21.11.2010 | 02:28
Nesjavellir - Stærri í dag en í fyrra
En samt er ég öll minni. Þ.e. farin úr fatastærð 56 í 44, meira að segja skóstærðin hefur minnkað, ég er búin að þurfa skó í stærð 43 í nokkur ár, en er komin niður í gömlu skóstærðina mína, 41. Það var að sjálfsögðu haldið upp á það með því að kaupa háhælaða skó og pæjast aðeins á þeim, þó að ég sé nú frekar fyrir að hjóla úti í náttúrunni í þægilegum flatbotna skóm.
Þegar ég var lítil hnáta á Ísafirði var þáttur í sjónvarpinu sem ég man ekki lengur hvað hét, en hann var um börn í Indlandi og þau áttu fíl sem hét Kala. Í hlíðinni fyrir ofan Ísafjörð fundum við krakkarnir stóran stein sem líktist fíl, og hann var iðulega kallaður Kala, átti stórt hlutverk í barnaleikjum bernskunnar og hríslurnar í hlíðinni breyttust í frumskóg með alls konar dýrum og ævintýrum.
Fyrir nokkrum árum fór ég í gönguferð upp á Gleiðahjalla og leitaði að þessum stein í leiðinni. Í endurminningunni var þetta heljarinnar hnullungur og ég leitaði að bjargi sem myndi gnæfa yfir mig. Það sem fimm ára barni þótti stórt er ekki stórt í augum fullorðinna og mér til mikillar furðu náði steinninn mér rétt upp fyrir mitti. Ég hafði tvöfaldast í hæð en steinninn skiljanlega staðið í stað.
Í fyrra fór ég í ferð með Fjallahjólaklúbbnum til Nesjavalla. Mér þótti ferðin svolítið erfið, það voru þó nokkuð margar brekkur sem ég gat ekki hjólað, þurfti að teyma hjólið upp þær. Þegar við komum á Nesjavelli hlunkaðist ég ofan í heita pottinn alveg búin á því og komst eiginlega ekki upp úr honum aftur fyrr en eftir 2-3 tíma. Var satt að segja nokkrar vikur að jafna mig almennilega eftir þessa ferð. Sem einn vanur ferðafélagi kallaði leti- og dólferð rétt út fyrir bæinn. Heppinn að vera ekki drekkt í heita pottinum, en ég var náttúrulega of farlama þá til að tuska menn til.
Síðla sumars ákvað ég að hjóla yfir á Þingvelli og taka Nesjavellina til baka. Helmingi lengri leið en ég fór í fyrra, samtals 80 km. Ég bjóst fastlega við að þurfa að teyma upp brekkurnar, en kílómetrarnir liðu einn af öðrum og aldrei komu þessar hrikalegu brekkur sem ég minntist frá því í fyrra. Svo var ég allt í einu komin til Reykjavíkur og alveg "Bíddu, hvert fóru brekkurnar?". Fékk ekki einu sinni harðsperrur eftir þessa laufléttu dagsferð.
Það er eins og ég hafi stækkað frá því í fyrra, þó að ég hafi í raun minnkað. Nú er Fjallahjólaklúbburinn að fara í aðventuferð til Álftavatns laugardaginn 27 nóvember næstkomandi. Þá er hjólað til Nesjavalla og áfram meðfram Úlfljótsvatni, í gegn um Þrastarskóg að Selvík. Örlítið lengri ferð en þegar hjólað er til Nesjavalla. En viðbótin er öll á jafnsléttu eða niður í mót. Er ekki upplagt að skella sér með og tækla jólastressið afslappaður og endurnærður eftir að hafa hjólað um þá einstöku náttúru sem er rétt við borgarmörkin.
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skrattans sem mig langaði með. Nú er ég búinn að segja það í síðasta skiptið.
Nú er að lesa ferðasöguna og kíkja á myndir.
Örlygur Sig (IP-tala skráð) 29.11.2010 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.