Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Hvalfjörður - Eilífsdalur

10 11 003

Ég tók smá hring í Hvalfirðinum í dag, skildi þennan stutta spotta eftir þegar ég tók Vesturlandið í sumar.  En það ferðalag var planað þannig að ég tók alla 20-80 km langa hringi sem ég fann á kortinu og hjólaði þá.  Ætlaði að hjóla hann á suðurleiðinni, en náði því ekki.  Það verður að klára dæmið svo maður geti snúið sér að næsta landshluta næsta sumar.

10 11 009

Þegar ég keyrði fram hjá Esjunni sá ég að fánarnir blöktu ansi hressilega.  Ég átti þá allt eins von á að það væri brjálað veður í Hvalfirðinum, ákvað samt að fara þangað og athuga aðstæður, ég er nú ekkert óvön því að þurfa að breyta plönum þegar ég hef ætlað að viðra mig í Hvalfirðinum, enda merkilega oft á djamminu í nálægum sveitarfélögum vegna óveðurs.  En það var þetta líka blankalogn og brakandi sól.  Ég varð eiginlega að standast freistinguna að taka ekki allan Hvalfjörðinn í einu, halda mig við upphaflega planið, hringinn í kring um Eyrarfjall.

10 11 014

Hvalfjörðurinn er náttúrulega malbikaður, en Eyrarfjallsvegur (nr. 460) er alfarið malarvegur.  Sæmilega sléttur fyrir utan nokkra holótta kafla.  Og vegurinn var mest megnis einbreiður, það var smá bras að mæta bílum, við þurftum bæði að víkja alveg út í lausan kant, ég og ökumennirnir.

10 11 016 

Það var æði kuldalegt umhorfs á leiðinni, en hitinn var samt 5-7 stig og ég á mörkunum að fækka fötum.  Þá niður á stuttermabolinn.  Það hefði gengið eftir ef ég hefði verið fyrr á ferðinni, klukkan var 16 og þá var sólin horfin úr Eilífsdalnum.

10 11 019

Ekki veit ég hvað er svona merkilegt við Orustuhólinn sem er merktur "Athyglisverður staður".  Reyndi að gúggla fyrirbærið þegar ég kom heim, en fékk þá upp mynd af öllu veglegri hól allt annars staðar á landinu.  Það væri kannski ekki óvitlaust að bæta við smá skilti á stöngina með upplýsingum um af hverju þessi hóll er talinn vera merkilegt fyrirbæri.

10 11 018

Þessi hringur er 20 km og ég var ca klukkutíma og þrjú korter að fara hann.  Með nokkrum stuttum mynda og drykkjarpásum.  Og rölti upp á Orustuhólinn.

10 11 031

10 11 035

10 11 039

10 11 004

10 11 040


Svanasöngur

Nei, þessi færsla er ekki um ríkisstjórnina, Icesave eða aðrar þjóðfélagshörmungar, elskuleg Byko-druslan mín gaf upp öndina í dag *grrreeenj*

Ég var að hjóla heim þegar keðjan læstist með geigvænlegum bresti.  Einn hlekkur brotnaði og braut gírskiptinn í leiðinni.  Það svarar ekki kostnaði að gera við þetta, svo ég býst við að hjólið verði bútað niður og notað í varahluti fyrir önnur hjól á heimilinu.

Ég var stödd við Snorrabraut þegar keðjan slitnaði, á leiðinni að sækja strákinn minn á Frístundaheimili.  Klukkan var 16:45 og ég þarf að sækja barnið fyrir kl 17:15 uppi í Smáíbúðahverfi.  Það var enginn tími til að taka strætó, hæpið að ég hefði náð þessu með leigubíl á háannatíma svo ég notaði hjólið eins og hlaupahjól, var á öðrum petalanum og skúrraði mér áfram með hinni löppinni.  Vakti óneitanlega smá athygli á Miklubrautinni með þennan sérkennilega hjólastíl, en ég náði upp á Frístundaheimili á 20 mínútum.  Hefði sko verið í verri málum ef ég hefði verið á bíl sem hefði bilað, þá hefði ég fyrst þurft að koma bílnum út af götunni og svo þurft að labba eða redda mér öðru vísi.  Hefði ekki náð á áfangastað fyrir lokun.

Þetta hjól er búið að þjóna mér prýðilega í 8 ár, þar af bróðurpart síðasta vetur.  Ég á annað hjól og hef notað það í sumar, en gírinn bilaði á því hjóli í síðustu viku, þess vegna var ég á gamla hjólinu í dag.  Þannig að á einni viku er ég búin að rústa bílnum og báðum hjólunum.  Hinn bíllinn er uppi á Keflavíkurflugvelli, hjól karlsins er vandlega læst við húsvegginn, skil nú ekkert í því, þar eð það er hvílík ryðhrúga, ekki séns að neinn þjófur líti við því.  Ekki það að ég geti notað það ef það væri ólæst, það er með hvílíkum dempurum að ég verð sjóveik ef ég hjóla á því.

Kallinn fær áfall þegar hann kemur heim næstu helgi eftir viku fjarveru.  Öll farartæki heimilisins í lamasessi, kellingin marin og blá eftir að hafa reynt að skipta um dekk á bílnum, yngri strákurinn krambúleraður eftir slagsmál í skólanum og eldri strákurinn óþekkjanlegur, kominn með spangir á tennurnar.  Ég ætti kannski að raka á mig kiwikoll til að hann taki ekki eftir öllu hinu *hugs*


Hættuleg vika framundan

Í síðustu tvö skipti sem kallinn hefur brugðið sér út fyrir landsteinana hef ég endað á sjúkrahúsi.  Síðast fékk ég influensu, og fór á Tamiflu á fimmtudegi, svo ég yrði nú orðin hress um helgina, verandi ein heima með tvo krefjandi gorma.  Á sunnudag var ég búin að kasta stöðugt upp (fattaði ekki að það var aukaverkun af Tamiflu) pjakkarnir búnir að lifa á vatni og frosnum pylsubrauðum í tvo daga og það leið yfir mig ef ég reyndi að komast fram úr rúminu til að sinna þeim.  Svo ég endaði inni á sjúkrahúsi í tvo daga með næringu í æð.

Þar áður þegar kallinn fór erlendis sprakk botnlanginn í frúnni.  Ég inn á spítala í bráðaaðgerð.  Bóndinn hefur ekki hætt sér í útrás í meira en ár, en nú er hann floginn.  Og við bæði ábyggilega með smá kvíðahnút, hvað skyldi nú koma fyrir kellinguna á meðan hann er úti.

Það datt bíll ofan á mig í dag.  Þetta var ekki leikfangabíll, heldur alvöru 1.4 tonna bíll.  Það sprakk hjá mér og ég þurfti að skipta um dekk.  Það gekk brösuglega að tjakka bílinn upp, ég var búin að gera 2 tilraunir, en alltaf rann bíllinn aftur á bak og hlunkaðist niður af tjakknum.  Strákarnir voru með mér í bílnum og ég lét þann eldri sitja í bílstjórasætinu og stíga á fótbremsuna, bölvandi asnanum sem gaf bílnum skoðun fyrir mánuði síðan, því handbremsan hlýtur að vera léleg, hún ein og sér á að halda bílnum kyrrum.  Nema þetta gerðist aftur þegar ég var búin að koma nýja dekkinu á en ekki búin að setja boltana í, þá byrjar tjakkurinn að skrika til (strákurinn ekki enst á bremsunni, undir stöðugu áreiti frá litla bróður í aftursætinu), hendin á mér var þá á milli dekks og bíls og auðvitað klemmdist ég, bíllinn fór að renna aftur á bak, dekkið skekktist og hendin klemmdist meir og meir og ég dróst niður.  Einkennilegt hvað flýgur í gegn um hugann við svona aðstæður.  Tíminn stoppar og allt fer í hægagang.  "Kallinn verður brjálaður!" var mín fyrsta hugsun, "Hvernig skipti ég um gír á hjólinu ef ég missi hendina" var svo næsta hugsun.  En svo hrökk dekkið af, ég losnaði og slapp með marið, blátt og bólgið handarbak.

Ætli ég reyni ekki að halda mig bara á hjólinu þessa viku, bílar eru stórhættulegir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband