Jólakaffi á Mosfellsheiðinni

12-26 030

Jólakaffið var fremur óhefðbundið þetta árið, ég ákvað að klára þennan hring í Mosfellsdalnum sem ég byrjaði á fyrir tveimur vikum.  Það var 3 stiga frost og nokkuð stífur vindur.  Ég fann skjólgóða laut á heiðinni, fékk mér möndlukökur og kaffisopa.

12-26 024

Þetta var fremur grófur línuvegur, sæmilegur framan af, en breyttist svo í grófan slóða.  Sennilega fremur illfær ef jarðvegur er blautur, en nú var hann vel frosinn og ég gat auðveldlega hjólað þetta.  Rámaði í að ferðafélagar mínir Bryndís og Garðar hafi hjólað þennan línuveg fyrir nokkrum árum, þá á leiðinni til baka frá Þingvöllum.  Bryndísi þótti vegurinn afar slæmur og hún talaði um að þau hafi þurft að teyma hjólin í langan tíma.  Ég var að hugsa að þetta væri nú ekki svo slæmt, þegar einhverjum álfinum hefur þótt ráðlegt að lækka í mér rostann, það var eins og einhver hefði sparkað mér snögglega á hliðina, skarta núna 7 marblettum frá ökkla upp á upphandlegg.  Hér datt ég, þessir steinar voru ekki beint þægilegir að lenda á, en þá er gott að vera svolítið bólstraður, ég er farin að hafa smá áhyggjur af því að ég fari verr út úr byltunum þegar (ekkert "ef" lengur) ég kemst niður í kjörþyngd.  Var að skoða kortið og staðurinn heitir Illaklif, mjög viðeigandi örnefni:

12-26 035 

12-26 013

En allt slíkt gleymist við fallegt útsýni, ferskt heiðaloftið og kyrrðina..., eh, nei, ekki er hægt að tala um kyrrð, vindurinn söng og kvein í rafmagnsmöstrunum.

12-26 003

Ég var svolítið dúðuð á minn mælikvarða, í ullarbol innst, svo þunn æfingatreyja þar utanyfir og svo önnur æfingatreyja yst fata.  Ég gleymdi vestinu og hjálminum heima.  Ætlaði að vera í gula endurskinsvestinu og hefði þá sleppt annarri treyjunni.  Ég kippti henni með svo ég gæti farið í þurra treyju ef ég skyldi blotna á leiðinni.  Betra að vera með aðeins of mikið af fötum með sér en aðeins of lítið.  Svo var ég í þunnum ullarbuxum og venjulegum hjólabuxum utanyfir.  Í þunnum ullarsokkum og vinnuskóm kallsins, þ.e. ég rændi þeim af honum fyrir ári síðan.  Fer ekki að finna fyrir kulda í þeim fyrr en í -10 stiga frosti, ef það er sterkur vindur.  Flíshúfa, legghlífar og skíðahanskar.

12-26 018

Hvað er þetta með mig og Mosfellsdalinn?  Gemsinn minn verður alltaf rafmangslaus og ég næ ekki niður á veg fyrir myrkur.  En ég náði sólarlaginu þrisvar sinnum, af því ég var á leiðinni upp á heiðina þegar sólin settist.

12-26 043

Ég var eiginlega heppin að það skyldi vera frost, því það þarf að fara yfir ána Bugðu, og mér sýndist hún vera töluvert vatnsmeiri en Leirvogsáin sem rennur hinu megin í dalnum.  En áin var alveg frosin og ísinn virtist vera 20+ cm á þykkt, annars hefði ég kannski neyðst til að fara aftur til baka, og það hefði ég gert frekar en fara mér að voða.  Nei, þetta er ekki Bugða, maður hoppar bara yfir svona sprænur.  Svolítið varasamt að fara yfir brúna, hún lítur ágætlega út þegar maður kemur að henni...

12-26 039

En svo var ástandið svona þegar betur var að gáð:

12-26 040

12-26 028

12-26 010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Takk fyrir fallega og skemmtilega myndasýningu.Tad er enginn smá dugnadur í tér á hjólinu.Mikid hefur verid notalegt ad fá kaffid og kökurnar  í pásunni.

Kvedja frá Hyggestuen

Gurra

Gudrún Hauksdótttir, 6.1.2010 kl. 07:26

2 Smámynd: Morten Lange

Tek undir með Gurra ! 

Morten Lange, 21.1.2010 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband