Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Vetur senn á enda

2011-03 003 

Ó, játið bara, veturinn er varla liðinn en við erum samt farin að sakna hans.  Ég tók þessar myndir einn fallegan vetrardag í mars síðastliðnum.  Þá var blankalogn, heiðríkt og 11 stiga frost.  Ætlaði að hitta hóp af hressu hjólafólki, en frétti seinna að þau voru á skíðum uppi í Bláfjöllum.  Svo ég ákvað að hjóla bara ein eitthvað meðfram ströndinni.

2011-03 001

Esjan laðar og lokkar eins og öll önnur tignarleg fjöll.  Ég held oft áfram upp í Mosfellsbæ og fer svo hringinn í kring um Úlfarsfellið.  Sem sjá má á efstu myndinni var stígurinn meðfram sjónum ófær, þó að stígar inni í byggð væru ágætlega mokaðir. 

2011-03 004 

Svo ég hjólaði á götunum, stytti mér aðeins leið, fór upp á Vesturlandsveg og beygði inn á malarveg, Skarhólabraut, sem lá inn í Mosfellsbæinn sunnanverðan.  Svolítið upp í móti og svo ágætis brekka niður í móti.  Smá downhill æfing, enda fínir skaflar beggja vegna sem gott var að detta í.  Þessi vegur var ekki mokaður, en jeppar og önnur gróf ökutæki voru búin að þjappa snjóinn, svo hann var ágætlega fær reiðhjólum.

2011-03 005

Gafst svo upp á stígunum og hjólaði alla leið heim á nokkurra akreina vegum, fyrst á Vesturlandsvegi, svo á Miklubrautinni.  Enda beinasta, breiðasta og auðveldasta leiðin heim til mín. 

Eitt er hlutur sem bílstjórar þyrftu að athuga.  Það hefur engan tilgang að flauta á hjólreiðamann.  Í þessu tilfelli var akvegurinn auður, ég á 50-60 km hraða niður brekku þar sem hámarkshraði er 80, ökumenn fóru þó töluvert hraðar en auglýstur hámarkshraði og ég hef sennilega truflað þá við að blaðra í gemsann eða dagdrauma, pulsu og kókát eða bara allt þetta í einu.  Erfitt þegar menn eru með pylsu í annarri hendi, kók í klofinu og gemsann í hinni.  Þurfa svo að stýra yfir á aðra akrein með nefinu, sulla kókinu niður og líta út fyrir að vera hlandblautir á áfangastað.  Skil svo sem vel að menn geti pirrað sig á því.

Alla vega voru nokkrir sem fundu sig knúna til að flauta á mig þegar þeir geystust framúr mér.  Bílflautur á einungis að nota  til að vara aðra vegfarendur við hættu.  Þær eru  afskaplega háværar og hjólreiðamanni getur brugðið og fipast ef einhver þeytir flautuna í 1-2 metra fjarlægð frá honum.

Eða kannski voru þeir bara að tjá aðdáun sína á þessum hjólanagla, þá er betra að hægja ferðina, skrúfa niður rúðuna og flauta með munninum, takk.  Fjúdd, fjúíííí, bros og blikk er betra en geðvonskulegt bííííííbb.

2011-03 013


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband