22.11.2009 | 18:41
Uxahryggir - með aðra hendi á stýri
Maður heyrir oft af fólki sem leggur sig í bráða lífshættu til að ná einhverju á filmu. Ég filma stundum á meðan ég hjóla niður brekkur, þá með aðra hendi á bremsunni, reyni að halda myndavélinni eins kyrri og hægt er með hinni. Þetta tekst stundum ljómandi vel, en í þetta skiptið voru bremsurnar orðnar pínu lúnar og ég geystist á full miklum hraða fram hjá ferðafélögum mínum niður stórgrýtta brekku, með aðra hendi á stýri, og með myndavélina á lofti. Þeim þótti ég ægilegur töffari. Hvað gerir maður ekki til að skemmta fólki, ha! Óviljandi í þetta sinn. Myndbandið kemur inn á morgun eða hinn, það tekur smá tíma að klippa og hljóðblanda það. Set líka fleiri myndir í albúm hér á síðunni.
Fyrirvarinn var svolítið stuttur, ég kíkti af rælni á póstinn minn um kaffileitið og sá þessa ferð auglýsta næsta dag á vegum Fjallahjólaklúbbsins. Hringdi heim í bóndann, "Má ég fara?" og fann gremjuna alveg í gegn um símalínuna. "Nei, þú ert aldrei heima, ertu ekki að fara á jólahlaðborð annað kvöld!". Svo ég fór snemma heim á föstudaginn, dröslaðist um heimilið með þennan dæmigerða Ég-má-aldrei-neitt-og-fer-aldrei-neitt fýlusvip svo kallinn gafst upp að lokum, "Jæja, farðu þá!" Svo menn haldi ekki að ég búi við karlaofríki og þurfi leyfi til að fara ein út af heimilinu, þá eigum við ung börn og einhver þarf að vera heima að gæta þeirra. Við skiptumst á. Það verður að viðurkennast að það er ívið meira útstáelsi á frúnni, en ég er í kór, gönguklúbb, saumaklúbb, mömmuklúbb og hjólaklúbb, fyrir utan vinnutengda djammviðburði, en jólahlaðborðið var á vegum vinnunnar. Svo það er nóg að gera í félagslífinu hjá mér.
Björgvin keyrði okkur á jeppanum sínum upp í Kaldadal með hjólin aftan á kerru. Siggi var líka á bíl, en brá sér á hjólið öðru hvoru, það má segja að við höfum mætt Sigga nokkrum sinnum á leiðinni.
Þaðan var svo hjólað niður Uxahryggi, meðfram Þingvallavatni og yfir Mosfellsheiði til Reykjavíkur. Þó að veðurspáin gerði ráð fyrir 2-4 stiga hita þótti mér ráðlegra að setja nagladekkið undir, alla vega að framan, það er meira bras að skipta um að aftan, svo ég ákvað að bíða með það. Ég er ekki með öflugt ljós á hjólinu, bara svona venjulega týpu til að gangandi og hjólandi vegfarendur sjái mig á göngustígunum, nú og svo vildi ég vera komin tímanlega í bæinn, svo ég hefði tíma til að hafa mig til fyrir jólahlaðborðið. Björgvin hinn bjartsýni sagði að við yrðum komin í bæinn löngu fyrir myrkur. Það stóðst nú ekki alveg.
Þessi leið er ca 75 km frá Kaldadal niður í Klúbbhúsið við Brekkustíg. Framan af á malarstíg, missléttur og misgrýttur en ágætlega fær. Svo tekur malbikið við. Við vorum einstaklega heppin með veður miðað við árstíma. Hitastig rétt yfir frostmarki, sól öðru hvoru og svo ansi sterkur meðvindur yfir heiðina að Mosfellsbæ. Við héldum hópinn framan af, en ákváðum að hver og einn færi á sínum hraða yfir heiðina eða húkkaði far með Björgvini sem fylgdi okkur á leiðinni. Það var komin hálka og byrjað að dimma þegar við lögðum af stað frá Þingvöllum. Sumir völdu að fá far, en þar eð ég hef ekki hjólað þessa leið áður, ákvað ég að fara hjólandi alla leið, nema ég yrði alveg blind í náttmyrkrinu, það stendur ekki til að hætta lífi eða limum þótt að maður vilji helst klára dæmið eins og lagt var upp með.
Þegar við lögðum af stað var golan svolítið kælandi og ég fór í ullarbol undir jakkann. Svo fór ég í gult endurskinsvesti og þá varð mér allt of heitt eftir að við lögðum af stað svo ég varð að klæða mig aftur úr ullarbolnum. Ég var eiginlega að klæða mig ýmist úr eða í alla ferðina og ég var farin að ganga undir gælunafninu "stripparinn".
Kvenfólk á ívið erfiðara með að kasta af sér vatni en karlmenn, við þurfum að hafa frið og næði, annars getum við ekki pissað. Jeppinn hans Björgvins var þetta líka fína skjól og eftir að ég hafði nýtt mér það, ákvað María að fara að dæmi mínu, en gat ekki klárað af því Heimir óð að jeppanum til að leita að þrífætinum sínum, sem eftir mikla leit fannst hangandi neðan úr hjólinu hans. Beið María með kall náttúrunnar þar til við vorum farin af stað, parkeraði hjólinu í vegarkantinum og fór á bak við stóran stein. Kom ekki Björgvin keyrandi, sá hjólið liggja í vegarkantinum og fór út til að athuga hvort einhver þarnaðist hjálpar, og truflaði Maríu öðru sinni. Ég er ekki viss um hvort hún þorði að reyna við þetta í þriðja sinn, kannski eftir að náttmyrkrið skall á.
Síðasta klukkutímann fylgdust við Runólfur að, við hjóluðum stíft til að ná yfir heiðina fyrir myrkur, hans ljós var betra en mitt og við rétt höfðum það af á upplýsta hluta Þingvallavegar, áður en síðasta dagskíman hvarf. Svo fórum við stíginn meðfram golfvellinum í Mosfellsbæ, niður að sjó og meðfram honum yfir í Grafarvog. Ég kom heim kl 18:30 og þá var sko skipt yfir í túrbóhraða, naglalakk, kokteill, sturta, make-up og sparidressið. Allt þetta á hálftíma. Svo hjólaði ég á jólahlaðborðið, át á mig gat, þaðan fór ég á djammið niðri í miðbæ, dansaði svolítið og hjólaði svo aftur heim fyrripart nætur. Ætli ég hafi ekki hjólað um 90 kílómetra í gær. 75 í dagsferðinni og svo um 15 um kvöldið. Alltaf gaman að hjóla, bætir, hressir og kætir.
Að lokum má skoða myndbandið á youtube:
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.