100 km á einu epli

Ég ætlaði að hjóla áleiðis upp í Mosfellsbæ og kannski skreppa í sund ef heilsan leyfði.  Ég var í gönguferð við Garda vatnið og eftir flugferðina heim var ég með mikið vatn i hnjánum, en ég er með slitgigt.  Leyfi mér þó að fara í svona gönguferðir einu sinni á ári, enda fátt sem lyftir andanum betur upp en mátuleg blanda af hreyfingu og menningartengdum viðburðum.

06-03 049b

Ég ætlaði að taka þátt í Bláa lóns áskoruninni, hjóla 60 km leið frá Hafnarfirði að Bláa Lóninu, en eftir hjólatúr á mánudaginn, þar sem ég komst varla upp fyrir 10 km hraða og rétt náði 10 km, þá runnu á mig tvær grímur, kannski betra að fresta þátttöku til næsta árs.  Annað hnéð læstist reglulega og ég fékk lamandi verk niður eftir fótlegg í kjölfarið.  Fór samt aftur út að hjóla næsta dag, náði aðeins lengri vegalengd, þó að hraðinn væri ekki mikið betri.

En í gær ákvað ég að prófa að hjóla 20-30 km og athuga hvernig hnéð væri eftir það.  Þegar ég kom upp í Mosfellsbæ var ég bara komin í sæmilegt form og stöðugt lengra á milli læsinga í hnénu.  Svo ég ákvað að hjóla aðeins upp á Mosfellsheiðina og breyta rólegheita hjólatúrnum í próf, hvort ég væri í formi fyrir Bláa Lónið.  Ætlaði að hjóla ca 30 km án þess að stoppa og snúa svo við svo ég næði 60 km heildarvegalengd.  Veðrið var guðdómlegt, sól, hiti og ég á stuttermabol og stuttbuxum.

Þá fékk ég eina af mínum góðu hugmyndum, að halda áfram yfir á Þingvelli, fá mér ís og hjóla svo aftur í bæinn.  Eftir því sem ég nálgaðist Þingvelli og svengdin og garnagaulið jókst breyttist planið í hamborgara og ís í eftirrétt.  Hnéð var alveg hætt að læsast og ég veit af fenginni reynslu að hjólreiðarnar hjálpa til við að fjarlægja vökvann úr hnjánum.  Ég var jafnvel að spá í að fara Nesjavellina heim úr því veðrið var svona gott, ég gæti nestað mig upp á Þingvöllum, en ég tók bara með eitt epli og vatnsbrúsa í hjólatöskuna sem ég ætlaði að snæða eftir sundið.

Af tvennu illu er betra að gleyma aukafötunum, en gleyma veskinu heima og vera nánast nestislaus í 100 km hjólaferð.  Þar með breytti ég aftur planinu, ákvað að éta epla skömmina og hjóla aftur yfir Mosfellsheiðina.  Eplið náði að seðja sárasta hungrið og ég hjólaði aftur af stað, áætlaði að vera 2 tíma á leiðinni heim, en ég var rétt 1 og hálfan að fara frá Reykjavik til Þingvalla.  Lendi ég ekki í einum stífasta mótvindi sem ég hef nokkurn tíma lent í.  Var sem betur fer með jakkann ofan í hjólatöskunni, annars hefði ég verið bæði svöng og köld á heimleiðinni.  Sem tók upp undir 5 tíma.  Með tveimur góðum sólbaðspásum, en ég var að vona að hann myndi lægja með kvöldinu.  Það gerðist náttúrulega ekki fyrr en ég kom í Mosfellsbæinn, og þá var ég komin með einkenni blóðsykurfalls, en ég hef glímt við sykursýki á undanförnum árum.  Er þó hætt að taka lyf við henni, enda næ ég núorðið að halda sykrinum góðum með bættu mataræði.

Fyrst verður maður svangur, svo fær maður magaverki, svo vanlíðan og loks þegar blóðsykurinn er orðinn hættulega lágur fær maður yfirþyrmandi tilfinningu að leggjast niður og fara að sofa.  Vöðvar láta illa að stjórn og ég var komin með þreytu dauðans, en ég á alveg að hafa úthald í 7 tíma hreyfingu, hvort sem það er göngu eða hjólaferð.  En þá þarf maður að næra sig til að hafa úthald.  Ég þurfti að setjast á annan hvern bekk i Gravarvoginum til að hvíla mig og reyna að yfirvinna svefnþörfina.  Gemmsinn var náttúrulega í veskinu heima, svo ég gat ekki hringt eftir hjálp, en ákvað að ég yrði að stoppa einhvern vegfaranda ef ég færi að sjá svartar flygsur, sem er merki um að blóðsykurinn sé orðinn verulega lágur.  Fyrst var ég að íhuga að banka upp á hjá einhverjum bóndanum á leiðinni og biðja um banana, en þegar ég er í þessu ástandi riða ég til og verð þvoglumælt, svo ég var nú ekki viss um að ég fengi bliðar móttökur ef ég færi að banka upp á hjá bláókunnugum og betla mat.  Fólk með sykursýki i blóðsykurfalli hefur liðið út af og ekki fengið hjálp frá fólki af því það telur að viðkomandi sé drukkinn eða undir áhrifum eiturlyfja.

Þegar ég kom heim mældi ég blóðsykurinn og hann var farinn niður fyrir 3, en á þessum tíma dags er æskilegt að hann sé nálægt 8.  Gúffaði í mig ab-mjólk með músli, tveimur ávöxtum, fékk kuldakast og skalf inn í ómegin.  Vaknaði svo eftir 7 tíma, stálslegin, hress og kát, hnén í fínu lagi, engar harðsperrur.

Svo ég er klár í slaginn, Blú Lagún, hír æ komm!

06-01 117b


mbl.is Hafa komið til móts við skuldavandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

jahérnahér er sko ekki gefin tomma eftir - dugnaðar forkur

Jón Snæbjörnsson, 9.6.2010 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband