Maður er aldrei ánægður!

Síðasta vetur var ég svolítið að leita á netinu að stórum hjólafötum.  Vissulega eru einhverjar netverslanir sem selja slíkt, en stærstu stærðirnar voru iðulega uppseldar eða ekki nógu stórar fyrir mig.  Ég hef svo sem alltaf glímt við þetta vandamál, þegar ég er í kjörþyngd og þrusuformi nota ég kvenstærð 48, og það er einmitt stærðin sem er alls staðar útundan.  Tískuvöruverslanir og íþróttabúðir eru almennt ekki með stærra en 46 fyrir konur, það vantar tilfinnanlega íþróttabúð með vörum fyrir feitt fólk.  Svona af því við erum ekki neinn minnihlutahópur lengur, þorri þjóðarinnar að flokkast yfir þyngdarmörkum.  Svo var ég að skoða hér á einni síðu og fann jakka sem gæti hentað mér:

http://www.rei.com/product/771258

Jei, fletti honum upp í nánari detail og jú, til í 2x (54) og 3x (56).  Það er bara of stórt, hefði passað á mig í vetur, en ekki lengur, ég er komin á þennan leiðinlega stað, að vera að detta út úr plus-size flokknum, en eiga eitthvað í land með að geta verslað í venjulegum búðum.  Og þá er ég að tala um að passa í karlmannastærðir í venjulegu búðunum.  Það er svona, maður er aldrei ánægður, búin að missa tuttugu og eitthvað kíló síðan ég breytti um lífstíl fyrir réttu ári.  Þá nöldra ég yfir því að passa ekki lengur í plus stærðirnar.

Ég á einar hjólabuxur, sem ég fer varla úr núorðið, það er bara tímaspursmál hvenær hnén eða rassinn fer í gegn.  Og að ég skyldi finna þær á Spáni, finnst mér allra fyndnast.  Af því fólkið þar nær mér varla í öxl og á þverveginn hefðu þrír Spánverjar getað rúmast inni í mér þegar ég keypti þær.  Buxurnar eru meira að segja of síðar, þótt þær séu full þröngar.  En það er það góða við spandex, það teygist endalaust!

Svo má ég til með að segja ykkur frá einni dúllu á Barnalandi.  Hún var nýkomin úr brjóstastækkun, var áður í stærð 32C sem er mjög algeng stærð hjá kvenfólki, en nei, hún var ekki ánægð og lét stækka brjóstin upp í DD skál.  Hún var að spyrjast fyrir hálfgrátandi á spjallþráðnum hvar hún fengi á sig flotta brjóstahaldara, því núna væri hún með svo stór brjóst að hún fengi ekkert á sig nema hallærisleg kellinga-brjóstahöld í BH búðinni eða álíka lummó verslunum og allir kúnnarnir fyrir utan hana væru gamlar kellingar með sigin brjóst.  Nú horfði hún á alla gömlu flottu brjóstahaldarana sína og vildi óska þess að hún kæmist í þá aftur.  Djöfull hló ég að stelpukjánanum.  Verandi grannvaxin og með fína brjóstastærð (handfylli á hvaða karlmanni sem er) að fara á skurðarborðið með tilheyrandi þjáningum og fjárútlátum til að fá tvo körfubolta framan á sig og geta hvergi fengið á sig falleg brjóstahöld.  Ekki er öll vitleysan eins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Davíðsson

Ertu búinn að skoða hvort þú finnur eitthvað passlegt á Mountain equipment coop í Kanada: www.mec.ca?

Árni Davíðsson, 12.6.2009 kl. 22:36

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Neibb, sé ekkert stærra en 46 í kvenkyns deildinni 

Hjóla-Hrönn, 14.6.2009 kl. 15:38

3 Smámynd: Sigga Hjólína

Ég fann flott hjólaföt í Kaupmannahöfn. Man ekki hvað búðin heitir. Hallsteinn man það en kallinn er í útlöndum í augnablikinu. Fletti upp í honum þegar hann kemur til baka um næstu helgi. Sendi það á þig.

Sigga Hjólína, 15.6.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband