri í alvörunni að selja hjólin. 

Einn vildi fá myndir af mér í fötunum senda í email.  Ég er enn að kitla hégómagirndina, að hann hafi virkilega langað í myndir af mér í þröngum spandex klæðnaði en væri ekki að reyna að láta mig hlaupa fyrsta apríl til baka. 

Eftir því sem dagar, vikur og mánuðir liðu hélt fólk áfram að hlaupa apríl.  Senda mér tilboð í hjólin.  Ég fékk síðast tilboð í mars síðastliðnum, tæpu ári eftir að ég setti gabbið fram.  Þá ákvað ég að fela færsluna, þó að það sé gaman að gabba fólk í einn dag á ári, þá vill maður ekki plata fólk allan ársins hring.  Þó að ég hafi verið búin að uppfæra færsluna með 1 apríl klausu, þá dugði það ekki til, fólk las bara "hjól til sölu" og sendi svo póst hið snarasta til að missa nú ekki af tækifærinu.

07 11 008 

Mér hefndist raunar fyrir gabbið, hjólinu mínu var stolið úr bakgarðinum um hábjartan dag.  Við áttum þó margar ánægjustundir allt síðasta ár, þessi mynd er tekin nálægt Húsafelli einn sólríkan  dag síðastliðið sumar.  Einstaklega skemmtileg leið til að njóta náttúrunnar í návígi.

Ég hefði kannski átt að halda færslunni inni og sjá hvort ég geti ekki sett Íslandsmet í lengd aprílgabbs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Hvernig stendur á því að  fólk er ekki að skilja hvað  það er að  "hlaupa" fyrsta apríl! það að auglýsa eitthvað á bloggi og fólk svarar er ekki að hlaupa apríl, fólk þarf að , hlaupa til handa og fóta og láta þannig plata sig,  það er mergurinn málsins.

Guðmundur Júlíusson, 1.4.2010 kl. 21:49

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Amma mín sálug sagði að fólk þyrfti lágmark að fara yfir þröskuld til að gabbið teldist heppnað.  Á svona tækniöld held ég að það verði að teljast gott ef fólk ómakar sig til að skrifa email sem það hefði ekki þurft að skrifa...  Það er að "hlaupa upp til handa og fóta" í dag.  Ég var ekki nægilega forhert til að láta fólk koma og skoða, það hefði væntanlega þá flokkast undir apríl-gabb hjá þér

Hjóla-Hrönn, 1.4.2010 kl. 22:21

3 identicon

Já, það hefði gert það :)

Guðmundur Júlíusson (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband