Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Eurovision - Nesjavellir

05-18 002 

Allir elska að hata Eurovision.  Ég horfi stundum á fótbolta.  Ekki af því mér sé ekki nákvæmlega sama hvaða leið blessuð leðurtuðran fer, en það er alltaf gaman að horfa á andstutta sveitta karlmenn hlaupa og hnykla lærisvöðva og svo má skipta liði og fara í keppni, hver sér fyrst öll númerin á bakinu á sínu liði.  Sama gildir um Eurovision.  

05-18 048 

Lögin eru misleiðinleg, en það má skemmta sér yfir öðru vísi hlutum.  Ég fór í ferð með Fjallahjólaklúbbnum Eurovisionhelgina, hjóluð var svokölluð Nesjavallaleið, frá Reykjavík, yfir Hengilinn, niður að Þingvallavatni, áfram niður að Úlfljótsvatni að sumarbústað, þar sem þreytan leið úr þreyttum kroppum í heita pottinum, braglaukarnir voru kitlaðir með grillmat og augu og eyru nærð í góðum félagsskap yfir sjónvarpinu.  Tónlistin var svona lala.  Mér þótti vanta rokkið.  Aðrir voru alsælir með ballöðurnar, allir felldu tár þegar Eyþór birtist á skjánum.  Stutt pils glöddu karlpeninginn á meðan líflegir dansarar glöddu okkur stelpurnar.  Sitt sýndist hverjum og fórum við í Eurovision leik, þar sem fólk gaf stig frá 1 upp í 10.  Neikvæðnin tók nú stundum völdin og ófá núllin hrönnuðust upp í bókhaldinu sem ég sá um.

05-18 002b

Fleiri hlutir fönguðu athygli okkar en berir leggir, huggulegir karlmenn og flottir kjólar.  Óvenju margir karlmenn skörtuðu gerðalegum augabrúm.  Þetta var óneitanlega farið að hafa áhrif á stigagjöfina, "já, ætli ég gauki ekki aukastigi að Adsérbædjan fyrir glæsilega augabrún..."  En hópurinn giskaði rétt, Danmörk fékk flest stig hjá okkur, sem og öðrum Íslendingum og Evrópu allri.

Ekki eru allir í ofurformi i þessum ferðum.  Ég var fararstjóri í þessari ferð, en ætli það megi ekki kalla mig farar-reka eftir þessa helgi, þar eð ég er miðaldra, gigtveik húsmóðir sem fer nú ekki hratt yfir.  Einhver verður að vera síðastur og ég var í því hlutverki seinni daginn.

05-18 033 

Veður var fremur blautt, kalt og hvasst.  Svo það var ekki mikið um selskapspásur seinni daginn, það var bara hjólað og petalarnir stignir í þögn til að komast sem fyrst í bæinn og í skjól fyrir blautum Kára sem vildi leika við okkur og minna á að náttúra og veðurfar á Íslandi er með ýmsu móti.

Stundum getur maður valið ferðadaginn, þá velur maður hægviðri, meðvind, jafnvel sól og hæfilegan hita.  En þegar búið er að ákveða daginn með margra mánaða fyrirvara, bóka bústað og lokka ferðafélaga með sér, þá fer maður sama hvernig veðrið er.  Við urðum jafnvel spennt þegar við heyrðum að það gætu orðið 30 metrar á sekúndu seinni daginn, sérstaklega af því vindurinn átti að vera í bakið.  Ja, það var nú ekki alveg svo hvasst og ekki var hann alltaf með okkur, en við fórum á mettíma frá Úlfljótsvatni, þegar ég leit á klukkuna á bensínstöðinni við Norðlingaholt, þá vorum við búin að vera 2 og hálfan tíma á leiðinni.  Með tveimur stuttum nestispásum.

05-18 080 

Við tökum líka upp á ýmsu skemmtilegu í ferðunum, í fyrra var þemað "troða sem flestum inn í lítil rými..." og þar má nefna símaklefa á Þingvöllum, sófa í Grafarholti og eins manns tjald í Landmannalaugum.  Nú er aldrei að vita nema þema fyrir sumarið sé fundið, endurgerð gamalla listaverka.  Jón Örn byrjaði í Landmannalaugum í fyrra, Björgvin og Sólver endurtóku svo óviljandi leikinn við Úlfljótsvatn... Eða var það viljandi...?

08-25 144D 

Sama hvernig veðrið er, þá er alltaf gaman í ferðum með Fjallahjólaklúbbnum.  Dagskráin hjá okkur i sumar er fjölbreytt og þar má finna ferðir við allra hæfi, hvort sem fólk er vant ferðalögum á reiðhjólum eða að stíga sín fyrstu spor í ferðamennsku af þessu tagi.  Kíktu á okkur hér og athugaðu hvort þig langi ekki til að slást í hópinn einhverja helgina í sumar.

http://fjallahjolaklubburinn.is/index.php/pistlar-og-greinar/frettir/925-feralg-fjallahjlaklbbsins-2013 

Fleiri myndir úr ferðinni má svo sjá hér í myndaalbúmi Fjallahjólaklúbbsins:

https://photos.app.goo.gl/zE2dZtbhcaD5zxgZ7

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband