Háskahelgi

2010-04-17 042 

Þar eð ég vinn sitjandi við tölvu flesta daga og eina hættan við atvinnuna er að brjóta á sér nögl, þá langar mann að gera eitthvað öðru vísi um helgar.  Ég var búin að plana langan hjólatúr þegar ég sá frétt frá Landlækni, að fólk skyldi halda sig innandyra og hafa rykgrímur við höndina.  Eftir það iðaði ég í sætinu að komast út að hjóla.  Eftir að hafa skoðað veðurspána (norðan og vestan átt um helgina) þótti mér ekki miklar líkur á að verða skyndilega umvafin gjósku úr Eyjafjallajökli.  Enda er þá minnsta málið að draga buffið yfir vitin og húkka far með næsta bíl.  Hvað fleira er hægt að gera til að gera tilveruna ögn meira spennandi?  Júbb, það má gista í þessum líka heillandi afskekkta sumarbústað.

2010-04-17 002

Hverjar eru líkurnar á að það hrynji bjarg úr fellinu og brjóti kofann í spað?  Þ.e. einmitt nóttina sem maður veldi að gista þar?  Það væri ekki vitlaust fyrir eigendurna að prófa að auglýsa á eBay eina helgi í þessum sumarbústað með yfirvofandi grjóthruni eða öskufalli.  Spennufíklarnir gætu heldur betur barist um hituna og menn grætt á tá og fingri.  Nei, ég gisti raunar ekki hér, en ég gæti sko látið freistast ef það væri í boði!

2010-04-17 014

Ég gleymdi ekki að afklæðast þegar ég fór ofan í pottinn, þessi buff eru bara svo ljómandi praktísk, hægt að nýta þau á marga vegu, ég notaði bara svona þunn buff undir hjálminn síðasta vetur, tvö saman ef það var meira en 5 stiga frost eða mikil vindkæling.  Það var ansi stífur vindur þetta kvöld og mér kalt á hausnum ofan í pottinum.  Þetta er bara venjulegt buff, ég klippti rifu þvert yfir fyrir andlitið, þannig að það virkar sem kragi og eyrnaband eftir tilfæringar.  Ég hefði kannski átt að fara með hjálminn ofan í, eða hjólið.  Svona til að standa undir nafni!

2010-04-17 026 

Ég hjólaði í kring um þrjú vötn um helgina, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Álftavatn.  Þetta voru samtals 90 kílómetrar.  Ég keyrði til Úlfljótsvatns í útilegu í fyrra, og umferðarþunginn var slíkur að ég ákvað að hjóla aldrei hringinn í kring um Þingvallavatn.  Mér finnst bara ekki heillandi að hjóla úti í náttúrunni og mæta bíl á 5 sekúndna fresti.  En núna er lag, ferðamannatíminn er ekki byrjaður, umferðin er ekki svo mikil og veður farið að skána.  Að vísu var 4 stiga frost um helgina, svo ég þorði ekki að taka nagladekkin undan hjólinu, ég fékk svo brjálaðan meðvind að ég var eiginlega hálfnuð með hringinn eftir 1 1/2 tíma.  Það tók hins vegar ívið lengri tíma að fara á móti vindi.  Það brast á með sól, haglél á köflum, hellidembu fékk ég líka, mótvindur sama í hvaða átt ég hjólaði.  En þetta er bara náttúran á Íslandi, yndisleg í alla staði.

2010-04-17 039

2010-04-17 036

2010-04-17 045

2010-04-17 044


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: steinimagg

:-)

steinimagg, 23.4.2010 kl. 09:40

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

það er á hreinu að þú gefur sko ekkert eftir

Jón Snæbjörnsson, 28.4.2010 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband