Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Mister Postman...

03-29 007 

Eða missis í mínu tilfelli.  Rauður hjólajakki, rauð Ortlieb taska og umslag í hendi. Þar með telja margir mig vinna hjá Póstinum og ég hef nokkrum sinnum verið stöðvuð af íbúum til að ræða útburðinn, en útskýri þá að ég sé í einkaerindum að bera út prívat póst.  

Ég sé um félagatal Fjallahjólaklúbbsins og finnst  svolítið hallærislegt að setja eitthvað í póst ef viðkomandi býr rétt hjá mér.  Þá labba ég eða hjóla með fréttablað eða félagsskírteini.  Fyrst var þetta bara í Háaleitinu, aðallega í göngufæri um leið og ég fór með bunkann í póstkassa í hverfinu.

Svo fór ég að sjá götuheiti sem ég vissi ekki að fyrirfyndust í Reykjavík.  Forvitni mín var vakin, fletti viðkomandi upp á ja.is og hjólaði svo.  Þannig er ég búin að hjóla fullt af götum síðustu mánuði sem ég hef aldrei komið í.  Vissiru að Mjóahlíð er með mjóstu götum borgarinnar?  Og það er ótrúlega gaman að reyna að rata og finna götuna eftir minni. Þ.e. ég er ekki með kort á mér.  Núna er reglan að ég hjóla með allt sem er í 20 mínútna hjólafæri.  Nema veður sér voðalega leiðinlegt eða ég upptekin eða fjöldinn of mikill til að ég ráði við hann.

Ég er kerfisfræðingur að mennt.  Þó að kerfisfræðingar og tölvunarfræðingar starfi helst við forritun, þá nýtist námið við alls konar skipulagningu og ögun í vinnubrögðum.  Ég hef alla tíð haft gífurlegan áhuga á að auðvelda leiðinleg störf fyrir fólk, allt frá því ég vann í Vesturbæjarútibúi Landsbankans fyrir 20 árum, þá fór óhemju tími í það að raða yfirlitum, þannig að við gætum fundið þau fljótlega ef það þurfti að skoða eitthvað aftur á bak í tíma.  Þá tók ég upp kerfi sem auðveldaði flokkunina til muna og allir voðalega glaðir að þurfa ekki að eyða mörgum klukkutímum á viku í að raða pappír.  Sama skipulagsárátta rak mig í nám í tölvunarfræðum.  

Ég hef forritað þó nokkur kerfi í gegn um tíðina og það er gaman að sjá hvað fólk verður ánægt og þakklátt þegar maður sýnir því kerfi sem minnkar handavinnu og ritvélapikk. Og eftir að hafa borið út póst í nokkra mánuði, þá er nokkuð ljóst að fólk má betrumbæta aðstæður hjá sér.

Nú skammast ég mín fyrir að hafa aldrei sett nöfnin á útidyrnar á meðan ég bjó í einbýli, það voru nefnilega 2 inngangar, en það voru ekki fleiri fjölskyldur í húsinu, svo hinn var ekki notaður. Í svona tilfellum tékka ég á öllum inngöngum, svo ég finni örugglega nafnið á þeim sem ég er að leita að og fer oft fýluferð niður kjallaratröppur eða á bak við hús.

Stór húsnúmer sem sjást auðveldlega frá götunni. Nöfn á fólki letruð á póstkassana með stórum, skýrum stöfum. Svona á þetta að vera en er sjaldnast.

Fyrst var ég ekki að spá mikið í hvenær ég væri á ferðinni, stundum ef ég hafði sofnað yfir fréttunum og eitthvað fram eftir kvöldi, þá vissi ég að ég gat ekki farið að sofa fyrr en nokkuð eftir miðnætti. En að rjátla við útidyr fólks um miðjar nætur er ekki sniðugt. Og eftir að ég orsakaði hundsgelt í nokkrum húsum og hef hugsanlega vakið heimilisfólk, setti ég 10:00 til 22:00 sem tímamörk á útburðinn.

Póstlúgur eru svo kapítuli út af fyrir sig. Sumar eru með stífum spjöldum, jafnvel þannig að maður þarf að halda tveimur frá á meðan maður reynir að koma þunnu, linu umslagi inn um lúguna. Einu sinni festi ég fingurna í svona lúgu, ytra spjaldið klemmdi mig fasta þegar ég ætlaði að draga hendina til baka. Ég var sleikt.  Ég ætla rétt að vona að þar hafi heimilishundurinn verið að verki en ekki einhver mennskur pervert.   Ég gaf frá mér smá óp og flúði í ofboði.  Ekki í eina skiptið sem ég hef gargað upp við útidyr fólks.  Ein lúgan var með einhverju sem virkaði eins og mjúkur bursti fyrir innan spjaldið.  Ekkert smá krípí að stinga fingrum í gegn um eitthvað mjúkt og loðið þegar maður á ekki von á svoleiðis.

03-29 006 

Fólk er mis ratvíst.  Ég hef alla tíð átt erfitt með að rata, sérstaklega ef götur og hverfi eru skipulögð í hringi.  Þá hringsnýst ég um sjálfa mig og veit ekkert hvort ég er að koma eða fara.  Ég er búin að gera 3 tilraunir til að finna Bogahlíð.  Og bara finn hana ekki, af því hún liggur í boga en allar aðrar Hlíðar eru hornréttar.  Þannig götur eru auðveldastar.  Og Löndin eru æðisleg.  Ekki bara hornréttar beinar götur, þær eru í stafrófsröð.  Lendi aldrei í vandræðum þar.  Breiðholtið er hörmung, sem og Þingholtin.  Hafnarfjörðinn hætti ég mér ekki í, allt of mikið að hringtorgum og skúmaskotum, ég myndi þurfa að taka með mér tjald, viðlegubúnað og mat til nokkurra daga...

Þá þykir mér gott að sjá hversu margir nágrannar eru eftirtektarsamir.  Ósjaldan þegar ég er að sniglast í kring um hús, labba upp að dyrum, niður aftur, kring um húsið, niður í kjallaratröppur, þá kemur fyrir að einhver hallar sér út um glugga á næsta húsi og spyr eftir hverju ég sé að leita.  Ég les þá áritunina, og fæ hjálp við að koma póstinum á réttan stað.  Nágrannavarsla, stórsniðugt fyrirbæri.

Ég hélt að ég gæti aldrei unnið við að bera út póst, þar eð ég er með slitgigt í hnjánum og á erfitt með gang.  En ég sé að ég gæti hæglega verið hjólandi póstur.  Ég hef stundum mætt starfsfólki Póstsins í sömu erindagjörðum, og það horfir löngunaraugum á mig.  Eða réttara sagt hjólið mitt.  Hjólið þyrfti raunar að vera þannig að það sé fljótlegt að hoppa á og af því og vera stöðugt þegar maður skilur við það.  Einhvers konar þríhjól með góðum körfum að framan og aftan væri best.  En venjulegt hjól dugar líka fínt.  Spurning hvort það sé kominn tími á nýjan starfsvettvang.  Rautt klæðir mig alla vega assgoti vel.  Raunar klæðir vínrautt og flöskugrænt mig einna best.  Ég get líka gerst gleðikvendi og setið með vínglas og flösku mér við hlið alla daga.  Það myndi fara mér ljómandi vel.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband