Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Nesjavellir

Það er ekki beint hægt að kvarta undan veðrinu sem var á laugardaginn, brakandi sól og tveggja stafa hitatala.  En ef ég byggi í Ameríku myndi ég lögsækja Veðurstofuna og græða fullt af pening.  Þeir “lofuðu” nefnilega 2 metrum á sekúndu, en raunin var 8+ metra mótvindur alla leið til Nesjavalla.  Samt var hægt að hjóla á stuttermabol meirihlutann af leiðinni, það var það heitt.  Ég skal viðurkenna að ég var orðin pínu lúin í síðustu brekkunum.  En ekkert meira en ég er eftir svipað langan göngudag.  Við vorum 5 og hálfan tíma á leiðinni með nokkrum góðum stoppum.  Við komum í hús kl 18:30 og ég ákvað að skella mér strax í heita pottinn til að minnka líkur á harðsperrum.  Planið var svo að fara upp úr kl 19 og fylgjast með Eurovision og grilla, en það var bara svo næs og notalegt í heita pottinum að ég missti alveg tímaskynið og missti af hálfu Eurovision.  Var svo sem búin að sjá þetta, ég fylgdist með báðum undankeppnunum.  Ísland í öðru sæti var svo held ég toppurinn á góðum degi.

 

No country for old women...

 

Eftir kjarngóðan  morgunverð var svo haldið heim á leið, fyrsta brekkan tók aðeins í, enda malarvegur og humm, smá timburmenn að saga og svona.  En orkan á Nesjavöllum feykti öllu slíku burt og það var sko gaman að láta sig húrra niður brekkurnar sem ég puðaði daginn áður, og aldrei þessu vant, þá var vindurinn ekki búinn að snúa sér.  Svo ég var í 3.7 gír alla leið inn í Reykjavík.

 

Ef ég labba álíka mikið og ég hjólaði þessa tvo daga, þá er ég fremur illa haldin, með blöðrur á tánum og vökva í hnjánum.  Ég finn ekki til í hnjánum eftir hjólaferðina, tærnar eru í fínu lagi, en ég finn aðeins til í bakinu.  Sem segir mér að þar skorti aðeins upp á vöðvastyrkinn.  Ég er orðin ansi vöðvuð fyrir neðan mitti eftir allar hjólreiðarnar, en er eins og gúmmíhanski fullur af hafragraut þar fyrir ofan.  Þarf að finna mér einhverja skemmtilega hreyfingu samfara hjólreiðunum til að koma á jafnvægi í líkamanum. 

 

Ég veit vel að ég er ekki á góðu hjóli, níðþungum járnhlunk.  En það er einhver meinloka í mér, mér finnst einhvern veginn að ég, verandi þung kona, verði að vera á þungu hjóli sem beri mig örugglega.  Mér finnst einhvern veginn að létt álhjól hljóti að brotna undan mér.  Ég þarf bara að herða upp hugann, loka á þessa meinloku, storma inn í góða hjólabúð, biðja um létt álhjól með læsanlegum framdempurum (sko, hvað ég er orðin fróð eftir helgina) , vera tilbúin að reiða fram 100-150 þúsund (ég er sko búin að spara annan eins pening á að hjóla í allan vetur) og svo bara halda áfram að styrjkast og njóta þess að hjóla úti í náttúrunni.

 

Ég tók myndband í ferðinni, fyrri daginn heyrist ekki mannsins mál fyrir vindgnauði, svo ég spila “viðeigandi” tónlist undir þann kafla.



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband