Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Með dýpstu lægðum í júlí

07-22 183 

Ég sem fararstjóri í hjólaferð til Vestfjarða taldi rétt að láta fólk vita að það gæti orðið arfavitlaust veður um helgina. Bjóst ég við að fólk myndi nú frekar velja að kúra uppi í sófa heima hjá sér en æða út að hjóla þegar búið er að spá þessu veðri:

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/07/18/med_dypstu_laegdum_i_juli/

Að vísu verð ég að viðurkenna að klausan um vindstyrkinn fór fram hjá mér, ég hafði meiri áhyggjur af rigningunni, að allt hafurtaskið yrði blautt, fólki kalt og það kvefast í kjölfarið. En það eru engar blúndur í Fjallahjólaklúbbnum, ég var bara skömmuð fyrir að vera að draga úr fólki, auðvitað förum við út að hjóla, þótt 'ann rigni soldið!

07-22 069 

Leiðirnar voru valdar upp úr Hjólabókinni sem Ómar Smári gaf út fyrir síðustu jól, Reykjanes fyrri daginn og Gilsfjörður þann seinni.  Við lögðum af stað með fínan vind í bakið, á sléttu malbiki.  Já, það er ekki alltaf upp brekkur og á móti vindi á Íslandi.

Ég hef hjólað þessa leið áður, þá valdi ég að keyra upp á Eyrarfjall, hjóla niður í Mjóafjörð, áfram hringinn, en skilja svo hjólið eftir niðri við sjó, labba upp á fjall og sækja bílinn.  Þetta gerði ég svo ég þyrfti ekki að teyma hjólið, en ég var þá nokkuð slæm af brjósklosi í baki og taugaverkjum í handlegg.  Ég sé núna að það voru mistök.  Það voru nokkur í hópnum sem hjóluðu upp allar brekkurnar, allir hjóluðu eitthvað, og ég gat hjólað meirihlutann líka.  Fyrirfram bjóst ég við að fólk myndi þurfa að teyma 4-5 km og ég yrði í því að peppa upp örmagna fólk sem vildi helst snúa við í miðri brekku.  

Öðru nær.  Erum við komin upp?  Var þetta brekkan?  Eru ekki fleiri brekkur?  Harðjöxlin í hópnum urðu kannski pínu skúffuð að þetta væri ekki erfiðara, þar eð ég var búin að lýsa þessu sem hvílíkum manndrápsbrekkum.  En hinir voru voða glaðir að geta hjólað meirihlutann og vera komin upp á fjall löngu á undan áætlun.  Við fundum okkur skjólgóða laut, þar var spjallað, etið, drukkið og sumir fengu sér siestu, það var hrotið í sterio á köflum.  Hvar er óveðrið spurðum við í sífellu og skellihlógum.  Algjör bongóblíða hjá okkur uppi á fjalli.

07-22 103 

Jú, óveðrið var víst í Reykjanesi að tæta niður tjöldin okkar.  Meira um það síðar, fyrst er að dásama þessa fallegu hjólaleið.  Það þarf að labba öðru hvoru fram á gilbakkann til að skoða fegurðina.  Morten tók þetta heilræði mitt full langt, og þegar hann ætlaði að fara að taka jógastöðu, standandi á haus á þessari mjóu klettasyllu var hann snarlega stoppaður af.  Nóg svimaði mann þegar hann tók þessa jafnvægisæfingu.

07-22 096 

Þegar ég fór þessa leið fyrir tveimur árum, þá fannst mér eins og einhver kallaði á mig, og ég gekk fram á gilbakkann til að athuga hvort einhver væri þar í vandræðum og þarfnaðist aðstoðar.  Þá opnaðist þessi líka fallega sýn og ég áði þarna í dágóðan tíma.  Núna var það Morten sem fann hana "Var það hér?"  Sumir blettir á Íslandi hafa seiðandi og dáleiðandi áhrif.

Annar staður er sérlega áhugaverður, nokkurs konar klettadæld sem er mjög falleg og skjólgóð.  Eða  leikvöllur fyrir fullorðna, eins og Ulla sagði, og svo var kletturinn tæklaður og klifinn.  Þarna var talsverður strekkingur inn fjörðinn, en í dældinni var algjört logn.

07-22 154 

Það er lítil heit sundlaug í Mjóafirði, ég missti af henni þegar ég hjólaði þetta í fyrsta sinn, en Morten og Ulla tóku eftir henni, og hver stenst mátið að fá sér notalegt fótabað þegar það er í boði.

Þarna gerði ég smá mistök, hefði átt að hringja í ferðafélagana sem voru á undan og láta þá koma aftur og taka smá sundlaugarteiti.  Það er alveg himneskt að lauga, þó ekki sé nema tærnar, þegar maður er á ferðalagi.  Hvort sem maður er hjólandi, gangandi eða bensínfótarlúinn.

07-22 166 

Þegar fólk ferðast saman á reiðhjóli, þá dregur fljótt í sundur ef einhver stoppar smá stund.  Mér fannst við bara stoppa í 5 mínútur, en suma sáum við ekki aftur fyrr en í Reykjanesinu.  Mótvindinn herti stöðugt og þegar við komum í Vatnsfjarðarnes, þá var baráttan við veðurguðinn Kára orðin nokkuð tvísýn, erfitt að hafa hemil á fararskjótunum sem Kári vildi blása út í móa, en við höfðum samt betur.  Hann fór þá í fýlu og ákvað að herja á tjöldin okkar í staðinn.  Gamla góða Vangó tjaldið mitt, sem er búið að fylgja mér víða undanfarin 25 ár endaði sína daga þetta eftirsíðdegi.  En ekkert endist að eilífu, og nú hef ég afsökun fyrir því að fá mér minna og léttara göngutjald, sem ég get tekið með á hjólinu, hitt var of fyrirferðamikið til að það væri hægt.

Það var ekki bara mitt tjald sem endaði rifið og brotið á Reykjanesi, tvö önnur tjöld lágu í valnum eftir veðurofsann.  Það rigndi þó ekki, það er ekki alltaf rok og rigning á Íslandi, stundum bara rok.  Stundum bara rigning.

07-22 054 

Við höfðum ekkert val, við fluttum okkur öll inn á hótel í lungamjúk rúm, og fórum svo í veitingasalinn og gæddum okkur þar á purusteik, lambasteik og alls konar góðgæti.

07-22 218b 

Ég hef oft ekið fram hjá Gilsfirði og ekki virkar hann merkilegur eða spennandi séður frá mynninu.  En hann er ákaflega fallegur þegar maður hjólar hann.  

07-22 252 

Fáfarinn malarvegur, hæfilega stuttur hringur, 30 km sem við hjóluðum á ca 3 tímum með góðu nestisstoppi.

07-22 259b 

Sérlega góð helgi að baki í félagsskap skemmtilegs fólks.  Fleiri myndir er að finna hér á Picasa, þar á meðal frá fyrsta degi, en þá hjóluðum við Sif og Marteinn frá Svignaskarði inn að Langavatni á leiðinni vestur.

https://photos.app.goo.gl/m1omSFLQ2DpqSYQWA

 


Ber ég beinin hér?

Eða "Helgi hinna blautu sokka..."  Gat ekki alveg ákveðið titilinn á þessa færslu.  Ég veit að ég get verið full dramatísk á köflum.  En í hjólaferð helgarinnar átti ég fastlega von á að það yrðu ræstar út björgunarsveitir. Til hjálpar mér. Spurningin var bara hvort ég myndi gera það sjálf, þegar og ef ég kæmist í símasamband, eða hvort fólk færi að lengja eftir mér og hæfi leit.  Hversu marga daga það myndi taka, hvort nestið mitt myndi duga og myndi fólk leita á réttu landsvæði, því, ehemm, ég gleymdi að láta einhvern vita hvert ég væri að fara.  Enda áttu þetta að vera léttar dagsferðir, teppi og kósíheit úti í móa.  Ég er búin að vera svolítið slæm af gigtinni undanfarið, ætlaði að taka því mjög rólega þessa helgi, ekkert að dansa eða misbjóða hnjánum á mér að öðru leiti.

7 tímum síðar, rétt fyrir miðnætti, ennþá stödd í óbyggðum, rammvillt, rökræðandi við þessa hauskúpu, eða réttara sagt, anda dýrsins sem umlukti hana einu sinni....  "Að vera eða ekki vera, og hvert í andskotanum á að fara", það er spurningin.  Þá var ég orðin svolítið smeyk um hvernig þessari ferð myndi ljúka.  Hver hefur ekki séð bíómynd, þar sem aðalhetjan ríður í óbyggðum fram hjá beinagrind af torkennilegu dýri sem af öllum líkum dó úr hungri og vosbúð og undir dynur tónlist af miklum þunga.

Þetta er fyrsta hauskúpan sem ég ramba fram á, en í staðinn fyrir að taka "ég-mun-deyja-hér-ein-og-yfirgefin" kast, þá bauð ég henni far á bögglaberanum og pláss í stofuskápnum, og hafði af henni þó nokkurn félagsskap við að skeggræða næstu skref.  Maður virkar nefnilega eitthvað svo skrítinn og einkennilegur ef maður er einn að röfla við sjálfan sig.

06-30 001

Þetta er gallinn við að skipuleggja ferðalög á korti, maður sér ekki hvað er á bak við sakleysislegan slóða á ja.is.  Þetta er leiðin sem ég valdi mér, 40 km hringur í kring um Vík í Mýrdal.  Þar eð slóðinn er merktur með órofinni línu átti ég aldrei von á öðru en þetta lægi nokkuð ljóst fyrir, ég skoðaði hæðarlínurnar til að ferðin yrði ekki of erfið, og þetta átti að taka 4-5 tíma með hóflegum sólbaðspásum.  Ég hjólaði fyrst malarveg, upp með Kerlingardalsánni, inn að tjaldstæðinu við Þakgil, Brúna línan sýnir svo það sem ég hjólaði, eða réttara sagt, óð og bar hjólið ca 30-40 sinnum yfir Kerlingardalsána og dröslaði því yfir eitt fjall eða svo...

leidin

Og eftir því sem klukkutímarnir liðu og ég hlægjandi eins og asni úti í kolmórauðri jökulsánni, með 20 kg hjól og farangur í fanginu að reyna að halda jafnvægi á sleipum, stórgrýttum botninum, á meðan straumhart vatnið náði mér upp í ... svuntu!  það var eins gott að ég skyldi vera á rólegheita síðdegishjólatúr úti í náttúrunni, en ekki stödd sótölvuð á einhverri knæpunni í höfuðborginni, dansandi frá mér allt vit, og handónýt í hnánum næsta dag.  Mýkt og blíða, það er stundum það sem maður þarfnast.  En ekki alltaf það sem maður fær.

Ég fór úr skóm og sokkum þegar ég kom að fyrstu sprænunni.  Enda náði hún mér upp á miðja kálfa.  Næsta var breiðari en grynnri svo ég ákvað að hjóla yfir.  Og missti jafnvægið og tyllti einum fæti niður.  Þar eð ég var orðin blaut í annan fótinn sá ég engan tilgang í því að fara úr skónum við þá þriðju.  Óð yfir og sópaði upp möl og steinum ofan í skóna.  Blaut í báða fætur.  Allt í lagi, ca 15 km eftir, þar af 10 á malbiki og svo bara kvöldsólin, ullarsokkar og bjór á tjaldstæðinu í Vík.

Mig grunaði aldrei að ég væri ekki á réttri leið, ég fann alltaf slóða öðru hvoru, þar sem ég gat jafnvel hjólað smá spotta.  En leiðin var skiljanlega langtum erfiðari en ég átti von á í upphafi.  Ég veit að það eru nokkrir manískir hjólakappar á Íslandi sem hafa lagt metnað sinn í að hjóla hvern einasta slóða á Íslandi.  Nú get ég glatt þá.  Það er einn sem liggur niður eftir endilangri Kerlingardalsá, ef fólk skyldi nú sitja og tosa í skeggið og vera í stökustu vandræðum með hvað það gæti nú hjólað, verandi búið með allt Ísland.  Hún er ekki merkt inn á kort, en það er greinilegur jeppatroðningur eftir henni, svo já, þetta er slóði og vel hjólanlegur á góðu hjóli.  En "nokkrar" ár að vaða yfir, svo vaðskór eru góð hugmynd.  Og blautbúningur hugsanlega réttu hjólafötin.

Ég get því miður ekki frætt um ástandið eftir því sem nær dregur sjó, en þetta ættu fílhraustir karlmenn að komast, úr því ég komst meirihlutann nokkurn veginn stórslysalaust.  Enda var ég ákveðin í að snúa við ef ég teldi einhverja hættu vera á ferð.  Fyrst setti ég tímamörk fyrir að snúa við kl 21:00.  Framlengdi þau til 22:00 eftir því sem Vá faktorinn jókst.  Var ég búin að minnast á veðrið?  Því miður var myndavél ekki með í för, ég hafði hugsað með mér, ef þetta er fallegt, þá kem ég bara aftur síðar og tek myndir.  Já, þetta var fallegt.  Þetta var raunar mjög fallegt.  Þetta var stórbrotið, þetta var... orð fá því ekki lýst.  kvöldsólin ljáði ægifögru umhverfinu aukið vægi, fallegar skýjamyndanir, bæði á himni og leikandi ský við fjallstoppa og algjört logn gerðu þessa kvöldstund að einni eftirminnilegustu og fallegustu útivistarferð sem ég hef nokkurn tíma farið í.

Fyrsta náttúruupplifunin mín var í Þórsmörk.  Rétt rúmlega tvítug.  Ég man ekki hvað ég hugsaði oft "Vááá", þegar ég kom þangað fyrst.  Vá faktorinn var reistur endalaust í þessari ferð.  Vildi að ég gæti sýnt ykkur eitthvað af þessari dásemd.  Tek bara myndir næst.  En nei, ég mun ekki hjóla eða ganga þetta aftur, þetta var allt of erfitt fyrir mig.  Og þó, kannski...  Verður maður ekki að klára dæmið?

Þegar hver endalaus salurinn með melum og árhvíslum opnaðist á fætur öðrum og þreytan og jafnvægisleysið óx, þá vissi ég að ég væri komin í ákveðin vandamál.  Ég gæti ekki lengur snúið við, til þess voru árnar of erfiðar, sem ég náði þó að vaða fyrr um kvöldið, núna var ég orðin of þreytt til að geta staðið á móti straumnum.  Svo það var tvennt í stöðunni, að leggjast fyrir, sofa í 3-4 tíma og halda áfram sömu leið, snúa við, eða taka stefnuna upp í fjöllin og reyna að átta sig á staðarháttum og komast þannig til byggða.  Ég sá mastur í fjarska uppi á fjalli og hugsaði með mér að þar hlyti að liggja vegur.  Bara drösla hjólinu upp þessa hæð, þá er stutt í mannabyggðir.  Og þegar ég komst upp á hæðina, þá opnaðist þessi líka fallegi og grösugi dalur eins langt og augað eygði, tún, og beljur og rollur og unaðslegheit... en engir akvegir.  Ekki alveg það sem mig langaði að sjá, þó þessi huggulega sveitasýn hefði ábyggilega gert mig agndofa af aðdáun fyrr um kvöldið.  Ef einhver heyrði "nei, Nei, NEIIII,  NEIIIIIIIIII" angistaróp bergmála niður í Vík þetta kvöld, þá var það ég.  Svo það var lítið annað að gera en paufast áfram yfir mosa, mela og móa, líta kýrnar og hugsanlega árásargjarna nautgripi með hornauga og gargandi fugla allt í kring.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig.

Stundum þegar ég hjóla eftir fáförnum sveitavegum, þá myndast flokkur af fuglum fyrir framan mig, þeir sveifla sér, dilla sér, blaka vængjunum, sveigja í fagurlegri fylkingu út af veginum upp í nálæga kletta, en þegar ég fylgi þeim ekki, fer allt í upplausn, þeir fylkja sér aftur  og reyna að fá mig með í gleðskapinn.  Ég kalla stundum þessa tegund af fuglum partý-gauka, þeir sjá þarna einmana kvennsu á ferð og vilja ólmir bjóða henni í teiti.  Núna upplifði ég aftur eitthvað svona, nema þeir voru afskaplega æstir eitthvað, og ég var farin að rýna vel niður fyrir mig, hvort ég væri nokkuð að stefna á hreiður.  Nei, ég óð beint út í mýri og sökk upp fyrir mið læri, eins gott að ég var með hjólið með mér, það gat ég notað sem krekju, til að styðja mig við, á meðan ég kraflaði mig upp úr leiðjunni.  Á meðan hringsóluðu fuglarnir yfir mér og ég gat ekki betur heyrt en þeir sögðu "Stupid woman, told you so..." svo sneru þeir við og flugu til baka.  Voru þeir að vara mig við?  Ég held það.  Eða var það kannski bara þreytan...  Eða óbyggðageðveikin...

Maður hefur séð fólk kyssa jörðina eftir að hafa lent í flugvélum sem voru í háska.  Ég skal viðurkenna að ef hnén hefðu leyft, þá hefði ég lagst niður og kysst malarveginn sem ég rambaði loks inn á.  Og eftir að hafa valið átt af handahófi (já, hóst, ég veit, garmin er kominn á óskalistann) þá rúllaði ég í átt til sjávar og meeeen, hvað myglaði, eldgamli opelinn minn var sjóðheitur og fagur í miðnætursólinni....  Dagur var að kveldi komin og ég raskaði ró tjaldstæðisgesta löngu eftir miðnætti, en glöð í hjarta yfir að vera komin heilu og höldnu til byggða.

Daginn eftir voru fæturnir á mér í ótrúlega góðu ástandi, þar hefur spa-meðferðin haft sitt að segja, þessi hjólaferð hefur verið á við heimsókn í dýrustu og flottustu baðstaði heims.  Að skiptast á að lauga fæturna í ískaldri, steinríkri jökulánni, hita þá í brennandi sólinni, nudda iljarnar með sandinum af botni árinnar og viðra þá í heilnæmu lofti heiðanna... fólk borgar morðfé fyrir svona lagað á tilbúnum stöðum, þegar allt og sumt sem þarf eru óbyggðir Íslands.  Og hæfileg bilun býst ég við...

Eftir að hafa skoðað loftmyndina betur á ja.is sé ég hvar ég villtist.  Gula línan sýnir leiðina sem ég fór.  Efri örin bendir á hvar vegurinn byrjar aftur.  Ég sá meira að segja hjólförin við neðri örina, en var svo áttavillt að ég taldi þau liggja inn í land.  Hélt að ég væri að fara í vesturátt, þegar ég stefndi raunar í hásuður.

gatnamot 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband