31.8.2013 | 12:13
Landmannalaugar - taka þrjú
Eða dularfulla kæliboxmálið. Átti svolítið erfitt með að velja titil á þessa færslu þar eð hugur minn var meirihluta ferðarinnar bundinn við kæliboxið sem skilaði sér ekki upp í Landmannalaugar. Það innihélt mjólkina út á hafragrautinn, fetaost út í salatið, skyrtertu sem átti að vera í eftirrétt, smjör í bökunarkartöflurnar, kaldar sósur með ketinu, en sem betur fer þá var allt annað með í för, ég hefði sko skellt sjálfri mér á grillið ef ég hefði gleymt öllum matnum fyrir 18 manna svangan úlfahóp, sem kom slefandi og urrandi í hús eftir 6 tíma krefjandi hjólaferð.
Ég veit að ég bragðast vel, ég þarf nefnilega reglulega í blettatínslu sem fer þannig fram að húðsjúkdómalæknir sker af mér nokkrar vörtur, sendir þær í ræktun til að athuga hvort þar sé ekki sárasaklaus ofvöxtur á ferð og svo notar hann laser brennara til að loka sárinu, svo það komi sem penust ör. Það er búið að fjarlægja eina 9 bletti úr fésinu á mér og ef það væri allt rimpað saman með sláturkeppsnál, þá væri frúin æði ófrýnileg útlits. Ilmurinn þegar brennslan fer fram minnir á beikon og ég fæ alltaf vatn í munninn þegar ég ligg þarna eins og ja, hver annar kjötskrokkur á færibandi læknisins. Já, en snúum okkur aftur að hjólaferðinni, eða réttara sagt kæliboxinu.
Ég man ekki betur en ég hafi rogast með það niður af 4ðu hæð í vesturbænum. Komið fyrir í bílnum mínum og keyrt með það austur á Hellu. Þar tókum við rútu upp í Landmannalaugar og ég man mjög greinilega eftir að hafa tekið kæliboxið í aðra höndina og lagt frá mér á meðan ég greiddi fargjald rútunnar fyrir mig og ferðafélagana. Man greinilega eftir hljóðinu þegar handfangið rann niður í falsið, mundi meira að segja nákvæmlega hvað það var þungt, þar eð það innihélt ekki bara hluta af sameiginlegum kvöldmat, heldur líka bróðurpartinn af nestinu mínu.
Mig grunaði að sjálfsögðu hvern á fætur öðrum, Pétur, Pál, Maríu og Jósef. Hver sem er hefur getað kippt kæliboxinu með sér sem átti leið hjá. Sem betur fer er Hálendissjoppa í Landmannalaugum og þar náðum við að versla mjólk, annars hefði hafragrauturinn verið dulítið ólystugur með vatni einu saman út á.
En svekkelsið gleymdist öðru hvoru við að virða fyrir sér fegurðina sem er að finna á þessari leið. Þetta er í þriðja sinn sem ég hjóla frá Landmannalaugum niður á Hellu með viðkomu í Dalakofanum. En aðeins einu sinni hef ég náð að hjóla alla leið. Í fyrsta sinn var svo svakalegur meðvindur að ég geystist fram af hjólinu og lá ósjálfbjarga úti í móa í smá stund og fékk svo far niður á Hellu með Björgvini sem var að jeppast á sömu slóðum. Í fyrra gat ég hjólað alla leið, en í ár var ég það slæm af gigt og þeim meiðslum sem ég hlaut í Kerlingardalsánni (sjá síðustu bloggfærslu) að ég varð að lúta í lægra haldi og chilla aftur hluta af leiðinni inni í bíl hjá Bjögga. Hér eftir geng ég undir nafninu Jeep-Drön. Nei, nei, bara svona til að viðhalda nördaskapnum.
Það þýðir ekkert að væla þótt maður geti ekki gert allt sem mann langar til, ég fékk þó að komast á fjöll, ferðast með fullt af skemmtilegu fólki, næra mallakútinn sem og andann, horfa á fallega náttúru, hnusa af haustvindinum, sofa eins og berserkur og halda vöku fyrir öllum öðrum með hrotum... Já, þetta er sívinsælt rannsóknaefni í svona ferðum, við getum bara farið að taka að okkur greiningar á svefnvandamálum fólks, við getum sagt þér hvort þú hrjótir, glímir við kæfisvefn, sofir í óeðlilegum svefnstellingum, hljóðritað hvað þú segir upp úr svefni... Alltaf gaman í hálendisferð með Fjallahjólaklúbbnum.
Einar skálavörður töfraði fram olíu í salatið og soyasósu til bragðbætingar. Örlygur var með heilt smjörstykki með sér sem var brytjað ofan í bökunarkartöflurnar. Aðrir buðu fram súkkulaði, kex og eitthvað bragðgott til að maula með kaffinu í stað skyrtertunnar sem ég sá í anda vera étna af einhverju illa innrætnu dusilmenninu sem hefði rænt kæliboxinu frá mér.
Við fengum allar útgáfur af veðri eins og gengur og gerist síðsumars á Íslandi. Á tímabili fannst mér rigningin breytast í slyddu, en svo kom sólin og þá þurfti að stoppa og fækka fötum. Það var rok, með eða á móti, aðallega á móti. Þá er gott að hjóla í hóp og nýta skjólið af hvert öðru.
Á Hellu var farið í sund, snæddur sunnudagsís og svo ekið í bæinn. Hvað haldiði að hafi tekið á móti mér í forstofunni heima hjá mér? %#%&$ kæliboxið. Stóra kæliboxmálið upplýstist að lokum. En nú þarf ég að leggjast í naflaskoðun, hvers vegna ég man svona vel eftir því að hafa tekið það með mér niður af fjórðu hæð, út í bíl og lagt frá mér á bílastæðið á Hellu... Það er ennþá óleyst ráðgáta. Nema náttúrulega lífið sé ein alls herjar blekking og draumur út í gegn.
Nú, ef ekki, þá ætlar Fjallahjólaklúbburinn að hjóla frá Seljalandsfossi út í Þórsmörk 21 september. Þá gefst tækifæri til að hjóla með skemmtilegu fólki, fá svefnvandamálagreiningu og virða fyrir sér gróðurinn sem mun skarta sínum fegurstu haustlitum. Fylgstu með okkur á www.fjallahjolaklubburinn.is, ferðin verður auglýst þegar nær dregur. Svo erum við með síðu á fésbókinni sem má sýna velþóknun (læka) til að fá okkur beint í æð á fréttaveitunni.
https://www.facebook.com/fjallahjolaklubburinn
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.