Hjólabókin

Það var þykkt umslag í pósthólfinu mínu í vikunni, ég var búin að fá dagatal 2012 frá viðskiptabankanum mínum og taldi að nú væri samkeppnisaðili að senda mér veglegra dagatal.  En þegar ég opnaði umslagið reyndist þar vera komin Hjólabókin, skrifuð af Ómari Smára Kristinssyni.  Gjöf höfundar til mín, þakklæti fyrir þá fræðslu og skemmtan sem bloggið mitt hefur veitt honum.  Mikið svakalega var gaman að fá þessa sendingu.

12-19 008

Þessi bók er bara eins og skrifuð með mig í huga.  Ég ferðast iðulega þannig að ég finn mér 20-80 km hringleiðir, kem mér á áfangastað á bíl með hjólið aftan á, og hjóla svo í hring, aftur að bílnum eða náttstað, tek jafnvel annan hring ef stutt er liðið á daginn.  Þ.e. þegar ég er ein á ferð.  Ég er sjálf búin að skipuleggja þrjár sumarleyfisferðir með þessum hætti, fór fyrst Vesturland, svo Norðurland og Austfirði í sumar.  Ég hef skipulagt fyrirfram hvað ég ætla að hjóla á ja.is.  Vesturlandið var aðeins of auðvelt, enda mest megins flatt.  Norðurlandið kom mér á óvart, hvað það var mikið af troðningum og illfærum vegum sem litu út fyrir að vera sæmilega færir akvegir á kortinu, ég hélt að ég væri að fara svipaða slóða og á Vesturlandinu og var á götuhjóli í hvílíku torfærunum og grjóthnullungum.

06-26 061

Austurlandið var mikið á malbiki og heiðarnar það háar að ég er ekki viss um að ég hefði lagt í þær ef þokan hefði ekki byrgt mér sýn upp á topp.  En þetta sér maður ekki á ja.is, þó að þar séu uppgefnar hæðarlínur, þá gefur það manni ekki tilfinningu fyrir hversu erfið eða illfær viðkomandi leið er, þá eru ekki gefin upp vöð og annað sem máli skiptir.

Í Hjólabókinni er margs konar fróðleikur, þarna er 14 dagleiðum lýst í máli og myndum, gps hnit gefin upp, erfiðleikastigsflokkun og sýnt hversu mikil hækkun og lækkun er á leiðunum.  Þetta er alveg upplagt fyrir hjólafólk eins og mig, sem veit ekkert þegar ég legg af stað í hringinn, hvort ég verði tvo eða tíu tíma á leiðinni.  Ég er raunar alltaf með nesti fyrir 24 tíma og fatnað fyrir hvaða veður sem er þegar ég fer í dags hjólatúr, en það er mikil hjálp í því að vita nokkurn veginn hvað maður er að fara út í fyrirfram.  Og einmitt Vestfirðir, en ég hef lítið hjólað þar, hef þó hjólað tvær leiðir í bókinni, hringinn í kring um Reykjanes og Steinadalsheiðina.  Ég var á leiðinni að setjast niður og skipuleggja hjólaferð næsta sumars, en þarf þess ekki, þessi bók mun sjá mér fyrir skemmtilegum hjólaleiðum alla vega tvö sumarfrí.

Það ættu allir að hafa gaman af þessari bók, hvort sem þeir eru nýbyrjaðir að hjóla, sem og reyndir hjólanaglar sem eru nú þegar búnir að hjóla þetta, alltaf gaman að rifja upp hvað maður er búinn að afreka.

Ómar Smári, til hamingju með þessa líka fínu bók, og hjartans þakkir fyrir að gefa mér eintak.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband