Færsluflokkur: Dægurmál

Ein ég sit við sauma

Ég lærði að sauma 5 ára gömul, bjó til ballkjól á Barbí úr vasaklút pabba.  Hvort hann var hrifinn af uppátækinu veit ég ekki, en Barbí var svo sannarlega glæsileg í múnderingunni.  Á því miður ekki mynd, í þá daga var ekki bruðlað með filmur á svo hversdagslegt efni.

korselett

Ég saumaði þetta korselett upp úr venjulegu öryggisvesti.  Svona flíkur er ekki hægt að fjöldaframleiða, það þarf að máta það á röngunni og nota ógrynni af títuprjónum til að fá flíkina til að passa.  Og ókosturinn er að það má hvorki þyngjast né léttast, þá passar það ekki lengur.  Frétti að vændiskonur á Spáni voru neyddar til að ganga í öryggisvestum ef þær ætluðu að selja blíðu sína í vegarkantinum, eins gott að vera ekki í þessu vesti þar í hjólaferð, það gæti valdið misskilningi.


Útivist - Strútshátíð

Ég var félagi í Útivist á mínum yngri árum.  Þrammaði þá með þeim nokkrar perlur Íslands, Fimmvörðuhálsinn, fullt af dagsferðum og ógleymanleg páskaferð á Snæfellsjökul.  Svo tók ómegðin og sófasetutímabilið við og ég hreyfði mig lítið á þeim tíma.  Það var alls ekki leiðinlegt tímabil, að horfa á börn að leik er líka góð skemmtun.  En því lauk og allt í einu sat ég ein inni í stofu og enginn vildi leika við mig.  Kallinn í boltanum og krakkarnir úti að leika við vini sína.  Svo ég fór á stúfana og fann Fjallahjólaklúbbinn.  Búin að eiga margar góðar stundir hjólandi með félögum mínum út um hvippinn og hvappinn.  En stundum hafa fallið niður ferðir hjá okkur, og þá hafa félagarnir í Hjólarækt Útivistar ættleitt mig.  Svo ég ákvað að gerast aftur félagi í Útivist og nota síðsumarið í minni hjólandi tilveru til að njóta þess að ferðast um á reiðhjóli.  Á meðan ég get og gigtin leyfir.  Enginn veit sína æfi fyrr en öll er.

6 hjolandi

Það var hjólað, sungið, etið, drukkið og skemmt sér á 40 ára afmælishátið Útivistar við Strútsskála. Ég var hópi 6 sem hjóluðu á svæðið, en jeppadeildin mætti líka, sem og gönguhópar. Mikið gasalega var þetta gaman.  Ég gleymdi að kíkja á veðurspá, bókaði mig í ferðina og borgaði matinn fyrirfram.  Úps.  Grenjandi rigning og rok.  Shit.  Jæja, ég hætti þá bara við.  En sem betur fer skánaði veðurspáin smám saman og daginn sem við keyrðum áleiðis og hjóluðum 30 km leið að Strútsskála var komið fínasta veður.  Þennan sama dag var drusluganga haldin viða um land.  Guðbjartur var eini karlkyns hjólarinn í hópnum, hafði þó andlegan stuðning af Grétari sem sá um að trússa dótið okkar inn í Strút. 

gudbjartur

Til að fyrirbyggja misskilning, við vorum allar góðar við Guðbjart.  Hann, í augnabliks aðgæsluleysi datt á nánast engri ferð og skrámaðist.  Sem betur fer ekkert alvarlegt, en hann sá um druslugönguna fyrir okkar hönd.

Leiðin er falleg og við hjóluðum á vegi, sem breyttist um tíma í nokkuð þungfæran sand.  Og eftir að við mættum hópi hestafólks, þá breyttist þungfæri sandurinn í ófært helvíti.  En samt, að ganga og styðja sig við reiðhjól er auðveldara en ganga án reiðhjóls.  Og miklu meira töff en venjuleg göngugrind, sem ég ehemm, skal viðurkenna að ég hef verið að íhuga að fjárfesta í til að nota við ákveðnar aðstæður, svo ég geti sest þegar hnén bera mig ekki lengur.

gamli grani

Á reiðhjóli skynjar maður hluti öðruvísi.  Ef þú sérð eitthvað fallegt í náttúrunni, þá stoppar maður á 5 sekúndum og nær að festa augnablikið á filmu.  Eða flögu réttara sagt.  Á 90 km hraða er það aðeins flóknara og fólk nennir ekki að standa í því að stöðva, snúa við, keyra til baka, snúa aftur við og finna jafnvel ekki staðinn aftur.  Stundum er þetta metraspurgsmál að stoppa á rétta staðnum.

broen

Talandi um að stoppa á rétta staðnum...  Á ferðalagi um holt og hæðir þarf fólk óhjákvæmilega að gera þarfir sínar úti í guðsgrænni náttúrunni.  Í einu stoppinu gekk ég vel frá hópnum svo andblærinn myndi ekki bera ilminn aftur til þeirra.  Verandi með mín ónýtu hné, þá á ég í smá erfiðleikum með að koma mér í góða stellingu.  Ef ég er bara að pissa geri ég það hálfstandandi með rassinn út í loftið.  Sérlega skemmtilegt sjónarhorn ef einhver kemur óvænt aftan að mér á þeim tímapunkti...

En ég þurfti að gera meira og þá vandast málið örlítið.  Ég get ekki sest á hækjur mér eins og fólk gerir almennt úti í náttúrunni.  Ég notaði stóran stein, hallaði mér upp að honum og lét mig síga niður þangað til ég var komin í sömu stellingu og þegar ég sit á skínandi hvítu postulíni.  Þarna sit ég að því er virðist í lausu lofti þegar bíll kemur úr hinni áttinni og stoppar rétt hjá mér.  Þar eð ég var í skærgulu öryggisvesti get ég ekki ímyndað mér annað en fólkið hafi séð mig, en það er ekki alveg víst að þau hafi áttað sig á hvað ég var að gera.  Kannski verið að furða sig á þessari houdini stellingu og, ehemm, kannski tekið mynd...  Eða kannski bara að skoða kort, en það voru gatnamót framundan.  Um leið og ég stóð upp og girti mig, þá spændu þau í burtu.  Kannski var fólkið í bílnum þá fyrst að fatta að ég var ekki sitjandi á steini.

toiletPapier

Þessi mynd af mér var tekin fyrr um morguninn fyrir utan Strútsskála, kannski teikn um það sem koma myndi.  Og talandi um teikn.  Þegar hjólaferð helgarinnar var lokið, þá var þessi tala á mælinum.

07-25 666

Hjólafélagar mínir skildu ekkert í því að ég skyldi bera hjólið nokkra metra upp á grasbalann, sem ég gerði til að hafa skemmtilegri bakgrunn með þessari mögnuðu tölu. Sem ég hefði nú kannski átt að segja þeim að væri á mælinum. Ég bar hjólið til að skemma ekki töluna, en það hefði ég gert ef ég hefði leitt hjólið þangað.

Ég gerði þau mistök að taka bara eina mynd, súmmaði inn og sýndist myndin vera í fókus. Sem hún er ekki. Og Guðrún myndaðist alveg skelfilega. Nei, hin Guðrúnin. Nei, sú þriðja. Sem er yfirmáluð með grænu.  Dísus, þegar það eru þrjár konur á einni mynd sem heita allar Guðrún og ein af þeim er þarna eða ekki, eða einhver allt önnur kona, þá geta skrif mín vissulega virkað ruglingsleg.

Ef þið rekist á mynd af mér einhvers staðar á netinu skítandi úti í móa, þá já, er leyfilegt að glotta út í annað en vinsamlega ekki dreifa henni áfram.  Hver hefur ekki verið í mínum sporum, ég bara spyr..

 


Reykjavíkurmaraþon

undanfarar

Ég var undanfari í Latabæjarhlaupinu árið 2012.  Við Cristy klæddum okkur upp og hjóluðum á undan sprækum 6-8 ára krökkum.  Réttara sagt, við náðum þeim áður en þau komu í mark.  Við heyrðum ekki þegar hlaupinu var startað, sáum bara rauða bylgju af krökkum koma æðandi í áttina að okkur, taka framúr og skilja okkur eftir í rykinu.  Við spændum af stað og náðum grislingunum.  Sem betur fer, agalegt ef það hefði frést að við, garpar í Fjallahjólaklúbbnum hefðum ekki haft í við 6-8 ára krakka.  Hér má stutt myndband frá Latabæjarhlaupinu.  Ég var með myndavél aftan á bögglaberanum.

https://www.youtube.com/watch?v=asH5SKdBJ2M

Eftir þetta hafa ekki verið notaðir undanfarar í Latabæjarhlaupinu... hmmm.  Eins og margir feður þökkuðu okkur fyrir að klæða okkur upp og gleðja börnin.

Ég gaf aftur kost á mér í ár, en lenti á varamannabekknum.  Mætti niður í Hljómskálagarð snemma morguns til að taka púls á stemmingunni.  Kannski taka 3km skemmtiskokk.  Leysa eftirfarana af, fólk þarf jú að komast á klósett.  En það endaði með því að ég var undanfari í 42 km maraþonhlaupinu.  Eftir á, þá er ég ekki viss um að það sé erfiðasta hlaupið að hjóla fyrir.  Við hjóluðum á ca 16-18 km jöfnum hraða, en í Latabæjarhlaupinu þá sprengdum við okkur á fyrstu 100 metrunum og komum móðar og másandi í mark í hálfgerðu áfalli.  Þeir sem hlaupa 10 og 21km fara líka mun hraðar en þeir sem hlaupa 42km.  En auðvitað þarf að vera í góðu hjólaformi og geta hangið á hnakk í ríflega 2 tíma án hvíldar.

En aftur.  Það var tekið fram úr mér.  Fokk.  Afsakið orðbragðið.  Ég var líka á Menningarnótt.  Við Corinna vorum undanfarar og hún hægði á til að kanna hvort það væri langt á milli fyrstu hlauparanna.  Ég kom að hringtorgi sem var fullt af föngulegum, hálfnöktum, vöðvastæltum hlaupandi karlmönnum, starfsfólki í vestum, borðar hingað og þangað og lögreglan á bifhjólum (sem voru sko líka fyrir augað...) og ég bara sá ekki í fljótu bragði hvernig ég ætti að fara í gegn um hringtorgið.  Sem betur fer vissu hlaupararnir hvert ætti að fara og tóku fram úr mér og beygðu til vinstri.  Ég náði þeim nú fljótt og reyndi að fylgjast betur með götumerkingunum og láta ekki þá karlmenn sem komu hlaupandi á móti afvegaleiða mig.  Í Fossvogsdalnum skiptum við liði, Corinna lóðsaði fyrstu tvö, ég þann þriðja í mark.  Síðustu 2 kílómetrarnir voru eiginlega mest stressandi, af því mikið af fólki var á götunum labbandi þvers og kruss.

Þetta gekk allt stórslysalaust fyrir sig, en það er skondið á litla Íslandi, að ég þekkti fullt af fólki.  Hitti Ingileif bekkjarsystur mína sem var á leið í hálfmaraþon. Snorra Má bekkjarbróður og hjólagarp.  Hjólaði fram á Guðrúnu í gönguklúbbnum sem spurði mig hvort ég væri með pumpu.  Ég varð að góla að ég væri upptekin sem undanfari í Maraþoninu og hjóla fram hjá konu í neyð.  Annars er ég greiðvikin og alltaf til í að aðstoða fólk.  Þóra í mömmuklúbbnum var að viðra hundinn sinn í Fossvoginum.  Ég heyrði fleira fólk kalla á mig úr mannmergðinni "Hrönn" og "Hjólahrönn" og jafnvel mitt fulla nafn "Hrönn Harðardóttir". Ég sem hélt að enginn vissi hver ég væri.  Svo ég bara brosti í allar áttir og heilsaði með virktum.  Þetta var bara gaman.


Eltihrellir? Hver? Ég?

Ég fór út að hjóla í dag.  Það er svo sem ekki í frásögur færandi, suma daga gerist ekki neitt, svo næsta dag er eins og maður sé staddur í stuttmynd eftir Fellini.  Ég stormaði inn í bakgarð.  Þar gekk ég fram á þjóðþekkta konu við iðju sem ég myndi aldrei láta nappa mig í.  Hún sat í kjallaratröppum og var að reykja.  Ég reykti þó í ein 10 ár, til 26 ára aldurs.  Þá hafði ég ekki heilsu til að reykja lengur.

Þegar ég er að sniglast í kring um hús fólks er ég iðulega með Fréttabréf Fjallahjólaklúbbsins í hendinni ásamt skírteinum sem ég er að bera út.  Sem betur fer var ég með skírteini fyrir aðila sem bjó þar líka, auðvitað get ég haldið á einhverju og þóst vera að leita að einhverjum.  Ég fór að öðru húsi hálftíma síðar og veit að í götunni býr annar þjóðþekktur einstaklingur.  Eg hef krassað heilu grillveislurnar, barnaafmæli, labbað inn í garð í flasið á hálfnöktu og alsnöktu fólki.  Þetta er ekki leiðinlegt.  Ég fær hreyfingu, ferskt loft, fæ smá mannlíf í æð, bros frá fólki.  Sérstaklega ef ég er með hundinn minn með mér.

Það búa ábyggilega einhverjir þekktir einstaklingar á Hverfisgötu.  Á hjólabrautinni fyrir framan mig var rauðum bíl lagt þversum á hjólabrautina.  Það er svo sem ekki i frásögur færandi, daglegt brauð skilst mér.  Nema ég í kvikyndisskap mínum vitandi að ég væri með góðar bremsur hjólaði á fullri ferð í áttina að bílnum og þóttist ekki ætla að stoppa.  Snarhemlaði svo og sveigði út á götu.  Stoppaði og beygði mig niður og rýndi inn í bílinn inn um opna rúðu, grafalvarleg á svip.  Það kona í farþegasætinu og karlmaður undir stýri.  Hann leit á mig grafalvarlegur á móti.  "Þetta er lögreglan".  Ég hef húmor og gat ekki annað en flissað.  "Já, er það?"  En auðvitað gæti þetta hafa verið lögreglan, under cover, man ekki íslenska orðið í augnablikinu.

Ég hjólaði áfram sem leið lá í Vesturbæinn að hrella mann og annan.  Og tókst það svo sannarlega.  Við Geirsgötu tróð ég mér meðfram bílaröðinni, upp á gangstétt og um leið og græna ljósið kom tók ég af stað beint áfram, en sendibíllinn sem var fremstur ætaði að beygja til hægri.  Munaði bara örfáum millimetrum að ég klessti nýja fína hjólið mitt.  Nei, þið fáið ekki mynd, ég er enn að bródera skósíða blúndunáttkjólinn minn.  Öðru vísi verð ég ekki mynduð í návist reiðhjóla hér eftir.

Það má þakka snörum viðbrögðum bílstjórans að ég sit hér heil á húfi og pikkka þessar línur.  Ég setti aðra hönd á hjarta og laut höfði, það er mitt tákn til bílstjóra ef ég geri einhver heimskupör.  Hann hefur ábyggilega þusað um helvítis hjólakellingar sem troða sér alls staðar og þykjast mega vera hvar sem er.  Ég var(er) jú með brjóst og var í hlébarðamynstruðu pilsi.  Svo menn ættu að sjá að þar fer kona.  Okkur ber að sjálfsögðu að fara eftir umferðarlögum, eins og öllum öðrum.

Áfram lá mín leið vestur í bæ, og þar framdi ég morð.  Á saklausri hunangsflugu.  Ég hjólaði á hana og það heyrðist klask þegar hún krassaði á handleggnum á mér.  Mér þykir þetta ákaflega leiðinlegt en svona er þetta, maður brýtur stundum óvart á saklausum.

Það gerðist nú ekkert fleira markvert, ég hjólaði eins og druslan dreif (ég, hjólið kemst mikið hraðar) og rúllaði inn í bakgarðinn heima, sem oh, þarf að slá, ég hef bara engan tíma í það, maður þarf jú að hanga á netinu og svona.  Hekluskottið stóð í sólstofunni og horfði ásakandi á mig.  "Fórstu út að hjóla?  Án mín?  Erum við ekki vinkonur?"

Það verður nú að njóta bliðviðris líka, stunum þarf að gera hlé á því sem maður er að fást við, setjast út með svaladrykk og hugsa málið.  Öll kurl koma til grafar að lokum.


Hvað ef...

Við sumar aðstæður get ég fyllst áköfum kvíða.  Sérstaklega ef ég fer í ferðalag.  Hvað ef ég gleymi kaffikönnunni á?  Núna gat ég hringt heim og hundurinn... nei, sonurinn svaraði.  Já, það er kveikt á kaffivélinni.  Á ég að slökkva?  Já, takk, þar með var það vandamál afgreitt og ég gat lagt áhyggjulaus í hjólaferð með félögum mínum úr Fjallahjólaklúbbnum.  Hvað ef strákurinn slær upp partý...  Nah, hún Hekla geltir nefnilega á alla sem banka upp á.  Og hún er það dimmrödduð og ógnandi að fólk hættir sér ekkert inn til okkar ef ég er ekki heima til að hafa hemil á skvísunni.

1

Snæfellsnes, sól og blíða.  Ægifagurt útsýni.  Jökullinn í öllu sínu veldi og snævi þaktir tindar.  Berserkjagata.  Við höfum aldrei stigið af hjólunum og gengið þennan þrönga stíg út í hraunið.  Skildum hjólin eftir fyrir utan veg.  Gengum svo í nokkrar mínútur.  Þá læddist kvíðinn að.  Veskið mitt, með síma og bíllyklum var í hjólatöskunni.  Hvað ef...  En ég gleymdi mér yfir sögunni af Berserkjabræðrunum sem Örlygur fararstjóri sagði af stakri snilld.  Bræðrunum Halla og Leikni var lofað kvonfangi ef þeir lögðu götu í gegn um Berserkjahraun, en voru svo narraðir ofan í heitan pott og drepnir þar.  Sonum þeirra var svo gefið lítið grátt lamb fyrir föðurmissinn.  Mörgum árum síðar sat ómennið að sumbli þegar synirnir gengu að honum með exi og klufu hann í herðar niður.  Launuðu þeir þar með lambið gráa sem þeim var gefið.  Sagan gæti hafa skolast aðeins til, eins og sögum hættir til.  Þegar við komum aftur að hjólunum voru töskurnar á sínum stað og ég gat andað léttar og notið þess að hjóla um þetta ægi fagra landsvæði.

Eða þar til heimsókninni við hákarlasafnið Bjarnarhöfn var lokið og ég brá mér á salernið fyrir brottför.  Þegar ég kom út, þá sá ég félaga mína á ferð úti við sjóndeildarhring en hjólið mitt horfið.  Ég varð svo sem ekkert stressuð, þó að einhver bóndasonurinn hafi fallið kylliflatur fyrir hjólinu mínu og langað að fá sér smá snúning á hlaðinu.  Í góðu lagi.  En ég sá engan, leit sunnan við hús.  Enginn.  Austan við hús.  Þar voru þá 3 hjólafélagar í felum og flisskasti með hjólið mitt.

Við tók meðvindur og meiri náttúrufegurð.  Hjóluðum yfir í Berserkjahraun og þræddum þar ágætan ökuslóða sem hlykkjaðist í gegn um fallegar hraunmyndir, lækir niðuðu og fuglar sungu.  Nær kemst maður varla sjöunda himni.

06-15 086

Eða þar til við komum að bílunum sem var lagt aðeins utan við Stykkishólm.  Ég hafði skrúfað niður rúðuna bílstjóramegin alveg niður í veðurblíðunni og gleymt að skrúfa hana aftur upp.  Taskan mín horfin úr aftursætinu og kæliboxið með nestinu mínu og þykka svampdýnan.  Í töskunni var sængin mín, koddi og tveir sértálgaðir svampkoddar, en ég slæ allar prinsessur út þegar kemur að beðmálum. Ég ligg ekkert á kaldri jörðu ofan í þröngum svefnpoka.  Ónei.  Það dugir ekkert minna en 3 koddar og rósótt sængurver utanyfir dúnsæng til að ég nái að svífa inn í draumalandið.

Skrítið, þegar hlutir sem maður hefur oft kviðið fyrir loksins gerast, þá bara var ég alveg salíróleg.  Ok, ég verð þá bara að kaupa gistingu á hóteli og fara út að borða í hjólagallanum.  Þjófurinn skildi þó háhæluðu skóna (já, ég fer ekkert í útilegu án þess að taka með háhælaða skó, maður veit aldrei hvenær útivistarferð breytist í djamm í nálægu sveitarfélagi) og hó, bjórkippan mín enn í skottinu.  Ja, það voru nú skrítnir þjófar sem stálu koddunum mínum en skildu eftir bjórinn.  Þar með lentu mínir eigin ferðafélagar undir grun, en þau með hvílík pókerfés þóttust koma af fjöllum, þegar þau voru raunar að koma úr hrauni.  Enda var mitt hafurtask á bak við bílinn þeirra.  Ja, stundum er betra að þegja um fóbíur sínar.  Enda voru hlutir að hverfa og birtast aftur alla helgina.  Mér sýnist þema ferðalaga sumarsins vera komið.  Láta fólk takast á við fóbíur sínar.  En ég lofa að stinga ekki könguló inn á nokkurn mann.  Saklausir hrekkir eru hins vegar alltaf skemmtilegir og lífga upp á tilveruna.

Við fórum út að borða um kvöldið á Plássinu, ágætis matur, en hamborgarar á matseðlinum voru ekki fáanlegir þetta kvöld.  Fyrst hélt ég að hjólafélagar mínir hefðu fengið þjóna staðarins í lið með sér, en nei, það var ekkert nautakjöt til í landinu vegna verkfalls dýralækna.

Næsta morgun lögðum við af stað á bílunum og ókum yfir Vatnaleiðina.  "Gleymdum" að sjálfsögðu tjaldinu hans Alla en hann fór snemma morguns að heimsækja frænku sína.  Tók ekki einhver tjaldið mitt?  Nei, ekki ég.  Kannski Þórður?  Hvert af öðru neituðum við að hafa hirt pjönkur hans og þrátt fyrir allt skrens gærdagsins var okkur trúað í nokkrar mínútur og Alli farinn að plana björgunarleiðangur eftir tjaldinu sínu.  En auðvitað gengur maður frá og skilur náttstaðinn eftir eins hreinan og jafnvel hreinni en maður kom að honum.

4

Kerlingaskarðið baðað í sólskini.  Fátt sem toppar þá sjón að hjóla fram á brún og fá himnasalinn heiðan á móti sér.  Nema náttúrulega þar sé að finna föngulegan hóp hjólakvenna.  Borgnesingar deyja ekki ráðalausir þó það vanti nautaketið.  Við fengum hamborgara með lambakjöti.  Bara ljómandi fínn, en það er orðin svolítil hefð hjá okkur að enda helgarferðirnar á hamborgaraáti.  Góð helgi að baki í frábærum félagsskap.

06-15 105

 


Hnífsdalsvegur - Óshlíð

06-30 052 

Titill þessarar færslu gæti líka verið hrakfallasaga Hrannar.  Ég ákvað að fara út að hjóla með syni mínum, 11 ára gömlum.  Þetta var snemma kvölds og við byrjuðum á að þvo hjólin á N1 stöðinni á Ísafirði.  Hjóluðum svo út í Hnífsdal.  Ég hafði svolitlar áhyggjur af því að það gæti hrunið úr Óshlíðinni vegna mikillar rigningar tveimur dögum áður, en ákvað að hjóla aðeins inn á hana, aðallega til að sonur minn gæti síðar meir sagt að hann hafi hjólað þessa leið.  Það fer kannski hver að verða síðastur, brimið nartar stöðugt í veginn og þar eð hann er aflagður, er honum sennilega ekki viðhaldið.  Hann var þó sæmilega laus við steina, vegurinn er greinilega hreinsaður, ég hef oft séð meira grjót á honum en þetta kvöld.

06-30 055 

Þegar við nálguðumst Bolungarvík uppgötvaði ég að ég hafði gleymt hjólatöskunni minni þegar við vorum að þvo hjólin.  Í henni var veskið mitt, síminn, bíllyklar, viðgerðadót og pumpan.  Ég var þó með myndavélina í vasanum og gat tekið myndir, sem betur fer.  Ég vó og mat hvort við ættum að snúa við eða hjóla áfram og flýta okkur í gegn um göngin, jafnvel freista þess að stoppa bíl og fá að hringja til að láta einhvern sækja töskuna.  Skyndilega finn ég kunnuglega tilfinningu.  Það er sprungið hjá mér og loftið að leka úr dekkinu.  Við strandaglópar úti í rassgati, símalaus, nestislaus og allslaus.  Nema við sjáum glitta í bíl úti við vitann og náum þangað áður en ég endaði á felgunni.

Það voru nokkrir útlendingar á leið inn í bílinn.  Nei, þau voru ekki með síma en já, þau voru á leiðinni inn á Ísafjörð.  En aðeins pláss fyrir einn í bílnum.  Ekki gat ég skilið 11 ára einan eftir svo ég ákvað að senda hann með fólkinu, eldri hjónum og tveimur konum.  Hann átti samt í erfiðleikum með að muna staðarheitið, svo ég brá á það ráð að taka mynd af vitanum og Bolungarvík til að sýna foreldrum mínum, svo þau færu nú ekki að fínkemba Hnífsdalinn, eða leita að mér úti í Súðavík.  Lét hann svo fara með myndavélina og sagði fólkinu að setja hann út um leið og þau kæmu að bænum, hann myndi rata heim til afa síns og ömmu.

Svo beið ég.  Og beið.  Heila eilífð að því er mér fannst en ég var ekki með klukku, en taldi að einhver ætti að koma eftir 15-20 mínútur.  Mér fannst vera liðinn góður hálftími og ákvað að rölta áleiðis til Bolungarvíkur og reyna að ná í einhvern með síma.  Eftir því sem hugsanirnar leituðu á mig, þá greikkaði sporið.  Hvaða móðir setur barnið sitt upp í bíl með bláókunnugu fólki.  Eftir að hafa verið með stífa fræðslu í mörg ár, hversu hættulegt það er að fara upp í bíl með ókunnugum.  Þau setja hann kannski úr í Hnífsdal.  Eða bara alls ekki...

Annar bíll kom á móti mér og ég stöðvaði fólkið.  Það reyndust vera aðrir útlendingar, en vopnaðir íslenskum síma.  Svo ég gat hringt í mömmu og hún sagði mér að pabbi og sonur minn væri á leiðinni að sækja mig og hjólin.  Stuttu seinna komu þeir keyrandi, með hjólatöskuna, en á klukkutímanum sem liðinn var, hafði enginn stolið töskunni eða neinu úr henni.

06-30 058 

Amma og afi drengsins eru óðum að jafna sig, en pjakkurinn kom einn æðandi inn með myndavélina á lofti, hrópandi "Mamma er þarna, mamma er þarna!!!"  Ég veit ekki hvort þessi mynd (hér fyrir ofan) var á skjánum, en þau héldu fyrst að ég hefði lent í slysi eða jörðin gleypt mig...

hnifsdalsvegur 

Viku seinna gerðist þetta.  Aurskriða féll á Hnífsdalsveg, yfir veginn og vinsæla göngu og hjólaleið sem liggur á milli Ísafjarðar og Hnífsdals.  Þá sömu og ég fór með syni mínum á reiðhjóli nokkrum dögum áður.  Ég hefði átt að hafa meiri áhyggjur af Óshlíðinni...  Þessi mynd er fengin "að láni" frá mbl.is.  Sjá nánar hér:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/03/aurflod_fellu_nidur_eyrarhlidina/

Uppfærsla síðar sama dag.  Skriða 2 af 3 náðist á myndband.  Á meðan ég var að horfa á það tók ég eftir hversu viðeigandi myndin af syni mínum sem hjólaði með mér er.  Svo ég varð að bæta því skjáskoti við og link á myndbandið.  Fólk þarf að vera skráð inn á fésbókina til að sjá það

skridaEyrarhlid 

https://www.facebook.com/photo.php?v=583040275150613

 


Harðsoðin egg

06-14 105

Frosin, harðsoðin egg?  Nei, það gengur ekki.  Áður en ég lagði af stað í útilegu með félögum mínum í Fjallahjólaklúbbnum, þá sauð ég nokkur egg, og þar eð þau voru heit, vildi ég kæla þau örlítið áður en ég setti þau í kæliboxið.  Auðvitað gleymdust þau og chilluðu í frystinum alla helgina.  Ég var með bæði smjör, ost og kæfu, en gleymdi að sjálfsögðu ostaskeranum.  Hefði náttúrulega bjargað mér og stíft hann úr hnefa ef á þyrfti að halda og svengd sækti að.  Í óbyggðum er allt leyfilegt.  En, já, ehemm, við gistum á Stykkishólmi, svo þetta var nú ekki beint óbyggðaferð, enda var farið út að borða um kvöldið, snætt gómsætt og margrétta í litlu fallegu húsi við höfnina, Sjávarpakkhúsinu, og drukkið öl með.  Ég var ekki alveg búin að ákveða hvort ég héldi útilegunni áfram eftir að formlegri hjólaferð lyki, svo ég hrúgaði bara nóg af matvælum ofan í kælibox og þvottakörfu og hefði getað lifað af heilan mánuð á öræfum.

06-14 083

Fyrri daginn hjóluðum við í gegn um Berserkjahraun.  Komum við á hákarlasafninu Bjarnarhöfn, þar er margt skrítið og skemmtilegt að skoða, dýr hænast að manni í hrönnum, bæði lifandi og látin.  

06-14 026

Það var boðið upp á hákarl.  Ég hef áður komið í þetta safn og smakkaði þá í fyrsta sinn hákarl, enda kunni ég ekki við annað þar eð einhverjir útlendingar voru að smakka og snafsa sig á Íslensku brennivíni og ekki vildi ég vera lélegur Íslendingur og fúlsa við hákarlinum, svo ég gleypti hann í mig og skolaði niður með brennivíni.  Hákarlinn bragðaðist nú bara betur en ég átti von á og Íslenska brennivínið er alltaf gott, eftirbragðið sterkt, ferskt og blandað kúmeni.  Rétt eins og að kyssa einhver sem er nýbúinn að borða kringlu.  Ekkert var brennivínið að þessu sinni, en bæði harðfiskur og rúgbrauð, svo það gekk alveg að innbyrða 2 hákarlateninga, sér til heilsubetrunar, þetta ku vera allra meina bót.  Ég held þó að það sé brennivínssnafsinn sem er iðulega drukkinn með sem sótthreinsar, bætir, hressir og kætir.  Án þess að hafa nokkurt vit á, ekki ætla ég að þykjast vera einhver sérfræðingur að sunnan, ég er nú einu sinni að vestan.

06-14 056

Það var svolítið meiri óbyggðastemming á sunnudaginn, við hjóluðum ýmist á malbiki, góðum sveitavegi, prýðilegum malarstígum og svo þurftum við að tækla smá vegleysur til að komast í Rauðamelsölkelduna.  

06-14 109 

Við komum þarna við árið 2011, þá var ekki dropa af vatni að finna í keldunni, Ölli plankaði þá yfir herlegheitin, það hefur greinilega haft góð áhrif, í dag er hún hálffull af fersku vatni með smá kolsýru.  Eða hálftóm, eftir því hvernig á það er litið.  Það hefði liggur við verið hægt að baða sig í henni...  en nei, slíkt gerir enginn með snefil af sómatilfinningu.  Maður lætur ekki Pétur, Pál, Guðmund og Jón drekka af sér seyðið.  Lágmarks kurteisi að menn (konur) viti hvað er verið að innbyrða hverju sinni.  En vatnið bragðaðist afskaplega vel, svipað og að fá sér vel kælt sódavatn.

06-14 122

Á sunnudag tók ég þá ákvörðun að gera hlé á útilegunni, fernt sem réði því.  Ég pakkaði nóg af mat, bjór og vodka.  En engin egg, ostaskerann vantaði og svo ehemm, gleymdi ég hreinum nærfötum til skiptanna.  Var þó með þvottaklemmur, svo ég hefði getað þvegið í höndunum og hengt upp á kvöldin.  En það spáði rigningu eins langt og veðurfræðingurinn eygði, svo ég fór heim með allan matinn og bjargaði eggjunum úr frystinum.  Eins og mér þykja egg góð, hvort sem þau eru linsoðin, harðsoðin, steikt, brösuð eða eggjakökuð þá, bara... nei, gott fólk.  Það er ekki hægt að borða afþýdd harðsoðin egg, þau eru algjör vibbi.  Á 2 eftir ef einhvern langar að smakka.  Ég á vodka til að skola þeim niður með.

06-14 060

Matarblogg?  Hvað meinaru???


Lattelepjandi hjólandi treflar

Horft fram á veginn 

Ég byrjaði að blogga árið 2008.  Af því ég byrjaði að hjóla þá eftir langt hlé og hafði þörf fyrir að tjá mig einhvers staðar um það sem mætti betur fara í umhverfismálum án þess að ganga fram af vinnufélögum, vinum og ættingjum.  Alveg sama hvert efnið er.  Trúarbrögð, stjórnmál, umhverfismál, umferðarmannvirki, hjólreiðar, hvaðeina...  Allt ofstæki (aka brennandi áhugi) virkar fráhrindandi.  Það eru bara 10-20 færslur sýnilegar í dag, ég ætlaði aðeins að taka til og birta þær aftur smám saman.  Fólk skiljanlega sökkvir sér ofan í það sem því finnst skemmtilegt, og sumir hafa dvalið við neðan-nafla færslur á meðan aðrir dást að dugnaðinum, og enn aðrir hvetja mig áfram vegna áhrifanna sem ég hef haft á fólk.    Ef ég get hjólað allan ársins hring, miðaldra, gigtveik kona í yfirvigt, geta þá ekki allir hjólað?  Flestir.  Og þetta er alveg jafn gaman og á meðan maður hjólaði sem krakki.

05 20 010 

Það græða allir á því að sem flestir hjóli.   Líka bíleigendur.  Annars yrðu umferðarteppur þyngri og erfiðara að finna bílastæði.  Meiri mengun, meiri pirringur, minni tími með fjölskyldunni vegna tafa í umferðinni.  Lýðheilsulegur ávinningur, heilsan hjá hjólandi fólki batnar og veikindadögum fækkar.  Tilefni þessarar færslu er slagorð hjá einum stjórnmálaflokki.  Hva, ætla ekki allir að hjóla?  Og í neðanmáli segjast þau ætla að skipuleggja borgina fyrir alla Reykvíkinga, ekki bara 101...

Þessa auglýsingu má skilja eða misskilja á ýmsa vegu.  Erum við hjólafólk orðin hip og kúl og á að moka meira undir okkur?  Sér hjólabrautir, hjólavísa á rólegar íbúagötur, fleiri hjólaboga sem er gott að læsa hjólin við, yfirbyggð skýli og svo framvegis, og svo framvegis.  Eða er þetta sprottið af vanþekkingu, halda menn að það séu bara einhverjir örfáir lattelepjandi treflar í miðbænum sem nota reiðhjól?  Er verið að gera góðlátlegt grín að okkur?  Varla rætið þegar endasprettur kosninga er hafinn.

ReykjavikGreiddFelagsgjold 

Hæg eru heimatökin.  Ég sé um félagatal Fjallahjólaklúbbsins og bar saman greidd félagsgjöld eftir póstnúmerum við tölur frá Hagstofu Íslands.  Íbúar Reykjavíkur í 101 er 13% íbúa, varla er herferðinni beint að þeim, hvað um hin 87 prósentin.  Er henni kannski beint að 87% Reykvíkinga og tæplega 16 þúsund aðilar í miðbænum móðgaðir með því að kalla þá óbeint Lattelepjandi hjólandi trefla?  Þó að það sé ekki hægt að alhæfa, þá benda virkir félagar hjá okkur til þess að flesta hjólandi íbúa sé að finna í póstnúmeri 105.  Því næst 108.  101 er í þriðja sæti.

Ég veit nákvæmlega að hvaða markhópi þessi auglýsing beinist.  Ungu fólki á aldrinum 18-22 ára sem er að kjósa í fyrsta sinn.  Þetta er sá hópur sem hjólar lítið, á ekki enn börn sem hjóla, er með standpínu yfir flottum og hraðskreiðum ökutækjum og finnst fátt leiðinlegra en þegar einhver á reiðhjóli tekur fram úr þeim í bílabiðröðinni á Laugaveginum.  Flestir leggja reiðhjólinu þegar þeir fá bílpróf og byrja aftur að hjóla þegar hraðskreiðu ökutækin missa ljóma sinn og menn vilja fara hægar yfir til að njóta alls þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða.

08-01 062b 

Frá því ég byrjaði að hjóla aftur árið 2008 hefur margt gott verið gert.  Sér hjólabrautir í Fossvogi og meðfram Suðurlandsbraut.  Góður stígur kominn á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.  Núna er verið að leggja sér hjólabraut meðfram Sæbraut.  Frábært.  Fullt af vel hönnuðum hjólabogum um alla borg.  Einhvers staðar í gamalli bloggfærslu sagði ég að við værum í ákveðnum vítahring, það hjóla svo fáir af því það það er ekki gert ráð fyrir hjólafólki í skipulagi sveita og bæja.  Og það eru engar úrbætur, af því það eru svo fáir sem hjóla.  Þetta hefur heldur betur snúist við.  Fólki sem hjólar að staðaldri fjölgar stöðugt.  Sem og úrbótum fyrir hjólreiðafólk.  Hefur þetta eitthvað með stjórnmál að gera eða hvaða flokkar eru við völd hverju sinni?  Nei, þetta er einfaldlega þrýstingur frá sífellt stækkandi hópi hjólandi fólks.  Og rökrétt þróun til hagsbóta fyrir alla.


Vetrarhjólreiðar

01-12 170

Í dag var 12 stiga frost.  Er hægt að hjóla við þær aðstæður?  Já, já, það er vel hægt.  Ég man raunar ekki hvað er mesta frost sem ég hef hjólað í, en vindstyrkur skiptir líka máli, það getur verið mun kaldara í hlýrra veðri ef vindur er meiri.

01-12 139 

Flestir gera þau mistök að klæða sig of mikið.  Þá svitna menn og kólna fljótt þegar stöðva þarf á ljósum eða við aðrar aðstæður.  Á veturna er ekki endilega verið að hjóla mikið sér til skemmtunar, maður lætur nægja að hjóla til og frá vinnu og svo skottúra sem taka ekki meira en 20-30 mínútur.  Það er í lagi að vera kalt þegar lagt er af stað, manni hlýnar fljótt.  Hér var ég á ferðalagi í janúar síðastliðnum og tók mynd af fötunum sem ég ætlaði að vera í.  Auk þeirra flíka sem eru á myndinni bætti ég við legghlífum, þar eð snjódýpt var það mikil að snjórinn hefði getað skóflast ofan í skóna.  Svo er ég í rúmum vinnuskóm, það skiptir miklu máli að skór og fatnaður hindri ekki blóðflæði.  

Í dag var ég í svipuðuðum fatnaði.  Rúmum ullarsokkum (ekki bómullarsokkar undir), síðu föðurlandi, ullarbol sem náði upp í háls, flíspeysu utanyfir, hjólabuxum, buff og hanskar.  Gult endurskinsvesti.  12 km hjólatúr og mér varð ekki kalt.  Það beit jú aðeins í kinnarnar og eftir hálftíma hjólatúr fann ég fyrir köldum tám, en þá fór ég bara af baki og gekk í 2-3 mínútur eða þar til mér varð aftur heitt á tánum.  Nærföt þurfa að vera úr ull, silki eða gerviefni sem þornar fljótt.

01-12 157 

Ég er kannski ekki alveg jafn mikið að ota mínum tota í fjölmiðlum og fólk heldur, það eru blaðamennirnir sem hafa samband við mig eftir ábendingu frá einhverjum, ég held alltaf að það sé verið að fjalla um eitthvað efni og ég muni sjást í mýflugumynd, en enda alltaf sem aðalatriðið.  Hér er viðtal sem birtist í mbl.is sjónvarp um vetrarhjólreiðar.  Í lokin spurði myndatökumaðurinn "Hvað hjólar þú eiginlega mikið yfir árið?" Og eftir að hafa svarað því virka ég náttúrulega sem svaðalegur harðjaxl, en ekki ofurvenjulega húsmóðirin i Austurbænum, sem ég náttúrulega er fyrst og fremst. 

http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/65718/

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband