Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Sástu reiðhjól - líttu aftur

Þetta slagorð hefur iðulega verið notað um mótorhjól, ökumenn vanmeta fjarlægðina sem mótorhjólið er í, af því það er mun minna en bíll.  Nákvæmlega sama gildir um reiðhjól.

 Þar sem ég var á harðaspani í Borgartúninu, í 3.7 gír, eins hratt og druslan dreif (ég er að tala um hjólið, ekki mig) þá sá ég ökumann stæðilegs jeppa líta á mig, líta í hina áttina og svo út á götu beint í veg fyrir mig.  Hann náði að klossbremsa í tíma, annars hefði ég smurt mér yfir stuðarann hans og endað sem miður geðslegt húdd-skraut. 

Ekki var ég illa eða lítt sýnileg, ég er komin í vetrarbúning, eiturgult vesti með endurskinsborðum.  Hann hefur bara vanmetið hraðann sem ég var á.

 


Berbakt um bæinn

Þar eð ég er með ímyndunar-svínaflensu dauðans (hausverk, beinverki, svima, ljósfælni en engan hita), þá kunni ég ekki við að láta sjá mig á geirvörtunum í bænum.  Og vildi ómögulega næla mér í lungnabólgu.  En vildi samt sýna lit og smá hold.  Svona í tilefni dagsins.  Menningarnótt og fyrsti Berbakt-um-bæinn hjóla-atburður held ég nokkurn tíma hérlendis.

Fyrst var ég að spá í slagorðið "Mér finnst rigningin góð" en þegar það leit ekki út fyrir rigningu, þá ákvað ég annað slagorð.  Til heiðurs túristunum sem ég hef hjólað fram hjá undanfarnar vikur.

08 22 020

Ég hef hjólað til vinnu léttklædd í sumar, þess vegna oft á hlýrabol og stuttbuxum.  Finnst rosalega notalegt að hjóla til vinnu í 10 stiga hita og sól.  Jei, gleði, gaman, Íslenskt sumar.  En svo hjóla ég fram hjá túristunum hjá Sólfarinu, króknandi úr kulda í sama veðri, í ullarpeysum, úlpum þar utan yfir, húfum á hausnum og með skelfinarsvip á andlitinu.  Þegar ég þeysi léttklædd framhjá.

Það má vera að það birtist myndir af bakinu á mér einhvers staðar annars staðar á netinu, og þá með meinlegri stafsetningarvillu, Naked bik ride, það er kallinum að kenna, hann fékk það hlutverk að skrifa slagorðið á skrokkinn á frúnni!

Myndbanið er komið á youtube, er á barnum hér til vinstri og líka hér:


Þær eru góðar pizzurnar á Hamraborg

Merkilegt nokk, þá sat ég fyrir innan þennan glugga í síðasta mánuði.  Ásamt strákunum mínum.  Að borða alveg ljómandi góða pizzu.  Þegar ég las fréttina var ég raunar steinhissa að þetta hefði ekki gerst á meðan ég sat þarna.  Ég hef lent í umferðaróhappi á 7 ára fresti allt mitt líf og finnst einkennilegt hvað ég lendi oft í bílslysum miðað við aðra.  Eins og ég sé með eitthvað skrítið bílslysakarma.  Og líka skrítið að það séu alltaf ca 7 ár á milli slysa.

7 ára tók Lilla frænka fram úr trukk sem tók vinstri beygju í veg fyrir hana.  Ég slasaðist aðeins á fæti, en bíllinn hennar Lillu endaði í brotajárni.

15 ára var ég komin á skellinöðru, lenti í tveimur óhöppum á henni, þurfti að nauðhemla þegar vörubíll ók í veg fyrir mig, féll í götuna og rann undir bílinn.  Slasaðist ekki við þetta, rispaði bara leðurgallann.  Í hitt skiptið tók maður U beygju í veg fyrir mig og ég kastaðist yfir bílinn og lenti í götunni.  Rotaðist smá stund og klemmdist illa á fæti, púströrið á skellinöðrunni beyglaðist eftir löppina á mér.

21 árs lendi ég í versta slysinu.  Þá missti ég af strætó í Hafnarfirði og húkkaði far til að komast sem fyrst á djammið.  Ungur maður stoppaði og bauð mér far, en missti stjórn á bílnum og keyrði á ljósastaur í Kópavogi.  Bíllinn fór margar veltur og ég kastaðist út úr honum.  Hrygg og mjaðmagrindarbrotnaði og skarst eitthvað, var rúmliggjandi í eina 6 mánuði.  Ungi maðurinn slasaðist mikið, fékk áverka á heila og er öryrki í dag.

27 ára var ég stopp á rauðu ljósi á Hringbrautinni við Njarðargötu.  Bílstjórinn fyrir aftan mig var að horfa út á flugbraut, ég horfði í baksýnisspegilinn og vissi að ég myndi fá hann aftan á mig.  Það voru engin hemlunarför hjá honum.  Það var rúta fyrir framan mig og bílinn skrúfaðist undir hana og breyttist í torkennilega járnahrúgu.  Ég fékk hálshnykk, taugaskaða og annar handleggurinn lamaðist.

34 ára var með með son minn á leið til dagmömmu, beið á Bústaðavegi eftir að geta tekið vinstri beygju.  Ungur maður áttaði sig ekki á því að ég væri stopp og keyrði aftan á mig.  Ég fékk aftur hálshnykk, en sem betur fer ekki eins alvarlegan og þegar ég var 27 ára.  Strákurinn minn var í bakvísandi stól, svo hann slapp við meiðsli.

Ja, ég var að fatta að það eru liðin 11 ár frá síðasta slysi.  Ætli ég sé sloppin?  Eða lenti ég í einhverju óhappi 41 árs sem ég man ekki eftir?

Annars tókst mér að afstýra svipuðu óhappi á meðan ég var á Ísafirði í síðasta mánuði.  Móðir mín var að fara að bakka út úr stæði, en í staðinn fyrir að setja í Reverse, setti hún í Drive.  En áður en hún steig á bensínið og mölvaði rúðuna á Hafnarbúðinni, tókst mér að stoppa hana af.


mbl.is Ók á verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

45 ára í dag

Hálf níræður er svo sem ekkert merkilegt afmæli.  En er það samt í mínu tilfelli.  Ég ákvað nefnilega fyrir 2-3 árum síðan að fara í magaminkun (gastric bypass) þegar ég yrði 45 ára ef mér tækist ekki að snúa blaðinu við og taka upp heilbrigðari líferni.  Ég komst ekki lengur niður í þvottahús, þurfti að biðja kallinn um að taka þvottakörfuna með sér niður og skila henni upp eftir þvott.  Til að komast stigann heima hjá mér þurfti ég liggur við að ræsa út hjálparsveit.  Ég hef verið mikil útivistarmanneskja í gegn um tíðina og er í gönguklúbb með hressum kellum á sextugsaldri.  Ég, verandi unglingurinn í hópnum, 43 ára, treysti mér einfaldlega ekki í fjallgöngu í þáverandi ástandi.  Til að komast í fjallgöngu með gönguklúbbnum, yrði ég að léttast og auka þolið.

Á hverjum sunnudegi varði ég dágóðum tíma í að tína allra handa lyf ofan í lyjabox.  Lyf til að bæla verki, til til að bæla óeðliega taugaverki, lyf til að lækka kólesterol, lyf til að lækka gallsýrur, lyf til að lækka blóðsykur, lyf til að bæta sykurstjórnun og það stefndi í þunglyndislyf til að hífa geðið upp, en skiljanlega var maður orðin pínu niðurdreginn verandi offitusjúklingur með stóru O-i.

Ég skal alveg viðurkenna að í fyrra þegar ég tók þessa ákvörðun átti ég frekar von á að ég sæti við símann að panta tíma hjá skurðlækni, en sitja og panta hjólaföt á netinu.  Í fyrra var ég í stærð 56, í dag er ég í stærð 46 og get verslað föt í "venjulegum" búðum.  Ég er búin að leggja öllum lyfjum, nema sykursýkislyfjunum, ég er búin að minnka skammtinn á þeim og vonandi ekki langt í að ég geti lagt þeim alfarið.  Þá verð ég "lyfjalaus" í fyrsta skipti í ein 10 ár.

Ég er svo sem ekkert sérlega hrifin af því að birta mynd af mér eins og ég leit út þá, en ef þetta gæti orðið einhverjum hvatning til að breyta um lífsstíl og breyta lífi sínu til hins betra og bæta líðanina u.þ.b. þúsundfalt á aðeins einu ári, þá ætla ég að birta verstu mynd af mér allra tíma.  Og með fylgir mynd eins og ég lít út í dag.  Eina sem ég gerði var að breyta lífsstílnum, hreyfa mig meira (hjólreiðar) og borða aðeins minna.  27 kíló farin af 40 óþarfa aukakilóum sem ég sankaði að mér á 10 ára tímabili.

2007-2009


Reykjanes á Vestfjörðum

07 26 004 

Ég ákvað að hjóla í kring um Reykjanesið á Vestfjörðunum á leið minni frá Ísafirði til Reykjavíkur.  Til að komast hring varð ég að taka Eyrarfjallið með inn í myndina, en það er hækkun upp á ríflega 300 metra.  Ég spáði og spekúleraði hvernig væri best að gera þetta og ákvað að keyra upp á mitt Eyrarfjall, skilja bílinn eftir þar, hjóla niður af fjallinu norðan megin, taka malarveginn fyrst.  Hjóla svo malbikið sunnan megin að veginum upp á Eyrarfjall, skilja hjólið eftir þar og labba upp að bílnum.  Sækja svo hjólið á bílnum.  Þetta ferðalag er nokkurs konar tvíþraut, 55 km hjólreiðar og 5 km fjallganga.

07 25 020

Ég var á hjóli sem ég var óvön, það er framtíðarhjól eldri sonarins og hefur verið notað sem tengihjól fyrir yngri pjakkinn í sumar.  Það er ekki bögglaberi á því og því þurfti ég að hafa allan farangur á bakinu.  Það spáði rigningu, svo ég var með regnstakk, auka flíspeysu og buxur í bakpokanum.  Ætlaði sko ekki að lenda í því að hjóla Reykjanes Vestfjarðanna á brjóstahaldaranum eins og þegar ég hjólaði Reykjanesið á suðvestur horninu, þá var veðrið í upphafi ferðar sól, 22 stiga hiti og logn, en þegar ég var rétt hálfnuð dró ský fyrir sólu, lognið breyttist í rok á móti og hitinn lækkaði niður í ca 7-8 stig.  Ég var svo stíf af kulda að ég gat varla hjólað, en aukafötin gleymdust í bílnum.

07 25 021

Sitthvað fleira var í bakpokanum, brúsi með heitu vatni og 1 lítri af köldu vatni, fátt finnst mér verra en verða vatnslaus á ferðalagi, og þegar ég var hálfnuð niður af fjallinu fattaði ég að ég var með stóru vidocameruna í stað litlu myndavélarinnar.  Vélin vegur 1.5 kíló og þó að það sé nú ekki mikið, þá munar ótrúlega miklu um það þegar maður ber það á bakinu í nokkra klukkutíma.  Enda var ég ekki búin að hjóla lengi þegar ég fór að dofna í öxlinni og öðrum handleggnum, það tóku sig upp gömul meiðsli, en annar handleggurinn lamaðist þegar ég fékk hálshnykk í bílslysi árið 1991.  Doðinn jókst og þegar fingurnir hættu að láta að stjórn og ég gat ekki skipt um gír varð ég að stoppa og endurmeta stöðuna.  Byrjaði á að fá mér kaffi úr heita brúsanum og hella niður kalda vatninu sem ég gat ekki drukkið á staðnum.  Það vantaði brjóstól á bakpokann sem hefði breytt miklu.  Pokinn var töluvert léttari, en ég var samt ennþá ansi kvalin og dofin.  Svo ég neyddist til að stoppa aftur og létta bakpokann enn frekar, kom videovélinni ásamt öllu sem ég gat verið án í plastpoka og kom honum fyrir á vísum stað sem ég myndi þekkja aftur þegar ég kæmi á bílnum einhverjum klukkutímum seinna að sækja hann.  Eftir í bakpokanum var regnstakkurinn, þunn flíspeysa og buxur, nesti (næringarduft og kex), sjúkrakassi, viðgerðasett sem fylgdi með hjólinu, pumpa og bætur.  Maður kemst í nægt vatn á leiðinni, mikið af fallegum fjallalækjum allan hringinn.  Og ég komst að því að ég var með litlu myndavélina með mér, hún var á botninum á bakpokanum.

07 25 033

Eftir á hefði mér fundist skynsamlegra að skilja hjólið og bakpokann eftir uppi á Eyrarfjalli, keyra niður sunnan megin og byrja hringinn á að labba upp á fjall.  Það er svolítið skrítið að fara í fjallgöngu þegar maður er búinn að hjóla í nokkra klukkutíma.  Ég var smá tíma að finna góðan göngutakt, lappirnar voru ennþá í hjóla-tempói.

07 26 002

Ef fólki finnst skrítið að sjá fólk á hjóli fjarri byggð, þá finnst fólki ennþá skrítnara að sjá fólk gangandi eitt síns liðs.  Það var alla vega töluvert stoppað og spurt hvort ég þarfnaðist aðstoðar á meðan ég gekk upp á Eyrarfjall.  Bæði Íslendingar og útlendingar.

07 25 035

Þegar ég var búin að þramma upp í mót í klukkutíma fannst mér eins og einhver kallaði á mig frá mosavöxnum klettavegg rétt utan við veginn.  Ég ákvað að hlýða kallinu og labbaði smá spotta frá veginum.  Þá opnaðist þetta líka fallega útsýni fyrir kvöldsnarlið.  Þarna áði ég lengi, þakklát álfunum og tröllunum sem bjuggu þarna sem kölluðu á mig, svo ég myndi ekki missa af þessum fallega áningastað.  Stóðst freistinguna að klifra niður gilið og blanda mér í Álfagleðina, en myndin sýnir ekki vel hlutföllin, það voru nokkrir tugir metrar niður á botn.

07 25 037

Og hvað það var dásamlegt að líða ofan í heita sundlaugina í Reykjanesi og láta þreytuna líða úr sér.  Svo tróð ég mér inn á ættarmót á tjaldstæðinu, ekki veit ég hvaða ætt þetta var, en fólkið var ættað frá Vestfjörðunum og ég ábyggilega skyld þeim að einhverju leiti, fædd og uppalin á Ísafirði.  Svo við sátum, drukkum bjór, spjölluðum og sungum fram á rauða nótt.


Óvissuferð Fjallahjólaklúbbsins

Og seinni hlutinn:


Leitin að Ásláki

Í gær fór ég í hjólatúr sem var skipulagður fyrir ca 12 árum síðan.  Þó að ég sé svolítill "lonly ranger" hef ég líka gaman af félagsskap skemmtilegs fólks.  Það myndast ákveðin orka í göngu og hjólaferðum og þegar ég var nýskriðin upp úr langvinnum veikindum árið 92 drógu systurnar Bryndís og Sara mig með sér í ferð með Útivist upp á Snæfellsjökul.  Þar kynntumst við Garðari, sem seinna varð eiginmaður og barnsfaðir Bryndísar.  Þessa mynd tók ívar, ljósmyndari sem var í ferðinni. 

 webSnaefellsnes

Við fórum saman í nokkrar gönguferðir í nágrenni Reykjavíkur, Esjan, Fimmvörðuhálsinn og seint gleymist ferðin á Keili, en þar klikkuðum við Garðar bæði á óbyggðafræðunum, hann leit á veðurspána í vikugömlu Morgunblaði, en ég gleymdi að það væri vetur og ekki fært á bíl að Hörðuvöllum.  Þá ákváðum við að labba að Keili frá Keflavíkurveginum, Keilir virtist vera rétt hjá, en gangan að honum tók eina 3 tíma.  Keilir er auðklifinn, en þegar við stóðum á toppnum sáum við óveðursskýin hrannast upp úti við sjóndeildarhring, og svo brast á þessi líka þreifandi blindbylur.  Svo það sem átti að vera 2 tíma rólegheita göngutúr breyttist í ja, kannski ekki baráttu upp á líf og dauða, en eins gott að Garðar var með áttavita meðferðis og gat lóðsað okkur aftur að Keflavíkurveginum þar sem við fengum far að bílnum, annars værum við enn að ráfa um hraunið, kannski í annarri vídd.

Við fórum líka í hjólatúra, en bara styttri túra, sá lengsti sem við fórum á þessum árum var frá Vesturbæ út á Álftanes.  Einn daginn kom upp sú hugmynd að við myndum hjóla upp í Mosfellsbæ og fá okkur bjór á sveitakránni Ásláki.  Ekkert varð úr þeim hjólatúr, þar eð við Bryndís urðum báðar barnshafandi.  Í gegn um tíðina höfum við iðulega rifjað upp þessa áætlun þegar við höfum hist.  "Hvenær ætlum við á Áslák?"  Og svo breyttist grínið í "Ætluðum við ekki á Áslák, eða var það Þorlák?" þegar Áslákur virtist vera hættur starfsemi.

En í gær ákváðum við að fara þessa ferð sem við skipulögðum fyrir 12 árum, athuga hvort við fyndum ekki Áslák eða aðra krá í Mosfellsbænum.  Og viti menn, þó að Áslákur væri í hálfgerðum felum, umkringdur hótel Laxnes fundum við pleisið.  Mikið hrikalega var bjórinn góður.

08 02 011 1


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband