Ekki ég í þetta sinn

En þetta hefði verið svo týpískt ég að villast um Ísafjörð.  Það eru margar ástæður fyrir því að ég hjóla frekar en keyri.  Ég er ömurlegur bílstjóri.  Svo sem ekkert góður hjólari, en samt skömminni skárri á reiðhjóli en bíl. 

Ég var í sumarbústað rétt hjá Selfossi fyrir nokkru og þurfti að fara inn í bæinn að kaupa í matinn.  Ákvað að koma við í vínbúð og kaupa rauðvín, þar eð ég var nýbúin að læra á grillið eftir að hafa gist skrilljón sinnum í bústaðnum en aldrei lært á þetta flókna tól.  Grill eru nefnilega almennt í verkahring karlmanna.  12 ára sonur minn heimtaði hins vegar grillaðar útipylsur, og við nánari athugun þurfti bara að  skrúfa frá krananum á gaskútnum og ýta á einn takka.  Voila, grillið tilbúið til eldunar.

Taldi líklegt að vínbúðin væri við aðalgötuna, rúntaði þar fram og til baka en fann ekki.  Fór í sund og ákvað að gefast upp á búsinu og tjilla bara edrú í heita pottinum um kvöldið. 

TrodinnPottur

Gleymdi sundfötunum í Sundhöllinni og þurfti að fara annan hring til að nálgast þau.  Verandi viss um að það væri vínbúð í öðru eins menningarpleisi og Selfoss er, tók ég beygju hér og þar í von um að ramba á hana og endaði eins og álka inni á grasbala og þurfti að keyra eftir göngustíg og skrapa svo nánast pústið undan bílnum við að fara frá gangstéttinni niður á bílaplan.  Verst þótti mér að tveir karlmenn á reiðhjólum stöðvuðu fararskjótana til að fylgjast glottandi með mér.  Ég vona bara að ég hafi ekki þekkst, ég held að ég hafi aldrei roðnað jafn mikið um æfina...

En merkilegt nokk, ég ók óvænt fram á vínbúðina í vandræðagang mínum.  Hún er fyrir aftan KFC.

Ekki veit ég hvað þessir ökuþórar voru að leita að, vínbúðin er alla vega niðri í bæ á Ísafirði, ekki upp undir fjalli.  Og meira að segja ég hefði fattað að ég væri í þann veginn að keyra inn á fótboltavöll...

p.s. pottamyndin er tekin eftir 4 daga gönguferð um Fjörður á Norðurlandi.  Ég tók myndina og tróð mér svo ofan í pottinn til ferðafélaganna, það er alltaf pláss fyrir einn í viðbót þegar svona heitir pottar eru annars vegar.


mbl.is Ók bíl yfir knattspyrnuvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband