Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Bara fyrir konur

Í tilefni kvennafrídagsins verð ég nú að koma með færslu sérstaklega fyrir kvenfólkið.

 

pro-cyclist-ass

 

Það eru alls kyns mítur í gangi hvers konar hnakkar henti kvenfólki best.  Þetta er eins og með alla aðra hluti, maður verður bara að prófa sig áfram.  Það sem hentar einni konu hentar ekki næstu.  Ég er búin að prófa alls konar hnakka, allt frá örmjóum pyntingartólum til breiðra traktorssæta.  Keppniskonur verða held ég að sætta sig við mjóu hnakkana og vera þá í elegant hjólabuxum með púðum í klofinu.  Við getum alla vega huggað okkur við að karlmenn skarta stundum líka kameltá...

 

camel_toe


Sumir hnakkar eru með dæld eftir endilöngum hnakki, mér finnst einna best ef hnakkurinn er svoleiðis og miðlungs breiður.  Þá þarf ég að láta hnakknefið halla nokkuð mikið niður, jafnvel það mikið að ég er frekar að tylla rassinum á hnakkinn en sitja á honum.  Annars kem ég heim í hlað með doða og tilfinningaleysi sem varir í ca tvo daga.  Og það gengur ekki þegar maður hjólar á hverjum degi.  Konan lifir ekki á hjólreiðum og brauði einu saman.  Best er að hjóla í nokkra km, prófa að breyta hallanum um eitt bil, hjóla nokkra km  og prófa sig áfram í báðar áttir.  Líka færa hnakkinn fram og aftur.  Þetta getur tekið nokkra daga þar til maður finnur stillingu sem hentar manni best. 

Annað sem getur skipt máli.  Hár eða hárleysi.  Hér gildir líka að prófa sig áfram.  Ég gerði mistök þegar ég hjólaði Kjöl, yfir 200 km á tveimur dögum, var með meira en vikugamla brodda.  Fékk núningssár.  Það hefði sviðið minna seinni daginn ef ég hefði rakað rétt fyrir ferðina.   

Vaselin krukka er ómissandi í hjólatúrinn.  Þetta lærði ég af sundkrökkunum, sá að þau voru að bera eitthvað á sig meðfram sundfötunum.  Þau voru að maka vaselini á þá staði sem var líklegt að núningssár myndu myndast.  Hei, þetta ráð gildir raunar líka fyrir karlmenn, ef einhver karlkyns skyldi enn vera að lesa. 

Lítill spegill.  Það er nauðsynlegt að skoða vinkonuna áður en farið er í langan hjólatúr.  Sérstaklega þær sem raka allt af.  Síðasta sumar var ég orðin voðalega aum, en bara öðru megin.  Hélt að eitthvað lægi skakkt eða vitlaust, reyndi að hagræða en þegar eymslin mögnuðust hélt ég hefði fengið barrnál eða annað stingandi strá í gegn um hjólabuxurnar, stoppaði úti í vegarkanti, skreið ofan í skurð, úr að neðan og skvísuskoðun.  Þá hafði lítið snifsi af klósettpappír rúllast upp og lá þarna á milli ytri og innri barms.  Búið að þurrka slímhúðina og mynda lítið brunasár.  Vaselin á það og þá var sko hægt að hjóla í nokkra klukkutíma í viðbót. 

Það eru oft smáatriðin sem skipta máli hvort hjólatúrinn verði ánægjuleg upplifun eða hreinasta kvalræði.


mbl.is Konur hvattar til að klæða sig vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ég í þetta sinn

En þetta hefði verið svo týpískt ég að villast um Ísafjörð.  Það eru margar ástæður fyrir því að ég hjóla frekar en keyri.  Ég er ömurlegur bílstjóri.  Svo sem ekkert góður hjólari, en samt skömminni skárri á reiðhjóli en bíl. 

Ég var í sumarbústað rétt hjá Selfossi fyrir nokkru og þurfti að fara inn í bæinn að kaupa í matinn.  Ákvað að koma við í vínbúð og kaupa rauðvín, þar eð ég var nýbúin að læra á grillið eftir að hafa gist skrilljón sinnum í bústaðnum en aldrei lært á þetta flókna tól.  Grill eru nefnilega almennt í verkahring karlmanna.  12 ára sonur minn heimtaði hins vegar grillaðar útipylsur, og við nánari athugun þurfti bara að  skrúfa frá krananum á gaskútnum og ýta á einn takka.  Voila, grillið tilbúið til eldunar.

Taldi líklegt að vínbúðin væri við aðalgötuna, rúntaði þar fram og til baka en fann ekki.  Fór í sund og ákvað að gefast upp á búsinu og tjilla bara edrú í heita pottinum um kvöldið. 

TrodinnPottur

Gleymdi sundfötunum í Sundhöllinni og þurfti að fara annan hring til að nálgast þau.  Verandi viss um að það væri vínbúð í öðru eins menningarpleisi og Selfoss er, tók ég beygju hér og þar í von um að ramba á hana og endaði eins og álka inni á grasbala og þurfti að keyra eftir göngustíg og skrapa svo nánast pústið undan bílnum við að fara frá gangstéttinni niður á bílaplan.  Verst þótti mér að tveir karlmenn á reiðhjólum stöðvuðu fararskjótana til að fylgjast glottandi með mér.  Ég vona bara að ég hafi ekki þekkst, ég held að ég hafi aldrei roðnað jafn mikið um æfina...

En merkilegt nokk, ég ók óvænt fram á vínbúðina í vandræðagang mínum.  Hún er fyrir aftan KFC.

Ekki veit ég hvað þessir ökuþórar voru að leita að, vínbúðin er alla vega niðri í bæ á Ísafirði, ekki upp undir fjalli.  Og meira að segja ég hefði fattað að ég væri í þann veginn að keyra inn á fótboltavöll...

p.s. pottamyndin er tekin eftir 4 daga gönguferð um Fjörður á Norðurlandi.  Ég tók myndina og tróð mér svo ofan í pottinn til ferðafélaganna, það er alltaf pláss fyrir einn í viðbót þegar svona heitir pottar eru annars vegar.


mbl.is Ók bíl yfir knattspyrnuvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðivötn

10-01 135 

Það voru hvorki árabátar né rósóttir kjólar með í för þegar Fjallahjólaklúbburinn fór í haustferð í Veiðivötn.  Nóg var hins vegar af spandex, goretex og öðru svona -ex dóti sem er nauðsynlegt að hafa með, á þessum árstíma er allra veðra von.  Við vorum alls ellefu, þrjár konur, einn piltur og sjö karlmenn.

10-01 029

Hvernig kemur maður 10 reiðhjólum upp í litla kerru?  Með því að skrúfa hjólin í sundur.  Ég hef þó nokkrum sinnum tekið framgjörðina og hnakkinn af þegar ég er að troða hjólinu mínu inn í bíl, ég sný þá hjólinu á hvolf, losa bremsupúðavírinn, skrúfa framhjólið laust og toga það upp úr falsinu.  Þetta tekur mig smá tíma.  Ég ætlaði að fara að snúa hjólinu mínu við þegar einn vanur hjólari leið niður í frumbyggjastellingu, snör handtök og fimm sekúndum síðar fóru gjörðin og hjólið upp í kerru sitt í hvoru lagi.  Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.  Ég hafði smá áhyggjur af því að gjörðin myndi hoppa upp úr kerrunni ef hún lægi þarna laus upp á rönd, en sumir glottu nú bara og sögðu að það myndi ekki gerast, lögðu meira að segja hjólin sín að veði, sem eru langtum verðmætari en mitt. 

10-01 040

Núverandi fjallahjól er svona meira skrepp-í-bæinn og aðeins-upp-í-Heiðmörk, ég fer ekkert á bömmer þó að því yrði stolið af mér eða ef ég týni því á djamminu niðri í bæ...  En ef ég væri framgjarðarlaus uppi í Veiðivötnum, þá yrði nú lítið hjólað þá helgi.  Ég á kannski eftir að fá mér alvöru hjól einn daginn, fann að ég gat hjólað hraðar, en hjólið stoppaði mig af, það er bara venjulegt 21 gíra, fúlt að horfa á eftir reiðfélögunum hverfa út við sjónarrönd, hafa kraftinn en ekki gæðinginn til að fylgja þeim eftir.

10-01 148

Var ekki vont veður?  Jú, jú, það blés svolítið á okkur.  Ísland er bara þannig, það má alltaf búast við roki, sérstaklega að haustlagi og sérstaklega uppi á hálendinu að haustlagi.  Stundum er nauðsynlegt að upplifa smá mótlæti til að maður geti notið þess betur sem er gott.  Ég skal viðurkenna að það var ansi hvasst, stundum var ekki stætt, hvað þá að reyna að hjóla upp brekku með kannski 30 metra vindhviðu í fanginu.

10-01 052

 En náttúran er ægifögur þarna í Veiðivötnum, þá tekur maður ekkert eftir því þó að það bylji á manni smá haglél.  Þó að við höfum bara farið ríflega 20 km fyrri daginn, þá var sko tekið nokkuð vel á, smá bruni í lærum og rassi.

10-01 133

Björgvin á heiður skilið fyrir að sjá um kvöldmatinn, ketið var girnilegt, bragðaðist ótrúlega vel, frábær félagsskapur, mikið hlegið og ég held að Siggi sé búinn að jafna sig á heilahristingnum.

10-01 085b

Er ekki eh-uh vont að sofa hjá fólki sem þú þekkir ekki neitt?  Það er misþröngt í svona skálum, ég hef þurft að samrekkja ókunnugu fólki í örmjóum kojum á óbyggðaferðalögum mínum fyrr á árum, þessi rúmaði hins vegar 60 manns, nóg pláss og víðáttubrjálæði, samt völdu strákarnir að kúra þétt saman...

10-01 070

Nema Prinsinn á bauninni...

10-01 069

Var ekki kalt í skálanum?  Ég stóð undir nafni, svaf í hjóla-gallanum.  Það kólnaði ansi mikið eftir því sem leið á nóttina, ég var komin í ullarfötin, hjólabuxur og jakka, tvö buff og vetrarvettlingana.  Þetta voru náttfötin, ekki veit ég hvað ferðafélagarnir hugsuðu þegar þeir sáu prinsessubælið mitt, þeir hafa kannski frekar átt von á að ég skriði framúr í náttkjól frá Viktoríu-tímabilinu, en að Hjóla-Hrönn skyldi stökka framúr fullklædd og klár í slaginn.  En mér er sama, ef það er möguleiki, þá vil ég hafa þægindi, tek sængina og alla þrjá koddana mína með.  Ég kúldrast ekki í þröngum svefnpoka, ef ég þarf þess ekki.

10-01 077

En það eru ekki bara við nýliðarnir sem lærum af reynsluboltunum, þeir geta líka lært af okkur.  Hvað gerir maður þegar maður kemur pungsveittur heim úr hjólatúr, uppgötvar eftir sturtuna að það eru engar hreinar næríur til.  Þú verður sóttur eftir korter til að mæta í fermingu / jarðarför / 60 ára afmæli frænku ect.... Enginn tími til að hjóla út í Hagkaup að kaupa nýjar.  Jú, þværð nærbuxurnar í höndunum og skellir þeim svo í örbylgjuna í 2-3 mínútur (rakar þig á meðan).  Koma út rjúkandi heitar og þurrar.  Þurrkari gerir vissulega sama gagn, en það eru ekki allir sem eiga svoleiðis græju.  Gallinn við að vera hreinskilinn er að hér eftir þiggur enginn örbylgjupopp hjá mér. 

10-01 082

Framan af sunnudegi breyttist hjólaferðin í jeppa-ferð.  Við ákváðum að hjóla ekki meira í Veiðivötnum vegna veðurs, fara frekar niður í Þjórsárdalinn og hjóla þar í meira skjóli.  Fórum og skoðuðum Hreysið, þetta er svona felumynd, sérðu Örlyg?

10-01 130

Við fórum svo og heimsóttum Unnar sem gaf okkur kaffi og tók af okkur hópmynd rétt áður en við létum gamminn geysa niður Þjórsárdalinn.

10-01 141

Ertu ekki eftir þig eftir svona ferð?  Tjah, ef ég hefði ekki farið í þessa hjólaferð, fyllt lungun af heilnæmu lofti, nært á mér hnén með hreyfingunni sem og andann með skemmtilegum félagsskap, þá hefði ég verið á árshátíð, tiplað um á háum hælum, röflað um fjármál og endurskipulagningu, fengið brjóstsviða af einhverju freyðivínssulli, dottið hraustlega í það, dansað allt of mikið og endað með timburmenn dauðans að drepast í hnjánum á sunnudeginum...  Hvaða vitleysa, það hefði verið gaman á árshátíðinni.  En það var líka gaman í Veiðivötnum.

10-01 147

10-01 150

10-01 024

Myndir úr ferðalaginu má sjá hér:

https://photos.app.goo.gl/N4RHTvAezVmM6MBc9

Á þessum tíma þurftu myndbönd að vera innan við 10 mínútur hvert.  Svo ferðin er í þremur myndböndum:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband