Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Taka tvö...

07-27 084 

Fyrir ári síðan reyndi ég að hjóla hringinn í kring um Vík í Mýrdal.  Það tókst ekki.  Ég villtist.  Ég reyndi aftur núna ári síðar og það gekk satt að segja ekki mikið betur en síðast.  Ég villtist þó ekki, en það voru nokkrir þættir sem ollu því að ég ákvað að snúa við.

07-27 093 

Í fyrra komst ég heila 12 km niður eftir ánni, en núna bara 2-3.  Það var bara langtum meira vatn í ánni, nú svo er ég ári eldri og hnén á mér meira en ári aumari.  Það er talað um gráa fiðringinn.  Ætli þetta sé ekki minn, síðsumarið í óbyggðahjólreiðum er hafið.  Ég mun hjóla á meðan ég get og heilsan leyfir.  Svo finn ég mér eitthvað annað áhugamál sem ég get sinnt.  Krosssaumur fer kannski að henta mér betur hvað úr hverju.  Ég sé mig í anda sitja í sófa, heklaðar dúllur og útsaumaðir púðar.  Ég pen og stillt með sérrístaup... Nah, ég held ekki.

07-27 109 

Ég fékk mér nýja myndvél í fyrra.  Var þá búin að fá lánaða myndavél hjá vini mínum til að prófa, vatns og högghelda, en fannst virknin í vélinni leiðinleg, aldrei þolað örlitla stýripinna sem hafa sjálfstæðan vilja og breyta stillingum vélarinnar á meðan haldið er á henni.  Svo ég ákvað að kaupa alveg eins vél og ég átti, ágætis vél en búin að detta nokkuð oft og þoldi illa að hrynja niður hálft Helgafellið.  Ég gat líka nýtt rafhlöðuna úr gömlu vélinni, og gat farið í helgarferð með gott minniskort og tekið endalaust upp myndbönd og tekið myndir að vild.  En ég get verið dulítil brussa á köflum og myndavélin entist bara árið, hætt að fókusa, ætli tvær stórar dældir rétt hjá linsunni hafi ekki átt sinn þátt í því.  Svo ég fékk mér högg og vatnsvarða vél í þetta sinn.  Sem betur fer.

07-27 091 

Í fyrra fannst mér erfiðleikastigið vera af því ég villtist og var óratíma í árfarveginum.  Ég hafði mestar áhyggjur af því að ef mér myndi skrika fótur í ánni, þá myndi ég fara á bólakaf og blotna.  Ég gleymdi því hvað getur gerst ef maður missir fótanna í straumharðri grýttri á.  Sumir lifa það einfaldlega ekki af.  Mér skrikaði fótur og tók smá sundsprett í Kerlingadalsánni.  Hélt þá á Ortlieb töskunum og barðist við að halda höfðinu upp úr ánni og missa ekki töskurnar frá mér.  Rakst í stein og taskan festist og ég hékk í henni þar til ég náði að fóta mig og komast upp úr kvíslinni.  Þessar töskur eru afskaplega fínar hjólatöskur, vatnsheldar og níðsterkar, önnur var nánast þurr að innan, en hin fékk rifu eftir átökin við vatnsguðinn Enki, og í henni voru aukafötin, myndavélarnar og síminn.  Svo ég var rennandi blaut og nánast allt mitt hafurtask, síminn ónýtur, gamla myndavélin ónýt, en nýja myndavélin þoldi volkið.  Annars ætti ég engar myndir úr þessari ferð.  Svo ég ætla að vara við ánni í þetta sinn.  Hún er hættuleg og ekki fyrir hvern sem er að vaða.  Sérstaklega þar sem gilið þrengist og áin nær alveg á milli og brattir klettar sitt hvoru megin.  Sumir geta krækt upp fyrir, en ég burðast ekki með hjól og töskur upp snarbrattar, grösugar, sleipar hlíðar.  Svo ég sneri við.  Stundum verður að láta skynsemina sitja fyrir ævintýraþránni.

07-27 113 

Næst, já, andvarp, ég veit, það mætti ætla að ég ætti kærasta á Vík... þá mun ég nálgast hringinn vestan vegin, hjóla inn að ánni og ef hún er vígaleg, snúa strax við, helst að miða við að hún nái ekki mikið upp fyrir hné.  Þegar ég fer að miða við að ár nái mér ekki upp fyrir ökkla, er kominn tími á krosssauminn.  En mikið svakalega er fallegt þarna, ekki satt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband