Með dýpstu lægðum í júlí

07-22 183 

Ég sem fararstjóri í hjólaferð til Vestfjarða taldi rétt að láta fólk vita að það gæti orðið arfavitlaust veður um helgina. Bjóst ég við að fólk myndi nú frekar velja að kúra uppi í sófa heima hjá sér en æða út að hjóla þegar búið er að spá þessu veðri:

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/07/18/med_dypstu_laegdum_i_juli/

Að vísu verð ég að viðurkenna að klausan um vindstyrkinn fór fram hjá mér, ég hafði meiri áhyggjur af rigningunni, að allt hafurtaskið yrði blautt, fólki kalt og það kvefast í kjölfarið. En það eru engar blúndur í Fjallahjólaklúbbnum, ég var bara skömmuð fyrir að vera að draga úr fólki, auðvitað förum við út að hjóla, þótt 'ann rigni soldið!

07-22 069 

Leiðirnar voru valdar upp úr Hjólabókinni sem Ómar Smári gaf út fyrir síðustu jól, Reykjanes fyrri daginn og Gilsfjörður þann seinni.  Við lögðum af stað með fínan vind í bakið, á sléttu malbiki.  Já, það er ekki alltaf upp brekkur og á móti vindi á Íslandi.

Ég hef hjólað þessa leið áður, þá valdi ég að keyra upp á Eyrarfjall, hjóla niður í Mjóafjörð, áfram hringinn, en skilja svo hjólið eftir niðri við sjó, labba upp á fjall og sækja bílinn.  Þetta gerði ég svo ég þyrfti ekki að teyma hjólið, en ég var þá nokkuð slæm af brjósklosi í baki og taugaverkjum í handlegg.  Ég sé núna að það voru mistök.  Það voru nokkur í hópnum sem hjóluðu upp allar brekkurnar, allir hjóluðu eitthvað, og ég gat hjólað meirihlutann líka.  Fyrirfram bjóst ég við að fólk myndi þurfa að teyma 4-5 km og ég yrði í því að peppa upp örmagna fólk sem vildi helst snúa við í miðri brekku.  

Öðru nær.  Erum við komin upp?  Var þetta brekkan?  Eru ekki fleiri brekkur?  Harðjöxlin í hópnum urðu kannski pínu skúffuð að þetta væri ekki erfiðara, þar eð ég var búin að lýsa þessu sem hvílíkum manndrápsbrekkum.  En hinir voru voða glaðir að geta hjólað meirihlutann og vera komin upp á fjall löngu á undan áætlun.  Við fundum okkur skjólgóða laut, þar var spjallað, etið, drukkið og sumir fengu sér siestu, það var hrotið í sterio á köflum.  Hvar er óveðrið spurðum við í sífellu og skellihlógum.  Algjör bongóblíða hjá okkur uppi á fjalli.

07-22 103 

Jú, óveðrið var víst í Reykjanesi að tæta niður tjöldin okkar.  Meira um það síðar, fyrst er að dásama þessa fallegu hjólaleið.  Það þarf að labba öðru hvoru fram á gilbakkann til að skoða fegurðina.  Morten tók þetta heilræði mitt full langt, og þegar hann ætlaði að fara að taka jógastöðu, standandi á haus á þessari mjóu klettasyllu var hann snarlega stoppaður af.  Nóg svimaði mann þegar hann tók þessa jafnvægisæfingu.

07-22 096 

Þegar ég fór þessa leið fyrir tveimur árum, þá fannst mér eins og einhver kallaði á mig, og ég gekk fram á gilbakkann til að athuga hvort einhver væri þar í vandræðum og þarfnaðist aðstoðar.  Þá opnaðist þessi líka fallega sýn og ég áði þarna í dágóðan tíma.  Núna var það Morten sem fann hana "Var það hér?"  Sumir blettir á Íslandi hafa seiðandi og dáleiðandi áhrif.

Annar staður er sérlega áhugaverður, nokkurs konar klettadæld sem er mjög falleg og skjólgóð.  Eða  leikvöllur fyrir fullorðna, eins og Ulla sagði, og svo var kletturinn tæklaður og klifinn.  Þarna var talsverður strekkingur inn fjörðinn, en í dældinni var algjört logn.

07-22 154 

Það er lítil heit sundlaug í Mjóafirði, ég missti af henni þegar ég hjólaði þetta í fyrsta sinn, en Morten og Ulla tóku eftir henni, og hver stenst mátið að fá sér notalegt fótabað þegar það er í boði.

Þarna gerði ég smá mistök, hefði átt að hringja í ferðafélagana sem voru á undan og láta þá koma aftur og taka smá sundlaugarteiti.  Það er alveg himneskt að lauga, þó ekki sé nema tærnar, þegar maður er á ferðalagi.  Hvort sem maður er hjólandi, gangandi eða bensínfótarlúinn.

07-22 166 

Þegar fólk ferðast saman á reiðhjóli, þá dregur fljótt í sundur ef einhver stoppar smá stund.  Mér fannst við bara stoppa í 5 mínútur, en suma sáum við ekki aftur fyrr en í Reykjanesinu.  Mótvindinn herti stöðugt og þegar við komum í Vatnsfjarðarnes, þá var baráttan við veðurguðinn Kára orðin nokkuð tvísýn, erfitt að hafa hemil á fararskjótunum sem Kári vildi blása út í móa, en við höfðum samt betur.  Hann fór þá í fýlu og ákvað að herja á tjöldin okkar í staðinn.  Gamla góða Vangó tjaldið mitt, sem er búið að fylgja mér víða undanfarin 25 ár endaði sína daga þetta eftirsíðdegi.  En ekkert endist að eilífu, og nú hef ég afsökun fyrir því að fá mér minna og léttara göngutjald, sem ég get tekið með á hjólinu, hitt var of fyrirferðamikið til að það væri hægt.

Það var ekki bara mitt tjald sem endaði rifið og brotið á Reykjanesi, tvö önnur tjöld lágu í valnum eftir veðurofsann.  Það rigndi þó ekki, það er ekki alltaf rok og rigning á Íslandi, stundum bara rok.  Stundum bara rigning.

07-22 054 

Við höfðum ekkert val, við fluttum okkur öll inn á hótel í lungamjúk rúm, og fórum svo í veitingasalinn og gæddum okkur þar á purusteik, lambasteik og alls konar góðgæti.

07-22 218b 

Ég hef oft ekið fram hjá Gilsfirði og ekki virkar hann merkilegur eða spennandi séður frá mynninu.  En hann er ákaflega fallegur þegar maður hjólar hann.  

07-22 252 

Fáfarinn malarvegur, hæfilega stuttur hringur, 30 km sem við hjóluðum á ca 3 tímum með góðu nestisstoppi.

07-22 259b 

Sérlega góð helgi að baki í félagsskap skemmtilegs fólks.  Fleiri myndir er að finna hér á Picasa, þar á meðal frá fyrsta degi, en þá hjóluðum við Sif og Marteinn frá Svignaskarði inn að Langavatni á leiðinni vestur.

https://photos.app.goo.gl/m1omSFLQ2DpqSYQWA

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir skemmtileg ferð !
þótt tjaldið þarfnast nýjar stangir og pokar fyrir tjald og hæla ...

Og takk fyrir að blogga og taka  myndir og sýna  :-)

Morten Lange, 24.7.2012 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband