Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Hengiflug

07-18 112

Ég var að hjóla upp heljarinnar brekku, búin að puða og baksa við brekkuna, þá loksins gat ég tekið á þegar ég var alveg að komast á toppinn, var komin á góða ferð, fór fyrir klett, en beygjan var of kröpp til að ég næði henni.  Rann fram af hengiflugi en náði að grípa í brúnina með annarri hendi, hélt með hinu í hjólið, hyldýpið fyrir neðan mig og ég föst í klítunum.  Algjörlega að bilast úr hræðslu.

Ferðafélagarnir stoppuðu, skoðuðu aðstæður, sögðu að eina leiðin væri að láta mig detta.  Ég kæmist ekki upp aftur.  Ég leit niður og langt langt fyrir neðan var sjórinn spegilsléttur og fallega grænn.  "Þetta er ekkert mál, þú getur þetta, þú þarft bara að sleppa"  og svo bauðst einn til að stökkva með mér.  Og gerði það.  Og í því sem fingurnir misstu takið einn af öðrum og ég byrjaði að falla, þá var ég orðin alveg róleg og flugið var bara notalegt.  Á meðan ég féll náði ég að losa mig við hjólið og kasta því til hliðar.  Ylhlýr sjórinn tók mjúklega við mér og ég komst fljótlega upp á yfirborðið.  Þá brosti hann rennblautur og hress "Sko, þetta var ekkert mál"

Eru þeir ekki æðislegir félagarnir í Fjallahjólaklúbbnum, koma meira að segja til manns í svefni og breyta martröð í fallegan draum.

07-18 089

 


Snæfellsnes

06-19 087

Helgi hinna miklu sprenginga.  Það byrjaði með því að ég staflaði dótinu mínu út úr bílnum á tjaldstæðinu á Arnarstapa, ætlaði að fá mér mjúkt sæti, sængin mín og koddarnir þrír voru allir með í för ofan í svörtum ruslapoka.  Pokinn sprakk með ægilegum gný og vakti þá sem höfðu farið snemma í háttinn.

P6170100 

Því næst brotnaði handfangið á pumpunni sem ég ætlaði að nota til að blása upp vindsængina.  Þriðja sprengingin átti sér svo stað þegar ég ætlaði að fara að sofa á dýnuskömminni, heyrði ég *púff* ýlfur og svo loftið að renna úr dýnunni.  Fann gatið og notaði reiðhjólabæturnar til að stöðva lekann.  Ja, eða minnka hann, réttara sagt, dýnan var orðin æði loftlaus og ég sokkin niður í hana næsta morgun.  Samt ekkert vont, bara eins og að vakna upp í notalegum karlmannsfaðmi.

06-19 056 

Mér þótti auglýsing Fjallahjólaklúbbsins orðuð nokkuð harðjaxlalega, bjóst jafnvel við að ég yrði eini kvenkyns þátttakandinn og allir hinir fílefldir karlmenn sem myndu spæna upp á jökul langt á undan mér.  Ég var eiginlega búin að ákveða fyrirfram að þiggja far með Björgvini upp á jökulhálsinn.  Frétti svo daginn fyrir brottför að trússarinn hefði boðað forföll og það væru bara böns af kellingum sem ætluðu með.  Svo ég taldi að ég gæti þetta alveg, þó að ég hafi nú ætlað að forðast fjallgöngur til að hlífa hnjánum, en ég er með slitgigt.  Gott að hjóla, vont að ganga.

06-19 010

Vegurinn upp að Snæfellsjökli var kyrfilega merktur ófær, en við létum það ekkert aftra för okkar, stigum á sveif og tókum á.

06-19 011 

Komum við í Sönghellinum og tókum lagið, aldrei að vita nema sönghópur Fjallahjólaklúbbsins hafi verið stofnaður á þessari stundu, ég á eftir að hlusta á upptökuna og vega og meta hvort hún er birtingarhæf.

P6170104

Við vorum búin að frétta á leiðinni frá Reykjavík að vegurinn færi undir snjó við jökulinn, ég hugsaði með mér, hva, 10-15 mínútna ganga í snjó breytir engu.  Jafnvel hægt að hjóla á snjónum.  Það fór svo að við klofuðum snjóinn í 4 klukkutíma, þungan og blautan sem klesstist inn í gjarðirnar, þyngdi hjólin og bleytti og kældi á okkur lappirnar.  Þokan læddist svo að okkur og sá um kælingu á efri hlutanum.  Bara gott að hafa þetta í jafnvægi.

06-19 002

P6170114

SN852246

Hin fjögur fræknu voru heldur blaut og hrakin þegar þau komu loksins niður af jöklinum og gátu látið vindinn feykja sér yfir Fróðárheiði.  Þar rifnaði ventillinn úr slöngunni með háum hvelli og þótti mér nú nóg komið af sprengingum og loftleysi á innan við einum sólarhring.  Aukaslangan brúkuð og hjólað eins og eldibrandur inn á Arnarstapa, svo við næðum í Fiskisúpuna á Fjöruhúsinu fyrir lokun.  Ah, hvað súpan og bjórinn bragðaðist vel eftir 9 tíma puð. 

P6170131 

Ég fór þennan hring í fyrra á 6 tímum, með viðkomu á Ólafsvík og langri sólbaðspásu á Fróðárheiðinni.  En þá var enginn snjór á veginum, hann tvöfaldaði erfiðleikastig leiðarinnar.  Eða eins og Guðbjörg sagði "Lengstu 55 km sem ég hef hjólað"

Önnur dagleiðin var 30 km, góður hluti hennar í mótvindi 15 m/sek.  En vissulega líka meðvindur á köflum.  Hjóluðum við fyrst meðfram Gerðubergi upp að Rauðamelsölkeldu, þar sem Örlygur gerðist ungæðislegur og plankaði yfir kelduna.  Þeir sem skilja ekki fyrirbærið er bent á að gúggla "planka" eða "planking" á engilsaxneskunni.

06-19 030

Svo var hjólað niður fyrir veg og reynt að finna leið að Eldborginni, komum að sveitabæ þar sem kona nokkur stóð úti á hlaði með sprautu í hendinni með hlussustóra nál, þorðum við ekki öðru en taka orð hennar trúanleg að það væri ekki hjólafært að Eldborg, bara göngufært og ég var orðin of slæm til að treysta mér í meiri göngur að sinni. Eldborgin fer ekkert, alltaf hægt að nálgast hana síðar.

SN852243

Við slógum upp tjaldbúðum við hótel Eldborg, brugðum okkur í sund og fengum okkur svo aftur gott að borða, þarna var verið að elda margrétta kvöldverð fyrir fjölda fólks og þeim munaði ekkert um að bæta okkur við.  Þarna bragðaði ég hrefnukjöt í fyrsta sinn, ljómandi gott alveg.  Og bjórinn alltaf jafn góður.

06-19 045

Fórum snemma í háttinn, lúin eftir vindasaman dag.  Merkilegt að Örlygur og Unnur töldu sig bæði hafa fundið fyrir jarðskjálfta rétt eftir miðnætti, en ég held að við höfum bara tjaldað of þétt, þau hafi velt sér í sitt hvoru tjaldinu á sama tíma og rekist á í gegn um tjalddúkinn.  Ég varð alla vega ekki vör við neitt og ekkert var í fréttunum um skjálftavirkni á Snæfellsnesi.

06-19 084

Þriðja dagleiðin var einstaklega falleg í góðu veðri, hjóluðum fyrst gömlu Vatnaleiðina, tókum svo hring í Berserkjahrauni og fórum svo nýju vatnaleiðina til baka, margar góðar myndir náðust þennan dag og innsigluðu þessa frábæru ferð nokkurra félaga úr Fjallahjólaklúbbnum.

06-19 081

Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér.
 
https://photos.app.goo.gl/4kxw43zWiBkcKfPs7

Bláa Lóns

Í fyrra var ég næstum hætt við þátttöku vegna slæms ástands í hnjánum.  Var nýkomin úr viku gönguferð og flugi og mikið vatn í hnjánum og annað læstist reglulega með miklum sársauka.  Fór þetta samt á hörkunni og varð í 10 sæti af 48 konum sem hófu keppni í 60km flokki.  Varð 3ja í mínum aldursflokki.

Fyrir tveimur vikum fór ég í ferð með Fjallahjólaklúbbnum þar sem þurfti að labba og teyma (réttara sagt draga og toga) hjólið upp um 500 metra.  Og drösla því svo niður álíka langt, of bratt til að hjóla niður.  Svona fjallgöngur leggja mig venjulega í rúmið eða á hækjur í einhverja daga, ég var orðin hölt þegar við komum upp á fjall og venjulega verð ég ennþá verri næsta dag, en þar eð við hjóluðum ca 30 km eftir puðið og ég skellti mér beint í sund, þá varð ég ekki eins slæm og ég átti von á.  Hreyfingin hjálpar til við að fjarlægja vökva úr hnjánum.  Svo ég hélt áfram að æfa upp þrek fyrir Bláa lónið.

Þar til ég vaknaði upp fyrir viku síðan með slæman verk í öðrum upphandleggnum og gat ekkert hreyft hann.  Ég hef áður brotið bein og þessi verkur var álíka vondur.  En það er nú hæpið að maður handleggsbrotni við að snúa sér í rúminu, svo ég fór fram úr og gúgglaði "verkur í upphandlegg".  Hjartaáfall!  Nei, enginn verkur í brjóstinu.  Næsta grein fjallaði um blóðtappa og einkennin pössuðu við það svo ég dreif mig upp á bráðamóttöku.  Ég reyndist vera með bráða staðbundna taugabólgu sem olli kraftleysi og lömun í handleggnum.  Send heim með verkjatöflur og fyrirmæli að koma aftur næsta dag ef máttleysið væri ekki farið að dvína.

Svo ég fór heim pínu niðurbrotin, lá fyrir, slafraði í mig uppáskrifuðu læknadópi og ákvað að afskrifa Bláa Lóns keppnina að þessu sinni.  Til að taka þátt í svona keppni, þá þarf maður að vera hraustur og hafa góða stjórn á reiðhjólinu.  Til að leggja hvorki sjálfan sig né aðra í hættu.  Þetta var á laugardegi, viku fyrir keppni.  Á þriðjudag var lömunin gengin nægilega langt til baka til að ég gæti farið út að hjóla.  Stuttan hring á hægri ferð.  En eftir það gekk batinn mun hraðar og á föstudag gat ég hjólað á fullri ferð í hálftíma og handleggurinn orðinn jafn góður og áður.  Bláa Lóns aftur á dagskrá.

Það þarf líka að byggja sig upp andlega fyrir svona keppni.  Ég þríf venjulega á laugardögum og þar eð ég lamaðist eftir 7 daga uppsöfnun á ryki og drasli, þá þurfti ég að hemja húsmóðurgenið og leyfa draslinu að halda áfram að hlaðast upp.  Anda inn, anda út.  Yoga og andleg íhugun.  Stóísk ró.  Meira að segja strákarnir mínir, 8 og 12 ára voru farnir að hafa á orði að það væri orðið ansi mikil kexmylsna á gólfinu.  Ég lét það sem vind um eyru þjóta, úr því þeim datt ekki sjálfum í hug að prófa sópinn eða ryksuguna, þá gátu þeir bara vaðið skítinn áfram.  Bláa Lóns hafði forgang og öll mín orka fór í æfingar og hvíld fyrir hné og handlegg.

Kvöldið fyrir keppni ætlaði ég að fara lauslega yfir hjólið, kíkja eftir glerbrotum og athuga hvort hjólin væru ekki örugglega föst, bremsur í lagi og keðjan smurð.  Það fór náttúrulega svo að ég var langt fram yfir miðnætti að skipta um dekk og athuga slöngur (fann glerbrot og langa rifu á dekkinu)  Svo ég setti grófara dekk undir að aftan, vissi að ég myndi þá ekki renna eins vel á malbikinu, en ætti að vera ögn skárri á malarköflunum.

Eftir svona keppni þar sem maður úthellir svita, tárum og sumir blóði, þá verður maður ánægður að ná að klára án áfalla.  Enn ánægðari ef maður bætir tímann frá því í fyrra.  Enn ánægðari ef maður lendir á verðlaunapalli.  Takk Corinna fyrir að bjóða mér í lið og koma mér á verðlaunapall.  Takk Fjölnir fyrir að festa pumpuna fyrir mig.  Og takk gaur í gulum jakka fyrir að hægja á og leyfa mér að drafta hjá þér í rokinu við Grindavík.  Já, ég skal bjóða þér upp á bjór einhvern tímann ;)  Það munar töluverðu að geta hjólað í skjóli af einhverjum þegar á móti blæs.  Og takk HFR fyrir frábæra keppni, skipulag og framkvæmd til fyrirmyndar, við sjáumst aftur að ári.  Og að sjálfsögðu fær Bláa Lónið líka þakkir fyrir sinn stuðning.  Nánari umfjöllun og myndir er að finna á vef HFR.is, hér getur að líta Femme Fatale, kvennaliðið sem lenti í öðru sæti.

06-12 007

Ég varð 7unda af ca 50 konum og bætti tímann frá því í fyrra um 11 mínútur.  Mjög sátt með það.  Raunar færð og veður með besta móti, en ég fann vel að ég var í góðu formi.  Var ekkert eftir mig og ekki einu sinni harðsperrur daginn eftir.

Við eigum geysi öflugt hjólafólk, Hafsteinn Ægir sigraði karlaflokkinn, 7 árið í röð og María Ögn sigraði kvennaflokkinn.  En það eru fleiri sigurvegarar þó að þeir komist ekki á verðlaunapall.

Kolbrún tók þátt í fyrsta sinn, hjólið bilaði á miðri leið, hún skrúfaði sundur tannhjólin til að losa keðjuna, ekki kann hún neitt að gera við reiðhjól, skrúfurnar duttu út um allt, og eitthvað lítur hjólið einkennilega út, tannhjólin að aftan ekki á réttum stað.  En henni tókst að gera það hjólafært, halda áfram og ljúka keppni.  Einurð og eljusemi skapar sigurvegara.  Til hamingju Kolla með fyrstu Bláa Lóns!

Hvað ætla ég að gera öðru vísi að ári?  Muna eftir $#%&% sólarvörninni!

06-01 008web

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband