Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Reykjavík á röngunni - Þriðjudagsferðir

Fjallahjólaklúbburinn hefur verið með ferðir á þriðjudagskvöldum í sumar og svo verður áfram út ágúst.  Lagt er af stað frá Fjölskyldu og Húsdýragarðinum, aðalinngangi kl 19:30.  Hraða er stillt í hóf og ekki er ákveðið fyrir fram hvert skuli farið, heldur ræðst för af formi, óskum og uppástungum þátttakenda.  T.d. langaði eina að sjá Kópavogsdalinn, hafði aldrei komið þangað en séð fallegar myndir þaðan.  Þá hjóluðum við þangað í gegn um Breiðholtið, niður eftir íðilfögrum Kópavogsdalnum og svo áfram út í Gróttu.  Næsta þriðjudag verður kaffihúsaferð, þá hittumst við eftir sem áður kl 19:30, hjólum aðeins áður en við stingum okkur inn á kaffihús og fáum okkur kökusneið.

07-12 010

Einn þriðjudaginn mætti mætur hjólagarpur, Jakob Hálfdanarson og stakk upp á að við færum Reykjavík á röngunni.  Og það gerðum við, þræddum hina ýmsu leynistíga og krókaleiðir.  Þar á meðal þrengsta opinbera sund í Vesturbænum, en tveir fullorðnir einstaklingar geta ekki mæst í sundinu, það er of þröngt.  Kunnum við Jakobi bestu þakkir fyrir öðru vísi og skemmtilega hjólaferð.

07-12 046

Á vef Fjallahjólaklúbbsins er að finna myndir úr ferðum og öðrum viðburðum.  Hér er t.d. að finna fleiri myndir úr þessari skemmtilegu þriðjudagsferð:

https://photos.app.goo.gl/1AvaCgVKd5dKFeum8

Og svo var aðeins verið að vídeóast:

https://youtu.be/frrsmNTEbGM

 

 


Tour de Hvolsvöllur

07-09 000a 
Hví í dauðanum er verið að byrja svona snemma, hugsaði ég, en ég verð seint uppnefndur morgunhani. Svo sem enginn næturgöltrari heldur, en þarf bara minn góða nætursvefn til að höndla hvunndaginn. Ég varð að rífa mig upp kl 6:30 til að taka þátt í þessari hjólakeppni. Keyra í samfloti austur á Hellu, geyma einn bíl þar, til baka á Selfoss, hjóla þaðan til Hvolsvallar, hjóla svo á Hellu að sækja bílinn. Svona var planið og það virkaði bara ljómandi vel.

Það voru ca 30 sem lögðu af stað frá Selfossi, nú veit ég ekki nákvæmlega hvar ég var í röðinni, en taldist til að ég væri fjórða, þar af önnur í kvennaflokki. Það var ekki tímataka á þessum legg, bara á þeim sem hjóluðu 110 km. Svo ég get bara montað mig af silfrinu sem ég fékk ekki hér.

07-09 000

Ég ákvað að troða mér framarlega til að geta draftað í stæðilegum karlmönnum, en slík iðja fer þannig fram að maður nýtir skjólið af þeim sem er á undan og erfiðar minna fyrir vikið. Maður heldur sig hlémegin og hefur framhjólið ca við afturnaf þess sem er fyrir framan. Ekki ósvipað og farfuglarnir sem maður sér í oddaflugi. Það fór raunar svo að ég hengdi mig í rauðhærða HFR skvísu og náði að drafta hjá henni í eina 15 kílómetra, aftan í mér hékk karlmaður og nýtti skjólið af mér. Þau stungu mig hins vegar af í langri aflíðandi brekku. Þó að hún hefði brotið vindinn fyrir mig allan tímann og ekki haft neitt skjól sjálf.  Þar kemur þyngdin sér illa fyrir mig, ég er enn með 10 óþarfa kíló sem ég þyrfti að létta mig um til að ég þurfi ekki að setja í sleðagírinn í brekkunum.

07-09 002

Svo ég hjólaði ein restina í þó nokkrum mótvindi, og enginn tók fram úr mér úr Selfoss hópnum. Það gerðu hins vegar fremstu menn sem hjóluðu 110 km, mér fannst ég vera á hvílíkt góðri siglingu, ca 35 km hraða þegar einhver tók fram úr mér eins og elding og ég hugsaði "voðalega var þessi á hljóðlátu mótorhjóli". Það tók mig 2-3 sekúndur að fatta að þetta var Hafsteinn Ægir á reiðhjóli.

Tíminn hjá mér var 1:43 eða þar um bil, er ekki með skeiðklukku á hraðamælinum. Þá átti ég eftir að hjóla 15 km til baka að Hellu til að sækja bílinn. Og þá skildi ég af hverju við byrjuðum þetta snemma að hjóla. Umferðarþunginn jókst hvílíkt eftir hádegi og langar raðir í báðar áttir mynduðust. Þess fyrir utan var einhver útihátíð á Hellu og mikil mannmergð þar, ég var næstum búin að hjóla niður stúlku sem var augsýnilega með þynnku dauðans og ekkert að líta í kring um sig þó að hún væri að labba yfir þjóðveg 1.

Annað atvik átti sér stað í Tour De Hvolsvöllur. Ég varð fyrir kynferðislegri áreitni. Mér var klappað á rassinn. Af ungum pilti sem var í bíl að taka fram úr mér. Fullur bíll af strákum, mjög líklega 18-19 ára. Ég var þá á ca 30 km hraða sjálf og "áreksturinn" ansi óþægilegur. Fagnaðarlætin í bílnum voru hins vegar hvílík að ég gat ekki annað en flissað, en eftir á fattaði ég hvað svona lagað er hættulegur leikur. Ég hefði getað misst stjórn á hjólinu og rekist utan í bílinn eða hafnað utan vegar. Drengurinn hefði getað handleggsbrotnað, bíllinn var jú á töluverðri ferð, handleggurinn á honum kyrr og grjótharður hjóla-rassinn á mér eftir 65 km sprett góð fyrirstaða. Og það sem drengurinn á eftir að fá móral ef hann einhvern tíma fréttir að hann var að káfa á rassinum á 46 ára gamalli kerlingu....

07-09 001

Meðalhraðinn var 27.96 (kmfjöldi / 60 * mínútufjöldi, held að ég sé með formúluna rétta). Það þyrfti að vera tímataka á svona langri leið. Til að maður geti borið sig saman við aðra, séð hvort maður sé að bæta sig (og miðað þar við aðra sem hafa verið nálægt manni í svipaðri keppni). Það hlýtur að vera bætt úr því fyrir næstu Tour De Hvols... Annars neyðist ég til að flytja mig yfir í 110 km... Hei, ég hjólaði nú 65 hvort eð er, 45 í viðbót, hva, minnsta málið.

Einar Bárðarson

Nei, andskotinn hafi það, Einar Bárðarson mætti í hjólakeppni en ekki ég!

Ég er búin að vita af Heiðmerkuráskoruninni í ein 2-3 ár, en hef miklað þetta eitthvað fyrir mér.  Laus möl, bratt upp, bratt niður, þröngir stígar, sá mig í anda með mína lélegu rýmisvitund og skerta jafnvægi klessa á tré, nú eða á einhvern keppanda og smyrja honum yfir stíginn.  Ég er engin afburða hjólakona, en hef komið þó nokkuð mörgum á óvart, mér sjálfri einna mest, með að taka þátt í keppnum og komast á stundum á verðlaunapall.

Svo var ég að fletta myndunum frá Heiðmerkuráskoruninni og sá að þetta voru ekki allt brynvarðir Downhill gæjar, bara allra handa fólk.  Þar á meðal Einar Bárðarson, nýbyrjaðan að hjóla eftir langt sófalegutímabil.  Hjólakonan í mér tók smá dýfu og fékk smá áfall.  Ég hefði nú betur hissað upp um mig hjólabrækurnar og mætt í keppni!  Þó að ég væri hálfhrædd við þetta og ætti ekki almennilegar græjur í brautina.

Sko, ég er kvenkyns.  Við hugsum öðru vísi.  Fjallahjólið var keypt af því það var rautt, hvítt og svart og tónar alveg gasalega vel við djammdressið.  Það er bara 21 gíra og ég kemst ekki mikið hraðar en 20km á klukkustund.  Plús að það er í hálfgerðu lamasessi eftir veturinn, bremsurnar búnar og annar gírinn pikkfastur, gat valið um 2 tannhjól á hinum gírnum.  Svo ég ákvað að sleppa Heiðmerkuráskoruninni og skipuleggja næsta keppnissumar þegar ég á betri græjur.

Á meðan ég var að þvælast um HFR vefinn sá ég auglýst Akrafjallsmót í Hjólreiðum á Írskum dögum Akraness.  33 km hringur í kring um Akrafjallið.  Ég ákvað að nú yrði djammað minna, hjólað meira og mætt í keppni upp á Akranes.  Eins gott, Einar Bárðarson mætti aftur!  Ég verð ekki tekin tvisvar í röð í bólinu þegar ég hefði getað verið úti að keppa.  Ó, nei, mín mætti, hjólaði og sigraði!  Búin að endurheimta viðurnefnið Hjóla-Hrönn. 

Jebb, varð í fyrsta sæti í kvennaflokki, þessi líka fíni bikar sem ég hlakka þvílíkt til að sýna strákunum mínum, þeir verða óendanlega stoltir af mömmu gömlu. 

07-02 009web 


Menn ættu ekki að vanmeta Einar Bárðarson.  Hann gæti hæglega orðið einn af fremstu hjólreiðaköppum í sínum aldursflokki eftir 1-2 ár.  Ef hann heldur svona áfram.  Ja, ekki hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að vinna gull í hjólreiðakeppni fyrir 3ur árum, þá 30 kílóum þyngri en ég er í dag:

2008-2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband