Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Haustlitaferð

10-22 007 

Það var vörpulegur hópur hjólreiðafólks sem lagði af stað í haustlitaferð Fjallahjólaklúbbsins.  Ekki seinna vænna, því nær allt lauf er horfið af trjám og runnum, note to self, færa hana fram í september á næsta ári. 

DSC00385

Flestir voru nú bara að fylgja okkur úr hlaði, við vorum 5 sem stefndum upp á Hengilinn og fjögur sem fóru alla leið yfir hann.  Sóttist ferðin sæmilega greitt, en mótvindur var nokkur.  Við þorðum ekki öðru en vera á nagladekkjum, það er ekkert grín að fara á fleygiferð niður bratta brekku og lenda skyndilega á hálkubletti.

DSC00383

Það var pínu kalt á tánum, og þess vegna ákváðum við að stinga okkur inn á Hótel Hengil og fá okkur vöfflur og kaffisopa og þýða upp kroppinn.

10-22 024

Hver kannast ekki við söguna af Gísla, Eiríki og Helga?  Þekkið þið nokkuð systur þeirra?  Jebb, hún heitir Hrönn.  Ég mundi svo vel eftir því að hafa stungið lyklakippunni minni ofan í mittistöskuna að ég taldi mig hafa efni á að gantast við samferðafólk mitt.  "Ji, skyldi ég hafa gleymt lyklunum að hjólalásnum heima".  Reif svo upp kippuna sigri hrósandi og komst að því að ég var með lykilinn að nýja lásnum, en gamla nánast ónýta lásinn á hjólinu.  Og ég hafði læst mínu hjóli við hjólið hennar Sifjar, svo ég var ekki bara búin að stefna mínu ferðalagi í voða, hennar líka.  Hófst nú mikil vinna við að losa lásinn, voru til þess notaður hamar, naglbítur og járnsög.  Tókst eftir mikið maus að saga lásinn í sundur og halda áfram för okkar niður að Álftavatni.

DSC00396

Það þekkja flestir Álftavatn sem er á leiðinni frá Landmannalaugum að Þórsmörk, en færri vita af Álftavatni sem er rétt hjá Selfossi.  Nafnið má væntanlega rekja til þess að hópar af álftum halda til á vatninu og taka sig á loft í fagurri fylkingu, með tilheyrandi kvaki og vængjablaki.  Ótrúlega áhrifamikil sjón í logni og kyrrð.

10-22 037

Við vorum glorhungruð þegar við komum að bústaðnum, hjálpuðumst að við eldamennskuna, en ég hafði tekið að mér að elda kjúklingasúpu.

10-22 006 (2)

Eitthvað efuðust samferðafélagarnir um hæfileika mína í eldhúsinu, það var alla vega hvíslað hvort það væri hægt að fá heimsenda pizzu frá Selfossi.  En þess þurfti ekki, þessi súpa klikkar aldrei hjá mér.  Og vil ég nota tækifærið og benda á barnaland.is sem nú heitir bland.is, en þar eru góðhjartaðar konur sem hafa gefið fólki eins og mér sem hefur hvorki tíma né nennu til að standa klukkutímunum saman í eldhúsi, uppskriftir sem er fljótlegt og auðvelt að hrista fram úr erminni.

10-22 004 (2)

Eftir snæðinginn var þreytan látin líða úr í heita pottinum, þar var margt skrafað, heimsmálin rædd, atburðir líðandi stundar sem og hin eilífa spurning, skiptir stærðin máli.  Já, heldur betur, ég prófaði eitt stórt um daginn og það var bara kvöl og pína.  Prófaði svo annað aðeins minna nokkrum dögum seinna og jeminn, allt annað líf, bara gaman!  54 cm er málið! 58 cm racer er allt of stór fyrir mig.

10-22 005 (2)

Ég er ekki nægilega mikil skrúfu og boltakelling til að hafa komið mér upp festingu fyrir myndavélina þegar ég er að taka upp myndbönd.  Sumir eru með myndavélina á stýrinu eða fasta við hjálminn.  Ég hef venjulega haldið á vélinni með annarri hendi og stýrt með hinni.  Þetta gekk prýðilega á meðan ég var á hjóli, þar sem vinstri höndin var á afturbremsunni.  Svo fékk ég nýtt hjól með víxluðum bremsum.  Og flaug náttúrulega á hausinn þegar ég bremsaði bara að framan.  En svo áskotnaðist mér peysa, sem er raunar of lítil á mig, en hún er með brjóstvasa og eftir að hafa geymt vélina þar part úr degi datt mér í hug að klippa gat á vasann fyrir linsuna.  Svo nú lít ég út eins og gellan í matrix myndunum sem var með vélbyssur í stað geirvarta, eða næstum því *hóst*.  Ergó, ég er ekkert með stór brjóst, það er bara brjóstahaldarinn sem er fullur af alls konar stöffi, græjum og dóti.

DSC00397

En afraksturinn má sjá hér á youtube:

Og svo eru myndirnar hér, teknar af mér, Sif og Kolbrúnu:

https://photos.app.goo.gl/Qc3YbXBZsASpR9ju9


Var hann með hjálm?

Spurning hvort þingmenn lögleiði ekki hjálmaskyldu hjá sjálfum sér rétt eins og reiðhjólafólki ef nýtt frumvarp til umferðarlaga nær fram að ganga.

Það var vitað fyrirfram að það yrði kastað eggjum og tómötum.  Vonandi að fólk hafi vit á að kasta engu harðara en það.  En menn verða að klæða sig eftir aðstæðum, ég mæli með regnslá og hjálmi við næstu þingsetningu.  Sem sjá má geta menn verið reffilegir og smart, alveg sama hvort þeir klæðast hvítu eða svörtu.

dartvader


mbl.is Eggjum kastað í þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband