Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
22.8.2012 | 21:06
Vestfirðir
Ég fór í mitt fyrsta hjólaferðalag um Vesturland fyrir þremur árum. Þá valdi ég að hjóla tiltölulega fáfarna malarvegi og það kom mér á óvart hversu vel allir ökumenn viku, hvort sem þeir mættu mér eða voru að taka framúr. Sumir jafnvel svo kurteisir að þeir stöðvuðu ökutækin rétt á meðan þeir mættu mér. Þessi ferð var ákaflega vel heppnuð og lagði grunninn að áframhaldandi ferðalögum. Næsta ár voru nokkrar dagleiðir á Norðurlandi, í fyrra Austurland og núna ákvað ég að heiðra Vestfirði með nærveru minni. Svona af því ég er nú einu sinni að vestan og hef hjólað og gengið skammarlega lítið um það svæði.
Jú, jú, vissulega mætti maður mörgum kurteisum bílstjórum, en því miður mætti ég óvenju mörgum bílstjórum sem virtust vera einir í heiminum. Það er bara þannig að þegar þú keyrir á malarvegi og mætir einhverjum, alveg sama hvort það er annað vélknúið ökutæki, hjólandi maður eða rolluskjáta í vegkantinum, þá hægir þú ferðina. Þá er minna ryk, og minna steinkast. Þetta heitir tillitssemi. Versta steinkastið upplifði ég sem betur fer inni í bílnum mínum, það kom flutningabíll á móti mér, gæti trúað að hann væri að flytja mjólk, útlitið var þannig. Ekki var slegið neitt af, hann kom æðandi á móti mér á 90 km hraða, grjótkastið buldi á bílnum og ég var gjörsamlega blind í nokkrar sekúndur á eftir. Eins gott að ég sjálf var þá búin að stöðva minn bíl, þegar ég áttaði mig á hvers konar slúbbert ég var að mæta. Og eins gott að ég var á 14 ára gömlum snjáðum bíl en ekki splunkunýjum Lexus. Fattaði eftir á að ég var með myndavélina uppi við í framstætinu og hefði átt að filma helvítið og gera hegðun hans opinbera. Þó að ég sé nú frekar fylgjandi því að fólk fái að hafa sitt einkalíf í friði og geti látið eins og asnar á köflum án þess að það endi á youtube, þá er akstur á vegum ekki einkamál eins né neins, það skiptir okkur öll máli.
Ég gerði líka kannski smá mistök, það var fimmtudagurinn fyrir verslunarmannahelgi og þess vegna kannski óvenju mikil umferð og margir óreyndir ökuþórar á ferð. Ég gafst að lokum upp, skreið upp í hlíð, lagðist þar fyrir í kvöldsólinni og tók smá siesta þar til klukkan var orðin níu um kvöld og umferðin að minnka.
Eða kannski voru þetta viðbrigðin, ég var nefnilega alein í heiminum á Þingmannaheiðinni fyrr um daginn, sem ég hjólaði og dólaði í bongóblíðu. Ég er svolítið hugsi af hverju umferð um hana er bönnuð, það hefði ekki truflað mig neitt, þó ég hefði mætt 2-3 jeppum á leiðinni og þeir þá þjappað veginn fyrir mig í staðinn. Hún er jafnvel fær fólksbílum, lögsóknir samt vinsamlega afþakkaðar ef einhver álpast inn á lokaðan veg á lítilli tík og festir sig. En ég gat hjólað mun meira en ég átti von fyrirfram og leiðin er skemmtileg og vörðurnar setja svip sinn á hana. Mér hefði ekki dottið í hug að hjóla þessa leið ef ekki væri fyrir Hjólabókina sem Ómar Smári gaf út fyrir síðustu jól. Þingmannaheiðin er ekki merkt inn á kortin hjá ja.is sem hefur verið minn helsti vettvangur fyrir skipulag hjólaferða hingað til.
Þegar ég var að dusta rykið af hjólinu eftir daginn, þá sá ég lausan tein og við nánari skoðun voru 3 lausir teinar í afturgjörðinni. Þegar ég byrjaði í Fjallahjólaklúbbnum fyrir þremur árum og sá auglýst þar viðgerðanámskeið, þá lærði ég að stilla bremsur og gíra. Þriðji hlutinn var um teiningu gjarða og þá þótti mér nú sérviskan vera farin að keyra um koll, hver stendur í slíku. Ja, ætli ég verði ekki að rétta sjálf upp hönd. Ég er ekki flink í viðgerðum, yrði það kannski ef áhuginn væri meiri og ég nennti að hanga lon og don yfir sundurrifnum reiðhjólum og fikta fram og til baka. En eftir að hafa horft á myndband á youtube um teiningu til að rifja upp fræðin (ég hef teinað upp heila gjörð undir leiðsögn Björgvins í Fjallahjólaklúbbnum), þá náði ég að festa teinana og fínstilla svo gjörðin rækist ekki utan í bremsupúðana. Ófært að láta svona smámuni eyðileggja fyrir sér ferðalagið. Neyðin kennir naktri konu að spinna klæði og klæddri að teina gjarðir.
Á ferðum mínum um Ísland í gegn um árin kemur fyrir að maður rekist á kviknakið eða misbert fólk. Fólk í sólbaði, fólk að kasta af sér vatni, fólk að baða sig í ám. Allt eru þetta ósköp eðlileg atvik og hef ég ekki kippt mér neitt upp við það. Nema daginn sem ég labbaði fram á berrassaðan útlendan karlmann sem baðaði sig með óheyrilegri sápu í lækjarsprænu, það þótti mér full mikil og óþarfa mengun. Þegar löðrið nær eins langt og augað eygir niður eftir allri ánni, þá er of mikið af sápu. Nú og svo sá maður varla í manninn sjálfan fyrir sápulöðri *hneyksl*
Ég sjálf var nöppuð vil alla þessa iðju á nýafstöðnu ferðalagi, ég get ekki beygt mig í hnjánum, svo ég þarf að gera þarfir mínar standandi ef ég hef ekki postulín til að sitja á. Fólki þykir alveg svakalega skrýtið að sjá konu pissa standandi. En við getum það alveg. Og svo er kjarrið svo lágvaxið fyrir vestan að ég gat hvergi skýlt mér. Þá taldi ég að ég væri nógu afskekkt til að striplast í Kvígindisfirði, en nei, það þurfti einhver að keyra framhjá þar sem ég lá alsber og sólaði mig. Og daginn sem ég kom inn í Vatnsfjörðinn eftir Þingmannaheiðina að sækja bílinn seint um kvöld, reif mig úr leppunum og skolaði mig hér og þar með restinni af drykkjarvatninu, svo ég gæti stungið mér inn í sjoppuna á Flókalundi án þess að drepa fólk úr fýlu, þá þurfti einhver að keyra inn í kjarrið. Seint um kvöld, hver er á ferð þá? Ég bara spyr? uuuu, fyrir utan mig sjálfa. En mikið svakalega er gott að fá smá útrás fyrir strípihneigðina, þúst, ég held að ég haldi því bara áfram...
Já, ok, ok, ég er kannski ívið meiri tepra en menn halda!
Og þó... Ég var mikið að spá í að gista í þessu eyðibýli, mér fannst bara krúttlegt að koma að því rétt um miðnætti, mistík og dulúð, en eftir að ég sá að loft höfðu fallið niður í öðrum herbergum, rollur skitið út um allt, moldargólf og drulla og full mikil fjósalykt, þá hvarf örlítið óbyggða-eyðibýla-drauga-lets-partý-fílingurinn sem ég ætlaði að dvelja við þetta kvöld og ég tók hefðbundið tjaldvæða-ónæði-eftir-miðnætti dæmi á herlegheitin. Af hverju finna menn ekki upp hljóðlátari loftpumpur? Ég er nefnilega svolítil blúnda, sef bara á uppblásnum dýnum og hávaðinn sem fylgir af því að pumpa upp dæmigerða rúmfatalagers-dýnu er óheyrilegur og ekki mönnum bjóðandi eftir miðnætti. Kannski bara hjá þeim sem er að pumpa, ég sjálf sef eins og engill á tjaldsvæðum, óháð því hvað annað fólk er að brambolta.
Hér má svo sjá fleiri myndir úr ferðalaginu. En nei, ekkert fleiri nektarmyndir, það eru takmörk hvað maður leggur á fólk!
https://photos.app.goo.gl/ay8RZYojbi25BD2L9
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar