Hjólaði þvert yfir Ísland

07 26 011
Þegar menn segjast hafa farið hringinn í kring um Ísland, eru Vestfirðirnir iðulega skildir útundan.  Teljast ekki með.  Kannski skiljanlegt í gamla daga þegar vegir á kjálkanum voru verulega vondir og eiginlega bara færir traktorum.  Svo ég ákvað að heiðra Vestfirðina sérstaklega og hjóla þvert yfir Ísland, Steinadalsheiðina.  Frá Kollafirði við Húnaflóa að Gilsfirði við Breiðafjörð.  Það þarf ekkert alltaf að fara lengstu leiðina við að þvera Ísland, er það nokkuð?
.
07 24 001
Steinadalsheiði er 17 kílómetrar, ég bjóst við að verða 3 tíma að hjóla fram og til baka, en gleymdi að taka hækkunina með í reikninginn.  200 metrar virkar eitthvað svo lítið þegar maður hugsar þversum.  En þegar maður þarf að hjóla upp í 200 metra hæð, þá er það smá puð.  Ég kom keyrandi að Kollafirðinum, lagði bílnum þar og hjólaði svo á fínum malarvegi framan af, svo á aðeins grófari vegarslóða, þurfti að fara yfir nokkur vöð og svo þurfti ég að teyma hjólið upp bröttustu brekkurnar.
.
07 23 011C
Pabba leist nú ekki alveg á að ég ætlaði að hjóla þetta, "þetta er eiginlega jeppatroðningur" sagði hann.  Ja, ég verð nú að segja að það hafi verið þægilegra að hjóla Steinadalsheiðina en sumar göturnar á Ísafirði, ég get svo svarið það, ég fann nýrun og eggjastokkana skipta um staðsetningu þegar ég hjólaði Hlíðarveginn, sem á þó að heita malbikaður.  Gaman samt að sjá hvað það er mikil hjólamenning á Ísafirði.
.
07 25 019
Letin bankaði upp á Gilsfjarðarmegin, ég ákvað að húkka mér far til baka yfir heiðina, leist ekkert á að teyma hjólið upp allar brekkurnar sem ég var nýbúin að húrra niður og þægilegi meðvindurinn sem ég hafði haft í vesturátt hafði breytt sér í þokkalegan storm og það var byrjað að rigna.  Hóst, og svo átti þetta eiginlega að vera auðveldur sunnudagshjólatúr til að hrista úr sér timburmennina.  Hefði þá bara keyrt heiðina til baka og sótt hjólið, ég treysti mér alveg til að keyra hana á smábílnum sem ég var á, þó að heiðin sé rækilega merkt 4x4 Torleiði, vegurinn var alveg ágætur. 
.
07 26 009
Það var of kalt til að bíða hreyfingarlaus eftir fari, svo ég ákvað að rölta rólega af stað með hjólið upp á heiði.  Ég mætti bara einum bíl þá tvo tíma sem ég var að fara hana í vesturátt, svo ég var ekkert viss um að neinn myndi fara hana í austurátt, ég var ekki viss um að ég gæti teymt hjólið upp alla leið vegna þess að ég var ekki orðin góð í bakinu, plan B var að leggja frá sér hjólið og labba alla leið yfir að bílnum.  Það myndi taka mig 3-4 klukkutíma sem hefði svo sem verið allt í lagi, á meðan það er ennþá bjart á kvöldin.
.
07 26 005
Þegar ég var búin að labba og teyma hjólið í rúman klukkutíma kom fyrsti bíllinn.  Á móti mér.  Fólkið stoppaði og hrósaði mér í hástert fyrir dugnaðinn, ég var meira að segja mynduð í bak og fyrir.  Ég fylltist krafti við þetta og eftir þó nokkuð margar mínútur í viðbót af þrammi upp á við var ég komin upp á háheiðina og eftir það lá leiðin aftur niður á við.  Reiknaði með 3-4 tímum í austurátt vegna mótvinds, en var bara 2 og hálfan.
.
Á meðan ég húrraði niður brekkurnar austan megin var ég alveg steinhissa, mundi ekki eftir að hafa labbað svo lengi upp í móti, maður gleymir sér einhvern veginn á einkennilegan hátt einn í náttúrunni, tíminn verður afstæður og hættir að skipta máli.
.
07 26 012

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegt hjá þér, kona!

Vilborg D. (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 16:45

2 Smámynd: steinimagg

Flott

steinimagg, 31.7.2009 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband