Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
1.9.2012 | 12:23
Landmannalaugar
Tilraun tvö til að hjóla um þetta ægifagra landssvæði heppnaðist svona líka ljómandi vel. Í fyrra var svo brjálaður meðvindur að mér gekk illa að hemja fararskjótann sem endaði á að henda mér af baki og inn í bíl til Bjögga. Náði ekki að klára ferðina þá á sómasamlegan hátt. Núna var hybridinn minn bilaður, svo þetta var tæklað á fjallahjólinu, viðbrigðin fyrir mig er eins og að skipta frá sportbíl yfir í skriðdreka. En bæði er gaman, bara öðru vísi hjólastíll. Enda var ég ákveðin í fyrirfram að gefa mér tíma til að taka myndir og njóta landslagsins. Þetta er stundum spurningin um að vera örlítið lengur úti í móa að hnusa af náttúrunni, eða eyða meiri tíma með svitablautum sokkum ferðafélaganna inni í skála. Ég ætlaði líka að sleppa því að galgopast í ánum svo ég myndi ekki blotna í fæturna, en það er bara svo gaman að hjóla yfir, það standast fáir þá freistingu.
Brekkur eru sér kapituli út af fyrir sig. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg eftir öllum þessum brekkum í fyrra, en þær hljóta þó að hafa verið þarna líka þá, eða þá að vegurinn hafi á einkennilegan hátt færst til. Alltaf hélt ég að nú værum við að fara síðustu brekkuna, en svo 5 mínútum síðar komum við að enn einni helmingi brattari. N.b. þær voru oftar í hina áttina, þ.e. upp á við. Alla vega fyrri daginn.
En þegar maður kemst loks í skálann, þá gleymast allar brekkurnar, fyrst helltum við upp á kaffi og fengum okkur kökurnar sem áttu að vera í eftirrétt. Guðbjörg átti afmæli, það er varla hægt að halda upp á daginn á skemmtilegri hátt en á fjöllum í góðum félagsskap.
Við skiptum okkur upp í nokkrar deildir, það var kannski ríflega skipað í sumar, hvað eru t.d. þrír karlmenn lengi að pakka inn 18 kartöflum? "Hva, er ekkert meira að gera", vinnusemin alveg að fara með menn. Og mikið svakalega bragðast íslenska lambaketið vel á fjöllum, rétt eins og maður hafi sjálfur farið út og skotið sér á grillið.
Eftir mat voru sagðar sögur, farið í partýleiki, það verða engar myndir birtar opinberlega sem voru teknar eftir kl 22 án leyfis, en ef einhver vill vita hversu mörgu hjólafólki var hægt að troða inn í eitt eins manns tjald, þá er svarið 9 og fleiri hefðu komist, ef ég hefði ekki bilast úr innilokunarkennd og þurft að ryðja mér leið út úr tjaldinu. Eftir það þorði enginn annar inn í tjaldið, ég í ham er ekkert lamb að leika við, en hinir 8 dvöldu óvenjulegi þar inni, við hvaða iðju veit ég ekki.
Það voru hvorki rauðkál né baunir með kjötinu fyrr um kvöldið, svo ekki er alveg vitað hvað olli þessu ástandihjá strákunum um háttatímann, en þeir voru annað hvort að gera nýstárlegar tilraunir til að fjölga mannkyninu, eða þeir hafa fundið lausn við hinu sívinsæla vandamáli, hvernig losnar maður við 15 kg á 30 sekúndum.
Annað vandamál sem fólk glímdi við. Þegar við komum að skálanum var öllum kalt og það var kynnt upp í gashituru og vatn soðið í stórum pottu og fljótlega varð sumum allt of heitt. Ja, ég hef afsökun fyrir því að striplast hálfnakin í fjallaskálum, ég er miðaldra kona á breytingaskeiði. Ég veit ekki hvaða afsökun Jón hafði.
Þegar svona stór hópur ferðast saman á reiðhjólum, þá dregur óneitanlega fljótt í sundur. Fólk hjólar mishratt, sumir vilja stoppa oft og taka fullt af myndum. Einhverjir eru villugjarnir og hefðu álpast ranga leið.
Aðrir vilja taka vel á því og njóta náttúrunnar á annan hátt. Svo getur sprungið hjá fólki, og það táknar lágmark korters töf. Við leystum þetta með tveimur hjólandi fararstjórum, annar sá um að fylgja forystusauðunum, hinn að smala eftirlegukindunum og gæta þess að enginn myndi gleyma sér og sofna úti í móa.
Því miður varð eitt óhapp í ferðinni, einn hjólari lenti í lausamöl og kastaðist fram af hjólinu sínu. Það var ekkert símasamband á staðnum, en í för var varðstjóri hjá Neyðarlínunni sem var með tetra síma, hann komst í samband fljótlega og gat kallað til sjúkrabíl. Maður spyr sig, er hættulegt að hjóla úti í náttúrunni. Almennt er lítið um slys hjá hjólafólki, miðað við að flestir sem voru í þessari ferð hjóla mörg þúsund kílómetra á ári. Síðustu tvö slys sem lögðu mig í rúmið voru ekki hjólatengd. Annað gerðist þegar ég datt niður tröppur við Landspítalann og sneri á mér ökklann. Hitt var þegar ég steig á leikfangabíl sonar míns og braut í mér ristarbein. Hætturnar leynast alls staðar. Jónas grær vonandi fljótt og vel af meiðslum sínum og kemst sem fyrst aftur út að hjóla. Heilsufarslegur ávinningur af því að stunda hjólreiðar vegur alltaf þyngra en einstaka slys.
Venulega eru myndir sem eru í þessu bloggi teknar á mína vél, oftast af mér, stundum af öðrum. Eða fengnar að "láni" frá netinu, þá myndir sem flækjast þar um án höfundaréttar. Í þessari færslu eru líka myndir frá tveimur ferðafélögum, Marteini og Jóni Erni.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar