Reykjavíkurmaraþon

undanfarar

Ég var undanfari í Latabæjarhlaupinu árið 2012.  Við Cristy klæddum okkur upp og hjóluðum á undan sprækum 6-8 ára krökkum.  Réttara sagt, við náðum þeim áður en þau komu í mark.  Við heyrðum ekki þegar hlaupinu var startað, sáum bara rauða bylgju af krökkum koma æðandi í áttina að okkur, taka framúr og skilja okkur eftir í rykinu.  Við spændum af stað og náðum grislingunum.  Sem betur fer, agalegt ef það hefði frést að við, garpar í Fjallahjólaklúbbnum hefðum ekki haft í við 6-8 ára krakka.  Hér má stutt myndband frá Latabæjarhlaupinu.  Ég var með myndavél aftan á bögglaberanum.

https://www.youtube.com/watch?v=asH5SKdBJ2M

Eftir þetta hafa ekki verið notaðir undanfarar í Latabæjarhlaupinu... hmmm.  Eins og margir feður þökkuðu okkur fyrir að klæða okkur upp og gleðja börnin.

Ég gaf aftur kost á mér í ár, en lenti á varamannabekknum.  Mætti niður í Hljómskálagarð snemma morguns til að taka púls á stemmingunni.  Kannski taka 3km skemmtiskokk.  Leysa eftirfarana af, fólk þarf jú að komast á klósett.  En það endaði með því að ég var undanfari í 42 km maraþonhlaupinu.  Eftir á, þá er ég ekki viss um að það sé erfiðasta hlaupið að hjóla fyrir.  Við hjóluðum á ca 16-18 km jöfnum hraða, en í Latabæjarhlaupinu þá sprengdum við okkur á fyrstu 100 metrunum og komum móðar og másandi í mark í hálfgerðu áfalli.  Þeir sem hlaupa 10 og 21km fara líka mun hraðar en þeir sem hlaupa 42km.  En auðvitað þarf að vera í góðu hjólaformi og geta hangið á hnakk í ríflega 2 tíma án hvíldar.

En aftur.  Það var tekið fram úr mér.  Fokk.  Afsakið orðbragðið.  Ég var líka á Menningarnótt.  Við Corinna vorum undanfarar og hún hægði á til að kanna hvort það væri langt á milli fyrstu hlauparanna.  Ég kom að hringtorgi sem var fullt af föngulegum, hálfnöktum, vöðvastæltum hlaupandi karlmönnum, starfsfólki í vestum, borðar hingað og þangað og lögreglan á bifhjólum (sem voru sko líka fyrir augað...) og ég bara sá ekki í fljótu bragði hvernig ég ætti að fara í gegn um hringtorgið.  Sem betur fer vissu hlaupararnir hvert ætti að fara og tóku fram úr mér og beygðu til vinstri.  Ég náði þeim nú fljótt og reyndi að fylgjast betur með götumerkingunum og láta ekki þá karlmenn sem komu hlaupandi á móti afvegaleiða mig.  Í Fossvogsdalnum skiptum við liði, Corinna lóðsaði fyrstu tvö, ég þann þriðja í mark.  Síðustu 2 kílómetrarnir voru eiginlega mest stressandi, af því mikið af fólki var á götunum labbandi þvers og kruss.

Þetta gekk allt stórslysalaust fyrir sig, en það er skondið á litla Íslandi, að ég þekkti fullt af fólki.  Hitti Ingileif bekkjarsystur mína sem var á leið í hálfmaraþon. Snorra Má bekkjarbróður og hjólagarp.  Hjólaði fram á Guðrúnu í gönguklúbbnum sem spurði mig hvort ég væri með pumpu.  Ég varð að góla að ég væri upptekin sem undanfari í Maraþoninu og hjóla fram hjá konu í neyð.  Annars er ég greiðvikin og alltaf til í að aðstoða fólk.  Þóra í mömmuklúbbnum var að viðra hundinn sinn í Fossvoginum.  Ég heyrði fleira fólk kalla á mig úr mannmergðinni "Hrönn" og "Hjólahrönn" og jafnvel mitt fulla nafn "Hrönn Harðardóttir". Ég sem hélt að enginn vissi hver ég væri.  Svo ég bara brosti í allar áttir og heilsaði með virktum.  Þetta var bara gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband