Mánudagur til mæðu

Ég hjóla til vinnu á mánudögum eins og flesta aðra daga, svo kem ég heim seinnipartinn, hjálpa krökkunum með heimanámið, það er snædd pizza eða eitthvað annað léttmeti og svo hjóla ég aftur af stað.  Á æfingu hjá sönghópnum Norðurljósum.  Ég bý í Smáíbúðahverfinu og æfingastaðurinn er Hofstaðaskóli í Garðabæ.  Ég er búin að prófa nokkrar mismunandi leiðir og fer núna í gegn um Breiðholt og Kópavog aðra leiðina, ég er 20-25 mínútur á leiðinni, tvær miðlungs erfiðar brekkur, frá Elliðaárdal upp í Breiðholt og svo tekur Smárahvammurinn aðeins í lærin.

ad_skolanum 

Það er ágætis aðstaða fyrir reiðhjól fyrir utan skólann, þak sem skýlir fyrir veðri og vindum.

skolinn

Þegar ég er búin að syngja með félögum mínum í kórnum er andinn orðinn hvílíkt heitur og glaður og ég raula lögin á leiðinni heim.  Þá vel ég að hjóla niður að sjó og þræða strandlengjuna meðfram Kópavogi, fer stundum fyrir Kársnesið til að finna sjávarilminn og tjörulyktina af bátaútgerðinni, stundum langar mig í smá átök og fer þá yfir hæðina.  Kópavogurinn er fallegur, líka í myrkrinu, það skerpir skilningarvitin að þræða stíginn meðfram sjónum, dulúðin og mystíkin eykur áhrifin, aldrei að vita hvaða verur birtast skyndilega út úr náttmyrkrinu í næstu beygju.

stigurinn

Svo spæni ég á nýju hjólabrautinni í gegn um Fossvogsdalinn og er komin heim ríflega 35 mínútum seinna.  Þessi leið er nánast öll á stíg, varla hægt að tala um brekkur á leiðinni, rétt smá halli yfir Arnarnesið og þar verður maður að hjóla á götunni, gangstígarnir eru óvenju mjóir, varla að þar sé hægt að komast leiðar sinnar með barnavagn.

fra_skolanum

Mánudagur til mæðu?  Nei, það er sko ekkert mæðulegt við mánudagana á þessum bæ.  Þeir eru uppspretta andlegrar og líkamlegrar næringar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband