Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
29.5.2011 | 23:09
Svínaskarð
Jæja, þar fór Bláa Lóns þrautin hugsaði ég með mér á meðan ég paufaðist upp hlíðina og rak tærnar ítrekað í hnullunga í götunni. Það getur verið gott að lesa leiðarlýsingu áður en maður leggur í'ann. Eða kannski ekki, þá hefði maður bara setið heima og lakkað á sér táneglurnar. Og misst af skemmtilegri ferð Fjallahjólaklúbbsins. Það voru 10 mættir, eitthvað höfðum við misskilið leiðbeiningarnar, fararstjórinn beið við vegamótin, allir hinir keyrðu inn að bóndabæ með sama nafni og afleggjarinn og biðum þar dágóða stund símasambandslaus. Lögðum svo bara af stað, enda alltaf einhver sem ratar og það voru nokkrir með Garmin á stýrinu. Við vorum átta karlmenn og tvær konur. Einhver taldi raunar þrjár konur, en það hefur verið einhver álfamær sem hefur langað að slást í hópinn.
Það verður einhver að vera síðastur og ég tók að mér það hlutverk í dag. Mér fannst ég í ægilega fínu formi á Nesjavöllum, en ég hjólaði upp allar brekkur þar, þurfti ekkert að teyma hjólið. Ég gat eiginlega ekkert hjólað fyrstu 10 kílómetrana. Fyrst var það upp snarbratta grýtta brekku, og svo niður snarbratta grýtta brekku. Nokkrir jaxlar hjóluðu þetta þó allt saman, sátu svo í makindum og sóluðu sig á meðan ég paufaðist upp í mót um urð og grjót. Bölvandi þessum 10 kílóum sem ég ætlaði að vera búin að losa mig við í vetur. Og því að vera ekki í betri skóm, ég ákvað að fara á fjallahjólinu, en það er ekki með klítum, það er horror að vera í klítaskóm á venjulegum petölum, svo ég varð að skorða mig af á miðjum petalanum og lappirnar runnu stanslaust til. Mundi náttúrulega eftir því í miðri brekku að ég var með Meindl gönguskóna mína í skottinu á bílnum, hefði skipt yfir í þá ef ég hefði fattað það niðri á plani.
Ég hef stundum lent í því að vanur ferðafélagi hjólar upp að mér "Hrönn, þú ert á felgunni" Og þá verið að meina að ég sé með of lint í dekkjunum, ekki að ég sé drukkin á hjólinu. En núna var annar vanur hjólafélagi sem sagði "Hrönn, þú ert með allt of hart í dekkjunum" Ákveða sig strákar! Nei, nei, það skiptir máli hvar maður er að hjóla, á grófum malarslóðum er betra að vera með lítinn þrýsting til að dekkin grípi betur og það sé auðveldara að stýra hjólinu. Á malbikinu er betra að vera með góðan þrýsting í dekkjunum, þá rennur maður betur. Ég sem kom við á bensínstöð og vél-pumpaði í dekkin svo ég yrði ekki hönkuð á felgu-dæminu.
Fleiri mistök. Allir hinir voru með bakpoka eða mittistöskur. Það er mikið auðveldara að vera með farangurinn á bakinu eða í mittistösku í svona ferð. Sérstaklega ef það þarf að teyma mikið. Ég á tvær mittistöskur sem héngu heima í skáp á meðan ég hristi Ortliebinn minn í sundur í Svínaskarðinu. Sem betur fer datt skrúfan ekki úr fyrr en ég stoppaði til að athuga af hverju taskan rakst í hælinn á mér. Ég hef átt í brasi með hnakkinn undanfarið, hann hefur viljað losna, svo ég ákvað að taka með bita sem passaði í hnakkskrúfuna. Og úr því ég var með bitasettið í höndunum, þá endaði það ofan í hjólatöskunni. Annars hefði ég verið í smá vandræðum með laskaða hjólatösku.
Þá spunnust upp sögur, þar sem nokkrir félagar voru á ferðalagi og allir voru búinir að hrista í sundur bögglaberana, hjólin og töskurnar, allir voru með meira og minna víruð og teipuð hjól og farangur. Það er komið á innkaupalistann. Blómavír, rafmagnsvír og nauðgunarteip. Ehh, *hóst*, ekki að maður ætli að fara að gera eitthvað af sér í hjólaferðunum, bara þetta gengur undir þessu nafni, gráa sterka teipið...
Svo var hjólað þægilega sveitavegi með Kára í bakið og svo smá spotta eftir Þingvallavegi. Þetta tók ríflega 5 tíma með tveimur snöggum nestispásum. Hér má lesa nánar á vef fjallahjólaklúbbsins um Svínaskarðið:
http://fjallahjolaklubburinn.is/content/view/524/144/
Tókstu eftir Bangsimon? Bara að tékka á athyglisgáfunni.
Dægurmál | Breytt 2.6.2011 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2011 | 19:30
Reykjanesmótið
Stundum er tilveran róleg og tíðindalítil. Vikum saman. Svo hrúgast skrilljón viðburðir á eina helgi, og maður veit ekkert í hvorn fótinn maður á að stíga. Ég tók þátt í Reykjanesmótinu í hjólreiðum í fyrra. Aðallega af forvitni, að sjá hvernig svona hjólakeppnir færu fram og hvers konar fólk tæki þátt. Meirihlutinn var skiljanlega spandexklæddir karlmenn, ekkert nema vöðvar, fitt og flottir. Ég sjálf reyndist vera í ívið betra formi en ég átti von á, lenti í 3ja sæti í kvennaflokkinum. Fór heim með verðlaunapening og góðar minningar.
Ég ákvað að ég skyldi taka þátt að ári, ekki til að troða mér aftur á verðlaunapall, heldur til að taka þátt í skemmtilegri keppni, enda Suðurnesjamenn höfðingar heim að sækja. Ég var líka forvitin að sjá hvort ég myndi bæta tímann eitthvað, en eftirá var loftþrýstingurinn mældur hjá mér og reyndist hann vera u.þ.b. 30, enda geng ég undir ýmsum viðurnefnum, ýmist Hjóla-Hrönn eða Hrönn-á-felgunni. Ég er engin græjukelling þegar kemur að dóti eins og hjólum, bílum og kaffivélum. Ef það virkar og gerir það sem ég ætlast til, þá er ég ánægð. Maður kemst samt ekki hjá því að læra eitt og annað af fólki sem maður hjólar með. Ég er búin að skipta út petölunum og fá mér hjólaskó sem festast á petalana, svokallað klítasystem. Ég er farin að pumpa í dekkin og smyrja keðjuna. Þríf meira að segja hjólið stöku sinnum, en það var eitthvað sem var ekki gert hér áður fyrr. Ég taldi að ég ætti að geta bætt tímann hjá mér umtalsvert í góðum hjólaskóm og með 60-80 punda þrýsting í dekkjunum.
Tveimur vikum fyrir keppni veiktist ég hægt og rólega og endaði á að liggja nokkra daga í rúminu. Gat ekkert hjólað eða synt í tvær vikur. Og svo voru tónleikar daginn fyrir keppnina sem ég var löngu búin að ákveða að fara á. Tvær af helstu þungarokkhljómsveitum landsins, Skálmöld og Sólstafir voru að spila á sömu tónleikunum. Hófst nú mikill valkvíði, hvort ég ætti að velja djammið eða hjólakeppnina. Ég vissi vel fyrirfram að ég yrði slæm í hnjánum eftir tónleikana, ég er með slitgigt. Það er verst fyrir mig að standa upprétt, en ef ég myndi dansa nógu andskoti mikið, þá væri möguleiki á að ég yrði hjólafær næsta dag. Svo planið var að drekka hóflega, dansa hraustlega og fara strax heim að sofa eftir tónleikana og rífa sig upp næsta morgun og taka þátt í hjólakeppni.
Næsta dag vaknaði ég kl 8, kýrskír í kollinum, ákvað að taka þátt og velti mér framúr. Og komst að því að ég var draghölt eftir djammið. Hófst nú aftur valkvíði, hjóla eða skríða aftur upp í. Það tók mig hálftíma, sturtu og tvo kaffibolla að ákveða að ég skyldi alla vega mæta og hjóla af stað, engin skömm að því að hætta við ef heilsan hamlar eða búnaður bilar.
Það voru 39 sem tóku þátt í fyrra, þar af 7 konur. Nú voru þátttakendur 54, þar af 10 konur, 4 fóru lengri vegalengdina, 6 fóru 30 km, þar á meðal ég. Þegar keppnin var hálfnuð var ég í 1sta sæti af konunum í mínum riðli. Ógeðslega ánægð með mig, eða þar til Þurí seig fram úr mér í einu brekkunni sem er á svæðinu. Brekkur er eitthvað sem ég á ennþá erfitt með, og það fór svo að ég náði henni ekki aftur og lenti í öðru sæti. Grjótfúlt, en samt bara nokkuð gott, miðað við að mæta hálftimbraður og draghaltur eftir að hafa legið í rúminu í tvær vikur. Sýnir bara að það að vera í góðu formi dags daglega gerir manni kleift að takast auðveldar á við óvænt áföll.
Svo nú á ég 3 verðlaunapeninga eftir 3 hjólakeppnir. Ég hélt að ég hefði bætt tímann um 9 mínútur, en það var bara misminni, ég var mínútu lengur í ár en í fyrra. Það verður að skrifast á Bakkus, Skálmöld og Sólstafi. Nú hef ég eitthvað að stefna að á næsta ári, bæta tímaskömmina. Það hlýtur að hafast ef maður sleppir alla vega djamminu kvöldið áður. Ég filmaði ekki neitt þetta árið, gleymdi myndavélinni heima. Svo ég set bara myndbönd af uppáhaldslögunum með Skálmöld og Sólstöfum í staðinn... Ef grannt er skoðað má sjá mig í áhorfendaskaranum.
Og hér með Sólstöfum:
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar