Hjólaföt - netverslanir

Þar eð ég telst nú vera "venjuleg" kona í þyngdarlegum skilningi áræddi ég að hætta mér inn í hérlendar íþróttabúðir, mátaði slatta af hjólabuxum og annan íþróttafatnað.  Passaði vissulega í eitthvað af þessu, en þá var hönnunin asnaleg, t.d. buxurnar stuttar að aftan, og hver vill hjóla með rassskoruna uppúr?  Ekki ég.  Svo ég ákvað að prófa að panta upp úr erlendri vefverslun sem sérhæfir sig í hjólavörum.  Pantaði einar kvenbuxur í xl og karlmannsbol í xl.  Þetta passaði svona líka ljómandi fínt, bæði meira að segja vel rúmt. 

Svo ég áræddi að panta meira og nú allt úr kvengeiranum.  En nei, xl er sko ekki sama og xl.  Þó að það sé innan sama framleiðanda.  Pantaði buxur og bol.  Í xl.  Buxurnar voru níðþröngar en náðu upp að herðablöðum að aftan.  Að framan náðu þær varla upp fyrir hárlínu.  Fór að lesa nánar lýsinguna á þessum buxum og þær reyndust vera hannaðar sérstaklega fyrir racer-konur.  Jahá, er ekki gert ráð fyrir því að konur þurfi að stíga af baki einhvern tíma???  Bolinn sem ég hafði keypt við passaði ágætlega á þverveginn, nema hann var óvenju stuttur að framan.  Aftur eitthvað racer-dæmi og merkilegt nokk, virtist vera hannað á holduga konu 160 á hæð.  Síddin að aftan er hins vegar það mikil að ég þarf ekki að taka með dömubindi í hjólatúrana...  "so there is no annoying gap"  stóð í lýsingunni á vefsíðunni.  Nei, það angrar mig ekki baun þótt brjóstin gægist niður undan bolnum og brúskurinn upp úr buxunum.  Gaaarrrggg.  Og nei, þið fáið ekki mynd!

Ætli ég haldi mig ekki við karlmannalínuna í framtíðinni.  Hef ekki séð svona asnalega hönnun á karlmannsflíkunum.  Hef alla vega ekki séð neinn með bibbann uppúr hjólabuxunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú kemst svo dásamlega að orði Hrönn :-) Gaman að lesa bloggið þitt.

kv. Magnea

Magnea J. Guðmundar (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 22:32

2 Smámynd: steinimagg

Já sum hjólaföt eru alveg furðuleg, maður kaupir kannski buxur sem passa um mittið en þá eru þær svo háar að maður lítur út eins og Steinríkur :-)

Ég hef verslað nokkrar flíkur frá Pearl Izumi og mæli með þeim, að vísu í dýrari kantinum en mjög vönduð vara. Barrier jakkinn frá þeim er frábær fyrir okkur á klakanum,

hann er vatsheldur að framan og andar vel að aftan, bara snilli :-)

steinimagg, 3.10.2009 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband