22.6.2011 | 00:11
Snæfellsnes
Helgi hinna miklu sprenginga. Það byrjaði með því að ég staflaði dótinu mínu út úr bílnum á tjaldstæðinu á Arnarstapa, ætlaði að fá mér mjúkt sæti, sængin mín og koddarnir þrír voru allir með í för ofan í svörtum ruslapoka. Pokinn sprakk með ægilegum gný og vakti þá sem höfðu farið snemma í háttinn.
Því næst brotnaði handfangið á pumpunni sem ég ætlaði að nota til að blása upp vindsængina. Þriðja sprengingin átti sér svo stað þegar ég ætlaði að fara að sofa á dýnuskömminni, heyrði ég *púff* ýlfur og svo loftið að renna úr dýnunni. Fann gatið og notaði reiðhjólabæturnar til að stöðva lekann. Ja, eða minnka hann, réttara sagt, dýnan var orðin æði loftlaus og ég sokkin niður í hana næsta morgun. Samt ekkert vont, bara eins og að vakna upp í notalegum karlmannsfaðmi.
Mér þótti auglýsing Fjallahjólaklúbbsins orðuð nokkuð harðjaxlalega, bjóst jafnvel við að ég yrði eini kvenkyns þátttakandinn og allir hinir fílefldir karlmenn sem myndu spæna upp á jökul langt á undan mér. Ég var eiginlega búin að ákveða fyrirfram að þiggja far með Björgvini upp á jökulhálsinn. Frétti svo daginn fyrir brottför að trússarinn hefði boðað forföll og það væru bara böns af kellingum sem ætluðu með. Svo ég taldi að ég gæti þetta alveg, þó að ég hafi nú ætlað að forðast fjallgöngur til að hlífa hnjánum, en ég er með slitgigt. Gott að hjóla, vont að ganga.
Vegurinn upp að Snæfellsjökli var kyrfilega merktur ófær, en við létum það ekkert aftra för okkar, stigum á sveif og tókum á.
Komum við í Sönghellinum og tókum lagið, aldrei að vita nema sönghópur Fjallahjólaklúbbsins hafi verið stofnaður á þessari stundu, ég á eftir að hlusta á upptökuna og vega og meta hvort hún er birtingarhæf.
Við vorum búin að frétta á leiðinni frá Reykjavík að vegurinn færi undir snjó við jökulinn, ég hugsaði með mér, hva, 10-15 mínútna ganga í snjó breytir engu. Jafnvel hægt að hjóla á snjónum. Það fór svo að við klofuðum snjóinn í 4 klukkutíma, þungan og blautan sem klesstist inn í gjarðirnar, þyngdi hjólin og bleytti og kældi á okkur lappirnar. Þokan læddist svo að okkur og sá um kælingu á efri hlutanum. Bara gott að hafa þetta í jafnvægi.
Hin fjögur fræknu voru heldur blaut og hrakin þegar þau komu loksins niður af jöklinum og gátu látið vindinn feykja sér yfir Fróðárheiði. Þar rifnaði ventillinn úr slöngunni með háum hvelli og þótti mér nú nóg komið af sprengingum og loftleysi á innan við einum sólarhring. Aukaslangan brúkuð og hjólað eins og eldibrandur inn á Arnarstapa, svo við næðum í Fiskisúpuna á Fjöruhúsinu fyrir lokun. Ah, hvað súpan og bjórinn bragðaðist vel eftir 9 tíma puð.
Ég fór þennan hring í fyrra á 6 tímum, með viðkomu á Ólafsvík og langri sólbaðspásu á Fróðárheiðinni. En þá var enginn snjór á veginum, hann tvöfaldaði erfiðleikastig leiðarinnar. Eða eins og Guðbjörg sagði "Lengstu 55 km sem ég hef hjólað"
Önnur dagleiðin var 30 km, góður hluti hennar í mótvindi 15 m/sek. En vissulega líka meðvindur á köflum. Hjóluðum við fyrst meðfram Gerðubergi upp að Rauðamelsölkeldu, þar sem Örlygur gerðist ungæðislegur og plankaði yfir kelduna. Þeir sem skilja ekki fyrirbærið er bent á að gúggla "planka" eða "planking" á engilsaxneskunni.
Svo var hjólað niður fyrir veg og reynt að finna leið að Eldborginni, komum að sveitabæ þar sem kona nokkur stóð úti á hlaði með sprautu í hendinni með hlussustóra nál, þorðum við ekki öðru en taka orð hennar trúanleg að það væri ekki hjólafært að Eldborg, bara göngufært og ég var orðin of slæm til að treysta mér í meiri göngur að sinni. Eldborgin fer ekkert, alltaf hægt að nálgast hana síðar.
Við slógum upp tjaldbúðum við hótel Eldborg, brugðum okkur í sund og fengum okkur svo aftur gott að borða, þarna var verið að elda margrétta kvöldverð fyrir fjölda fólks og þeim munaði ekkert um að bæta okkur við. Þarna bragðaði ég hrefnukjöt í fyrsta sinn, ljómandi gott alveg. Og bjórinn alltaf jafn góður.
Fórum snemma í háttinn, lúin eftir vindasaman dag. Merkilegt að Örlygur og Unnur töldu sig bæði hafa fundið fyrir jarðskjálfta rétt eftir miðnætti, en ég held að við höfum bara tjaldað of þétt, þau hafi velt sér í sitt hvoru tjaldinu á sama tíma og rekist á í gegn um tjalddúkinn. Ég varð alla vega ekki vör við neitt og ekkert var í fréttunum um skjálftavirkni á Snæfellsnesi.
Þriðja dagleiðin var einstaklega falleg í góðu veðri, hjóluðum fyrst gömlu Vatnaleiðina, tókum svo hring í Berserkjahrauni og fórum svo nýju vatnaleiðina til baka, margar góðar myndir náðust þennan dag og innsigluðu þessa frábæru ferð nokkurra félaga úr Fjallahjólaklúbbnum.
Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér.
https://photos.app.goo.gl/4kxw43zWiBkcKfPs7
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 117547
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.