Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Hvalfjörður

05-31 006

Með tilkomu Hvalfjarðaganganna hefur Hvalfjörðurinn sjálfur breyst í paradís útivistarunnandans.

05-31 005

Vissulega á fólk leið þarna um á vélknúnum ökutækjum, þarna er að rísa blómleg sumarbústaðabyggð, og einhverjir sveitabæir eru í firðinum.  En það er ekki hægt að tala um umferðarþunga, bíll og bíll á stangli og allir víkja vel.  Ég styðst við bæði vedur.is og yr.no til að velja mér hjóladaga. Og svo sannarlega var þessi dagur vel valinn.

05-31 011

Áði í fallegri laut, sólaði mig, hlustaði á fuglasöng og árniðinn.

05-31 031

Hreyfði ekki hár á höfði sem er óvananlegt í Hvalfirðinum.  

05-31 024 

Var nú ábyggilega búin að segja þá sögu áður, en hún hlýtur að vera mörgum mánuðum eða árum aftar.  Ætlaði að labba frá botni Hvalfjarðar yfir til Þingvalla og tjalda á leiðinni. Rokið var slíkt að það var ekki stætt úti, þó hafði verið ágætis veður í Reykjavík.  Svo ég svona keyri áfram á meðan ég var að hugsa hvað ég ætti að gera, hvort ég ætti að prófa Borgarfjörð eða aðeins norðar. Líka leiðindaveður í Borgarfirði og tjaldstæðið ekki til að hrópa húrra fyrir svo ég ók áfram. Stoppaði í Hreðavatnsskála og fékk mér hamborgara (ég veit, ég veit, áður en ég var búin að hreyfa nokkuð annað en bensínlöppina). Ég rek augun í auglýsingu uppi á vegg. Hljómsveitin Bogomil Font leikur fyrir dansi. Met det samme var útivistinni slaufað fyrir djamm. Ekki í fyrsta sinn og ábyggilega ekki heldur í síðasta sinn.

Kvöldið var svo hið skemmtilegasta, ég dansaði hálfa nóttina við fótbrotinn rútubílstjóra sem var, þrátt fyrir gifs og hækjur merkilega fimur á dansgólfinu.

En víkjum aftur að Hvalfirði... Ég hjólaði frá botni Hvalfjarðar, fram hjá Meðalfellsvatni og Kjósarskarðsveg niður að Þingvallavegi. Þar fékk ég blússandi meðvind að Gljúfrasteini, en þar snerist vindurinn snögglega, svo ég fékk að puða pínulítið, eykur endorfinið svo maður dettur alsæll niður í lok ánægjulegs hjóladags. Og nei, þið fáið ekki mynd af hjólinu í þetta sinn!

05-31 041 


Teikn að ofan

klaustrid 

Ég átti erindi út í Hafnarfjörð með póst, ruglaðist á heimilisföngum og fattaði þegar ég kom að húsinu að þetta væri nunnuklaustur Karmel systra. Hér er greinilega verið að vekja mig til umhugsunar um eitthvað.  Kannski þyrftu skrif mín og myndbirtingar hér að vera á ögn kristilegri nótum...

Á planinu voru nokkrir ungir menn að vinna við sorphirðu og glottu þeir út í annað þegar mig bar að garði. Ekki veit ég hvort þeir könnuðust við mig, ég geng ýmist undir nafninu Hjóla-Hrönn eða Dóna-Hrönn þessa dagana.  Nú eða þeir héldu kannski að ég byggi þarna, en ég er ekki beint nunnuleg til fara í spandex klæðnaði, þó ég sé með nokkuð kristilegan höfuðbúnað undir hjálminum.

04-06 001

En eftir að ég fann rétta húsið, þá lét ég tilviljun ráða hvert ég hjólaði, og kom skyndilega að þessum líka bröttu tröppum sem ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hjóla niður. Býst þó alveg við að einhverjir gaurar hefðu ekki staðist freistinguna og látið sig gossa niður.  N.b. ég var hálfnuð niður þegar mér datt í hug að taka myndina.

04-30 007

Ég hef átt DBS reiðhjól. 3ja gíra kvenhjól. Fjallahjól, byggingavöruverslunarhjól, hybrid og nú síðast racer. Þetta var þó aldrei teikn um að ég þyrfti að bæta bmx í safnið og próa Downhill? Það ku vera skrambi skemmtilegt...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband